Er hægt að skila vöru sem pöntuð er á netinu?
Oftast bjóða seljendur kaupendum upp á að geta skilað vöru sem pöntuð var á netinu.
Í sumum tilvikum og að uppfylltum vissum skilyrðum getur verið mögulegt að fá endurgreiðslu, lækkun eða niðurfellingu þeirra gjalda sem leggja ber á vöruna:
- Ef varan er ekki sótt, hún endursend vegna þess að viðtakandi hefur ekki fundist eða viðtakandi neitað að taka við henni.
- Ef varan hefur verið sótt og síðan endursend ónotuð til sama aðila og hún var send frá, eru aðflutningsgjöld endurgreidd, að uppfylltum sömu skilyrðum og nefnd eru hér að ofan.
- Ef í ljós kemur að varan er gölluð og hún er endursend ónotuð til seljanda skal lækka, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af henni. Sama á við þótt galli hafi ekki komið í ljós fyrr en við notkun, enda sé hann þess eðlis að ekki hafi verið unnt að ganga úr skugga um hann fyrr.
Athugið að ef ný vara er send í staðinn fyrir þá sem var endursend, getur þurft að greiða gjöldin aftur af nýju vörunni, jafnvel þótt sú gallaða hafi verið í ábyrgð.
Þegar endursend vara er sótt getur þú þurft að sýna fram á að um endursenda vöru sé að ræða með því að framvísa burðargjaldskvittun eða sendingarnúmeri sendingarinnar sem send var úr landi. Einnig getur þú þurft að sýna fram á ástæðu endursendingarinnar til dæmis með því að sýna rafræn samskipti á milli þín og seljandans varðandi endursendinguna.