Saga FATF samstarfs

Með vaxandi heimsvæðingu og frelsi í fjármagnsflutningum á milli landa var talið að peningaþvætti hafi orðið alþjóðlegt vandamál og undirstaða skipulagðrar glæpastarfsemi og hryðjuverka. Til að sporna við þessu hefur verið gripið til ýmissa aðgerða á alþjóðavettvangi. Má þar fyrst nefna samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni (fíkniefnasamningurinn), samþykktur í Vín 19. desember 1988. Í honum var gerð krafa um að peningaþvætti sem afrakstur ólöglegrar meðferðar fíkniefna yrði gert refsivert. Í öðru lagi alþjóðasamning til að koma í veg fyrir fjármögnun fíkniefna, samþykktur í New York 1999. Ísland er aðili að báðum fyrrnefndum samningum. Einnig ber að nefna Evrópuráðssamning um þvætti á illa fengnu fé o.fl. (þvættissamningurinn) en hann öðlaðist gildi á Íslandi árið 1998 ásamt fyrrnefndum fíkniefnasamning með breytingarlögum á hegningarlögum nr. 10/1997.

Í París árið 1989 var ákveðið að tilstuðlan G7 ríkjanna svokölluðu, sjö þróuðustu iðnríkja heims, að setja á stofn alþjóðlegan vinnuhóp, Financial Action Task Force on Money Laundering (FATF) gagngert til að koma í veg fyrir að fjármálakerfið væri misnotað með þeim hætti að þvætta illa fengið fé. FATF gaf út 40 tilmæli til aðildarríkja árið 1990 og síðan þá hafa 9 bæst við. Þessi tilmæli eru til þess fallin að samræma aðgerðir ríkja gegn peningaþvætti. Tilmælin setja ríkjum skýrar kröfur m.a. um innleiðingu  laga, framkvæmd á sviði stjórnsýslu, refsiréttar og gagnkvæmrar lögfræðilegrar aðstoðar. Ísland gekk inn í FATF árið 1991 en með því skuldbatt ríkið sig til þess að samræma löggjöf og starfsreglur að tilmælum FATF.

G20 ríkin komu síðar á alþjóðlegu eftirlitskerfi FATF en þau ríki samanstanda af Evrópusambandinu auk 19 annarra ríkja. FATF hefur komið hingað til lands og gert úttektir á stöðu mála hér á landi. Árið 2016 var í fyrsta skipti gefin út svokölluð áhættumatsskýrsla varðandi peningaþvætti á Íslandi. Árið 2018 gaf FATF út úttektarskýrslu á Íslandi en helstu niðurstöður hennar voru að innra samstarf og samhæfingu væri ábótavant á Íslandi til þess að takast á við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Evrópusambandið hefur aukinheldur lagt mikla áherslu á að berjast gegn peningaþvætti. Í þeim tilgangi hafa verið samþykktar fimm tilskipanir en þær eru samhljóða áðurnefndum tilmælum FATF enda er vinna þess hóps leiðbeinandi á heimsvísu. Hafa þessar tilskipanir verið innleiddar í lög hér á landi. Fyrsta tilskipunin var innleidd í þágildandi lögum um peningaþvætti nr. 80/1993 annars vegar og hins vegar með breytingum á hegningarlögum. Önnur tilskipun var innleidd með lögum um peningaþvætti nr. 42/2003. Þriðja tilskipunin var innleidd með lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64/2006 en með þeirri löggjöf voru eldri lög nr. 80/1993 felld á brott. Fjórða peningaþvættistilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/849/ESB var ætlað að taka við af þriðju peningaþvættistilskipuninni. Þótti tilefni til þess að gera hana í kjölfar hryðjuverkaárása í Frakklandi og Belgíu, auk gagnalekans sem kenndur er við Panamaskjölin. Tilgangur hennar er að koma í veg fyrir peningaþvætti með því að virkja þá aðila sem stunda starfsemi sem helst kann að vera misnotuð. Með henni var formföstu eftirliti breytt í matskenndara eftirlit sem byggist á einstaklingsbundnu áhættumati. Var hún innleidd ásamt hluta af fimmtu tilskipun með lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018.

 

Ítarefni

Skammstafanir

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 (pþl.)
Financial action task force (FATF)
Tilkynningarskyldir aðilar (TA)
Skrifstofa fjármálagreiningar lögreglu (SFL)
Ríkisskattstjóri (RSK)
Fjármálaeftirlitið (FME)
Ríkislögreglustjóri (RLS) 

Almennt efni um peningaþvætti

Lög 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Tilmæli FATF - International standards on combating money laundering and the financing of terrorism & proliferation

Skýrsla FATF - Money laundering/terrorist financing risks and vulnerabilities associated with gold

Skýrsla ríkislögreglustjóra um áhættumat vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum