Tollfrjáls farangur

Ferðabúnaður og annar farangur

Við komu til landsins mega ferðamenn, sem búsettir eru á Íslandi, hafa með sér tollfrjálst þann farangur, til dæmis fatnað og annan ferðabúnað, sem þeir fóru með til útlanda.

Ferðamenn mega ennfremur hafa meðferðis tollfrjálst varning sem fenginn er í ferðinni eða í tollfrjálsri verslun hér á landi (við brottför eða heimkomu) fyrir samtals allt að 88.000 kr. (krónur), hvort sem um er að ræða einstakan hlut eða fleiri hluti, miðað við smásöluverð á innkaupsstað.

Þó hámark tollfríðinda sé 88.000 kr. er ekkert því til fyrirstöðu að versla fyrir hærri upphæð erlendis, en þá má ekki gleyma að fara í rauða hliðið þegar heim kemur og greiða lögbundin aðflutningsgjöld af mismuninum.

Börn sem eru yngri en 12 ára mega hafa tollfrjálst verslunarvörur fyrir 44.000 kr.

Tollfrelsi matvara, þ.m.t. sælgæti, er takmarkað við 25.000 kr. verðmæti og 10 kg (kílógrömm) að þyngd.

Ferðamenn geta ekki framselt rétt sinn til tollfríðinda; tveir eða fleiri ferðamenn geta ekki lagt saman heimildir sínar til tollfrjáls innflutnings.

Sjá einnig innflutningstakmarkanir og bönn.

Áfengi og tóbak

Ferðamenn mega hafa með sér tollfrjálst áfenga drykki og tóbak sem hér segir:

Áfengir drykkir

Ferðamenn fá 6 einingar af áfengi sem þeir geta ráðstafað eins og þeir vilja. Hver eining getur verið 0,25 l af sterku, 0,75 l af léttu áfengi, 3 l af bjór eða 3 lítrar af gosvíni undir 6%.

Dæmi um mögulegar útfærslur:

 • 1 lítra af sterku áfengi og 0,75 lítra af léttvíni og 3 lítra af bjór eða
 • 3 lítra af léttvíni og 6 lítra af bjór eða
 • 1 lítra af sterku áfengi og 6 lítra af bjór eða
 • 1,5 lítra af léttvíni og 12 lítra af bjór eða
 • 18 lítra af bjór

Sjá einnig Mögulegar aðrar samsetningar

Sterkt áfengi telst vera áfengi sem er sterkara en 21%; léttvín telst vera áfengi, annað en bjór, sem er 21% að styrkleika eða minna.

Tóbak

 • 200 vindlinga (1 lengju) eða 250 grömm af öðru tóbaki

Lágmarksaldur til að flytja inn áfengi er 20 ár og 18 ár til að flytja inn tóbak.

Vinsamlegast athugið að ferðamaður verður að hafa varning í fórum sínum við innflutning og framvísa honum tollyfirvöldum sé þess óskað. Heimild til þessa að flytja inn tollfrjálsan varning er ekki hægt að framselja ferðaskrifstofum, leiðsögumönnum, rútubílstjórum eða öðrum. Kjósi ferðaskrifstofa, bílstjóri eða leiðsögumaður að flytja inn vörur fyrir hönd ferðamanna, eiga heimildir til tollfrjáls innflutnings ekki við og verður að greiða af vörunum í samræmi við verðmæti samkvæmt reikningi. Sé ekki hægt að framvísa reikningi skal verðmæti þeirra metið af starfsmönnum Skattsins.

Sjá einnig upplýsingar um mögulegar leiðir við innkaup á vef Fríhafnarinnar.

Almenn skilyrði tollfrelsis

 • Almennt er skilyrði tollfríðinda að ferðamenn hafi varninginn meðferðis við komu frá útlöndum. Þó er heimilt að leyfa tollfrjálsan innflutning farangurs sem orðið hefur viðskila við eiganda, enda sýni hann fram á með vottorði tollgæslunnar að hann hafi ekki nýtt sér rétt til niðurfellingar þegar hann kom til landsins.
 • Ennfremur er tollfrelsi bundið við varning sem ætlaður er til persónulegra nota viðkomandi, fjölskyldu hans eða til gjafa. Tollfríðindi ferðamanna taka ekki til varnings sem ætlaður er til sölu eða er fluttur inn í atvinnuskyni.
 • Ferðamaður getur þurft að sýna fram á að varningur sem hann hefur meðferðis við komu til landsins uppfylli skilyrði fyrir tollfrelsi. Getur því verið ráðlegt fyrir hann að halda til haga reikningum vegna hluta sem keyptir eru í ferð. Ennfremur getur verið mikilvægt að hann geti sýnt fram á að tiltekinn verðmætur hlutur sem hafður var með í ferð hafi verið fenginn hér á landi.

Tollafgreiðsla

Ferðamenn sem koma til landsins frá útlöndum eiga að eigin frumkvæði að skýra tollgæslunni frá og framvísa tollskyldum varningi sem þeir hafa meðferðis svo og þeim varningi sem háður er innflutningsskilyrðum eða innflutningsbanni. Ferðamenn þurfa hins vegar ekki að gera grein fyrir öðrum varningi sem þeir hafa meðferðis nema þess sé sérstaklega óskað.

Ef svonefnd rauð og græn tollhlið eru þar sem tollafgreiðsla ferðamanna fer fram, er ætlast til að þeir velji sér hlið og gefi með því til kynna hvort þeir hafi meðferðis varning sem þarf að gera sérstaklega grein fyrir eða ekki.

Rautt tollhlið

Rauð tollhlið eru fyrir þá sem hafa meðferðis:

 • Tollskyldan varning
 • Eða varning sem háður er innflutningsskilyrðum eða innflutningsbanni.

Grænt tollhlið

Græn tollhlið eru hins vegar fyrir þá sem eingöngu hafa tollfrjálsan farangur meðferðis og engan varning sem er háður innflutningstakmörkunum.

Ef ferðamaður er í vafa um hvaða tollfríðindum hann á rétt á eða hvort tiltekinn hlutur sem hann hefur meðferðis sé háður sérstökum innflutningstakmörkunum er ráðlegt að hann velji rautt tollhlið.

Tollvörður getur ávallt óskað eftir að skoða farangur ferðamanns, jafnvel á grænu tollhliði; það gildir og um farangur ferðamanna á afgreiðslustöðum þar sem ekki eru notuð rauð og græn tollhlið. Ferðamanni ber að veita nauðsynlega aðstoð vegna tollskoðunar, til dæmis að opna töskur og umbúðir ef nauðsynlegt reynist og gefa upplýsingar um farangurinn sem um er beðið. Komi við tollskoðun fram varningur sem ekki er greint frá eins og fyrir er mælt hér að framan, skoðast hann ólöglega innfluttur. Er heimilt að gera slíkan varning upptækan til ríkissjóðs auk þess sem viðkomandi kann að þurfa að sæta refsingu lögum samkvæmt.

Möguleg samsetning áfengiskaupa þegar tollfríðindi eru nýtt

Taflan sýnir mögulega samsetningu áfengiskaupa í lítrum talið miðað við 6 einingar.

  Sterkt vín Létt vín Bjór / Gosvín
  0 0 18
eða 0 4,5 0
eða 0 0,75 15
eða 0 1,5 12
eða 0 2,25 9
eða 0 3 6
eða 0 3,75 3
eða 0,25 0,75 12
eða 0,25 1,5 9
eða 0,25 2,25 6
eða 0,25 3 3
eða 0,25 3,75 0
eða 0,25 0 15
eða 0,5 0,75 9
eða 0,5 1,5 6
eða 0,5 2,25 3
eða 0,5 3 0
eða 0,5 0 12
eða 0,75 0,75 6
eða 0,75 1,5 3
eða 0,75 2,25 0
eða 0,75 0 9
eða 1 0,75 3
eða 1 1,5 0
eða 1 0 6
eða 1,25 0,75 0
eða 1,25 0 3
eða 1,5 0 0

 

Taflan sýnir lítrafjölda og einingar eftir tegundum áfengis

Dæmi:

Ferðamaður sem er að koma til Íslands gæti tekið 18 lítra af bjór sem jafngildir 6 einingum en þá getur hann ekki komið með neitt annað áfengi tollfrjálst.

Sami ferðamaður gæti valið að koma frekar með 1 líter af sterku (4 einingar), 0,75 lítra af léttvíni (1 eining) og 3 lítra af bjór (1 eining) 4+1+1=6 einingar.

Blanda má saman tegundum að vild en aldrei koma með meira en 6 einingar.

Einingafjöldi 1 2 3 4 5 6
Sterkt 0,25 0,5 0,75 1 1,25 1,5
Létt 0,75 1,5 2,25 3 3,75 4,5
Bjór 3 6 9 12 15 18
Gosvín undir 6% 3 6 9 12 15 18

 

Með einingu er átt við:

 1. Hverja 0,25 lítra af sterku áfengi, þ.e. áfengi sem í er meira en 21% af vínanda af rúmmáli.
 2. Hverja 0,75 lítra af léttvíni, þ.e. áfengi annað en öl sem í er 21% eða minna af vínanda að rúmmáli.
 3. Hverja 3 lítra af öli sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr.
 4. Hverja 3 lítra af gosvíni, gerjaðri drykkjarvöru eða blöndu gerjaðra drykkjarvara og óáfengra drykkja sem flokkast undir vöruliði 2208 og 2206 enda sé varan að hámarki 6% að styrkleika.

Sjá: Lög um gjald á áfengi og tóbak, nr. 96/1995 með síðari breytingum.

Síðast uppfært/breytt janúar 2020

Sjá einnig þennan bækling:

Duty free allowances of travellers - texti á fimm tungumálum (pdf)

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum