Rafræn skilríki og veflyklar

Ríkisskattstjóri leggur áherslu á að rafræn skilríki verði í auknum mæli notuð til auðkenningar og þar sem við á, einnig til undirritunar. Rafræn skilríki eiga með tímanum að leysa drjúgan hluta veflykla af hólmi.

Hver einstaklingur og hvert félag getur átt allt að fjóra veflykla. Annars vegar eru það almennir lyklar, sem eru aðalveflykill og skilalykill fagaðila. Hins vegar sérlyklar til nota í atvinnurekstri, fyrir rafræn skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Þeir nýtast að auki til rafrænna skila á öðrum gjöldum og sköttum, s.s. fjársýsluskatti, tryggingagjaldi, fjármagnstekjuskatti og gistináttaskatti.

Rafræn skilríki

Rafræn skilríki eru ætluð til notkunar í rafrænum samskiptum. Þau má nota til að auðkenna sig rafrænt, t.d. við innskráningu á þjónustuvef ríkisskattsjóra skattur.is. Einnig má nota rafræn skilríki til að undirrita rafræn skjöl og jafngildir sú undirritun því að pappírsgögn séu undirrituð eigin hendi.

Þegar hægt er að nálgast sífellt meiri upplýsingar á einum stað aukast kröfur um öryggi gagna. Ríkisskattstjóri leggur áherslu á að rafræn skilríki verði í auknum mæli notuð til auðkenningar og einnig, þar sem við á, til undirritunar.

Með notkun rafrænna skilríkja er hægt að auka öryggi, einfalda aðgangsstýringu og draga verulega úr umsýslu með veflykla. Að auki mun væntanleg aðgangsstýring ríkisskattstjóra gefa notendum rafrænna skilríkja kost á að stýra aðgangi að eigin upplýsingum og ákveða þar með öryggisstig gagna sinna sjálfir. Á það ekki síst við um atvinnufyrirtæki.

Einstaklingar geta nýtt sér rafræn skilríki til auðkenningar á þjónustuvef skattyfirvalda og til skila á skattframtali.

skilriki.is

Á vefsíðunni skilriki.is er að finna gagnlegar upplýsingar um rafræn skilríki í farsíma og skilríki á debetkortum og einkakortum.
Þá veitir audkenni.is nánari upplýsingar um rafræn skilríki. Sjá einnig síðuna Rafræn skilríki hér á skatturinn.is.

Almennir veflyklar

Allir framtalsskyldir einstaklingar og félög eiga almenna veflykla. Veflykill er aðgangsorð fyrir rafræn samskipti framteljenda við skattyfirvöld á þjónustusíðunni skattur.is. Þar er hægt að skila skattframtali, auk þess sem margs konar önnur þjónusta er í boði. Veflyklarnir eru gefnir út af ríkisskattstjóra.

Þegar framteljandi notar aðallykilinn til að skrá sig í fyrsta sinn á skattur.is þarf hann að breyta lyklinum og verður hann þá varanlegur og þar með dulkóðaður í gagnagrunnum ríkisskattstjóra. Fái notandi veflykil sendan í vefbanka (sjá kaflann Sækja veflykil) fær hann sjálfkrafa stöðuna varanlegur, óháð því hvort týndi lykillinn hafi verið notaður áður.

Varanlegur veflykill opnar aðgang að allri þjónustu á skattur.is (þó ekki að rafrænum skilum á staðgreiðslu og virðisaukaskatti).

Auk aðallykilsins eiga allir lykil sem heitir Skilalykill fagaðila.

Aðalveflykill

Aðalveflykill veitir aðgang að eigin þjónustusíðu á skattur.is. Hann er gefinn út af ríkisskattstjóra og er til einkanota fyrir gjaldanda. Fái hann annan til að annast skil fyrir sig skal nota Skilalykil fagaðila.

Einstaklingar

Aðallykill einstaklinga hefur ótakmarkaðan gildistíma og er ekki endurnýjaður. 

Börn yngri en 16 ára eiga ekki veflykil. Þegar skila þarf skattframtali barns er það gert á þjónustusíðu framfæranda barnsins og með veflykli hans.

Aðgangur hjóna

Hjón eiga hvort sína þjónustusíðuna. Þar hafa þau bæði aðgang að sameiginlegu framtali og öðrum sameiginlegum gögnum, s.s. afritum af framtölum fyrri ára. Upplýsingar sem alfarið tilheyra öðru hjóna er ekki hægt að sjá á þjónustusíðu hins (t.d. yfirlit úr staðgreiðsluskrá, greiðslustöðu hjá Fjársýslu ríkisins og eignir skv. Ökutækjaskrá).

Hver einstaklingur á sinn lykil.

Með því að úthluta hverjum einstaklingi eigin veflykli er hægt að veita aðgang að persónulegum gögnum án tillits til hjúskaparstöðu eða breytinga á henni. Hafi einstaklingar skilið að skiptum hefur fyrrverandi sambúðaraðili ekki aðgang að öðru en eldri sameiginlegum skattagögnum.

Erlendis búsettir

Framteljendur með lögheimili erlendis fá hvorki áritað framtal né veflykil. Þeir sem töldu fram á vefnum á fyrri árum geta notað veflykla sína áfram. Aðrir geta sótt um að fá úthlutað veflykli. Það er gert undir Meira>Erlendis búsettir á þjónustuvefnum skattur.is. Svar ríkisskattstjóra, ásamt veflykli, er sent bréflega (ekki í tölvupósti) til umsækjanda eða til umboðsmanns ef hann er tilgreindur í umsókninni.

Fyrirtæki

Aðallykill félaga hefur ótakmarkaðan gildistíma og er ekki endurnýjaður. Í byrjun hvers árs fá aðeins nýir lögaðilar á skattgrunnskrá sent veflyklabréf með aðallykli og skilalykli.

Aðallykill veitir sýn á öll gögn sem skilað er fyrir félagið í gagnaskilakerfinu (launamiðar o.þ.h.) en aðrir lyklar hafa einungis sýn á þau gögn sem þeir voru notaðir við skil á. Séu réttindi vegna staðgreiðslu og virðisaukaskatts afrituð á aðallykilinn veitar hann aðgang að þeim þáttum líka. Handhafi aðallykils getur sjálfur breytt honum á þjónustusíðu félagsins ef þurfa þykir.

Óskattskyld félög

Óskattskyld félög eru lögaðilar sem er ekki gert að greiða tekjuskatt. Þau fá ekki sjálfkrafa úthlutað veflyklum en geta sótt um þá ef/þegar þau þurfa að eiga samskipti við skattyfirvöld.

Sömu reglur gilda um veflykla þeirra og annarra veflyklahafa. Þessi félög geta þurft að skila gögnum vegna greiddra launa, VSK-skyldrar sölu eða vegna fjármagnstekna. Þá geta t.d. húsfélög notað veflykil til að sækja um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðhalds og endurbóta.

Óskattskyld félög eru einkum opinberar stofnanir, félög sem ekki reka atvinnu og félög undanþegin skattskyldu samkvæmt sérlögum. Einnig falla hér undir þau félög, samtök og sjóðir sem verja hagnaði af starfsemi sinni einungis til almenningsheilla.

Sem dæmi um óskattskyld félög má nefna ríkisfyrirtæki, skóla og fyrirtæki sveitarfélaga, tómstunda- og áhugamannafélög, íþróttafélög, húsfélög, stéttarfélög, styrktarsjóði og líknarfélög. Einnig trúfélög og söfnuði, vísinda-, menningar- og fræðslufélög, stjórnmálafélög, björgunarsveitir og dýraverndunarfélög.

Dánarbú

Forráðendur dánarbúa geta sótt um veflykil til að skila framtali vegna tekna á andlátsári, með því að fylla út umsókn á skattur.is, undir sækja veflykil. Svar ríkisskattstjóra, ásamt veflykli, er sent bréflega (ekki í tölvupósti) til umsækjanda.

Ef skila þarf framtali fyrir næsta ár á eftir dánarári, eða síðar, þarf að nota Skattframtal dánarbús RSK 1.03. Það eyðublað er ekki til á rafrænu formi.

Skilalykill fagaðila

Þessi lykill er ætlaður til afhendingar þeim sem annast skil á gögnum til skattyfirvalda fyrir hönd framteljanda. Hann er aðallega notaður af þeim sem atvinnu hafa af framtalsgerð.

Skilalykillinn veitir allan þann aðgang sem nauðsynlegur er til að skila skattframtali, fylgiskjölum og öðrum gögnum sem tengjast framtalsgerð, en ekki að öðrum gögnum og upplýsingum á þjónustusíðunni.

Með skilalykli er hægt að skila framtali og ársreikningi beint úr þeim framtalskerfum sem notuð eru af flestum endurskoðendum og bókurum. Einnig launamiðum, verktakamiðum og öðrum sambærilegum gögnum beint úr launa- og bókhaldskerfum. Lykillinn veitir sömu réttindi til að skila þessum gögnum á þjónustusíðu. Með skilalyklinum er einnig hægt að skoða þau gögn á þjónustusíðunni sem hann var notaður til að skila.

Sækja veflykil

Hafi aðallykill týnst eða glatast af öðrum orsökum er unnt sækja um nýjan lykil á skattur.is, undir Sækja veflykil. Nýr lykill er þá sendur í vefbanka strax eða í pósti á lögheimili innan tveggja virkra daga. Einnig getur eigandi snúið sér til ríkisskattstjóra og fengið afhentan veflykil gegn framvísun persónuskilríkja.

Einungis einstaklingar geta fengið veflykilinn sendan í vefbanka.

Ef sérstakir lyklar vegna staðgreiðslu eða virðisaukaskatts týnast má hafa samband við þjónustuver ríkisskattstjóra í síma 442-1000 eða í tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is.

Veflyklar sendir í vefbanka

Veflykill er sendur sem „rafrænt skjal“ í vefbanka og er hægt að finna undir rafrænum skjölum.

Fyrirvari

Veflykillinn er eign ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri hvetur handhafa veflykla Skattsins til að varðveita þá vel og láta óviðkomandi aðilum veflyklana ekki í té. Öll afhending veflykla til óviðkomandi getur upplýst þann aðila um persónuleg málefni er snerta fjárhagsstöðu framteljanda og samskipti hans við ríkisskattstjóra. Ef endurskoðandi eða bókari annast framtalsgerð fyrir framteljanda skal afhenda honum skilalykil fagaðila, sem veitir ekki jafn víðtækan aðgang og aðalveflykill.

Ríkisskattstjóri ber ekki ábyrgð á því tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna auðkenningar, notkunar veflykils eða aðgerða notanda á þjónustusíðu ríkisskattstjóra.

Veflyklar fyrir staðgreiðslu og VSK

Rafræn skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti er bæði hægt að gera á  þjónustuvefnum skattur.is og með sendingum beint úr launa- og bókhaldskerfum. Veflyklar fyrir staðgreiðslu og virðisaukaskatt eru “yfirlyklar”  og hvorki er hægt að breyti virkni þeirra né eyða þeim.

Sá sem er með staðgreiðslulykil getur skilað staðgreiðslu og skoðað öll staðgreiðsluskil framteljanda á þjónustusíðu hans, án tillits til hver skilaði upplýsingunum og á hvaða lykli. En staðgreiðslulykill veitir einungis aðgang að þeim gögnum sem skilað var með honum í gagnaskilum (launamiðar, verktakamiðar o.s.frv.). Sams konar takmarkanir gilda um virðisaukaskattslykilinn.

Skil á öðrum gjöldum

Þessir sérlyklar nýtast einnig til rafrænna skila á öðrum sköttum og gjöldum. Auk staðgreiðslu opinberra gjalda af launum er staðgreiðslulykillinn notaður til að skila tryggingagjaldi, fjármagnstekjuskatti og fjársýsluskatti. Auk virðisaukaskatts er VSK-lykillinn notaður til að skila gistináttaskatti.

Staðgreiðslulykil má að auki nota í gagnaskilum vegna t.d. launamiða og verktakamiða.

Að hefja rafræn skil

Einstaklingar og félög í atvinnurekstri sem ekki eru í rafrænum skilum á staðgreiðslu og/eða virðisaukaskatti, geta stofnað til þeirra "með einum smelli" á þjónustusíðu sinni. Aðeins handhafi aðallykils getur stofnað til rafrænna skila. Ekki þarf að senda inn undirritaða umsókn til afgreiðslu heldur er umsókn afgreidd á skattur.is.

Umsækjandi skráir sig inn á www.skattur.is, með kennitölu og aðalveflykli. Undir flipanum "Vefskil" er boðið upp á að opna fyrir rafræn skil á staðgreiðslu og/eða virðisaukaskatti. Umsækjandi fær úthlutað föstum lykli (Staðgreiðsla og/eða Virðisaukaskattur) og getur hvort heldur sem er notað hann eða aðallykilinn. Réttindi hins nýja lykils bætast sjálfkrafa inn á aðallykilinn, svo ekki þarf að “afrita réttindi” eins og lýst er í næsta kafla, Allt í einum lykli. Nýir lyklar bætast í veflyklayfirlitið á síðunni “Veflyklar”.

Skilyrði fyrir því að fá lyklana eru að umsækjandi sé á launagreiðendaskrá vegna staðgreiðslulykils og handhafi virðisaukaskattsnúmers vegna VSK-lykils. Hjá þeim sem eru með umfangsmeiri rekstur nýtast þessir sérlyklar til aðgangsstýringar.

Ef sótt er um rafræn skil á staðgreiðslu og/eða virðisaukaskatti eftir öðrum leiðum en á þjónustusíðu, t.d. í vefbanka eða með bréflegri umsókn til ríkisskattstjóra, þarf að “afrita réttindi” eins og lýst er í næsta kafla, ef notandi kýs að hafa allan aðgang á einum lykli.

Fyrirvari

Ríkisskattstjóri ber ekki ábyrgð á því tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna auðkenningar, notkunar veflykils eða aðgerða notanda, hvort sem notandi hefur auðkennt sig inn á þjónustusíðu ríkisskattstjóra eða notað veflykilinn til auðkenningar inn á þjónustusíður annarra stofnana í gegnum island.is.

Veflykillinn er eign ríkisskattstjóra.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum