Fjárnám

Á öllum stigum fjárnámsferlisins er hægt að greiða kröfuna upp að fullu og stöðva þar með innheimtuna.

Greiðsluáskorun

Fimmtán dögum eftir birtingu greiðsluáskorunar í blöðum eða með stefnuvotti er innheimtumanni heimilt að senda sýslumanni fjárnámsbeiðni hafi gjaldandi ekki greitt kröfuna að fullu.

Frestun á útsendingu fjárnámsbeiðna

Útsendingu aðfararbeiðna er ekki frestað nema gerð sé skrifleg greiðsluáætlun um gjöldin. Greiðsluáætlanir eru gerðar hjá þjónustufulltrúa innheimtu- og skráasviðs Skattsins, Katrínartúni 6.

Ef um er að ræða áætlun skatta og gjalda er hægt að koma með staðfestingu á framtalsskilum og bráðabirgðaútreikning á gjöldunum og setja upp greiðsluáætlun á grundvelli þeirra gagna. Ágreiningur um skuld frestar ekki innheimtu. Enginn greinamunur er gerður á áætluðum gjöldum og álögðum gjöldum samkvæmt framtali. Allar gjaldfallnar skuldir eru innheimtar. Endanleg álagning er alltaf í höndum álagningaraðila.

Boðun til sýslumanns

Eftir að beiðni um aðför hefur verið send til sýslumanns er ekki hægt að gera greiðsluáætlun hjá þjónustufulltrúa fyrr en eftir að fyrirtöku hjá sýslumanni er lokið. Til að komast hjá fyrirtökunni er hægt að greiða kröfuna að fullu.

Boðun í fyrirtöku hjá sýslumanni fer fram með stefnuvotti og svarar sýslumaður fyrir störf hans. Dagsetningu á fyrirtöku er ekki breytt. Heimilt er að ljúka gerðinni hvort sem er með árangurslausu fjárnámi eða með fjárnámi í skráðum eignum gerðarþola, hafi boðun tekist, þó ekki hafi verið mætt í fyrirtökuna.

Hægt er að gera fjárnám í fasteign, lausafé eða hverri annarri eign sem komið verður í verð með nauðungarsölu og dugar sem trygging fyrir kröfunni. Ef bent er á fasteign verður hún að vera þinglesin eign gerðarþola eða þess sem mætir við gerðina. Öðrum en tilgreindum gerðarþola er óskylt að benda á eigin eignir til tryggingar kröfunni og er mættum leiðbeint um þetta við fyrirtökuna.

Gerðarbeiðandi getur krafist þess að fjárnámi verði lokið án árangurs ef enginn mætir af hálfu gerðarþola, þótt hann hafi sannanlega verið boðaður til hennar, og engin vitneskja liggur fyrir um eign sem gera má fjárnám í, sbr. 2. tl. 62. gr. laga um aðför.

Frestir eftir að fjárnámsbeiðni hefur verið send

Fjárnámsfyrirtöku er ekki frestað eftir að fjárnámsbeiðni hefur verið send sýslumanni.

Lyktir fjárnáms

Ef krafan er greidd að fullu er fjárnámsbeiðni afturkölluð. Vextir reiknast á gjöldin og hægt er að hafa samband til að fá uppfærða stöðu á gjöldunum ef ætlunin er að greiða kröfuna að fullu. Ef krafan er greidd að fullu sama dag og fyrirtakan á að fara fram er nauðsynlegt að gjaldandi hafi samband við lögfræðideild innheimtu- og skráasviðs ríkisskattstjóra svo að hún sé afturkölluð í tíma. Það getur tekið tvo virka daga fyrir greiðslu að berast inn á tiltekin gjöld ef greitt er í banka og því er sérstaklega mikilvægt að gjaldandi hafi samband ef svo stendur á og sendi kvittun á vanskil[hjá]skatturinn.is.

Verði fjárnámsbeiðni ekki afturkölluð lýkur gerðinni með fjárnámi í eign eða árangurslausu fjárnámi. Árangurslaust fjárnám er skráð á vanskilaskrá Creditinfo og á grundvelli árangurslauss fjárnáms er heimilt að krefjast gjaldþrotaskipta. Eftir fjárnám í eign er heimilt að biðja um nauðungarsölu á eigninni.

Greiðsluáætlun eftir fjárnám

Hægt er að gera greiðsluáætlun eftir fjárnám hjá sýslumanni hjá þjónustufulltrúa innheimtu- og skráasviðs Skattsins, Katrínartúni 6.

Með því að gera greiðsluáætlun eftir árangurslaust fjárnám hjá þjónustufulltrúa er hægt að koma í veg fyrir skráningu á vanskilaskrá Creditinfo. Greiðsluáætlun er þá gerð um öll gjaldfallin gjöld viðkomandi og verður hún að miðast við að verið sé að greiða gjöldin niður. Verði greiðslufall á greiðsluáætluninni eða hún ekki endurnýjuð verður beðið um að skráningin sé sett inn á vanskilaskrá á ný.

Með því að gera greiðsluáætlun vegna fjárnáms í eign er hægt að fresta útsendingu nauðungarsölubeiðni. Frestur er veittur í þrjá til fjóra mánuði í einu og hægt að endurnýja greiðsluáætlun einu sinni. Almennt er lengsti fresturinn því í heild sex til átta mánuðir. Verði greiðslufall á greiðsluáætluninni eða hún ekki endurnýjuð er nauðungarsölubeiðnin send út.

Nánari upplýsingar

Sýslumenn

Lög og reglur

 

Lög nr. 90/1989 um aðför
Lög nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum