Takmarkanir og bönn

Reglur um tollfríðindi veita hvorki undanþágu frá sérstökum innflutningsskilyrðum né innflutningsbanni sem ýmsar vörutegundir eru háðar samkvæmt lögum, reglugerðum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.

Hafi ferðamaður grun um að eitthvað sem hann hefur meðferðis kunni að vera háð sérstökum innflutningsskilyrðum eða innflutningsbanni, ætti hann að framvísa því við tollgæslu að eigin frumkvæði.

Dæmi um vörutegundir sem innflutningsbann er á:

  • Ávana- og fíkniefni
  • Munntóbak og fínkorna neftóbak
  • Ósoðnar kjötvörur
  • Matvara
    Ferðamenn mega ekki flytja til Íslands kjöt- og mjólkurvörur frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Sjá nánar á vef Matvælastofnunar.
  • Ýmis vopn
  • Hnífar
    Til dæmis er óheimilt að flytja inn hnífa með lengra blaði en 12 cm, fjaðrahnífa og kasthnífa og önnur slík vopn, höggvopn, til dæmis hnúajárn og ýmiss konar kylfur, lásboga og handjárn.

Dæmi um vörutegundir sem eru háðar sérstökum innflutningsskilyrðum:

Símar og fjarskiptatæki

Innflutningur þessara vörutegunda er almennt háður leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar, til dæmis þráðlausra sem línutengdra síma, símsvara, talstöðva og fjarstýrðra leikfanga. Þó er ekki áskilið innflutningsleyfi vegna GSM farsíma sem auðkenndir eru með CE-merkingu (notendabúnaður með viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu); leyfi er heldur ekki áskilið hafi ferðamaður meðferðis einn GSM farsíma sem ekki er með CE-merkingu.

Veiðibúnaður 

Heimilt er að flytja inn notaðan veiðibúnað, s.s. stangir, veiðihjól, öngla/spóna/flugur, vöðlur og háfa, en ekki leyfilegt að nýta hann til veiða í ferskvatni nema að undangenginni sótthreinsun, enda liggi ekki fyrir fullnægjandi vottorð.

Sjá nánar á vef Matvælastofnunar

Reiðfatnaður

Það er heimilt að hafa meðferðis reiðfatnað, sem notaður hefur verið erlendis, enda hafi sótthreinsun farið fram áður en varningurinn er fluttur inn. Liggi ekki fyrir vottorð erlends yfirvalds um sótthreinsun, fer hún fram hérlendis á kostnað viðkomandi.

Notuð reiðtygi

Ekki er hægt að sótthreinsa leður nægilega og því er ekki heimilt að flytja notaða hnakka, beisli, tauma, múla eða píska úr leðri inn til landsins.

Skotvopn, skotfæri og sprengiefni

Innflutningur vopna, skotfæra og sprengiefna er bannaður nema með leyfi lögreglustjóra.
Handhafi evrópsks skotvopnaleyfis getur þó án sérstaks leyfis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu flutt þau vopn sem tilgreind eru í leyfinu og hæfilegt magn skotfæra til landsins, svo framarlega að notkun vopnsins og skotfæranna sé leyfð á Íslandi og að dvölin sé ekki lengri en þrír mánuðir. Heimilt er að krefja skotíþróttamenn um staðfestingu á boði frá skotfélagi og veiðimenn um staðfestingu frá landeiganda eða úthlutun á hreindýraveiðileyfi. Þeir sem hafa hug á að flytja skotvopn eða skotfæri til landsins snúi sér til lögreglu í sínu umdæmi og afli nauðsynlegra leyfa áður en innflutningur fer fram.

Lifandi dýr

Það er skilyrði fyrir innflutningi lifandi dýra að leyfi Matvælastofnunar liggi fyrir, auk þess sem fara þarf að fyrirmælum um einangrun. Ef uppvíst verður um innflutning dýra í heimildarleysi ber að lóga þeim.

Lyf

Heimilt er að hafa meðferðis lyf til eigin nota í magni sem miðast við mest 100 daga notkun viðkomandi, enda sé ljóst hvert það magn sé.

Karlkynshormónalyf af flokki anabólískra stera og hliðstæðra efna og peptíð hormón og hliðstæð efni (samanber liði c og f í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar um lyf sem bönnuð eru í íþróttum) má þó einungis hafa meðferðis í magni sem miðast við mest 30 daga notkun.

Tollverðir geta áskilið að viðkomandi ferðamaður færi fullnægjandi sönnur á að honum sé nauðsyn á töku ofangreindra lyfja í því magni sem tilgreint er, til dæmis með læknisvottorði.

Vakin er athygli á að innflutningur einstaklinga á lyfjum í pósti frá ríkjum utan EES til eigin nota er óheimill.

Sjá einnig: Reglur um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota á vef Lyfjastofnunar.

Blóm og aðrar plöntur

Innflutningur blóma og annarra plantna er almennt háður því að þeim fylgi heilbrigðisvottorð frá opinberum aðila sem hefur eftirlit með plöntusjúkdómum í ræktunarlandinu, auk þess sem leyfi Matvælastofnunar er áskilið. Þó er ferðamönnum heimilt að hafa meðferðis vönd með afskornum blómum og greinum (allt að 25 plöntum), blómlauka og rótar- og stöngulhnýði frá Evrópu í órofnum verslunarumbúðum (allt að 2 kílógrömm) og einstakar pottaplöntur frá Evrópu (allt að 3 stk.).

Eiturefni og hættuleg efni

Að sjálfsögðu er ekki ætlast til að ferðamenn hafi slík efni meðferðis. Um innflutning eiturefna og hættulegra efna, gilda Efnalög númer 61/2013.

Móttaka á óhreinum reiðfatnaði í Leifsstöð

Samkvæmt gildandi lögum og reglum er óheimilt að flytja inn notaðan reiðfatnað til landsins nema að undangenginni hreinsun og sótthreinsun.

Hestamönnum sem ekki eru í aðstöðu til að þrífa og sótthreinsa notaðan reiðfatnað áður en komið er til landsins býðst að afhenda reiðfatnað til hreinsunar í rauða hliðinu í Leifsstöð.

  • Óhreinum reiðfatnaði skal framvísa í „rauða hliðinu" í tollinum í lokuðum plastpokum. (Með reiðfatnaði er átt við reiðbuxur hverskonar, reiðjakka, -úlpur, -skó, -stígvél og -hjálma en þessa þjónustu má einnig nýta fyrir annan fatnað og skófatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis . Ekki er þó tekið við leður- og vaxjökkum.)
  • Viðkomandi hestamenn skulu gera vart við sig í „rauða hliðinu" í flugstöðinni og framvísa fatnaðinum þar til tollvarða. Tollverðir sjá til þess að fatnaðurinn, ásamt upplýsingum um eiganda, fari í sérstaka kassa sem þeir hafa í sinni vörslu þar til þeir eru sóttir af fatahreinsuninni. Að lokinni hreinsun verður fatnaðurinn sendur í póstkröfu til eiganda.
  • Komi farþegar með óhreinan reiðfatnað í græna hliðið við tollgæslu á Keflavíkurflugvelli eða verði vísir að því að vera með óhreinan reiðfatnað við tollskoðun í græna hliðinu, verður litið á slíkt sem smygl. Varningurinn er þá gerður upptækur og viðkomandi kærður. Sama á við um sendingar sem innihalda óhreinan reiðfatnað og koma til landsins með pósti, skipa- eða flugfrakt.
  • Ráðstöfun þessi tekur ekki til notaðra reiðtygja, reiðhanska eða annars búnaðar sem notaður hefur verið í hestamennsku enda er innflutningur á slíkum varningi óheimill.

Sótthreinsun veiðibúnaðar

Heimilt er að flytja inn notaðan veiðibúnað, s.s. stangir, veiðihjól, öngla/spóna/flugur, vöðlur og háfa, en ekki leyfilegt að nýta hann til veiða í ferskvatni nema að undangenginni sótthreinsun, enda liggi ekki fyrir fullnægjandi vottorð. 

Sjá nánar á vef Matvælastofnunar

Ítarefni

Frekari upplýsingar


Leiðbeiningar og reglur um innflutning á notuðum reiðfatnaði/reiðtygjum

Bæklingur frá Safnaráði - Sameinumst um að vernda íslenskan menningararf, pdf skjal - (2802 kb.)

Skrá yfir ólögleg lyf í íþróttum (á vef WADA)

Öryggisreglur í flugi

Hvar finn ég reglurnar?

Lög nr. 61/2013 Efnalög

Lög nr. 16/1998 Vopnalög

Lög nr. 60/2006 um varnir gegn fiskisjúkdómum

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum