Tryggingagjald
Tryggingagjald er sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna á tekjuári og eftir atvikum af eigin reiknuðu endurgjaldi. Tryggingagjald er almennt innheimt í staðgreiðslu og skiptist í almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald.
Tryggingagjald telst til launatengdra gjalda, en það eru þau gjöld sem launagreiðendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar greiða vegna launakostnaðar við atvinnurekstur. Önnur launatengd gjöld í staðgreiðslu eru markaðsgjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa, en þau eru innheimt í staðgreiðslu samhliða innheimtu tryggingagjalds. Í framkvæmd er markaðsgjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa gefið upp sem hluti af tryggingagjaldi.
Á staðgreiðsluárinu 2024 er tryggingagjaldshlutfallið samtals 6,35%. Þar af er tryggingagjaldið sjálft 4,90%, atvinnutryggingagjald 1,35%, og síðan bætast við gjald í ábyrgðasjóð launa (0,05%) og markaðsgjald (0,05%).
Tryggingagjaldi skal skila mánaðarlega til innheimtumanna ríkissjóðs.
Álagningarhlutfall tryggingagjalds
Rekstrarár | Hlutfall | |
---|---|---|
2024 | 6,35% | |
2023 | 6,35% | |
2022 | 6,35% | |
2021 | 6,10% | |
2020 | 6,35% | |
2019 | 6,60% | |
2018 | 6,85% | |
2017 | 6,85% | |
2016 | 7,35% / 6,85% | Hlutfall lækkaði í 6,85% frá og með 1.7.2016 |
2015 | 7,49% | |
2014 | 7,59% | |
2013 | 7,69% | |
2012 | 7,79% | |
2011 | 8,65% |
Sérstök trygging vegna sjómanna á fiskiskipum er 0,65% og bætist við almennt álagningarhlutfall.
Dæmi um útreikning tryggingagjalds í staðgreiðslu er að finna í fyrstu orðsendingu til launagreiðenda árlega.
Gjaldstofn
Stofn til tryggingagjalds eru allar tegundir skattskyldra launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem þær nefnast. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, hlunnindum, vöruúttekt, vinnuskiptum o.s.frv. Tekjur vegna kaupréttar á hlutabréfum teljast til tryggingagjaldsstofns á nýtingarári. Stofninn reiknast sem mismunur á gangverði og söluverði þegar rétturinn er nýttur. Til tryggingagjaldsskyldra hlunninda telst m.a. fæði, húsnæði, fatnaður, bifreiðaafnot og þess háttar. Þau skulu reiknuð á sama verði og þau eru metin til tekna samkvæmt skattmati. Önnur hlunnindi skulu metin til tekna eftir gangverði á hverjum stað og tíma. Til stofns telst enn fremur endurgjald sem ber að reikna manni sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Gjaldstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal almennt vera ákvarðað endurgjald í staðgreiðslu, en þó ekki lægri en 748.224 kr. árstekjur m.v. fullt starf.
Tilteknar greiðslur eru undanþegnar tryggingagjaldi. Þær eru eftirfarandi:
- Eftirlaun og lífeyrir sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, enda starfi lífeyrissjóðurinn eftir reglum sem fjármálaráðherra samþykkir og sjóðurinn sé háður eftirliti fjármálaráðuneytisins.
- Aðrar bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, þar með talið fæðingarorlof, svo og slysa- og sjúkradagpeningar stéttarfélaga.
- Bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa.
- Atvinnuleysisbætur.
- Greiðslur úr ríkissjóði vegna ríkisábyrgðar á launum.
- Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur þeim hluta slíkra greiðslna sem launagreiðandinn fær endurgreiddan úr Fæðingarorlofssjóði.
- Sá hluti arðs sem telja skal sem laun.
Sé um að ræða greiðslur til/vegna starfsmanna sem ekki teljast til skattskyldra launa eða hlunninda þeirra, s.s. samgöngugreiðslur sem uppfylla skilyrði þess að teljast ekki til skattskyldra tekna launþega, þá mynda þær greiðslur/kostnaður ekki stofn til tryggingagjalds eða fjársýsluskatts, enda séu uppfyllt öll skilyrði sem fram koma í lögum og eftir atvikum í skattmati.
Tryggingagjald vegna starfsmanna með A1 (áður E-101) vottorð:
Launagreiðendur hér á landi verða ekki að lögum krafðir um fullt tryggingagjald af launagreiðslum til erlendra starfsmanna þ.e. borgara í einhverju EES ríkjanna sem ráðnir eru til árs eða skemmri tíma til starfa hér á landi. Skal því ekki leggja fullt tryggingagjald á launagreiðendur vegna launa starfsmanna ef launagreiðandinn staðfestir með framvísun vottorðsins A1, útgefnu af bærum yfirvöldum í heimalandi starfsmannsins og aðildarríki EES samningsins, að launþeginn falli undir tryggingalöggjöf þess lands, þrátt fyrir tímabundið starf á Íslandi. Undanþágan tekur til þess hluta tryggingagjalds sem varið er til atvinnutrygginga, almannatrygginga og félagslegs öryggis, þ.e. þess hluta gjaldsins er rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs, Tryggingastofnunar ríkisins og Fæðingarorlofssjóðs.
Á staðgreiðsluárinu 2024 er tryggingagjaldshlutfallið vegna þessa hóps 0,425%.
Gjaldskyldir aðilar
Gjaldskyldan tekur til allra launagreiðenda, svo sem einstaklinga, félaga, sjóða og stofnana, sveitarfélaga og stofnana þeirra, ríkissjóðs, ríkisstofnana, erlendra verktaka og annarra aðila, sem greiða laun eða hvers konar þóknanir fyrir störf. Enn fremur tekur gjaldskyldan til allra þeirra sem vinna við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi. Ef milligöngumaður annast launagreiðslur á hann að gegna skyldum gjaldskylds aðila varðandi skil og greiðslur samkvæmt lögum um tryggingagjald. Sama gildir um umboðsmann erlendra aðila, sem hingað koma í atvinnuskyni, til skemmtunar eða keppni.
Greiðslutímabil
Gjaldskyldur aðili skal ótilkvaddur greiða tryggingagjald til innheimtumanns ríkissjóðs. Almennt greiðslutímabil er almanaksmánuður. Gjalddagi er 1. hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi 14 dögum síðar.
Ef laun til starfsmanna, og eftir atvikum reiknað endurgjald gjaldanda, nema samtals lægri fjárhæð en 42.000 kr. að meðaltali á mánuði er heimilt að senda skilagrein ásamt greiðslu á gjalddaga þess mánaðar þegar samanlagt reiknað endurgjald og greidd laun til annarra ná 504.000 kr. á árinu, en eftir það á hverjum gjalddaga vegna þess árs. Er um undantekningu að ræða frá meginreglunni um mánaðarleg skil.
Ef reiknað endurgjald eða greidd vinnulaun til annarra ná eigi til samans 504.000 kr. á árinu, er gjaldanda heimilt að senda skilagrein ásamt greiðslu einu sinni á ári eins og um uppgjör fyrir desember væri að ræða.
Sá sem á að greiða tryggingagjald samkvæmt launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra og er ekki í rafrænum skilum vegna staðgreiðslu og tryggingagjalds fær sendan gíróseðil, RSK 5.10, áritaðan með upplýsingum um greiðanda og greiðslutímabil. Gerð er grein fyrir tryggingagjaldi og staðgreiðslu á þeim seðli.
Gjalddagi tryggingagjalds sem er vegna launa, greiðslna og hlunninda utan staðgreiðslu, er 1. júlí ár hvert og eindagi mánuði síðar. Ber þá að greiða tryggingagjald af hlunnindum næstliðins árs í einu lagi. Ber að telja þau fram á launaframtali eftir lok árs á verði sem fram kemur árlega í skattmati ríkisskattstjóra. Er hér einkum um að ræða óverulegar fjárhæðir sem eru vegna reiknaðs endurgjalds, greiðslur húsfélaga, greiðslur fyrir heimilishjálp, höfundarlaun o.fl.
Fríðindi og hlunnindi, svo sem fatnaður, fæði, húsnæði og afnot bifreiða, mynda stofn til tryggingagjalds eftir almennu reglunni, þannig að því ber að skila jafnóðum. Þá skal sérstaklega á það bent að berist skilagrein eða greiðsla ekki fyrir eindaga eða skilagrein er ábótavant, skal ríkisskattstjóri áætla greiðsluskylda fjárhæð.
Í fyrstu orðsendingu hvers árs vegna staðgreiðslu er sett fram dæmi um útreikning tryggingagjalds.
Tryggingagjald í álagningu
Að liðnu staðgreiðsluári eiga tryggingagjaldsskyldir aðilar að standa skil á launaframtali með skattframtali á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Á launaframtalið á launagreiðandi að færa launagreiðslur næstliðins árs og aðrar upplýsingar og sundurliðanir, sem þarf til ákvörðunar tryggingagjalds. Telja ber fram hlunnindi næstliðins árs sem undanþegin eru staðgreiðslu á verði sem fram kemur í skattmati ríkisskattstjóra vegna umrædds árs. Við álagningu opinberra gjalda ákvarðar ríkisskattstjóri tryggingagjald gjaldskylds aðila samkvæmt launaframtali hans.
Rekstrarkostnaður
Tryggingagjald telst rekstrarkostnaður að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður.
Tryggingagjald hjá félögum með annað reikningsár en almanaksárið
Þar sem ekki fer saman reikningsár og almanaksárið skal miða gjaldstofn tryggingagjalds við launagreiðslur almanaksársins samkvæmt launamiðum.
Nánari upplýsingar um annað reikningsár
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Almennt um tryggingagjald – lög nr. 113/1990, um tryggingagjald
Gjalddagi vegna launa, greiðslna og hlunninda utan staðgreiðslu - 6. mgr. 12. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald
Greiðslur undanþegnar tryggingagjaldi – 9. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald
Greiðslur utan staðgreiðslu – 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu
Innheimta tryggingagjalds – lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda
Staðgreiðsla tryggingagjalds – 10. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald
Stofn til tryggingagjalds – 3. kafli laga nr. 113/1990, um tryggingagjald
Annað
Launaframtal félaga með annað reikningsár
Starfsmenn með E-101 vottorð (nú A1)