Könnun á stafvæðingu íslenskra fyrirtækja

Forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja telja mikinn ávinning af því að nota rafræna reikninga í stað pappírsreikninga og PDF-skjala. Tímasparnaður, minni kostnaður, aukin sjálfvirknivæðing, sveigjanleiki og öryggi eru meðal helstu kosta sem nefndir eru í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Nordic Smart Government & Business. Könnunin var gerð síðastliðið haust í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi. Tilgangur hennar var að mæla stafvæðingu í norrænum fyrirtækjum.

Í könnuninni var m.a. spurt um notkun á viðskiptakerfum og stöðluðum rafrænum viðskiptaskjölum, sem er sá grunnur sem stafrænt vistkerfi Nordic Smart Government & Business byggir á. Auk þess var spurt um aðgengi að upplýsingum um fyrirtæki, notkun snjallþjónustu og rauntímagagna.

Viðskiptakerfi, svo sem bókhalds- eða fjárhagskerfi, eru útbreidd á Íslandi og nota 83% fyrirtækja slík kerfi samkvæmt könnuninni. Rúmlega 40% fyrirtækja nota eða hafa í hyggju að nota snjallþjónustu og rauntímagögn til að bæta vinnuferla sína og áætla 15% þeirra að sparnaður geti orðið meiri en 10 þúsund evrur fram til ársins 2025. Þá telja 74% fyrirtækja mikinn ávinning felast í því að hafa aðgang að opinberum upplýsingum um fyrirtæki.

Þjónusta Skattsins og Fjársýslunnar

Nordic Smart Government & Business hefur með góðum árangri prófað að senda stöðluð rafræn viðskiptaskjöl, þ.e. rafræna vörulista, pantanir, reikninga og kvittanir, í gegnum Peppol viðskiptanetið í viðskiptum milli Norðurlandanna en Ísland er aðili að OpenPeppol. Fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref í notkun rafrænna skjala geta nálgast hagnýtar upplýsingar á vefsvæði verkefnisins. Frekari upplýsingar og aðstoð veitir Fjársýsla ríkisins.

Nordic Smart Government & Business hefur einnig smíðað vefþjónustu (API) til að bæta aðgengi að grunnupplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Í fyrstu má þar nálgast upplýsingar um nafn, kennitölu, stöðu, skráningardagsetningu, heimilisfang, rekstrarform og skráningaraðila fyrir öll fyrirtæki á Norðurlöndunum. Í vefþjónustunni á Íslandi, sem Skatturinn áætlar að gefa út í næsta mánuði, verður einnig hægt að nálgast skráð virðisaukaskattsnúmer fyrirtækja, hvoru tveggja opin númer og lokuð.

Helstu niðurstöður könnunarinnar

Notkun viðskiptakerfa og staðlaðra rafrænna viðskiptaskjala

Notkun á viðskiptakerfum, svo sem bókhalds- eða fjárhagskerfum, er útbreidd á Íslandi en 83% íslenskra fyrirtækja nota eitt eða fleiri viðskiptakerfi, aðallega fyrir reikningshald (93%), bókhald (91%), sölu (71%), fjármálastjórnun (64%) og innkaup (48%).

Mynd 1: Vinnsluferlar sem viðskiptakerfi styðja.

Aðspurð hvort fyrirtækið geti skipt um þjónustuaðila fyrir viðskiptakerfi án verulegs kostnaðar voru aðeins 27% mjög eða frekar sammála því.

Spurt var sérstaklega hvort fyrirtæki sendi og fái senda rafræna reikninga í stað þess að senda/móttaka reikninga á pappírsformi eða sem PDF-skjöl og sögðu 71% alla eða flesta reikninga senda rafrænt á milli kerfa en 59% alla eða flesta reikninga berast rafrænt á milli kerfa.

Mynd 2: Notkun viðskiptakerfa og rafrænna reikninga helst í hendur.

Mun fleiri fyrirtæki eða 87% eru mjög eða frekar sammála því að mikill ávinningur sé af því að nota rafræna reikninga í stað pappírsreikninga og PDF-skjala. Helstu kosti rafrænna reikninga sögðu fyrirtækin vera:

  • Sparnaður í tíma og kostnaði (pappír, póstburðargjöld)
  • Sjálfvirknivæðing (minni handavinna)
  • Einföldun - Aukin skilvirkni (stjórnun, eftirlit)
  • Fljót og örugg leið til að senda og móttaka reikninga - reikningar týnast ekki (berast beint í bókhald)
  • Minni villuhætta
  • Hraðari afgreiðsla reikninga
  • Aukinn sveigjanleiki (hægt er að afgreiða rafræna reikninga utan skrifstofu)
  • Umhverfisvænir

Áttatíu prósent fyrirtækjanna eru mjög eða frekar sammála því að mikill ávinningur hljótist af því að geta skipst á stöðluðum rafrænum skjölum á borð við rafræna reikninga og pantanir í gegnum netkerfi. Helmingur þeirra er hins vegar ekki meðvitaður um að það sé mögulegt í viðskiptum við önnur Norðurlönd.

Þegar fyrirtækin sem kaupa/selja vörur og eða þjónustu til annarra Norðurlanda og senda alla eða flesta sína reikninga rafrænt voru spurð hversu einfalt/flókið það er að skiptast á stöðluðum rafrænum skjölum í gegnum netkerfi segir meirihluti þeirra það einfalt að skiptast á rafrænum vörulistum (75%), rafrænum pöntunum (70%), rafrænum reikningum (78%) og rafrænum kvittunum (83%).

Aðgengi að upplýsingum um fyrirtæki

Samkvæmt könnuninni geta 58% fyrirtækja veitt þjónustuaðila/þriðja aðila aðgang að gögnum fyrirtækisins í gegnum stafræn viðskiptakerfi. Spurt var hvort grunnupplýsingar um fyrirtæki ættu að vera aðgengilegar, bæði innanlands og innan Norðurlandanna, til hagsbóta fyrir fyrirtæki og viðskiptavini þeirra og voru 78% fyrirtækjanna mjög eða frekar sammála því. Aðeins færri eða 67% eru sammála því að fjárhagsupplýsingar fyrirtækja úr ársskýrslum ættu að vera aðgengilegar. Þá voru 74% fyrirtækjanna sammála því að það sé mikill ávinningur af því að hafa aðgang að slíkum opinberum upplýsingum um fyrirtæki.

Mynd 3: Ávinningur af því að hafa aðgang að opinberum upplýsingum um fyrirtæki er talinn mikill.

Notkun snjallþjónustu og rauntímagagna

Fyrirtækin voru spurð hvort þau noti eða hafi í hyggju að nota snjallþjónustu og rauntímagögn til að bæta vinnuferla. Snjallþjónusta var skilgreind sem stafræn og sjálfvirk ferli í fyrirtækinu. Þau sem svöruðu játandi (41%) nefndu m.a. eftirfarandi:

  • Sjálfvirknivæðing í tollafgreiðslu (RPA)
  • Stafvæðing ferla í innkaupa- og birgðastýringu (RFID)
  • Innkaup, framleiðsla og sala verði eitt ferli
  • Sjálfvirknivæðing í allri meðhöndlun reikninga og færslu bókhalds
  • Sjálfsafgreiðsla
  • Tölfræði notuð til að bæta framleiðslu
  • Starfsmenn í sorphirðu skrá verkin í rauntíma
  • Skráning með snjallsímum eða töflutölvum til að draga úr tvíverknaði og pappírsnotkun.

Þá voru fyrirtækin beðin að áætla hversu mikið þau myndu spara í evrum fram til ársins 2025 með notkun snjallþjónustu og rauntímagagna og af þeim sem svöruðu mátu 15% sparnaðinn þá orðinn meiri en 10.000 evrur.

Um könnunina

Maskína framkvæmdi könnunina fyrir Nordic Smart Government & Business dagana 13. september - 13. október 2023 í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi. Samtals svaraði 261 (25%) fyrirtæki könnuninni á Íslandi sem send var prókúruhöfum hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Flestir þeirra eru eigendur eða framkvæmdastjórar og öll fyrirtækin eru skráð á Íslandi. Um 40% þeirra kaupa/selja vörur og eða þjónustu til annarra Norðurlanda og 45% til annarra svæða utan Norðurlandanna. Nær níu af hverjum tíu eru með færri en 100 starfsmenn en einyrkjar falla þar undir.

Lesa nánar um könnunina í heild sinni


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum