Einkahlutafélög

Rafræn skráning einkahlutafélaga

Rafræn fyrirtækjaskrá útbýr öll stofngögn upp úr þeim upplýsingum sem skráningaraðili skráir inn í umsóknina. Það kemur í veg fyrir misræmi í stofngögnum og eykur gæði allra upplýsinga.

Opna umsókn um stofnun einkahlutafélags

Ferli stofnunar einkahlutafélags

Til að hefja rafræna nýskráningu einkahlutafélags þarf viðkomandi að skrá sig inn á rafrænum skilríkjum inn á þjónustusíður Skattsins. Rafræna skráningarferlið er í almennum síðum og undir fyrirtækjaskrá. Eigi skráningaraðili að vera lögaðili þarf viðkomandi að skrá sig inn á vef þess félags þar sem hann er prókúruhafi eða stjórnarmaður og hefja nýskráningu í gegnum þjónustusíðu þess félags. Vinsamlegast athugið að lögaðili getur aðeins verið einkahlutafélag en fleiri félagaform munu bætast við.

Greiðsla skráningar og tilkynningargjalda

Kröfur vegna greiðslu skráningargjalds og tilkynningargjalds eru nú sendar beint í heimabanka skráningaraðila og fer greiðsla skráningargjalds aðeins fram með þeim hætti, skráningaraðili þarf því ekki að millifæra skráningargjaldið inn á reikning Skattsins. Ef skráningaraðili er ekki með heimabanka er hægt að velja annan greiðanda á síðustu stigum skráningarinnar.

Nánari upplýsingar um skráningarferlið

Leiðbeiningar með umsókn 

Maður situr við skrifborð, snýr baki í lesanda og vinnur við tölvuna sína

Opna leiðbeiningarmyndband á youtube


Skráning einkahlutafélaga á pappír

Einkahlutafélög eru skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Skila þarf inn stofngögnum til fyrirtækjaskrár og greiða skráningargjald. Hægt er að greiða með reiðufé, debetkorti eða leggja inn á reikning (sjá gjaldskrá).

Afgreiðsla umsókna

Afgreiðslutími umsóknar um skráningu einkahlutafélags er almennt um tíu til tólf virkir dagar frá því að gögn eru lögð inn til fyrirtækjaskrár séu þau fullnægjandi og greiðsla (eða greiðslukvittun) fylgir með gögnunum. Hægt er að senda skannað afrit af stofngögnum á netfangið fyrirtaekjaskra@skatturinn.is Ekki er nauðsynlegt að skila inn frumritum af gögnum.

Hlutafé

Lágmarkshlutafé skal vera 500.000 kr. Skal allt hlutafé vera greitt við stofnun félagsins. Ef hlutafé er greitt í öðru en peningum skal koma staðfesting frá lögmanni eða löggiltum endurskoðanda um að viðkomandi eign sé til staðar. Ekki eru gefin út hlutabréf í einkahlutafélagi heldur er talað um hluti eða hlutaskírteini.

Stofngögn

Kennitala verður til við skráningu félags. ÍSAT-númer (íslensk atvinnugreinaflokkun) er skráð við stofnun samkvæmt upplýsingum stofnenda um aðalstarfsemi félagsins.

Einn stofnandi

Þegar einn aðili stofnar einkahlutafélag er nauðsynlegt að skila inn tilkynningareyðublaði, samþykktum, stofnskrá, stofngerð og tilkynningu um raunverulega eigendur.

Hér má nálgast sýnishorn af nauðsynlegum stofngögnum í Word. Hægt er að breyta og aðlaga að eigin þörfum, prenta út og undirrita.

Gæta þarf þess að:

 • Tilkynningarblað sé fyllt út í samræmi við stofngögn.
 • Rithandarsýnishorn séu rétt.
 • Allar undirskriftir séu réttar.

Tveir eða fleiri stofnendur

Þegar tveir eða fleiri aðilar stofna einkahlutafélag er nauðsynlegt að skila inn tilkynningareyðublaði, samþykktum, stofnsamning, stofnfundargerð og tilkynningu um raunverulega eigendur.

Hér má nálgast sýnishorn af nauðsynlegum stofngögnum í Word. Hægt er að breyta og aðlaga að eigin þörfum, prenta út og undirrita.

Gæta þarf þess að:

 • Tilkynningarblað sé fyllt út í samræmi við stofngögn.
 • Rithandarsýnishorn séu rétt.
 • Allar undirskriftir séu réttar.

Einstaklingsrekstur færður í einkahlutafélag

Heimilt er að færa eigur einstaklings í atvinnurekstri yfir í einkahlutafélag án þess að yfirfærslan hafi í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið sjálft.

Einstaklingur í atvinnurekstri verður að stofna einkahlutafélag sem tekur við öllum eignum og skuldum atvinnurekstrarins. Ákveðin skilyrði verða að vera fyrir hendi:

Þegar einstaklingsrekstur er færður yfir í einkahlutafélag þarf að skila inn öllum sömu gögnum og þegar einkahlutafélag er stofnað af einum aðila. Að auki þarf að fylgja með efnahagsreikningur einstaklingsrekstrarins miðað við 31. desember og má hann ekki vera eldri en fjögurra mánaða. Því þarf að flytja einstaklingsrekstur yfir í ehf. í seinasta lagi 30. apríl ár hvert og stofngögnum þarf að skila til fyrirtækjaskrár í síðasta lagi hinn 30. júní sama árs.

 • Einkahlutafélag verður ekki stofnað án framlagðs lágmarks hlutafjár, sem fólgið skal í verðmæti eigin fjár sem yfirfærist frá einstaklingsrekstrinum samkvæmt efnahagsreikningi þess, sbr. nánar hér á eftir.
 • Eigandi einstaklingsrekstrarins skal bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr. laganna.
 • Félagið sem tekur við einstaklingsrekstrinum skal vera skráð hér á landi og bera ótakmarkaða skattskyldu, sbr. 2. gr. laganna.
 • Eigandi einstaklingsrekstrarins skal eingöngu fá við yfirfærsluna hluti í félaginu sem gagngjald fyrir yfirfærðar eignir og skuldir einstaklingsrekstrarins.
 • Auk þeirra upplýsinga sem krafist er við tilkynningu til hlutafélagaskrár um stofnun félagsins samkvæmt lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, skal fylgja efnahagsreikningur einstaklingsrekstrarins sem jafnframt skal vera stofnefnahagsreikningur einkahlutafélagsins. Efnahagsreikninginn skal miða við 31. desember og má hann ekki vera eldri en fjögurra mánaða við stofnun einkahlutafélagsins og skal hann endurskoðaður af endurskoðanda og áritaður án fyrirvara. Jafnframt skal endurskoðandi staðfesta að hagur fyrirtækisins hafi ekki rýrnað vegna úttektar eiganda frá þeim tíma sem yfirfærslan skal miðuð við og fram að stofnun félagsins. Í skattalegu tilliti telst einkahlutafélagið yfirtaka rekstur og efnahag frá dagsetningu efnahagsreiknings. Stofnefnahagsreikningur ásamt yfirlýsingu um yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag skal enn fremur fylgja fyrsta skattframtali félagsins.

Í skattalegu tilliti telst einkahlutafélagið yfirtaka rekstur og efnahag frá dagsetningu efnahagsreiknings einstaklingsrekstrarins. Við yfirfærsluna skal félagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum rekstrarins, þ.m.t. eftirstöðvum rekstrartapa frá fyrri árum, enda séu skilyrði 8. tölul. 31. gr. uppfyllt. Þó ber sá sem stundaði reksturinn ótakmarkaða ábyrgð á greiðslu þeirra opinberu gjalda sem varða reksturinn fyrir yfirfærslu hans. Eignir og skuldir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Hafi eignir einstaklingsrekstrarins verið endurmetnar við stofnun einkahlutafélagsins með fullnægjandi hætti að mati hlutafélagaskrár, sbr. II. kafla laga um einkahlutafélög og endurmatið fært í samræmi við lög um ársreikninga, skal endurmatshækkun hvorki skattlögð í einstaklingsrekstrinum né hjá félaginu. Stofnverð þessara eigna og eftirstöðvar fyrningarverðs telst þrátt fyrir endurmat þeirra, hið sama hjá einkahlutafélaginu og það var í einstaklingsrekstrinum. Stofnefnahagsreikningur ásamt yfirlýsingu um yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag skal ennfremur fylgja fyrsta skattframtali félagsins.

Stofnverð gagngjalds hluta í einkahlutafélaginu ákvarðast jafnt bókfærðu eigin fé í efnahagsreikningi einstaklingsrekstrarins að teknu tilliti til aukafyrninga. Selji einstaklingur hluti sem hann fékk við yfirfærslu telst stofnverð þeirra við ákvörðun söluhagnaðar vera jafnt skattalegu bókfærðu eigin fé samkvæmt efnahagsreikningi einstaklingsrekstrarins.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Annað ítarefni

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum