Virðisaukaskattur

Skil á virðisaukaskatti skulu vera rafræn. Virðisaukaskattsskýrslur ber að senda rafrænt til skattyfirvalda og greiða skattinn rafrænt í vefbanka.

Þeir sem koma nýir á virðisaukaskattsskrá fá úthlutað veflykli til rafrænna skila. Þeir sem þegar eru á skrá sækja um rafræn skil á þjónustuvef ríkisskattstjóra. Það er gert með því að skrá sig inn á skattur.is á varanlegum aðalveflykli og undir liðnum Vefskil er boðið upp á að sækja um rafræn skil með einum smelli. Umsækjandi fær þá veflykil fyrir virðisaukaskatt, sem er virkur strax við úthlutun.

Hægt er að fá heimild hjá ríkisskattstjóra til eins árs í senn til að skila á pappírsformi, ef ástæður eru fyrir hendi sem ríkisskattstjóri metur gildar. 

Ávinningur af rafrænum skilum er margþættur. Það sparar tíma að skila skýrslu og greiða á netinu. Villuprófun kemur í veg fyrir innra ósamræmi í skýrslunni, álagsútreikningur er sjálfvirkur og alltaf er hægt að nálgast yfirlit yfir fyrri skil og móttökukvittanir. Svo eru rafræn skil opin allan sólarhringinn. Að auki fá notendur tölvupóst til áminningar um gjalddaga ásamt orðsendingum um breytingar og nýmæli.

Hvar er skilað rafrænt?

Það eru þrjár leiðir í boði til að skila virðisaukaskatti rafrænt. Á þjónustuvef ríkisskattstjóra, skattur.is, eru skilin undir liðnum Vefskil. Þar eru leiðbeiningar um útfyllingu einstakra liða virðisaukaskattsskýrslunnar og um greiðslu. Þá er hægt er að skila virðisaukaskattsskýrslum í flestum vefbönkum banka og sparisjóða og jafnframt að greiða kröfuna. Sé sótt um rafræn skil í vefbanka Íslandsbanka verða þau einnig strax virk. Einnig er hægt að skila virðisaukaskattsskýrslum rafrænt beint úr þeim bókhaldskerfum sem bjóða upp á rafræn skil.

Skýrslugerð og greiðsla

Skýrslugerðin sjálf er bæði einföld og fljótleg. Það er hægt að skila rafrænt greiðslu-, inneignar- og núllskýrslum. Sé um greiðsluskýrslu að ræða stofnast samstundis krafa í kröfupotti reiknistofu banka og sparisjóða. Kröfuna sækir svo greiðandi í vefbanka sinn þegar hann vill greiða hana. Kröfuna er hægt að greiða til kl. 21 á gjalddaga, en ef krafan er 10.000.000 kr. eða hærri er einungis hægt að greiða til kl. 16:15. Sé krafa ekki greidd á gjalddaga er hún uppreiknuð með álagi sem er 1% á dag í 10 daga talið frá gjalddaga. Eftir það er hún ekki sýnileg lengur í vefbanka.

VSK-skýrsla eða krafa finnst ekki í heimabanka

Ef krafa finnst ekki í heimabanka eða ef erfitt reynist að greiða virðisaukaskattinn rafrænt er besti kosturinn að greiða með millifærslu á bankareikning Skattsins. Hér má sjá bankaupplýsingar:

Kennitala: 540269-6029

Banki: 0101

Höfuðbók: 26

Reikningsnúmer: 85002

Senda þarf kvittun á netfangið 85002@skatturinn.is með virðisaukaskattsnúmeri og uppgjörstímabili í skýringu.

Greiða má öll opinber gjöld á ofangreindan reikning. 

Leiðréttingar

Komi í ljós að áður innsend virðisaukaskattsskýrsla hafi verið röng er hægt að senda leiðréttingu á henni með rafrænum hætti á þjónustusíðu ríkisskattstjóra. Velja þarf að „Leiðrétta skýrslu“ í stað „Skila skýrslu“. 

Þjónustusíða ríkisskattstjóra

Hafi skattframtali verið skilað fyrir umrætt ár er þó ekki hægt að senda leiðréttingu rafrænt og því þarf að senda pappírs skýrslu RSK 10.03, senda á netfangið skatturinn@skatturinn.is og setja í efni skýringu ásamt virðisaukaskattsnúmeri og uppgjörstímabili. 

Eyðublöð (RSK 10.03) 

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði - reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði

Tímabundin aukin endurgreiðsla - reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum