Almennt um rafræna tollafgreiðslu

Almennt

Samkvæmt gildandi tollalögum númer 88/2005, með síðari breytingum skulu fyrirtæki, sem stunda inn- og útflutning, skila aðflutnings- og útflutningsskýrslum rafrænt til Skattsins.

  • Fyrirtæki sem fá heimild til rafrænnar VEF-tollafgreiðslu, geta hafið rafræna tollafgreiðslu um leið og bréf með samþykktu leyfi berst þeim. Starfsmenn sem framkvæma VEF-tollafgreiðslu í umboði fyrirtækis þurfa að nota rafræn skilríki til auðkenningar.

  • Fyrirtæki sem fá heimild til rafrænnar SMT-tollafgreiðslu, geta hafið rafræna tollafgreiðslu að afloknum prófunum á SMT-skeytasendingum sem fram fara á milli fyrirtækisins og umsjónarmanna tölvukerfis tollafgreiðslu hjá Skattinum.

  • Innflytjendum sem flytja inn 12 sendingar eða færri á ári er þó heimilt að afhenda Skattinum aðflutningsskýrslur á pappír. Jafnframt er innflytjendum heimilt að skila einfölduðum aðflutningsskýrslum á pappír, samanber 25. grein reglugerðar númer 1100/2006.

Nánari upplýsingar

Allir sem stunda innflutning á vörum í atvinnuskyni þurfa að senda Skattinum með skjalasendingum milli tölva þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við tollafgreiðslu.

Þetta kallast SMT- eða VEF-tollafgreiðsla og er í raun hefðbundin tollafgreiðsla aðflutnings-/útflutningsskýrslu með rafrænum hætti í inn- og/eða útflutningi.


Hverjir geta sótt um SMT- / VEF-tollafgreiðslu?

Til að fá leyfi til SMT- / VEF-tollafgreiðslu verður aðili að uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • stunda innflutnings- eða útflutningsverslun í atvinnuskyni eða 
  • stunda framleiðslu í atvinnuskyni eða 
  • stunda viðgerðarþjónustu í atvinnuskyni 
  • hafa tilskilin leyfi til atvinnustarfsemi, svo sem: 
  • verslunarleyfi, 
  • iðnaðarleyfi, 
  • vinnsluleyfi eða 
  • önnur leyfi sem krafist er, svo sem leyfi til þess að starfa sem tollmiðlari 
  • hafa tilkynnt Skattinum um atvinnustarfsemi sína 
  • vera á fyrirtækjaskrá, sbr. lög um fyrirtækjaskrá 

  • hafa tilkynnt Skattinum um starfsemi sína og verið skráðir skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og fyrirmælum settum samkvæmt þeim 
  • þeir séu ekki í vanskilum við ríkissjóð með greiðslu opinberra gjalda eða skatta 
  • Skatturinn hafi samþykkt þann hugbúnað sem umsækjandi hyggst nota til samskipta við tollyfirvöld, nema þegar sótt er um VEF-tollafgreiðslu 
  • hafi á að skipa starfsliði sem hefur til að bera fullnægjandi þekkingu á lögum og reglum um tollmeðferð vara.

Ef um einstaklinga er að ræða sem stunda atvinnurekstur, skulu þeir að minnsta kosti hafa framkvæmt 12 tollafgreiðslur í atvinnuskyni á síðustu 12 mánuðum.

Hvernig er sótt um leyfi til SMT- / VEF-tollafgreiðslu?

Umsókn um leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu þarf að skila til Skattsins.

Umsóknareyðublöð er hægt að sækja hér, en þau fást einnig hjá Skattinum, Katrínartúni 6.

Vakin er athygli á því að verði breytingar síðar á þeim upplýsingum sem fram koma í umsókn, skal það þegar tilkynnt Skattinum.

Þegar umsækjandi hefur fengið leyfi til SMT-/VEF-tollafgreiðslu getur hann tollafgreitt vöru með rafrænum hætti í öllum tollumdæmum landsins.

Ferli við SMT-/VEF-tollafgreiðslu

Þegar SMT-/VEF-tollafgreiðsla fer fram er aðflutnings-/útflutningsskýrsla um viðkomandi vöru send með rammaskeyti um gagnaflutningsnet til Skattsins þar sem tollmeðferð á að fara fram.

Senda ber upplýsingar um aðflutnings-/útflutningsskýrslu með rammaskeyti til Skattsins fyrir eða við komu fars inn á tollsvæði ríkisins en fyrir brottför sé far á leið til útlanda.

Aðflutningsskýrsla, sem send er með rammaskeyti, telst vera móttekin hjá Skattinum við skráningu hennar í tölvukerfi tollyfirvalda. Vara eða sending telst þá vera tekin til tollmeðferðar, enda fullnægi upplýsingarnar, sem veittar eru með þessum hætti, að öllu leyti þeim skilyrðum sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að heimila afhendingu vöru eða sendingar þegar í stað.

Vakin er athygli á því að sá sem sendir Skattinum aðflutnings-eða útflutningsskýrslu um vöru með rammaskeyti vegna SMT-/VEF-tollafgreiðslu ber ábyrgð á því að þær upplýsingar sem koma fram í skeytinu séu réttar.

Enn fremur ber hann ábyrgð á að um sé að ræða allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar og að þær séu byggðar á þeim tollskjölum sem hefði átt að leggja fram með aðflutnings-/útflutningsskýrslu ef vöru hefði ekki verið ráðstafað til SMT-tollafgreiðslu.

Sá aðili, sem sendir rammaskeyti eða aðflutnings-/útflutningsskýrslu fyrir hönd innflytjanda, ber ábyrgð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum, hafi hann vitað eða mátt vita að upplýsingar innflytjanda væru rangar eða ófullnægjandi.

Mikilvægt er að leyfishafar ráðstafi einungis þeim vörum eða sendingum til tollmeðferðar sem þeir hafa vissu fyrir að séu rétt tollflokkaðar samkvæmt tollskrá.

Einnig þurfa aðrar tilskildar upplýsingar um vöru eða sendingu að vera réttar, svo sem um verðmæti við ákvörðun tollverðs. Enn fremur þurfa leyfishafar að hafa vissu fyrir því að öllum innflutnings- eða útflutningsskilyrðum sé fullnægt hverju sinni, t.d. að fyrir liggi tilskilin innflutnings- eða útflutningsleyfi og að vottorð séu til staðar sé þeirra krafist við tollmeðferð vöru eða sendingar.

Komi upp vafi um að öllum skilyrðum sé fullnægt er leyfishöfum bent á að hafa samráð við þjónustufulltrúa Skattsins í síma 442-1000 eða með því að senda okkur póst á netfangið upplysingar[hja]skatturinn.is, áður en vöru eða sendingu er ráðstafað til tollmeðferðar.

Þrátt fyrir að almennt sé reglan sú að ekki þurfi að afhenda Skattinum pappírsgögn þegar um SMT-/VEF-tollafgreiðslu er að ræða, getur Skatturinn krafist framlagningar slíkra gagna, hvort heldur sem er við tollafgreiðslu eða síðar.

Hvenær má sækja tollafgreidda vöru?

Skatturinn sendir leyfishafa, heimild til að veita vöru eða sendingu viðtöku frá vörsluhafa vegna innflutnings og tilkynningu um skuldfærslu gjalda sé um það að ræða, með rammaskeyti í gagnahólf hans eða leyfishafi móttekur VEF-tollafgreiðsluskjöl á vefsetri.

Ef um útflutning er að ræða sendir Skatturinn útflytjanda útflutningsheimild og kvittun vegna útflutningstollafgreiðslu og tilkynningu um skuldfærslu gjalda sé um það að ræða.

Enn fremur sendir Skatturinn farmflytjanda eða öðrum vörsluhafa vöru tilkynningu um leyfi til afhendingar vegna innflutnings vöru eða útflutnings vöru (afhendingarheimild/útflutningsheimild).

Bráðabirgðatollafgreiðsla

Unnt er að fara fram á bráðabirgðatollafgreiðslu vöru geti innflytjandi sýnt fram á að hann hafi ekki fengið þau gögn sem leggja ber fram í tolli eða þau séu ekki fullnægjandi.

Skatturinn getur neitað um SMT-/VEF-tollafgreiðslu ef upplýsingar, sem láta ber Skattinum í té í rammaskeyti sem sent er með skjalasendingum milli tölva, eru ekki réttar, þeim er áfátt eða öðrum skilyrðum um tollafgreiðslu ekki fullnægt.

Heimilt er að senda tollskýrslu með SMT-/VEF-tollafgreiðslu hvenær sem er sólarhringsins.

Unnt er að nálgast upplýsingar um tollafgreiðslu vara á nafni viðkomandi innflytjenda og útflytjenda á tollalínunni. Einnig er unnt að finna þar aðrar upplýsingar um tollafgreiðslu.

Greiðsla aðflutningsgjalda - greiðslufrestur

Þegar um er að ræða SMT- eða VEF-tollafgreiðslu er viðkomandi veittur greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum og þau í staðinn skuldfærð á hann, nema greiðsla í ríkissjóð fari þegar fram með SMT- / VEF-millifærslu af bankareikningi innflytjanda.

Þeir aðilar sem hafa leyfi til að reka frísvæði eða almennar tollvörugeymslur og umboðsaðilar sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum við SMT-tollafgreiðslu fyrir hönd innflytjenda eða viðtakenda vara, fá einnig greiðslufrest á aðflutningsgjöldum.

Skilyrði þessa er að þessir aðilar ábyrgist greiðslu aðflutningsgjalda, auk innflytjanda eða viðtakenda varanna einn fyrir alla og allir fyrir einn. Með þessum hætti verður sérhver þessara aðila ábyrgur fyrir greiðslu aðflutningsgjaldanna og unnt er að ganga að hverjum þeirra sem er og krefjast greiðslu allra gjaldanna.

Skuldfærsla á innflytjanda eða viðtakanda vörunnar

Unnt er að óska eftir því hjá Skattinum að aðflutningsgjöld verði skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda vörunnar og fellur þá ábyrgð umboðs- eða rekstraraðila frísvæðis eða tollvörugeymslu niður.

Hafi umboðs- eða rekstraraðili vitað eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi, fellur þó slík skuldfærsla niður og umboðs- eða rekstraraðili verður sjálfur að greiða aðflutningsgjöldin.

Varðveisla tölvutækra gagna

Þeir sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum vegna SMT-/VEF-tollafgreiðslu þurfa að varðveita öll tölvutæk gögn er varða tollafgreiðsluna. Þeim ber að halda fullkomna skrá eða gagnadagbók í réttri tímaröð og geyma óbreytt öll rammaskeyti sem þeir senda Skattinum eða móttaka.

Þegar gagnadagbók er haldin á tölvutæku formi þarf að vera unnt, á auðveldan hátt, að nálgast rammaskeyti og endurmynda þau á læsilegan hátt og prenta þau, ef þess er óskað.

  • Bókhaldsskyldir aðilar - Ef innflytjandi eða viðtakandi vöru er bókhaldsskyldur þarf hann að varðveita skrifleg gögn er varða innflutning eða útflutning og tollafgreiðslu í samræmi við ákvæði laga um bókhald og fyrirmæli sett samkvæmt þeim lögum.

  • Aðrir en bókhaldsskyldir aðilar - Ef innflytjandi eða viðtakandi vöru er ekki bókhaldsskyldur þarf hann að afhenda Skattinum öll skrifleg gögn er snerta tollmeðferð vöru. Varðveita ber bókhaldsgögn í samræmi við lög um bókhald svo og reglugerðum og öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim.

Leyfishöfum er skylt að veita tollyfirvöldum aðgang að bókhaldi sínu sé þess óskað. 

Endurskoðun gjalda og ákvörðun gjalda að nýju

Meginreglan er sú að endurskoðun vegna SMT- eða VEF-tollafgreiðslu fer fram eftir á.

Endurákvörðun aðflutningsgjalda

Komi í ljós við eftirlit hjá Skattinum að aðflutningsgjöld við innflutning vöru hafi ekki verið rétt ákvörðuð við tollafgreiðslu, t.d. þar sem tollflokkun hafi verið röng á aðflutningsskýrslu, upprunaland rangt, einingartala vöru ekki í samræmi við upplýsingar á vörureikningi eða vegna annarra atriða, mun Skattinum senda innflytjanda bréf um fyrirhugaða endurákvörðun.

Fyrirhuguð endurákvörðun

Í fyrirhugaðri endurákvörðun er greint frá meginástæðum þess að Skatturinn telur aðflutningsgjöld ekki hafa verið rétt ákvörðuð. Innflytjanda er jafnframt gefinn kostur á að koma að andmælum og leggja fram gögn sem hann telur að skipti máli við ákvörðun um réttmæti álagningar.

Andmæli geta t.d. falist í því að koma á framfæri myndlista eða bæklingi frá framleiðanda til rökstuðnings þess að um rétta tollflokkun innflytjanda hafi verið að ræða við tollafgreiðslu tiltekinnar vöru.

Berist Skattinum engin andmæli innan þess tímafrests sem gefinn er í bréfi um fyrirhugaða endurákvörðun munu aðflutningsgjöld endurákvörðuð.

Hversu langt aftur í tímann má Skatturinn endurákvarða aðflutningsgjöld?

Meginreglan er sú að hafi innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar látið Skattinum í té fullnægjandi upplýsingar við tollafgreiðslu og, eftir atvikum, gögn sem byggja mátti rétta álagningu aðflutningsgjalda á þarf Skatturinn að hafa lokið endurákvörðun aðflutningsgjalda innan 60 daga, talið frá því að hann heimilaði afhendingu vöru.

Skattinum er heimilt að endurákvarða aðflutningsgjöld sex ár aftur í tímann, talið frá tollafgreiðsludegi, í eftirfarandi tilvikum:

  1. Gögnum eða upplýsingum ábótavant við tollafgreiðslu
    Hafi framlögðum gögnum eða þeim upplýsingum, sem látin voru í té við tollafgreiðslu, verið áfátt þannig að ekki var unnt að byggja á þeim rétta álagningu aðflutningsgjalda.
    Skiptir í því sambandi ekki máli hvort innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollafgreiðslu vissi eða mátti vita um réttmæti þessara gagna eða upplýsinga.
  2. Innflytjandi vissi eða hefði mátt vita um rétta tollmeðferð vöru
    Hafi innflytjandi vitað eða mátt vita um rétta tollmeðferð vöru. Það getur m.a. átt við hafi innflytjandi áður fengið úrskurð Skattsins eða bindandi ákvörðun Skattsins um tollflokkun vöru í tiltekið tollskrárnúmer samkvæmt tollskrá en síðan tollflokkað sams konar vöru í annað tollskrárnúmer við tollafgreiðslu eða áður flutt inn sams konar vöru og fengið tollafgreidda í ákveðnu tollskrárnúmeri án athugasemda eða með samþykki Skattsins.
  3. Þegar um SMT-tollafgreiðslu er að ræða

Tímabundinn innflutningur vöru
Hafi heimild verið veitt til tímabundins innflutnings vöru en síðan komið til endanlegrar tollafgreiðslu hennar er frestur til endurákvörðunar 60 dagar, talið frá því að aðflutningsgjöld voru ákvörðuð.

Vextir og dráttarvextir við endurákvörðun aðflutningsgjalda
Komi til endurákvörðunar vegna vangreiddra aðflutningsgjalda mun innflytjanda verða gert að greiða dráttarvexti frá tollafgreiðsludegi varanna sem um ræðir.

Um greiðslu vaxta vegna oftekinna aðflutningsgjalda gilda ákvæði laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, með síðari breytingum.

Kæruheimild vegna endurákvörðunar
Úrskurður Skattsins um endurákvörðun á að liggja fyrir innan 30 daga frá lokum þess frests sem hann veitti aðila til að tjá sig um fyrirhugaða endurákvörðun.

Úrskurður Skattsins er kæranlegur til Yfirskattanefndar.

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum