Aðflutningsgjöld
Meginreglan er sú að greiða ber aðflutningsgjöld við innflutning vöru til landsins í samræmi við ákvæði tollskrár sem hefur lagagildi á Íslandi. Hér er átt við tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt auk ýmissa annarra gjalda sem leggjast kunna á við innflutning varnings til landsins.
Nokkrar undantekningar eru frá þessari meginreglu.
Vörur undanþegnar
Eftirtaldar vörur eru undanþegnar aðflutningsgjöldum við innflutning, enda sýni innflytjandi skattinum með fullnægjandi hætti fram á rétt til undanþágu:
Vörur fyrir sendiráð
Tilteknar vörur sem fluttar eru inn fyrir sendiráð, sendiræðismannaskrifstofur, sendierindreka og sendiræðismenn erlendra ríkja, í samræmi við 36. grein Vínarsamningsins um stjórnmálasamband, samanber fylgiskjal I við lög númer 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband.
Vörur fyrir kjörræðismenn og ræðisskrifstofur
Tilteknar vörur sem fluttar eru inn fyrir kjörræðismenn erlendra ríkja og ræðisskrifstofur, í samræmi við 50. grein Vínarsamningsins um ræðissamband, samanber 62. grein samningsins; samanber einnig fylgiskjal I við lög númer 4/1978, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband.
Vörur fyrir hervöld Bandaríkjanna
Tilteknar vörur sem hervöld Bandaríkjanna svo og menn úr liði Bandaríkjanna og skyldulið þeirra flytja til landsins, í samræmi við 8. grein viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og liðs þeirra, sem er fylgiskjal við varnarsamning milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins, samanber lög númer 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra.
Efni og tæki til varna gegn ofanflóðum
Efni og tæki sem flutt eru hingað til lands til varna gegn ofanflóðum, samanber 15. grein laga númer 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.
Undanþágur vegna annarra sérlaga eða samninga
Vörur sem undanþegnar skulu aðflutningsgjöldum samkvæmt ákvæðum annarra sérlaga eða alþjóða- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að.