Almenn skattskylda
Almennt
Almenn skattskylda er einnig kölluð ótakmörkuð skattskylda. Almenn skattskylda byggir á tilteknum tengslum skattaðila við Ísland. Á þeim sem bera almenna skattskyldu á Íslandi hvílir skylda til að greiða skatt af öllum tekjum sínum óháð því hvar þeirra er aflað í heiminum og öllum eignum sínum óháð staðsetningu þeirra. Taka ber þó tillit til tvísköttunarsamninga sem ríkisstjórnin hefur gert við stjórnir annarra ríkja til að koma í veg fyrir tvísköttun á tekjur og eignir. Ákvæði slíkra samninga geta valdið því að tekjur, sem án slíkra samninga væru skattlagðar hér á landi, eru það ekki. Þær eru þó alltaf framtalsskyldar.
Á eftirtöldum einstaklingum hvílir almenn/ótakmörkuð skattskylda hér á landi:
- Þeim sem heimilisfastir eru hér á landi.
- Þeim sem heimilisfastir hafa verið hér á landi en flutt úr landi og fellt hafa niður heimilisfesti sitt hér, nema þeir sanni að þeir séu skattskyldir í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hafi fullnægt þeim skattskyldum sínum. Skattskylda þessi gildir þó aðeins í þrjú ár frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag.
- Þeim sem dvelja hér á landi lengur en samtals 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera héðan af landi vegna orlofs og þess háttar.
- Þeim sem eigi falla undir 1.–3. tölulið en starfa samtals lengur en 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera frá starfi vegna orlofs og þess háttar, um borð í loftfari eða skipi sem skráð er hér á landi.
Ríkisskattstjóri hefur úrskurðarvald um hverjir skuli teljast heimilisfastir hér á landi samkvæmt þessari lagagrein. Við ákvörðun á heimilisfesti skal miðað við reglur laga um lögheimili, eftir því sem við á. Úrskurði ríkisskattstjóra má skjóta til yfirskattanefndar.
Þeir sem dveljast erlendis við nám geta sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti og haldið þannig öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt lögunum og öðrum lögum um opinber gjöld. Nánari upplýsingar eru að finna í umfjöllun um námsmenn erlendis.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Almenn skattskylda einstaklinga (ótakmörkuð) – 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Heimild til að gera tvísköttunarsamninga – 119. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Lög um lögheimili – lög nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur
Skattprósentur – 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Annað
Spurt og svarað
Hefur það áhrif á skattana mína á Íslandi ef ég vinn tímabundið í Noregi (skemur en 183 daga) og hvað með vaxta- og barnabæturnar mínar?
Samkvæmt spurningunni verður ráðið að þú búir á Íslandi (hafir heimilisfesti/lögheimili á Íslandi). Að því gefnu er svarið við spurningunni einfaldlega já.
Allar tekjur þeirra sem eru heimilisfastir á Íslandi eru skattskyldar á Íslandi óháð því hvort tekjurnar eru innlendar eða erlendar. Tekjur eru einnig skattskyldar í því ríki sem þeirra er aflað og því kunna þær að vera skattskyldar í tveimur ríkjum. Til að bregðast við mögulegri tvísköttun við þessar aðstæður hafa mörg ríki gert með sér tvísköttunarsamninga þar sem samið hefur verið um hvar skattleggja beri tekjurnar.
Samkvæmt ákvæði tvísköttunarsamnings Íslands við Norðurlöndin eru launatekjur sem þú aflar í Noregi skattskyldar í Noregi. Þrátt fyrir að tekjurnar séu skattskyldar erlendis hafa þær einnig áhrif á útreikning skatta, vaxtabóta og barnabóta hérlendis þar sem sérstök reikniaðferð sem tiltekin er í samningnum er notuð til að koma í veg fyrir tvísköttun.
Ítarefni:
Heimilisfesti á Íslandi - 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Maðurinn minn býr á Íslandi en vinnur í Noregi og borgar skatta þar. Má ég nota persónuafsláttinn hans hér?
Það fer eftir atvikum hverju sinni. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:
- Ef þú notar persónuafsláttinn hans kann það að leiða til þess að persónuafslátturinn verði ofnýttur í staðgreiðslu og þú því krafin um vangreidda skatta í álagningu.
- Ef maðurinn þinn nýtir ekki persónuafsláttinn sinn að fullu er hann sjálfkrafa nýttur á móti þínum sköttum í álagningu og því engin hætta á því að ónýttur persónuafsláttur hans „tapist“, þ.e. ef heildartekjur ykkar eru umfram skattleysismörk. Af þessu leiðir að það er engin skattaleg ástæða til þess að nýta persónuafsláttinn hans í staðgreiðslu. Niðurstaðan verður sú sama þegar upp er staðið.
Þeir sem búa (eru heimilisfastir) í einu landi en vinna í öðru eru skattskyldir í báðum löndunum vegna sömu tekna. Með tvísköttunarsamningum er þessu skattlagningarvaldi skipt á milli landanna sem hljómar einfaldara en það er í framkvæmd. Skoðum það nánar:
- Þótt tekjur séu ekki skattskyldar í heimilisfestisríki viðkomandi kunna þær samt sem áður að hafa áhrif á álagningu skatta í því ríki.
- Komið er í veg fyrir tvísköttun með sérstakri reikniaðferð sem sérstaklega er tilgreind í viðeigandi tvísköttunarsamningi þar sem m.a. er tekið tillit til persónuafsláttar. Þessi reikniaðferð er notuð í heimilisfestarríki viðkomandi.
Gefum okkur að allar tekjur mannsins þíns á árinu séu frá Noregi og fjárhæð þeirra sé umfram íslensk skattleysismörk. Við þær aðstæður yrði persónuafslátturinn að fullu nýttur við framangreindan útreikning hér á landi samkvæmt ákvæði tvísköttunarsamningsins til að koma í veg fyrir tvísköttun umræddra tekna. Ef þú hefðir nýtt hluta af persónuafslættinum hans í staðgreiðslu þegar aðstæður eru með þessum hætti, yrðir þú endurkrafinn um hann í álagningu.
Að lokum er rétt að skýra út hugtakið „heimilisfesti“ sem fram kemur í svarinu. Þegar talað er um að einhver sé heimilisfastur í ákveðnu landi merkir það að hann býr þar. Almennt er miðað við lögheimilisskráningu viðkomandi. Ef lögheimilisskráning er ekki í samræmi við raunverulegar aðstæður hefur ríkisskattstjóri úrskurðarvald um það hverjir skuli teljast heimilisfastir hér á landi.
Af hverju þarf ég að gera grein fyrir erlendum tekjum og eignum í skattframtalinu mínu?
Þeir sem eru heimilisfastir á Íslandi eru skattskyldir af öllum sínum tekjum óháð því hvar teknanna er aflað og ber að gera grein fyrir þeim á skattframtali sínu. Þá ber þeim að gera grein fyrir öllum sínum eignum óháð staðsetningu, en eignastaða kann að hafa áhrif á útreikning bóta.
Þeir sem eru heimilisfastir í einu ríki en afla tekna í öðru ríki eru skattskyldir í báðum ríkjunum vegna umræddra tekna. Almennt eru menn sammála því að tvísköttun sem leiðir af svona aðstæðum sé óheppileg og því hafa ríki gert með sér tvísköttunarsamninga til að koma í veg fyrir hana. Í samningunum kemur fram í hvaða ríki greiða skuli skattana og hvaða reikniaðferð skuli beitt til að koma í veg fyrir tvísköttun.
Gera þarf grein fyrir öllum tekjum og eignum óháð uppruna tekna og staðsetningu eigna á skattframtali þar sem skattaðili var heimilisfastur á tekjuárinu. Við álagningu skatta er þeirri reikniaðferð beitt sem tilgreind er í viðeigandi tvísköttunarsamningi við útreikning á sköttum og bótum. Af því leiðir að þótt tekjurnar séu ekki skattskyldar hérlendis hafa þær áhrif á útreikning skatta og bóta.
Maðurinn minn vann að hluta til í Noregi í fyrra og ég nýtti þess vegna persónuafsláttinn hans að hluta til í staðgreiðslu. Af hverju skulda ég svona mikið í álagningunni?
Af spurningunni þinni verður helst ráðið að þú hafir nýtt of mikið af persónuafslætti mannsins þíns í staðgreiðslu og þannig myndast krafa á þig um endurgreiðslu þess sem þú nýttir umfram heimild.
Þótt tvísköttunarsamningurinn kveði á um það að tekjur mannsins þíns skuli skattleggja í Noregi hafa þær samt sem áður áhrif á skattlagninguna á Íslandi. Ástæða þess er að ákveðinni reikniaðferð er beitt til að koma í veg fyrir tvísköttun. Það fer eftir ákvæðum einstakra tvísköttunarsamninga hvaða reikniaðferð er beitt. Við útreikninginn er m.a. tekið tillit til persónuafsláttar viðkomandi. Ef heildartekjur mannsins þíns (erlendar og innlendar) eru yfir skattleysismörkum nýtist persónuafslátturinn að fullu á móti þeim, að því gefnu að hann hafi verið hér heimilisfastur þegar þeirra var aflað.
Gott er að hafa í huga að við álagningu opinberra gjalda er persónuafslætti hvers og eins ráðstafað á móti sköttum viðkomandi. Ef persónuafsláttur nýtist ekki að fullu á móti tekjum viðkomandi er því sem eftir stendur sjálfkrafa ráðstafað til lækkunar skatta hjá maka. Þessi aðferðafræði er ætíð sú sama. Engu skiptir hver nýtti persónuafsláttinn í staðgreiðslu. Af því leiðir að engin hætta er á því að persónuafsláttur tapist sé hann ekki nýttur í staðgreiðslu séu tekjur hjóna eða samskattaðra einstaklinga yfir skattleysismörkum.