Launatekjur og hlunnindi
Allar launagreiðslur teljast til skattskyldra tekna, þ.m.t. reiknuð laun vegna vinnu við eigin rekstur. Auk beinna launagreiðslna á það við um hvers konar starfstengdar greiðslur, hlunnindi og fríðindi og skiptir ekki máli hvernig greiðsla fer fram. Á þessar tekjur er lagður tekjuskattur og útsvar eftir almennum reglum.
Hvenær telja á til tekna
Telja á allar tekjur fram á því ári sem þær verða til, þ.e. á því ári sem myndast hefur krafa á hendur einhverjum til að greiða þær. Undantekning frá þessu er ef um óvissar tekjur er að ræða. Sem dæmi um slíkar tekjur eru skattskyldar bætur sem ákvarðaðar eru í kjölfar dómsmáls. Þær bætur eru óvissar allt þar til dómur fellur.
Vinnulaun
Til vinnulauna teljast allar tegundir launa eða þóknana, greidd eða ógreidd, sem launþegi fær fyrir starf sem hann innir af hendi á ábyrgð launagreiðanda. Til vinnulauna teljast t.d. ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launabætur, staðaruppbót, fæðispeningar, fæðingarorlof, orlofsfé og greiðslur fyrir ótekið orlof. Enn fremur verkfæragjald eða verkfærapeningar, fatapeningar, flutningspeningar eða greiðsla fargjalda milli heimilis og vinnustaðar, hvort sem framangreindar greiðslur eru reiknaðar sem hundraðshluti launa eða á annan hátt. Eftirlaun sem greidd eru frá vinnuveitanda teljast til vinnulauna.
Ógreidd laun
Þótt laun séu ógreidd um áramót eiga þau að teljast til skattskyldra tekna á því ári sem unnið er fyrir þeim. Þannig á t.d. að telja laun sem unnið er fyrir í desember til tekna í skattframtali fyrir það tekjuár og jafnframt á að færa þau sem útistandandi kröfu ef greiðslan sjálf fer fram eftir áramót.
Laun sem ekki hafa fengist greidd vegna gjaldþrots launagreiðanda skal ekki færa til tekna, en gera skal grein fyrir þeim í athugasemdum í skattframtali. Greiðslur frá Ábyrgðasjóði launa skal telja til tekna þegar þær eru greiddar.
Launatekjur erlendis
Um skattlagningu launatekna erlendis fer eftir því hvar þeirra er aflað og ákvæðum tvísköttunarsamninga við það ríki, ef þeir eru fyrir hendi. Gera á grein fyrir launatekjum erlendis í skattframtali og hvar þeirra var aflað, sem og greiddum sköttum erlendis. Launatekjur erlendis geta haft áhrif á skattlagningu innlendra tekna og útreikning bóta.
Laun frá alþjóðastofnunum
Laun sem greidd eru embættismönnum, fulltrúum og öðrum starfsmönnum sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum teljast til tekna, en sama fjárhæð telst til frádráttar ef íslenska ríkið hefur gert samning við viðkomandi stofnun um skattfrelsi, t.d. í stofnsamningi. Við þær aðstæður kemur þannig ekki til skattlagningar tekjuskatts og útsvars af slíkum launum. Þau geta á hinn bóginn haft áhrif á skattlagningu innlendra tekna og útreikning bóta.
Staðaruppbót
Staðaruppbót sem greidd er vegna starfa erlendis í þágu hins íslenska ríkis telst til tekna, en sama fjárhæð telst til frádráttar þannig að ekki kemur til skattlagningar tekjuskatts og útsvars af slíkum greiðslum. Þær geta á hinn bóginn haft áhrif á útreikning bóta.
Laun í námsleyfi
Laun sem greidd eru í námsleyfi, t.d. samkvæmt ákvæðum kjarasamninga opinberra starfsmanna, eru skattskyldar tekjur og bera tekjuskatt og útsvar eins og önnur vinnulaun. Þar sem þessar greiðslur teljast ekki vera styrkir heimilast enginn frádráttur frá þeim.
Hlunnindi
Telja ber til skattskyldra tekna hvers konar gæði sem mönnum hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir þá ekki máli hvaðan þau stafa eða í hvaða formi þau eru. Á það t.d. við um fatnað, fæði, húsnæði, hvers konar fríðindi, greiðslur í vörum eða afurðum, svo og framlög og gjafir sé verðmætið hærra en almennt gerist um tækifærisgjafir.
Öll hlunnindi og fríðindi sem launagreiðandi lætur starfsmanni í té til einkaþarfa eru lögð að jöfnu við laun til viðkomandi og ber að telja til tekna miðað við markaðsverð eða gangverð, nema um þau gildi sérstakt matsverð samkvæmt árlegu skattmati ríkisskattstjóra.
Ef hlunnindi, eða annað sem telja ber til tekna, er látið af hendi gegn greiðslu sem er lægri en skattmatið eða gangverðið skal telja mismuninn til tekna.
Bifreiðahlunnindi
Umráð launamanns yfir bifreið launagreiðanda skal færa til tekna samkvæmt matsreglum sem birtar eru árlega í skattmati. Sömu reglur gildi hvort heldur bifreið er í eigu launagreiðandans eða hann hefur hana á leigu eða til láns. Matsreglurnar gilda um fólksbifreiðar, þ.m.t. skutbifreiðar, jeppabifreiðar, og aðrar bifreiðar sem hægt er að hafa sambærileg not af.
Ákvörðun bifreiðahlunninda á árinu 2024 byggist almennt á eftirfarandi reglum:
1. Ákvarða þarf grunnverð sem útreikningurinn miðast við að teknu tilliti til heimillar niðurfærslu milli ára og reikna skattskyld hlunnindi samkvæmt því. Þetta grunnverð er ekki framreiknað á milli ára en heimilt er að færa það niður um 10% á ári í fyrsta skipti á árinu eftir kaupárið, að hámarki 50%. Athugið að niðurfærslan reiknast alltaf af því verði sem útreikningur byggðist á árið áður, sbr. dæmi sem birt eru í skattmati.
2. Ef launagreiðandi keypti bifreiðina á árinu 2014 eða síðar er grunnverðið ákvarðað jafnt og kaupverðið var, hvort sem bifreiðin var keypt notuð eða ný. Þetta er sama verð og fært var í eignaskrá með skattframtali launagreiðanda á kaupári bifreiðarinnar.
3. Ef launagreiðandi keypti bifreiðina á árinu 2013 eða fyrr er grunnverðið fundið með því að fara í Bifreiðaskrá þess árs sem bifreiðin var fyrst tekin í notkun. Ef bifreið var t.d. tekin í notkun á árinu 2008 á að fara í Bifreiðaskrá 2008 jafnvel þótt launagreiðandi hafi ekki keypt hana fyrr en 2010.
4. Ef bifreið er ekki í eigu launagreiðanda heldur t.d. tekin á leigu er almenna reglan sú að grunnverð skal miða við verðlistaverð þegar bifreiðin er tekin á leigu/notkun hjá launagreiðandanum, en heimilt er að miða við það verð sem leigusali byggir á við ákvörðun á leigufjárhæð. Síðan gildir sama regla um niðurfærslu á grunnverðinu eins og þegar um er að ræða eigin bifreið launagreiðanda, sbr. lið eitt að framan. Ef tekin er á leigu eldri bifreið má fara í Bifreiðaskrá þegar hún var fyrst tekin í notkun og finna grunnverðið þar og síðan er sama regla og alltaf um niðurfærslu milli ára.
Ef launamaður greiðir launagreiðanda sínum sannanlega fyrir afnot bifreiðarinnar koma slíkar greiðslur til frádráttar tekjumatinu. Umráð bifreiðar geta annað hvort verið full og ótakmörkuð eða takmörkuð og miðast hlunnindatekjurnar við það.
Bifreiðaskrá, bæklingur RSK 6.03
Full og ótakmörkuð umráð
Ef launagreiðandi lætur starfsmanni sínum í té bifreið til fullra umráða skal meta þau starfsmanninum til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni. Ef starfsmaður hefur fleiri en eina bifreið frá launagreiðanda sínum til umráða samtímis fyrir sig, eða fjölskyldu sína, reiknast hlunnindin til tekna vegna hverrar bifreiðar fyrir sig.
Greiði starfsmaður sjálfur rekstrarkostnað bifreiðar sem hann hefur til umráða skal lækka fjárhæð hlunnindanna samkvæmt reglum í skattmati ríkisskattstjóra. Með rekstrarkostnaði í þessu sambandi er átt við eldsneytiskostnað, smurningu, þrif o.þ.h.
Takmörkuð afnot
Ef starfsmaður fær afnot af bifreið launagreiðanda síns og honum er einungis heimilt að nota hana utan vinnutíma til aksturs milli heimilis og vinnustaðar og til einstakra tilfallandi afnota telst hann hafa takmörkuð afnot af bifreiðinni. Er þá einnig miðað við að bifreiðin sé að öðru leyti notuð í daglegum rekstri launagreiðandans. Takmörkuð afnot skulu metin til tekna miðað við ákveðna krónutölu á hvern ekinn kílómetra, sem ákvörðuð er árlega í skattmati.
Gögn um takmörkuð afnot þarf að færa greinilega og vera aðgengileg skattyfirvöldum, hvort sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá starfsmanni. Sé um frekari afnot að ræða telst starfsmaður hafa full og ótakmörkuð umráð bifreiðar.
Eigendur og stjórnendur
Eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnarmenn félaga teljast ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota, þ.m.t. skutbifreiðum, jeppabifreiðum, eða öðrum þeim bifreiðum sem hægt er að hafa sambærileg not af.
Önnur vélknúin ökutæki - flugvélar
Umráð yfir vélknúnum ökutækjum öðrum en bifreiðum skal færa til tekna sem hlutfall af kaupverði tækisins í samræmi við árlegt skattmat ríkisskattstjóra.
Afnot af flugvélum í einkaþágu skal færa til tekna með tiltekinni fjárhæð á hvern flugtíma. Fjárhæðin er ákvörðuð í skattmati árlega.
Fatahlunnindi
Ef starfsmaður fær afhentan fatnað til afnota skal telja þau hlunnindi til tekna á kostnaðarverði. Undantekning frá þessu er einkennisfatnaður og nauðsynlegur öryggis- og hlífðarfatnaður sem starfsmenn fá til afnota og er ætlað að nota við störf sín. Slíkan fatnað skal ekki telja til skattskyldra hlunninda. Það sama á við um fatnað sem er auðkenndur eða merktur launagreiðanda og einkum nýttur vegna starfa fyrir hann.
Fæðishlunnindi
Ef vinnuveitandi sér starfsmanni (eða fjölskyldu starfsmanns) fyrir fæði án endurgjalds á að meta það til skattskyldra tekna samkvæmt matsfjárhæð sem ákvörðuð er árlega í skattmati. Ef starfsmaður greiðir fyrir fæði á að taka tillit til þess. Ef greitt er hærra verð fyrir máltíðir en matsfjárhæðir ríkisskattstjóra þá telst ekkert til tekna. Ef greitt er lægra verð en nemur matsfjárhæðum telst mismunurinn til tekna.
Greidda fæðispeninga á hins vegar að telja til skattskyldra launatekna án nokkurs frádráttar.
Húsnæðishlunnindi
Ef launagreiðandi lætur starfsmanni sínum í té endurgjaldslaus afnot af íbúðarhúsnæði á að meta þau hlunnindi til tekna hjá starfsmanninum samkvæmt árlegu skattmati ríkisskattstjóra. Ef rafmagn og hiti fylgir með skal telja þau hlunnindi til tekna á kostnaðarverði, þ.e. samkvæmt reikningum.
Fylgi starfi launamanns kvöð um búsetu í húsnæði sem launagreiðandi lætur honum í té, er ríkisskattstjóra heimilt að lækka hlunnindamatið ef launamaður telst ekki nýta húsnæðið að fullu. Íbúðarhúsnæði allt að 150 m2 að viðbættum 5 m2 fyrir hvern íbúa umfram 6 telst fullnýtt.
Verbúðir eða vinnubúðir
Afnot af húsnæði í verbúðum eða vinnubúðum þar sem launamaður dvelur um takmarkaðan tíma í þjónustu launagreiðanda telst ekki til skattskyldra hlunninda.
Orlofshúsnæði
Hafi launamaður endurgjaldslaus afnot af orlofshúsnæði frá launagreiðanda sínum í fleiri en 10 daga á ári skal telja þau til tekna með tiltekinni fjárhæð fyrir hvern dag sem umfram er. Fjárhæðin er ákvörðuð árlega í skattmati ríkisskattstjóra. Það sama gildir um slík afnot fjölskyldumeðlima starfsmanns.
Með orlofshúsnæði er átt við sumarbústaði og annað það húsnæði sem ætlað er til slíkrar notkunar, þ.m.t. íbúðir í þéttbýli, sem og hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagna og aðra tengivagna.
Kaupréttur á hlutabréfum
Sérstakar reglur gilda um skattalega meðferð tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem maður hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila. Meginreglan er sú að líta skal á mismun gangverðs og söluverðs sem starfstengda launagreiðslu sem sætir sömu skattalegu meðferð og aðrar launagreiðslur.
Þegar kaupréttur hlutabréfa er nýttur ber launagreiðanda að greiða tryggingagjald af mismun á gangverði og söluverði bréfanna, en ekki er dregin staðgreiðsla opinberra gjalda af launafjárhæðinni. Launagreiðanda ber einnig að gera grein fyrir þessum viðskiptum, dagsetningu, nafnverði og kaupverði bréfanna ásamt fjárhæð tekna kaupréttarhafa, í gagnaskilum sínum árið eftir að kauprétturinn var nýttur.
Einstaklingur sem nýtt hefur sér kauprétt á hlutabréfum, án þess að selja þau aftur á sama ári, færir bréfin til eignar í skattframtali sínu. Þær tekjur sem reiknast af þessum viðskiptum, þ.e. mismunurinn á gangverði og því verði sem kaupréttarhafinn greiddi fyrir bréfin, eru ekki skattlagðar strax heldur þegar eigendaskipti verða á bréfunum. Samkvæmt því er við þessar aðstæður áhvílandi skattkvöð á hlutabréfunum sem færist milli ára þar til eigendaskipti verða á bréfunum.
Ef hlutabréf eru ekki skráð í kauphöll og engin viðskipti hafa verið með bréf er myndað hefur gangverð í viðskiptum, skal miða við bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags.
Kaupréttaráætlun
Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum skulu tekjur af hlutabréfum sem keypt eru samkvæmt kauprétti teljast til fjármagnstekna á því tímamarki sem bréfin eru seld. Þessi undantekning á einungis við kaup að tiltekinni fjárhæð sem ákvörðuð er í lögum (við álagningu 2021 er þessi fjárhæð 1.500.000 kr. en var áður 600.000 kr.).
Félag sem hefur í hyggju að veita starfsmönnum kauprétt þarf að senda ríkisskattstjóra fyrirfram kaupréttaráætlun til staðfestingar. Ríkisskattstjóri hefur sett reglur í þessum efnum þar sem fram kemur m.a. að sérhverju félagi beri að setja um kaupréttinn reglur sem nái til allra starfsmanna þeirra og eftir atvikum allra starfsmanna félaga í sömu félagasamstæðu. Fram þarf að koma hvernig félagið hyggst kynna starfsmönnum sínum rétt þann er þeir eiga samkvæmt áætluninni og þau skilyrði sem sett eru, ef einhver eru.
Þessi sérregla um skattlagningu á kauprétti gildir einungis um starfsmenn sem verið hafa í föstu starfi hjá félaginu eða öðru félagi í sömu félagasamstæðu. Verktakar hjá félaginu eða stjórnarmenn þess teljast ekki starfsmenn félagsins í þessu sambandi. Að lágmarki 12 mánuðir þurfi að líða frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur. Kaupréttarsamningur telst kominn á þegar fyrir liggja bæði skuldbinding félagsins um kauprétt starfsmanna og staðfesting viðkomandi starfsmanns á samningnum. Kaupverð má ekki vera lægra en vegið meðalverð í viðskiptum með hluti/hlutabréf í félagi tíu heila viðskiptadaga fyrir samningsdag ef slík viðskipti hafa verið skráð í kauphöll. Ef slík skráning hefur ekki átt sér stað skal miða við gangverð í viðskiptum annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi.
Starfsmaður þarf að eiga hlutabréfin eða hlutina í tvö ár eftir að kaupréttur er nýttur. Ef misbrestur verður á þessu ber að skattleggja tekjurnar samkvæmt meginreglunni um að telja tekjurnar til launatekna.
Samningur um kauprétt er ekki framseljanlegur og tilgreina þarf í honum að ekki sé heimilt að veðsetja hann eða framselja með öðrum hætti.
Tekjur samkvæmt kaupréttaráætlun sem uppfyllir ofangreind skilyrði koma til skattlagningar þegar starfsmaður selur hlutabréfin.
Ítarefni
Hvar eru reglurnar?
Frádráttur frá tekjum utan atvinnurekstrar - 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti - 9. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Kaup á hlutabréfum samkvæmt kaupréttaráætlun - 10. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Skattskyldar tekjur – 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Tekjutímabil - 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Annað