Skattskylda hlaðvarpa

Tekjur af hlaðvarpi eru skattskyldar og þær ber að telja fram. Í einhverjum tilvikum er um atvinnurekstur að ræða og fari veltan yfir tvær milljónir er starfsemin virðisaukaskattsskyld.

Hvað eru tekjur

Algengt er að hlaðvörp séu notuð sem auglýsingamiðill. Þannig kunna rekstraraðilar hlaðvarpa að eiga í samstarfi við fyrirtæki sem felst í að auglýsa vöru eða þjónustu viðkomandi fyrirtækis í hlaðvarpinu gegn ákveðnu gjaldi.

Dæmi um skattskyldar tekjur hlaðvarpa:

  • sala auglýsinga
  • sala áskrifta
  • greiðslur frá streymisveitum
  • tekjur af lifandi viðburðum (e. live show)
  • aðstöðuleiga (t.d. vegna útleigu á hljóðveri/búnaði)
  • sala varnings (e. merch)

Listinn er ekki tæmandi.

Tekjur í öðru formi en peningum

Enginn munur er á skattskyldu eftir formi greiðslunnar. Greiðsla í formi vöru, þjónustu eða vildarkjara er jafn skattskyld og þegar greitt er í peningum.

Þegar kemur að því að meta virði greiðslna á öðru formi en peningum er almenna reglan sú að skattskyldan miðast við gangverð eða markaðsverð.

En sé um að ræða hlunnindi svo sem afnot af bíl eða húsnæði miðast virði við skattmat ríkisskattstjóra hverju sinni.

Atvinnurekstur

Við mat á því hvort um atvinnurekstur sé að ræða er einkum horft til þess hvort um sjálfstæða starfsemi er að ræða sem rekin er reglubundið og í nokkru umfangi í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði.

Tekjurnar eru þá taldar fram á rekstrarframtali og heimilt að draga rekstrarkostnað frá. Persónulegan kostnað má ekki færa til frádráttar á rekstrarframtali.

Ef ekki er um að ræða atvinnurekstur eru tekjurnar skattskyldar eins og almennar launatekjur. Enginn frádráttur er þá heimill.

Virðisaukaskattur

Fari veltan yfir tvær milljónir kr. á 12 mánaða tímabili er starfsemin virðisaukaskattsskyld og þurfa stjórnendur hlaðvarpa að skrá sig á virðisaukaskattsskrá og innheimta virðisaukaskatt.

Almennt skatthlutfall virðisaukaskatts er 24% en í undantekningartilvikum ber sala á vöru og þjónustu 11% virðisaukaskatt.

Skattþrep virðisaukaskatts eru tvö, hið almenna 24% og svo hið lægra 11% sem er aðeins fyrir sérstaka vöruflokka. Ekki verður annað séð en að öll vöru- og þjónustusala rekstraraðila hlaðvarpa falli undir hið almenna skatthlutfall og beri þar af leiðandi 24% virðisaukaskatt.

Leiðbeiningar

Skoða ítarlegar leiðbeiningar um skattskyldu hlaðvarpa.

Opna leiðbeiningabækling RSK 12.20


Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar

Lög um virðisaukaskatt - lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Lög um tekjuskatt - lög nr. 90/2003, um tekjuskatt

Leiðbeiningar

Leiðbeiningabæklingur RSK 12.20 um skattskyldu hlaðvarpa

Að hefja rekstur

Linkur á launagreiðendaskrá


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum