Endurgreiðsla vegna almannaheillafélaga

Lögaðilar sem skráðir eru á almannaheillaskrá, geta sótt um 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum, eða sérgreindum matshlutum þeirra, á tímabilinu 1. janúar 2022 til 31. desember 2025. 

Endurgreiðslan tekur til mannvirkja sem eru að yfirgnæfandi hluta nýtt í þágu meginstarfsemi þeirra lögaðila samkvæmt samþykktum þeirra.

Endurgreiðslan tekur ekki til íbúðar- og frístundahúsnæðis eða mannvirkja sem einkum eru notuð í atvinnustarfsemi í samkeppni við annan atvinnurekstur. Þá tekur endurgreiðslan ekki til þess virðisaukaskatts sem telja má til innskatts lögaðila.

Opna umsókn

Hægt er að sækja um endurgreiðslur í sex ár talið frá því að endurgreiðsluréttur stofnaðist.

Skilyrði endurgreiðslu

Mannvirkin eða hluti þeirra, þurfa að vera alfarið í eigu þess almannaheillafélags, samkvæmt skráningu í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem sækir um endurgreiðslu.

Frekari skilyrði endurgreiðslu eru:

  1. Umsækjandi sé skráður í fyrirtækjaskrá og sérstaka almannaheillaskrá Skattsins og sé hvorki í heild né að hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né í eigu félags alfarið í þeirra eigu.
  2. Virðisaukaskattur sem umsókn tekur til sé ekki af kostnaði við aðföng sem varða lögbundnar skyldur opinberra aðila, svo sem lögmælt verkefni ríkis, sveitarfélaga og/eða félaga eða stofnana alfarið í þeirra eigu vegna byggingar mannvirkis.
  3. Samanlögð fjárhæð endurgreidds virðisaukaskatts og styrks frá opinberum aðilum vegna framkvæmdar sé ekki hærri en heildarfjárhæð vinnu við framkvæmdir.
  4. Umsækjandi hagi bókhaldi sínu þannig að unnt sé að hafa eftirlit með því að virðisaukaskattur verði leiðréttur ef breyting verður á forsendum fyrir endurgreiðslu.
  5. Umsækjandi sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda. Leggja skal fram staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila og lífeyrissjóði.

Gögn með umsókn

  • Fullgildir reikningar frá seljanda þjónustunnar
  • Staðfesting á greiðslu reiknings (s.s. útprentun úr heimabanka vegna millifærslu)

Seljandi þjónustunnar verður að vera skráður á virðisaukaskattsskrá (vera með opið VSK-númer) á þeim tíma sem vinnan er innt af hendi. Gott er að kanna áður en reikningur er greiddur að þetta skilyrði sé uppfyllt.

Athuga hvort seljanda sé með opið VSK-númer

Breyting á forsendu endurgreiðslu

Verði breyting á forsendum endurgreiðslu innan tíu ára frá því að framkvæmd fór fram, svo sem ef viðkomandi mannvirki er selt eða tekið til annarrar notkunar en varðar meginstarfsemi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans, skal umsækjandi leiðrétta virðisaukaskatt og endurgreiða ríkissjóði þá fjárhæð sem hann hefur móttekið vegna þess mannvirkis.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Endurgreiðslur vegna Almannaheillafélaga – 42. gr. A laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Einu sinni var…

Í tengslum við efnahagsaðgerðir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var heimilt að sækja um endurgreiðslu vegna byggingar, viðhalds og endurbóta á mannvirkjum í eigu mannúðar- og líknarfélaga, íþróttafélaga, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnardeilda og einstaka félagseininga sem starfa undir merkjum samtakanna. Einnig var endurgreiddur virðisaukaskattur af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki. Kostnaður verður að hafa fallið til á tímabilinu 1.3.2020-31.12.2022. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum