Spurt og svarað

Hér hefur verið safnað saman helstu spurningum og svörum vegna CRS. OECD hefur tekið saman svör við helstu spurningum sem vaknað hafa í tengslum við innleiðingu og framkvæmd á CRS.

Spurt og svarað samantekt OECD

Þarf að afla yfirlýsinga frá reikningshöfum vegna orlofsreikninga sem vinnuveitandi lætur stofna?

Orlofsreikningar teljast ekki undanþegnir reikningar skv. 34. tölul. 2. gr. reglugerðar 1240/2015 um framkvæmd áreiðanleikakönnunar vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála og af þeim sökum þarf að fara eftir þeim reglum sem fram koma í 7. gr. áður nefndrar reglugerðar, þ.e. afla yfirlýsingar frá reikningshafa.

Má reiða sig á upplýsingar um skattalegt heimilisfesti frá vinnuveitanda þegar orlofsreikningar eru stofnaðir?

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1240/2015 er fjármálastofnunum heimilt að nota þjónustuveitendur í því skyni að uppfylla kröfur um áreiðanleikakannanir.  Það ætti því að vera hægt að reiða sig á upplýsingar frá vinnuveitendum, þ.e. vinnuveitendurnir þurfa þá að afla yfirlýsinga frá reikningshöfunum.  Það er engin heimild í reglugerðinni að víkja frá þeirri kröfu að sérstakrar yfirlýsingar sé aflað þegar nýir reikningar eru opnaðir/stofnaðir.  Samkvæmt þessu er það annað hvort fjármálastofnunin eða vinnuveitandinn sem verður að afla yfirlýsingarinnar frá reikningshafa.

Hvernig á íslensk fjármálastofnun að upplýsa Skattinn um að ekki hafi verið unnt að afla TIN (skattkennitala)?

Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1240/2015, um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála, er þess ekki krafist að TIN sé tilgreint í upplýsingum til ríkisskattstjóra um eldri reikninga ef þær upplýsingar er ekki að finna í gögnum tilkynningarskyldrar fjármálastofnunar.

Fjármálastofnunum ber engu að síður „með réttmætri fyrirhöfn“ að afla kennitölu og fæðingardags reikningshafa að því er varðar eldri reikninga fyrir lok annars almanaksárs á því ári sem fylgir á eftir því ári sem slíkir reikningar voru auðkenndir sem tilkynningarskyldir.

Við stofnun nýrra reikningar ber reikningshafa að upplýsa fjármálastofnunina um erlenda skattkennitölu.  Ber íslenskum fjármálastofnunum að ganga eftir því við viðkomandi reikningshafa að slík kennitala sé gefin upp við stofnun reiknings.

Ef TIN er ekki skilað þarf að setja 0 í viðeigandi reit á XML skemanu.

Hvaða reglur gilda um upplýsingagjöf vegna fjárvörslureikninga lögmanna?

Samkvæmt 44. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 1240/2015, um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála, er reikningshafi sá sem viðkomandi fjármálastofnun skráir á lista eða auðkennir sem handhafa fjárhagsreiknings.  Aðili sem fer með fjárhagsreikning í þágu hagsmuna annars aðila eða fyrir reikning hans, sem umboðsaðili, vörsluaðili  eða þess háttar telst ekki vera reikningshafi í skilningi tilvitnaðrar reglugerðar.

Samkvæmt reglugerð nr. 1192/2005, um fjárvörslureikninga lögmanna, ber lögmanni að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé nema hann hafi fengið undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. laga um lögmenn.  Þá er lögmönnum skylt að færa sérstakan viðskiptareikning í bókhaldi sínu sem sýnir inneignir umbjóðenda á hverjum tíma.  Í 2. mgr. 4. gr. áður nefndrar reglugerðar nr. 1192/2005 kemur fram að fjárvörslureikning skuli stofna á nafni lögmanns og að hann hafi formlega ráðstöfunarheimild yfir reikningnum.  Í þessum tilvikum ber að líta á lögmanninn sem reikningshafa sbr. 44. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 1240/2015.

Stofni lögmaður aftur á móti reikning í nafni umbjóðanda síns ber að líta á umbjóðandann sem reikningshafa í skilningi 44. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 1240/2015 þrátt fyrir að lögmaður hafi heimild til að ráðstafa fjármunum af reikningnum.

Hvenær á að veita upplýsingar um fæðingarstað?

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1240/2015, um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála, skal afhenda ríkisskattstjóra m.a. upplýsingar um fæðingarstað reikningshafa sé hann einstaklingur.  Þá kemur ennfremur fram í 5. mgr. 12. gr. tilvitnaðrar reglugerðar að þess sé ekki krafist að upplýsa um fæðingarstað nema almenn skylda hvíli á fjármálastofnunum að afla upplýsinga um fæðingarstað. 

Í dag (janúar 2016) er ekki að finna neinar skyldur í íslenskum rétti sem skyldar íslenskar fjármálastofnanir til að afla upplýsinga um fæðingarstað.Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum