Ákvarðandi bréf nr. 002/2005
Tryggingagjald vegna starfsmanna með E-101 vottorð
2. ágúst 2005 T-Ákv. 05-002 Tilvísun: 2005-04-0274
Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 95/2005 er fjallað um ágreining sem erlent félag með útibú hér á landi hafði gert um skattframkvæmd. Snerist málið fyrst og fremst um skattalega skyldur fyrirtækisins vegna starfsmanna sem ráðnir voru til starfa hér á landi, ýmist beint til útibúsins, af höfuðstöðvum félagsins erlendis, eða fengnir til starfa fyrir milligöngu erlendra vinnuaflsleiga.
Í framangreindum úrskurði staðfestir yfirskattanefnd skyldu útibúsins, sem launagreiðanda, til að halda eftir og skila staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna, þ.m.t. þeirra sem fengnir eru til starfa fyrir milligöngu vinnuleiga. Skyldan er óháð rétti til að skattleggja starfsmennina af umræddum launum samkvæmt þeim tvísköttunarsamningum sem við kunna að eiga í hverju tilviki.
Í einu mikilvægu atriði er úrskurður yfirskattanefndar ekki í samræmi við þær forsendur sem lagðar hafa verið til grundvallar í skattframkvæmd. Á það við um það að leggja á launagreiðandann að greiða tryggingagjald vegna starfsmanna sem koma frá einhverju EES landanna og ráðnir eru til starfa í eitt ár eða skemur og framvísa vottorði um aðild að almannatryggingakerfi hins erlenda ríkis þrátt fyrir tímabundið starf á Íslandi, svokölluðu E-101 vottorði.
Í úrskurði nefndarinnar segir svo:
Það leiðir af ákvæðum 3. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, að tekjum ríkisins af tryggingagjaldi er að miklu leyti ráðstafað til málefna sem falla með beinum hætti undir gildissvið reglugerðar nr. 1408/71/EBE, sbr. j-lið 1. gr. og 4. gr. umræddrar reglugerðar [................... ...................] Af dómum dómstóls EB verður glöggt ráðið að það hefur verið talið andstætt ákvæðum reglugerðar nr. 1408/71/EBE, sbr. 13. gr. hennar, ef launþega, sem reglugerðin nær til, er gert að greiða gjöld af sömu tekjum til að fjármagna samfélagslegar tryggingar í fleiri en einu aðildarríki, þ.e. bæði í því ríki þar sem hann starfar sem og í því ríki þar sem hann hefur fasta búsetu, auk þess sem slík aðstaða hefur verið talin fela í sér brot á ákvæðum samningsins um Evrópusambandið varðandi frjálsa för launafólks og frelsi til atvinnustarfsemi, sbr. nú 39. og 43. gr. þess samnings. Þá hefur á sama hátt og við ákveðnar aðstæður verið tali andstætt frelsisákvæðum samningsins að fyrirtæki sé gert að inna af hendi slík framlög í fleiri en einu aðildarríki vegna vinnu sömu starfsmanna á sama tímabili [................ .................] Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, þykir bera að skýra ákvæði laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, til samræmis við ákvæði 28. gr. EES-samningsins og reglugerðar nr. 1408/71/EBE, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993. Verður því að fallast á með umboðsmönnum kæranda að kærandi verði að lögum ekki krafinn um tryggingagjald af launagreiðslum til þeirra erlendu starfsmanna á vegum kæranda sem falla undir fyrrgreind sérákvæði 14. gr. reglugerðarinnar vegna tímabundinna starfa hér á landi og teljast þar af leiðandi ekki tryggðir hér á landi samkvæmt reglugerðinni.
Eins og þessi tilvitnun ber með sér telur yfirskattanefnd að launagreiðendur hér á landi verði ekki að lögum krafðir um tryggingagjald af launagreiðslum til erlendra starfsmanna sem falla undir 14. gr. reglugerð nr. 1408/71/EBE. Er þar um að ræða borgara í einhverju EES ríkjanna sem ráðnir eru til árs eða skemmri tíma til starfa hér á landi og framvísa vottorði E-101, til sönnunar því að þeir eigi aðild að almannatryggingum í heimalandi sínu þrátt fyrir starf sitt hér.
Með hliðsjón af framangreindu beinir ríkisskattstjóri því til skattstjóra að framvegis verði álagningu tryggingargjalds og ákvörðun staðgreiðslu þess hagað í samræmi við framangreindan úrskurð yfirskattanefndar. Skal því ekki leggja fullt tryggingagjald á launagreiðendur vegna launa starfsmanna ef launagreiðandinn staðfestir með framvísun vottorðsins E-101, útgefnu af bærum yfirvöldum í heimalandi starfsmannsins og aðildarríki EES samningsins, að launþeginn falli undir tryggingalöggjöf þess lands, þrátt fyrir tímabundið starf á Íslandi. Undanþágan tekur til þess hluta tryggingagjalds sem varið er til atvinnutrygginga, almannatrygginga og félagslegs öryggis, þ.e. þess hluta gjaldsins er rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs, Tryggingastofnunar ríkisins og Fæðingarorlofssjóðs.
Undanþágan tekur hins vegar ekki til þess hluta tryggingagjalds sem rennur til Vinnueftirlits ríkisins, Staðlaráðs og Icepro, samtals 0,088% af gjaldstofni vegna tekjuáranna 2003 og 2004. Þá tekur undanþágan hvorki til markaðsgjald, 0,05% af gjaldstofni né til gjalds í ábyrgðarsjóð launa, 0,04% af gjaldstofni.
Hjálögð er tafla sem sýnir tryggingagjald og önnur gjöld sem reiknuð eru af sama gjaldstofni vegna almennra launþega annars vegar og launþega með E-101 vottorð hins vegar tekjuárin 2004 og 2005.
Ríkisskattstjóri.