Spurt og svarað
Hér hefur verið safnað saman helstu spurningum og svörum vegna CRS. OECD hefur tekið saman svör við helstu spurningum sem vaknað hafa í tengslum við innleiðingu og framkvæmd á CRS.
Spurt og svarað samantekt OECD
1. Tilkynningarskyldar fjármálastofnanir
Tilkynningarskyldar fjármálastofnanir geta eingöngu verið lögaðilar. Til að ákvarða hvort lögaðili teljist vera tilkynningarskyld fjármálastofnun þarf lögaðilinn sjálfur að taka afstöðu til þess hvort hann falli undir hugtakið fjármálastofnun eins og það hugtak er skilgreint í reglugerðinni.
Ríkisskattstjóri óskar árlega eftir yfirlýsingu fjármálastofnanna sem haf ekki áður skilað upplýsingum eða telja sig undanþegnar. Eyðublaðið má nálgast hér: RSK 24.01 um áhættumat vegna CRS og FATCA
Reglugerð nr. 1240/2015 og FATCA samningurinn eru samhljóða varðandi skilgreiningu fjármálastofnunar en undanþágur eru ekki þær sömu. Undanþágur frá reglugerð nr. 1240/2015 byggja alla á reglugerðinni sjálfri á meðan undanþágur frá FATCA byggja á samningnum og bandarískri löggjöf. Fjármálastofnanir geta þannig haft mismunandi stöðu samkvæmt reglugerðinni annars vegar og FATCA hins vegar.
Hugtakið fjármálastofnun skv. reglugerðinni og FATCA ekki samhljóða hugtakinu fjármálafyrirtæki skv. lögum um fjármálafyrirtæki. Hugtakið er íslenska þýðingin á hugtakinu „Financial Institution“ sem er í CRS og FATCA. Skilgreining CRS og FATCA á hugtakinu byggir að hluta til á staðli alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (e. Financial Action Task Force on Money Laundering – FATF).
Reglugerðin og FATCA samningurinn taka til íslenskra fjármálastofnana sem stofnsettar eru á Íslandi og dótturfélaga og útibúa erlendra fjármálastofnana sem eru starfrækt á Íslandi. Dótturfélög og útibú íslenskra fjármálastofnana sem starfrækt eru utan Íslands falla ekki undir reglugerðina eða FATCA. Fjármálastofnun sem er skattskyld á Íslandi skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fellur alla jafna undir reglugerðina og FATCA.
2. Skilgreining fjármálastofnanna
Eingöngu lögaðilar geta verið fjármálastofnanir samkvæmt reglugerðinni. Starfsemi einstaklings getur aldrei talist falla undir hugtakið fjármálastofnun samkvæmt reglugerðinni
Fjármálastofnun samkvæmt reglugerð nr. 1240/2015 er hvers kyns lögaðili, þ.á.m. hlutafélag, einkahlutafélag, samlagsfélag, samlagshlutafélag, sameignarfélag, sjóður, samtök og stofnun.
Lögaðilinn verður að reka atvinnu / starfsemi sem felst í:
- viðtöku innlána sem lið í venjulegri bankastarfsemi (innlánsstofnun), eða
- varðveislu fjármuna fyrir aðra í verulegum mæli, eða
- fjárfestingum fyrir viðskiptavini í peningamarkaðsgerningum, innlánsskírteinum, eða afleiðum, stjórnun eignasafna, fjárvörslu og hvers kyns umsýslu, fjárstýringu sjóða eða fjármuna fyrir aðra, eða
- sölu á vátryggingum, sem skuldbinda vátryggingafélagið til að inna af hendi greiðslur að tilteknu peningavirði, eða gerð lífeyrissamninga.
Starfsemi fjármálastofnunar getur falist í fleiri en einu af ofantöldum atriðum og getur því fallið undir fleiri en einn flokk fjármálastofnana samkvæmt reglugerðinni.
Í tilteknum tilvikum skipta tengsl aðila máli. Aðilar teljast tengdir ef annar þeirra stjórnar hinum eða báðir lúta sameiginlegri stjórn. Aðili telst vera undir stjórn annars ef meira en 50% af atkvæðum eða verðmæti lögaðila er beint eða óbeint í eigu sama aðila. Verðbréfasjóðir og fjárfestingasjóðir teljast vera tengdir ef sami aðili fer með stjórn þeirra.
Vakin er athygli á því að aðili getur talist fjármálastofnun þó viðkomandi hafi enga viðskiptavini sem ber að tilkynna. Í slíkum tilvikum skal skila inn núll skýrslu.
3. Innlánastofnun
Sá lögaðili sem rekur almenna bankaþjónustu eða sambærilega starfsemi telst vera innlánsstofnun. Lögaðili telst vera innlánsstofnun ef hann tekur t.a.m. við innlánum og hann:
- stundar útlánastarfsemi, eða
- kaupir, selur eða miðlar viðskiptakröfum og skuldabréfum, eða
- veitir ábyrgðir og fjárvörsluþjónustu, eða
- fjármagnar gjaldeyrisviðskipti, eða
- hefur verðbréf í vörslu og ávaxtar þau.
Almennt má segja að viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki sem skráð eru á Íslandi og hafa leyfi Fjármálaeftirlitsins, sbr. 20. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, teljist vera fjármálastofnanir samkvæmt reglugerðinni og FATCA. Þá geta einnig fallið undir hugtakið innlánsstofnanir, samvinnufélög eða önnur samtök og stofnanir sem taka við fjármunum frá félögum/meðlimum reki lögaðilinn þá starfsemi sem talin er upp hér að ofan. Þá geta greiðslukortafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki jafnframt fallið undir hugtakið svo framarlega sem slík fyrirtæki taka á móti innborgunum frá korthöfum s.s. vegna fyrirframgreiddra greiðslu- og/eða inneignarkorta.
Lögaðili telst ekki reka innlánsstarfsemi taki hann eingöngu á móti fjármunum sem standa eiga sem trygging vegna sölu eða leigu á fasteignum eða lausafé.
4. Vörslustofnun
Til vörslustofnunar telst hver sá lögaðili sem stundar starfsemi sem að verulegu leyti snýst um að varðveita fjármuni fyrir reikning annarra og tengda starfsemi. Skilyrði skilgreiningarinnar er uppfyllt ef tekjur lögaðilans af varðveislu fjármuna fyrir aðra nema 20% eða meira af brúttótekjum hans. Miða skal við þrjú síðustu reikningsár, eða frá því að lögaðilinn hóf starfsemi hafi hann ekki starfað í þrjú ár.
Til tekna af varðveislu fjármuna fyrir aðra og tengdri starfsemi teljast tekjur af:
- umsjón, reikningshaldi og færslugjöldum
- þóknunum og gjöldum sem tengjast framkvæmd og verðlagningu verðbréfaviðskipta
- útlánum til viðskiptavina í tengslum við fjármuni sem umsjón er með
- ráðgjöf vegna vörslu fjármuna
- greiðslujöfnun og –uppgjöri.
Bankar og verðbréfafyrirtæki falla almennt undir skilgreiningu á vörslustofnunarhugtakinu samkvæmt reglugerðinni. Vakin er athygli á því verðbréf sem skráð eru hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð hf. (áður Verðbréfaskráning Íslands) teljast ekki vera í vörslu verðbréfamiðstöðvarinnar. Þannig mun Nasdaq verðbréfamiðstöð hf. ekki vera vörslustofnun samkvæmt reglugerðinni eða FATCA vegna VS reikninga.
Veiti lögaðilinn eingöngu leiðbeinandi fjárfestingarráðgjöf telst hann ekki vera vörslustofnun enda sér hann ekki um vörslu eða fjárfestingu á þeim verðbréfum eða fjárfestingarafurðum sem um ræðir. Hið sama á við um lögaðila sem eingöngu sinnir fjárfestingum eftir beinum fyrirmælum frá eigandanum. Slíkur aðili gæti aftur á móti verið fjárfestingaraðili skv. FATCA samningnum og reglugerðinni.
5. Fjárfestingaraðili
Hugtakið fjárfestingaraðili er tvíþætt; annars vegar fjárfestingaraðili tegund A og hins vegar fjárfestingaraðili tegund B.
Fjárfestingaraðili tegund A:
fæst við að stjórna eftirfarandi starfsemi eða rekstri, einni eða fleiri, fyrir viðskiptavin eða fyrir hönd viðskiptavinar:
- viðskiptum með peningamarkaðsgerninga (tékka, reikninga, innlánsskírteini, afleiður o.s.frv.), erlendan gjaldeyri, gengis- og vaxtabréf og vísitölugerninga, framseljanleg verðbréf eða viðskiptum með framvirkum hráefnum (e. commodity futures trading);
- einstaklingsmiðaðri og sameiginlegri stjórnun eignasafns; eða
- annars konar fjárfestingu, umsýslu eða stýringu sjóða eða fjármuna fyrir hönd annarra aðila.
Undir fjárfestingaraðila tegund A falla almennt lögaðila sem fyrst og fremst fjárfesta fyrir reikning annarra. Verðbréfafyrirtæki og rekstrarfélög verðbréfafyrirtækja teljast almennt til fjárfestingaraðila samkvæmt þessum lið.
Fjárfestingaraðili tegund B:
hefur vergar tekjur sem fyrst og fremst stafa frá fjárfestingu, endurfjárfestingu, eða kaup og sölu á fjármunalegum eignum, ef lögaðila er stjórnað af öðrum lögaðila sem er innlánsstofnun, vörslustofnun, tilgreint vátryggingafélag eða fjárfestingaraðili sem tilgreindur er í a-lið 6. tölul.
Lögaðili telst aðallega stjórna
starfsemi þar sem ein eða fleiri af starfsemi þeirri sem lýst er í a-lið 6.
tölul., eða að vergar tekjur lögaðilans stafa fyrst og fremst frá fjárfestingu,
endurfjárfestingu, eða kaupum og sölu á fjármunalegum eignum skv. ákvæðum
b-liðar 6. tölul., ef vergar tekjur lögaðilans jafngilda eða fara yfir 50
hundraðshluta á því tímabili sem er styttra: (i) þriggja ára tímabil sem lýkur
31. desember á undan því ári þegar ákvörðunin er tekin; eða (ii) því tímabili
sem er líftími viðkomandi lögaðila. Hugtakið "fjárfestingaraðili"
felur ekki í sér lögaðila, sem er virkur lögaðili sem ekki er fjármálastofnun,
eingöngu af því að hann uppfyllir skilgreininguna d-g-lið í 43. tölul.
Túlka ber málsgrein þessa með sambærilegum hætti og sams konar orðalagi sem er
að finna í skilgreiningu hugtaksins "fjármálastofnun" í tilmælum FATF
(e. Financial Action Task Force).
Undir fjárfestingaraðila tegund B falla almennt lögaðila sem einkum fá brúttótekjur vegna fjárfestinga, endurfjárfestinga eða viðskipta með fjármunaeignir og umsjón fjárfestinganna er á hendi annarrar fjármálastofnunar. Verðbréfasjóðir og fjárfestingasjóðir ýmiss konar teljast almennt til fjárfestingaraðila samkvæmt þessum lið.
Lögaðili telst vera fjárfestingaraðili ef starfsemi hans felst í einhverju af eftirtöldu:
- viðskiptum með peningamarkaðsbréf, s.s. tékka, víxla, hlutdeildarskírteini og afleiður
- viðskiptum með gjaldmiðla
- viðskiptum með vaxta- og vísitöluskiptasamninga
- viðskiptum með framseljanleg verðbréf og hrávöruframtíðarsamninga, eða
- fjárvörslu og eignastýringu fyrir einstaklinga á safnreikningum, eða
- fjárfestingum, stjórnun og umsjón af fjármunaeignum fyrir aðra.
Lögaðila telst stjórnað af annarri fjármálastofnun, sbr. 2. mgr. 6. tl. 2. gr. reglugerðarinnar, eða vera í umsjón annarrar fjármálastofnunar ef umsjónaraðilinn, beint eða óbeint, framkvæmir eða sér um þá starfsemi sem talin er upp hér að framan fyrir hönd lögaðilans. Ef umsjónaraðilinn hefur ekki umboð til að taka fjárfestingarákvarðanir fyrir lögaðilann skal litið svo á að umsjónaraðilinn sé ekki tilkynningarskyldur.
Þegar meta á hvort aðalstarfsemi felist í því að hafa umsjón með fjárfestingum annarra eða hvort brúttótekjur lögaðila teljast aðallega stafa frá fjárfestingum, endurfjárfestingum eða viðskiptum með fjármálagerninga skal horft til þess hvort helmingur brúttótekna stafi frá fjárfestingum o.þ.h. starfsemi. Miða skal við síðustu þrjú reikningsár eða frá því að starfsemi hófst sé um nýja starfsemi eða nýtt fyrirtæki að ræða sem ekki hefur verið í rekstri í þrjú ár.
Sjóðir sem aðallega fjárfesta beint í fasteignum teljast almennt ekki til fjárfestingaraðila samkvæmt reglugerðinni heldur óvirkur lögaðili sem telst ekki fjármálastofnun (Passive NFE). Sé fjárfest óbeint í fasteignum fellur það aftur á móti undir hugtakið. Vakin er athygli á því að eignarhaldsfélög geta talist vera fjárfestingaraðilar ef skilyrði skilgreininganna eru uppfyllt.
Fjárvörslusjóður (e. trust) sem er í umsjón íslensks aðila (e. trustee) telst vera íslenskt þó svo eignirnar séu erlendis. Í þessu felst að reglugerð 1240/2015 tekur til slíkra eignasafna og skoða þarf hvort að umsjónaraðilinn og eignasafnið geti talist vera fjárfestingaraðili skv. reglugerðinni. Í einhverjum tilfellum kann eignasafnið (e. trust) að teljast lögaðili í því ríki sem safnið er stofnsett. Í þeim tilfellum ber að skila öllum upplýsingum til skattyfirvalda í stofnsetningarríkinu og upplýsingaskylda til ríkisskattstjóra fellur niður.
6. Tilgreint vátryggingafélag
Líftryggingafélög og eignarhaldsfélög líftryggingafélaga teljast vera tilgreind vátryggingafélög þegar þau gefa út eða eru skuldbundin til að inna af hendi greiðslur vegna vátryggingasamninga að tilteknu peningavirði eða lífeyrissamninga.
Tilgreind vátryggingafélög teljast vera þeir aðilar
- sem sæta eftirliti sem vátryggingafélög í samræmi við lög um vátryggingastarfsemi, og
- sem hafa 50% eða meira af heildarbrúttótekjum síðasta árs af sölu trygginga, endurtrygginga og lífeyrissamninga, eða
- þar sem samanlagt verðmæti eigna síðasta árs sem tengjast tryggingum, endurtryggingum eða lífeyrissamningum er meira en 50% af heildareignum ársins.
Líftryggingafélög teljast almennt uppfylla framangreind skilyrði. Lífeyrisfélög myndu almennt teljast vera undanþegin sem raunverulegur eigandi og þar með undanþegin tilkynningarskyldu. Vátryggingafélög sem eingöngu tryggja eignatjón og vátryggingamiðlarar teljast almennt ekki falla undir hugtakið tilgreint vátryggingafélag.
Eignarhlutir sem skráðir eru á viðskiptamannabók í tryggingafélagi leiða ekki til þess að vátryggingafélagið teljist vera vörslustofnun, innlánsstofnun eða fjárfestingarrekstrareining.
7. Tilkynningarskyldir reikningar
Reglugerðin skilgreinir með ítarlegum hætti hvaða fjárhagsreikningar í eigu aðila sem eru skattalega heimilisfastir í aðildarríki CRS skuli tilkynna.
Þar falla undir innlánsreikningar, verðbréfa og fjármálagerningar, eign í verðbréfasjóðum og öðrum fjárfestingaeiningum. Meginreglan er að fjárhagsreikningi telst viðhaldið af þeirri fjármálastofnun sem
- er skylt að greiða út þá fjármuni sem eru á innlánsreikningum
- hefur umsjón með fjármálagerningum sem skráðir eru á reikninginn (þ.m.t. sú fjármálastofnun sem varðveitir eignir fyrir viðskiptamenn sína í eigin nafni)
- ber skylda til að greiða út fjármuni vegna vátrygginga- og líftryggingasamninga.
Reglugerðin tilgreinir með ítarlegum hætti þá reikninga sem teljast undanþegnir. Það eru m.a. eftirfarandir reikningar:
- Reikningur í eigu dánarbús
- Geymslureikningar (t.d. fjárvörslureikningar lögmanna og fasteignasala, reikningur til tryggingar kröfu.)
- Lífeyrissparnaður
- Sparireikningar sem fylgja skattfríðindi og útgreiðslur eru háðar skilyrðum.
- Reikningar sem ber með sér lága áhættu og er að lægra virði en 1000 USD og reikningshafi hefur ekki verið í samskiptum við fjármálastofnun síðastliðin sex ár og engar færslur framkvæmdar fyrir tilstuðlan reikningshafa á síðustu þremur árum.
8. Yfirlýsing reikningshafa
Tilkynningarskyldar fjármálastofnanir skulu auðkenna reikningshafa og raunverulega reikningseigendur sem eru skattskyldir í aðildarríkjum CRS.
Ef reikningshafi er einstaklingur skal fjármálastofnun kalla eftir yfirlýsingu frá reikningshafanum sem staðfestir í hvaða ríki reikningshafinn er skattalega heimilisfastur. Skyldan til að kalla eftir yfirlýsingu er óháð því hversu miklir fjármunir standa á reikningunum. Þá falla ýmsir vátryggingasamningar undir þessa skyldu. Ef reikningshafi hefur skattalega heimilisfesti í erlendu ríki skal kalla eftir erlendri skattkennitölu gefi hið erlenda ríki út slíkt auðkenni. Leggi viðskiptavinur ekki fram umbeðna yfirlýsingu skal reikningur ekki stofnaður.
Ef reikningshafi er lögaðila skal taka ákvörðun um hvort hann sé heimilisfastur á Íslandi eða í öðru ríki. Ef reikningshafinn er heimilisfastur í öðru ríki skal óskað eftir erlendri skattkennitölu gefi hið erlenda ríki út slíkt auðkenni. Ef reikningshafinn er opinber aðili, Seðlabanki, félag sem skráð er á opinberan hlutabréfamarkað, tiltekin alþjóðleg stofnun eða fjármálastofnun gilda ákveðnar undanþágur.
Ennfremur skal óska eftir yfirlýsingu um það ríki sem raunverulegur eigandi er yfirleitt skattskyldur. Hugtakið raunverulegur eigandi er skilgreint í 13. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ef raunverulegur eigandi er skattskyldur í öðru ríki en Íslandi skal óskað eftir erlendri skattkennitölu gefi erlenda ríkið út slíkt auðkenni. Þessi skylda um auðkenningu á raunverulegum eiganda nær eingöngu til þeirra tilvika þegar reikningshafi er:
- óvirkur erlendur lögaðili sem er ekki fjármálastofnun
- er aðili sem stjórnað er af fjármálastofnun og reikningshafinn er heimilisfastur í ríki sem ekki hefur gert upplýsingaskiptasamkomulag við Ísland
Ríkisskattstjóri mun birta leiðbeiningar um hvaða kröfur verði gerðar til yfirlýsinga en ekki verða gerða kröfur um að yfirlýsingarnar verði á sérstökum eyðublöðum.
9. Eldri reikningar
Við gildisstöku reglugerðar nr. 1240/2015 var fjármálastofnunum veitt svigrúm til yfirferðar eldri reikninga. Sá frestur er liðinn.
Með eldri reikningar er átt við reikningar sem opnaðir voru fyrir gildistöku reglugerðarinnar.
Reglurnar lýsa aðferðafræði sem fjármálastofnun skal beita við mat á því hvar viðskiptamaður er skattalega heimilisfastur svo unnt sé að tilkynna réttar upplýsingar. Hafi fjármálastofnun opnað nýjan reikning og aflað yfirlýsingar í því tilviki skal nýta þær upplýsingar vegna eldri reiknings.
Mismunandi reglur gilda um yfirferð eldri reikninga einstaklinga og eldri reikninga lögaðila.
Fjármálastofunum er heimilt að undanþiggja lögaðila með viðskiptasamband þar sem samanlög innstæða eldri reikninga er að lægra verðmæti en 250.000 USD. Fari fjárhæð reikningsins síðar yfir þessi mörk í lok tekjuárs skal skoða og auðkenna reikninginn. Leggja skal saman alla reikninga í eigu reikningshafa þegar tekið er mið af framangreindum fjárhæðarmörkum.
Almenna reglan er sú að rafræn leit skal fara fram ef samanlagt virði viðskiptasambands nemur lægri fjárhæð en 1.000.000 USD. Hafi fjármálastofnunin upplýsingar um heimilisfang reikningshafa sem byggja á upplýsingum frá opinberum aðilum erlendra ríkja má leggja til grundvallar að viðkomandi reikningshafi sé skattskyldur í því ríki. Þetta er eingöngu heimilt hafi fjármálastofnun skjalfestar upplýsingar um heimilisfang reikningshafans.
Sé ekki unnt að auðkenna reikningshafa á grundvelli upplýsinga um heimilisfang verður fjármálastofnunin að framkvæma frekari leit að vísbendingum.
10. Óskráðir reikningar (e. Undocumented Accounts)
Sérregla gildir um eldri reikninga einstaklinga að lægra virði þar sem einungis liggja fyrir upplýsingar um „berist til heimilisfang“ eða „varðveislu heimilisfang“. Slíka reikninga skal tilkynna sem óskráða reikninga.
Fjármálastofnun skal árlega leitast við að uppfæra slíka skráningu og hafa það að markmiði að útrýma slíkum skráningum.
11. Reikningshafar og stjórnandi aðili (raunverulegir eigendur)
Reikningshafi er sá aðili sem skráður handhafi fjárhagsreiknings hjá fjármálastofnun. Umboðsaðili, annar en fjármálastofnun, skal ekki fara með sem reikningshafa.
Þegar reikningshafi er félag eða lögaðili sem aðallega fær eignatekjur (e. passive income) þarf að kanna hvar raunverulegir eigendur félagsins eða lögaðilans eru skattalega heimilisfastir. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort reikningshafinn sé heimilisfastur á Íslandi eða ekki. Tilkynningarskyldan er óháð því hvort félagið eða lögaðilinn sem er reikningshafi sé heimilisfastur á Íslandi eða ekki.
Raunverulegir eigendur eru þeir einstaklingar sem eiga eða stjórna lögaðilanum sem er reikningshafi. Hér skal leggja til grundvallar þá hugtaksskilgreiningu á raunverulegum eigendum sem er í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sbr. 13. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 140/2018. Hvað varðar einstaklinga eða lögaðila sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gengum beina eða óbeina eignaraðild, er miðað við meira en 25% hlut eða 25% atkvæðisréttar, sbr. framangreind ákvæði.
12. Óvirkur og virkur lögaðili sem er ekki fjármálastofnun
Fjármálastofnanir tilkynna ekki reikninga annarra fjármálastofnanna.
Við mat á tilkynningu raunverulegs eiganda skal leggja mat á það hvort lögaðili telst virkur eða óvirkur lögaðili.
Óvirkur lögaðili sem er ekki fjármálastofnun er skilgreindur með neikvæðum hætti. Þ.e. hver sá lögaðili sem er ekki fjármálastofnun eða fjárfestingaraðili tegund B sem er ekki þátttakandi fjármálastofnun lögsagnarumdæmis.
Virkur lögaðili sem er ekki fjármálastofnun er skilgreind í 43. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 1240/2015.
13. Skattalegt heimilisfesti
Einstaklingar teljast vera skattalega heimilisfastir í því ríki sem þeir bera skattskyldu vegna búsetu, lögheimilis o.þ.h.
OECD hefur safnað saman upplýsingum um skattskyldu í hinum ýmsum ríkjum sem skoða má hér.
Lögaðilar teljast almennt skattalega heimilisfastir í því ríki sem þeir eru stofnaðir og skráðir í. Lögaðilar sem teljast ekki skattskyldir í neinu ríki skulu teljast heimilisfastir í því ríki þar sem höfuðstöðvar lögaðilans eru.
14. Skjöl og varðveisluskylda
Tilkynningarskyldar fjármálastofnanir skulu varðveita þau gögn sem lögð eru til grundvallar auðkenningu reikningshafa. Fjármálastofnanir geta aldrei byggt á gögnum sem þau hafa vitneskju um eða mega vita að séu röng eða ótrúverðug. Geyma skal gögnin í fimm ár eftir lok þess árs sem staða reikningshafa var ákvörðuð. Þá skal fjármálastofnun geyma upplýsingar um á hvaða gögnum auðkenning reikningshafa var byggð ásamt upplýsingum um hvaða dag reikningurinn var auðkenndur.
Yfirlýsingar reikningshafa skulu vera skjalfestar og undirritaðar og vera varðveittar með þeim gögnum sem staðfesta auðkenningu reikningshafans. Varðveislan má vera rafræn.