Erlend innheimta

Ísland er aðili að samningum við önnur ríki um gagnkvæma aðstoð við innheimtu skatta. Norðurlöndin hafa gert með sér slíkan samning sem kveður á um innheimtu íslenskra skatta á hinum Norðurlöndunum og innheimtu skatta frá Norðurlöndum hér á landi. Ríkisskattstjóri hefur þessa gagnkvæmu innheimtu á hendi fyrir aðra innheimtumenn ríkissjóðs og annast samskipti við erlend stjórnvöld.

Upplýsingar um samninga sem innheimtan byggir á, forsendur fyrir því að senda skattkröfur í innheimtu milli landa, vexti, fyrningu, innheimtuúrræði og fleira:

Milliríkjasamningar

Til þess að auðvelda innheimtu skatta og tryggja réttaröryggi gjaldenda hafa Norðurlöndin gert með sér samning um gagnkvæma aðstoð í skattamálum. Núgildandi samningur er frá árinu 1989 og hefur hann lagagildi hér á landi, samanber lög númer 46/1990, og einnig á hinum Norðurlöndunum. Í sérstöku samkomulagi milli aðildarþjóðanna, samanber auglýsingu númer 623/1997 sem birtist í Stjórnartíðindum, er að finna nánari skilgreiningar á einstökum atriðum samningsins.

Auk Norðurlandasamningsins er í gildi milliríkjasamningur milli Evrópuráðsins og OECD um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, samanber lög númer 74/1996, en Norðurlöndin auk nokkurra annarra ríkja hafa fullgilt þann samning.

Ríkisskattstjóri hefur á hendi innheimtu skattkrafna sem berast til Íslands á grundvelli samninganna og annast jafnframt öll samskipti við yfirvöld á hinum Norðurlöndunum varðandi innheimtuna. Jafnframt sér embættið um sendingu íslenskra skattkrafna til innheimtu í öðrum aðildarríkjum.

Yfirvöld (bær stjórnvöld) á hinum Norðurlöndunum sem vitnað er til hér að ofan eru:

  • í Danmörku: Skattecenter Tønder, international inddrivelse
  • í Finnlandi: Skatteförvaltningen, Västra Finlands indrivningsenhet
  • í Færeyjum: Taks
  • í Grænlandi: Skattedirektoratet
  • í Noregi: Skatteoppkrever utland, internasjonal bistand
  • í Svíþjóð: Kronofogden, BMT utland Helsingborg

Almennar upplýsingar um skattamál á hinum Norðurlöndunum er hægt að nálgast á eftirfarandi heimasíðum (tenglarnir opnast í nýjum glugga):

Til hvaða skatta taka samningarnir?

Samningarnir taka meðal annars til tekjuskatta og eignarskatta, útsvars, erfða- og gjafaskatta, skatta af vélknúnum ökutækjum, virðisaukaskatts og almannatryggingagjalda. Það má því segja að hann nái til næstum allra opinberra gjalda sem innheimtumenn ríkissjóðs innheimta. Í auglýsingu númer 623/1997 er að finna nánari skilgreiningu á gjöldum þessum eftir aðildarríkjum. Nánar tiltekið eru þar og í Norðurlandasamningnum nefndar eftirfarandi skatttegundir hvað Ísland varðar:

áfengisgjald, bifreiðagjald, fjarskiptarekstrargjald, flugvallarskattur, gjöld skv. lögum um tryggingagjald, iðnaðarmálagjald, gjöld í ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, markaðsgjald, skilagjald af einnota umbúðum, slysatryggingagjöld skv. lögum um almannatryggingar, stimpilgjald, tekju- og eignarskattar, tryggingagjald, virðisaukaskattur, vörugjald, vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., útsvar og þungaskattur.

Í samningnum er tekið fram að hann taki einnig til sambærilegra skatta og gjalda og nefnd eru í samningnum og þeirra sem kunna að verða lögð á eftir gildistöku hans til viðbótar eða í staðinn fyrir þá skatta og gjöld sem þar eru tilgreind. Framangreind upptalning á sköttum og gjöldum sem samningurinn tekur til er því ekki tæmandi.

Gagnkvæmni

Eins og heiti samninganna bera með sér er aðstoðin við innheimtuna gagnkvæm og er aðildarríkjunum skylt að verða við innheimtubeiðnum hvert frá öðru berist þær í lögmætu formi og uppfylli ákvæði samninganna.

Beiðniríki og aðstoðarríki

Í þeim texta sem hér fer á eftir er hugtakið beiðniríki notað um það ríki sem sendir viðkomandi kröfu til innheimtu í öðru aðildarríki og aðstoðarríki um það ríki sem kröfuna innheimtir.

Forsenda fyrir sendingu skattkröfu

Skattkröfu má því aðeins senda til innheimtu í öðru ríki að ekki sé unnt að innheimta hana í beiðniríkinu. Beiðniríkið verður því að hafa neytt allra tiltækra úrræða innanlands áður en það óskar aðstoðar og hafa jafnframt sent gjaldanda tilkynningu með hæfilegum fyrirvara áður en krafa verður send til innheimtu í aðstoðarríki. Ef ekki tekst að koma tilkynningu til gjaldanda á því heimilisfangi sem upp er gefið erlendis verður krafan þó send beint til innheimtu í aðstoðarríki.

Sundurliðun skattkröfu

Krafan verður að vera sundurliðuð þannig að gjaldandi sjái sem gleggst um hvaða skatta er að ræða, hvenær þeir hafa verið álagðir og auk þess þarf að koma fram sundurliðun á áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði. Þann dag sem krafa berst aðstoðarríki til innheimtu ber því ríki að umreikna hana í gjaldmiðil sinn áður en innheimta hefst.

Vextir

Meðan krafa er til innheimtu í aðstoðarríki reiknast ekki vextir á hana þar en hinsvegar vaxtareiknar beiðniríkið kröfuna og er því heimilt að senda sérstaka vaxtakröfu til innheimtu eftir að frumkrafan hefur verið innheimt í aðstoðarríkinu. Vaxtakrafa þessi þarf þó að ná lágmarksfjárhæð sem nemur nú kr. 25.000.- til þess að heimilt sé að senda hana til innheimtu.

Innheimtuúrræði

Aðildarríkjunum ber að meðhöndla þær skattkröfur sem þeim eru sendar til innheimtu á sama hátt og þær væru kröfur þeirra sjálfra og beita sömu innheimtuúrræðum og gilda um sambærilegar kröfur í því ríki. Skattkröfurnar verða því innheimtar eftir atvikum með launaafdrætti, skuldajöfnun og fjárnámsaðgerðum eða með öðrum úrræðum sem tiltæk eru að lögum aðstoðarríkisins um viðkomandi skattkröfur.

Fyrning skattkröfu og fyrningarrof

Fyrningartími skattkrafna ræðst af lögum beiðniríkisins. Til þess að unnt sé að rjúfa fyrningu í aðstoðarríki með tilteknu innheimtuúrræði þurfa þó lög beggja ríkjanna, það er beiðniríkis og aðstoðarríkis, að leiða til fyrningarrofs með því úrræði. Sé þessum skilyrðum fullnægt hefst nýr fyrningartími kröfunnar.

Forræði á kröfu og frestir

Beiðniríkið hefur fullt forræði á kröfu og getur því eitt ákveðið að fella niður innheimtuna hvenær sem er án þess að leita þurfi samþykkis aðstoðarríkis. Hinsvegar getur aðstoðarríkið veitt venjubundna fresti á innheimtuaðgerðum samkvæmt þeim reglum sem um innheimtu eigin skattkrafna gildir.

Gjaldþrotaskipti

Aðstoðarríki er ekki heimilt að krefjast gjaldþrotaskipta á búum gjaldenda vegna erlendra krafna nema sérstök beiðni eða heimild berist um slíkt frá beiðniríkinu. Verði gjaldandi hinsvegar úrskurðaður gjaldþrota að kröfu þriðja aðila verður slíkum kröfum lýst í þrotabúið án þess að leita þurfi samþykkis beiðniríkis.

Allar frekari upplýsingar eru veittar hjá innheimtu- og skráasviði í síma 442-1950 einnig má senda fyrirspurnir á vanskil[hja]skatturinn.is.

Nánari upplýsingar

Auglýsing um samkomulag um innheimtu og yfirfærslu skatta, sbr. 20. grein í samningi milli Norðurlanda um aðstoð í skattamálum frá 7. desember 1989.

Auglýsing um Norðurlandasamning um aðstoð í skattamálum.

Nordisk eTax

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum