Erlend þjónustufyrirtæki - starfsmannaleigur

Information in English

Starfsmannaleigur

Starfsmannaleigur eru þjónustufyrirtæki sem leigja út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess síðarnefnda.

Skattskylda og skyldur starfsmannaleiga

Erlendar starfsmannaleigur er fá greiðslu vegna þjónustu sem þær veita hér á landi eru skattskyldar af þeim tekjum. Unnt er að sækja um undanþágu frá greiðslu skatta á grundvelli tvísköttunarsamninga með eyðublaði RSK 5.42.

Hafi staðgreiðslu verið haldið eftir áður en ríkisskattstjóri hefur veitt undanþágu frá greiðslu skatta, er unnt að sækja um endurgreiðslu með eyðublaði RSK 5.43.

Nánar um undanþágu á grundvelli tvísköttunarsamninga

Starfsmenn starfsmannaleigunnar eru skattskyldir óháð því hvort starfsmannaleigan sé undanþegin samkvæmt framansögðu.

Starfsmannaleiga með heimilisfesti í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum ber ábyrgð á að halda eftir staðgreiðslu skatta fyrir hönd sinna starfsmanna nema sérstaklega hafi verið samið um að notendafyrirtækið sjái um halda eftir og standa skil á staðgreiðslu skatta. Hafi starfsmannaleigan ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslunni ber notendafyrirtækið ábyrgð sem launagreiðandi.

Hafi starfsmannleigan heimilisfesti utan aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum ber notendafyrirtækið ábyrgð á staðgreiðslu skatta fyrir hönd starfsmanna sem starfa hérlendis á vegum starfsmannaleigunnar.

Skattskylda starfsmanna

Starfsmenn starfsmannaleiga eru skattskyldir samkvæmt almennum skattareglum. Allir sem dvelja hér á landi og njóta launa fyrir störf sín hér skulu greiða tekjuskatt af þeim launum. Dvelji þeir hér á landi í 183 daga eða skemur á sérhverju 12 mánaða tímabili bera þeir takmarkaða skattskyldu. Í því felst að þeim ber að greiða skatt á Íslandi af sérhverjum innlendum tekjum. Dvelji þeir hér á landi lengur en 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera héðan af landi vegna orlofs og þess háttar, bera þeir ótakmarkaða skattskyldu og ber þá skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, óháð því hvort þeirra er aflað hérlendis eða erlendis.

Nánar um ótakmarkað skattskyldu 

Nánar um takmarkaða skattskyldu

Þeir sem bera ótakmarkaða skattskyldu en hafa verið heimilisfastir hér á landi hluta tekjuársins eiga rétt á persónuafslætti í réttu hlutfalli við dvalartíma. Þeir sem bera takmarkaða skattskyldu eiga með sama hætti rétt á persónuafslætti í samræmi við dvalartíma.

Nánar um persónuafslátt

Gátlisti starfsmanna

Þegar flutt er til Íslands til að stunda hér vinnu þarf að...

  • ...sækja um kennitölu hjá Þjóðskrá Íslands. Þeir sem þegar hafa íslenska kennitölu þurfa eftir sem áður að skrá sig inn í landið hjá Þjóðskrá.
  • ...opna bankareikning.
  • ...sækja um rafræn skilríki. Sótt er um rafræn skilríki hjá bönkum, sparisjóðum og hjá Auðkenni. Valið stendur um rafræn skilríki í síma eða snjallkorti. Skilríkin eru notuð til innskráningar á flestar þjónustusíður opinberra stofnana og sveitarfélaga, m.a. eru þau notuð til að skrá sig á þjónustusíðu ríkisskattstjóra þar sem framtali er skilað og til að nálgast ýmsar skattalegar upplýsingar, s.s. um greidda staðgreiðslu á árinu og álagningu. Þá eru þau notuð til innskráningar hjá bönkum og sparisjóðum.
  • ...skila launagreiðanda „yfirlit launagreiðanda“ sem menn nálgast á sinni þjónustusíðu hjá ríkisskattstjóra.

Við brottflutning frá Íslandi þarf að...

  • ...skila skattframtali. Best er að skila inn RSK 1.13 fyrir brottför. Einnig er hægt að skila inn skattframtali rafrænt á þjónustusíðu viðkomandi hjá ríkisskattstjóra. Rafrænum skattframtölum einstaklinga er eingöngu hægt að skila í mars á hverju ári.

Skyldur notendafyrirtækis

Starfsmannaleiga með heimilisfesti í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum ber ábyrgð á að halda eftir staðgreiðslu skatta fyrir hönd sinna starfsmanna nema sérstaklega hafi verið samið um að notendafyrirtækið sjái um halda eftir og standa skil á staðgreiðslu skatta. Hafi starfsmannaleigan ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslunni ber notendafyrirtækið ábyrgð sem launagreiðandi.

Ef starfsmannaleiga er ekki með heimilisfesti í EES, EFTA eða í Færeyjum og hefur ekki starfsstöð á Íslandi, ber notendafyrirtækið ábyrgð á að halda eftir staðgreiðslu skatta fyrir hönd starfsmanna starfsmannaleigunnar og standa skil á henni til ríkissjóðs.

Ef starfsmannaleiga hefur ekki undanþágu frá greiðslu skatta á grundvelli tvísköttunarsamnings, ber notendafyrirtækinu að halda eftir staðgreiðslu skatta af greiðslu til starfsmannaleigunnar.

Þótt starfsmannaleiga hafi undanþágu frá greiðslu skatta á grundvelli tvísköttunarsamnings, ber notendafyrirtækinu samt sem áður að veita upplýsingar um greiðslur til starfsmannaleigunnar með eyðublaði RSK 5.41.

Skráning erlendrar starfsmannaleigu á Íslandi

Erlend starfsmannaleiga sem vill hefja starfsemi hérlendis ber að sækja um kennitölu, skrá sig hjá Vinnumálastofnun og á virðisaukaskatts- og launagreiðendaskrá. Ferlið er eftirfarandi:


  1. Sótt er um skráningu hjá Vinnumálastofnun.
  2. Eftir skráningu hjá Vinnumálastofnun er sótt um kennitölu hjá fyrirtækjaskrá með eyðublaðinu RSK 17.06. Hægt er að senda umsóknina á netfangið fyrirtaekjaskra@skatturinn.is . Með umsókn ber að leggja fram skráningarvottorð frá heimilisfestisríki starfsmannaleigunnar. Vottorðið má ekki vera eldra en þriggja mánaða.
  3. Eftir úthlutun á kennitölu ber starfsmannaleigunni að skrá sig á virðisaukaskatts- og launagreiðendaskrá með eyðublaðinu RSK 5.02.

Erlend þjónustufyrirtæki sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands

Eftirfarandi umfjöllun nær til fyrirtækja með staðfestu í öðru ríki innan EES, EFTA eða Færeyjum sem sendir starfsmenn tímabundið til Íslands í tengslum við veitingu á þjónustu.

Skattskylda erlendra þjónustufyrirtækja

Erlend þjónustufyrirtæki sem veita þjónustu hérlendis eru skattskyld á Íslandi, en geta sótt um undanþágu á grundvelli tvísköttunarsamnings. Þó er ekki hægt að sækja um undanþágu hafi fyrirtækið fasta starfsstöð hér á landi. Undanþágan nær ekki til virðisaukaskatts.

Nánar um undanþágu á grundvelli tvísköttunarsamninga

Sé erlent þjónustufyrirtæki undanþegið skattskyldu á Íslandi, skv. framansögðu, eru þeir starfsmenn sem starfa hérlendis á þeirra vegum einnig undanþegnir. Undanþágan nær þó ekki til þeirra starfsmanna sem dvelja hérlendis lengur en 183 daga á hverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera héðan af landi vegna orlofs og þess háttar. Starfsmenn sem dvelja lengur en 183 daga á hverju 12 mánaða tímabili bera ótakmarkaða skattskyldu hérlendis frá fyrsta degi og ber að greiða tekjuskatt af heildartekjum frá komu til landsins.

Ef erlent þjónustufyrirtæki, sem hefur verið undanþegið greiðslu skatta á grundvelli tvísköttunarsamninga, telst reka fasta starfsstöð hérlendis skal það greiða tekjuskatt af ágóða slíkrar starfsstöðvar.

Starfsmenn erlendra þjónustufyrirtækja sem reka hér á landi fasta starfsstöð eru skattskyldir á Íslandi óháð dvalartíma. Almennar reglur gilda.

Skattskylda starfsmanna

Starfsmenn erlendra þjónustufyrirtækja sem starfa hér á landi á vegum slíkra fyrirtækja geta verið skattskyldir á Íslandi.

Ef erlenda þjónustufyrirtækið er undanþegið frá greiðslu skatta á grundvelli tvísköttunarsamnings eru starfsmenn fyrirtækisins með sama hætti undanþegnir ef dvöl þeirra hérlendis er ekki lengri en 183 dagar á hverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera héðan af landi vegna orlofs og þess háttar. Ef dvöl starfsmanns er umfram framangreind tímamörk ber hann ótakmarkaða skattskyldu frá komu til landsins.

Nánar um ótakmarkað skattskyldu

Ef erlent þjónustufyrirtæki rekur fasta starfsstöð hér á landi, eru starfsmenn fyrirtækisins skattskyldir óháð dvalartíma. Skattskylda getur verið takmörkuð eða ótakmörkuð eftir aðstæðum.

Nánar um takmarkaða skattskyldu

Persónuafsláttur kemur til lækkunar opinberra gjalda manna. Þeir sem starfa tímabundið á Íslandi vegna vinnu eiga rétt á persónuafslætti í samræmi við dvalartíma.

Nánar um persónuafslátt

Gátlisti starfsmanna

Þegar flutt er til Íslands til að stunda hér vinnu þarf að...

  • ...sækja um kennitölu hjá Þjóðskrá Íslands. Þeir sem þegar hafa íslenska kennitölu þurfa eftir sem áður að skrá sig inn í landið hjá Þjóðskrá.
  • ...opna bankareikning.
  • ...sækja um rafræn skilríki. Sótt er um rafræn skilríki hjá bönkum, sparisjóðum og hjá Auðkenni. Valið stendur um rafræn skilríki í síma eða snjallkorti. Skilríkin eru notuð til innskráningar á flestar þjónustusíður opinberra stofnana og sveitarfélaga, m.a. eru þau notuð til að skrá sig á þjónustusíðu ríkisskattstjóra þar sem framtali er skilað og til að nálgast ýmsar skattalegar upplýsingar, s.s. um greidda staðgreiðslu á árinu og álagningu. Þá eru þau notuð til innskráningar hjá bönkum og sparisjóðum.
  • ...skila launagreiðanda „yfirlit launagreiðanda“ sem menn nálgast á sinni þjónustusíðu hjá ríkisskattstjóra.

Við brottflutning frá Íslandi þarf að...

  • ...skila skattframtali. Best er að skila inn RSK 1.13 fyrir brottför. Einnig er hægt að skila inn skattframtali rafrænt á þjónustusíðu viðkomandi hjá ríkisskattstjóra. Rafrænum skattframtölum einstaklinga er eingöngu hægt að skila í mars á hverju ári.

Skyldur notendafyrirtækis

Notendafyrirtæki er einstaklingur, félag eða annar sá aðili sem stundar atvinnurekstur og kaupir þjónustu af erlendu þjónustufyrirtæki.

Erlenda þjónustufyrirtækið skal halda eftir staðgreiðslu af launum starfsmanna sem skattskyldir eru á Íslandi, nema um annað hafi verið samið við notendafyrirtækið. Ef erlent þjónustufyrirtæki hefur ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu skatta ber notendafyrirtækið ábyrgð.

Fái erlent þjónustufyrirtæki ekki samþykkta undanþágu skv. tvísköttunarsamningi, ber notendafyrirtækinu að halda eftir staðgreiðslu skatta af greiðslu til erlenda þjónustufyrirtækisins.

Hafi erlenda þjónustufyrirtækið fengið samþykkta undanþágu skv. tvísköttunarsamningi, ber notendafyrirtækið eftir sem áður að veita upplýsingar um greiðslur til þjónustufyrirtækisins með eyðublaði RSK 5.41.

Almennar upplýsingar fyrir erlend þjónustufyrirtæki og starfsmannaleigur

Vakin skal athygli á að Vinnumálastofnun heldur úti sérstakri upplýsingasíðu fyrir erlend þjónustufyrirtæki, starfsmannaleigur og starfsmenn þeirrar, þar sem hægt er að nálgast almennar upplýsingar um kaup og kjör, vinnuvernd og reglur um útsenda starfsmenn.

 Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Lög nr. 45/2007 um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra

Lög nr. 139/2005 um starfsmannaleigur

Persónuafsláttur - 69. gr. laga nr. 90/2003 (ótakmörkuð skattskylda), 70. gr. laga nr. 90/2003 (takmörkuð skattskylda), sjá einnig 70. gr. a laga nr. 90/2003

Skattskylda (takmörkuð - föst starfsstöð) - 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003

Skattskylda (ótakmörkuð - lögaðilar) - 2. gr. laga nr. 90/2003

Skattskylda (ótakmörkuð - einstaklingar) - 1. gr. laga nr. 90/2003

Staðgreiðsla (starfsmaður starfsmannaleigu) - 3.-4. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987

Staðgreiðsla (þóknun) - 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987

Undanþága á grundvelli tvísköttunarsamninga - 14. eða 15. gr. tvísköttunarsamnings

Eyðublöð

Application under Double Taxation Conventions for exemption from Icelandic taxation and/or refund from taxes paid - RSK 5.42

Application under Double Taxation Conventions for a Refund of Taxes Paid - RSK 5.43

Simplified tax return for individuals - RSK 1.13

Takmörkuð skattskylda, skilagrein staðgreiðslu - RSK 5.41

Tilkynning til skattyfirvalda, til launagreiðendaskrár staðgreiðslu og/eða virðisaukaskattsskrá - RSK 5.02

Umsókn um útgáfu á kennitölu fyrir erlenda starfsmannaleigu - RSK 17.06

Annað

Rafræn skilríki - Upplýsingar um rafræn skilríki eru að finna á vefsíðu Auðkenna og á skilriki.is

Skattskylda erlendra þjónustufyrirtækja, Tíund, ágúst 2016, bls. 8-9

Vinnumálastofnun

Vinnumálastofnun - Sérstök þjónustusíða fyrir erlend þjónustufyrirtæki, starfsmannaleigur og starfsmenn þeirra

Þjóðskrá Íslands

Þjónustuvefur Skattsins


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum