EES barnabætur

Almennt

Barnabætur eru almennt aðeins greiddar með börnum sem búsett eru á Íslandi. Frá þessu eru undantekningar. Greiddar eru barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi ef framfærandi barnanna:

 • starfar á Íslandi og er hér að fullu skattskyldur og er ríkisborgari í landi innan evrópska efnahagssvæðisins (EES), aðildarríkis stofnsamnings fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða í Færeyjum.
 • er búsettur erlendis en sjúkratryggður á Íslandi samkvæmt lögum um almannatryggingar.
 • starfar erlendis fyrir aðila sem greiðir tryggingagjald á Íslandi.

Börnin þurfa að vera búsett innan EES, aðildarríkis EFTA eða í Færeyjum.

Framfærendur

Eingöngu framfærendur barna eiga rétt á greiðslu barnabóta. Þau sem greiða meðlag með barni teljast ekki sem framfærandi í þessu sambandi.

Umsókn

Sækja þarf um EES-barnabætur árlega í lok hvers tekjuárs með eftirfarandi umsóknareyðublaði RSK 3.20.

Eyðublöð

Gögn með umsókn

Umsækjandi skal leggja fram fullnægjandi gögn frá bæru stjórnvaldi í því ríki sem börnin eru heimilisföst. Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja með umsókninni.

Fyrir umsækjanda sem er giftur eða í sambúð

 • Fæðingarvottorð barns/barna (á ekki við ef barn er fætt á Íslandi og/eða er með íslenska kennitölu)
 • Vottorð um búsetu barna, maka og hjúskaparstöðu í árslok tekjuársins sem umsóknin varðar.
 • Tekjuvottorð eða staðfest afrit af skattframtali maka vegna tekjuársins.
 • Staðfesting á greiðslu barnabóta í búseturíki barns vegna tekjuársins.

Ef báðir foreldrar búa á Íslandi, þarf að leggja fram vottorð um hjá hverjum barnið býr og kvittanir fyrir millifærslu fjármuna til umönnunaraðila barns.

Fyrir umsækjanda sem er einstætt foreldri:

 • Fæðingarvottorð barns/barna (á ekki við ef barn er fætt á Íslandi og/eða er með íslenska kennitölu)
 • Vottorð um búsetu og hjúskaparstöðu í árslok tekjuársins sem umsóknin varðar. Búsetuvottorð þarf að sýna hvar barn býr og með hverjum.
 • Tekjuvottorð eða staðfest afrit af skattframtali í búseturíki vegna tekjuársins.
 • Staðfesting á greiðslu barnabóta í búseturíki barns vegna tekjuársins.
 • Kvittanir fyrir millifærslu fjármuna til umönnunaraðila.
 • Staðfesting á um forsjá barns eða forsjársamningur.

Lífeyrisþegar búsettir erlendis

Þau sem búsett eru í öðru EES-ríki og fá greiðslur frá íslenska almannatryggingakerfinu kunna að eiga rétt á EES-barnabótum frá Íslandi. Þetta á við um greiðslur frá til dæmis:

 • Tryggingastofnun
 • Vinnumálastofnun
 • Fæðingarorlofssjóði

Sækja þarf sérstaklega um á umsóknareyðublaði RSK 3.20.  

Standa ber skil á sömu fylgiskjölum og nefnd eru hér að ofan. Þó er ekki þörf á að skila fæðingarvottorði fyrir börn sem eru fædd eða hafa búið á Íslandi. Sé barn búsett hjá einstæðu foreldri þarf ekki að skila kvittunum fyrir millifærslum til umönnunaraðila né heldur vottorði um forsjá barns.

Starf í öðru EES-ríki og barn/börn búsett á Íslandi

Þau sem bera ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, en starfa í öðru EES-ríki og geta átt rétt á barnabótum í atvinnuríkinu, jafnvel þó börnin séu heimilisföst á Íslandi.

Ef maki býr á Íslandi og starfar hér telst réttur til barnabóta vera fyrst hér á landi, en ef barnabætur eru hærri í hinu ríkinu þá ber því ríki að greiða mismuninn.

Eyðublöð


Spurt og svarað

Af hverju er Skatturinn að biðja um skattframtal frá maka?

Barnabætur á Íslandi eru reiknaðar út frá tekjum framfæranda. Ef umsækjandi er giftur eða í sambúð telst sá aðili einnig framfærandi og því þarf einnig að taka tillit til tekna þess aðila við útreikning á barnabótum. Upplýsingar um tekjur þurfa að vera staðfestar af skattyfirvöldum í því ríki sem maki og börn búa. Upplýsingar frá almannatryggingum teljast ekki fullnægjandi upplýsingar í þessu sambandi.

Af hverju þarf að skila inn nýju búsetuvottorði á hverju ári?

Til að eiga rétt á barnabótum á Íslandi er ekki nóg að vera foreldri, það þarf að vera með barnið á framfæri. Til að teljast vera framfærandi barns þarf að vera giftur eða vera í sambúð með þeim framfæranda sem býr með barninu í lok tekjuársins. Það er því ekki nægjanlegt að greiða meðlag með barni til að teljast framfærandi barns/barna.

Af hverju þurfa öll gögn að vera frá árslokum?

Samkvæmt íslenskum lögum skal við ákvörðun barnabóta miða við hjúskaparstöðu umsækjanda og búsetu barns í lok árs og þar sem barnabætur eru reiknaðar fyrir allt árið þurfa tekjuupplýsingar og upplýsingar um greiðslu barnabóta erlendis fyrir allt árið að liggja fyrir. Slíkar upplýsingar liggja eðli málsins samkvæmt ekki fyrir fyrr en að liðnu tekjuári.

Hvenær fæ ég barnabætur greiddar?

Barnabætur verða greiddar út í tveimur greiðslum 1. júní og 1. október hvert ár.

Fæ ég fyrirframgreiðslu barnabóta?

Almennt er ekki unnt að ákvarða EES barnabætur í fyrirframgreiðslu. Reynslan sýnir að nauðsynleg gögn, t.d. skattframtal maka sem býr erlendis, eru alla jafna ekki aðgengileg fyrir síðasta skiladag gagna vegna fyrirframgreiðslu, 28. febrúar ár hvert.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum