Tollflokkun
Inngangur
Þeim sem eru að byrja að feta sig eftir hinu flókna völundarhúsi tollskrárinnar fallast oft hendur við að ráða fram úr jafnvel einföldustu tollflokkun vöru. Ástæðan er þá yfirleitt sú að leiðbeiningar hefur skort um það hvernig nota skuli flokkunarkerfið. Raunin er þó sú að tiltölulega fáar almennar reglur gilda urn það hvernig kerfinu skuli beitt, svokallaðar almennar túlkunarreglur tollskrár. Þeir sem hafa náð að tileinka sér þær ná fljótlega góðum árangri í tollflokkun jafnvel þótt þeir noti tollskrána sjaldan í sínu starfi. Fyrir byrjendur er vandinn fyrst og fremst sá að átta sig á þessum almennu reglum. Það er þó oft ekki heiglum hent því orðalagið í þessum reglum er njörvað og virkar nokkuð uppskrúfað við fyrsta yfirlestur. Sannkallaður "kansellistíll" eins og gjarnan er sagt um torráðinn texta í opinberum gögnum. Ástæðan fyrir þessu er þó einfaldlega sú að höfundar kerfisins þjappa textanum svona saman til að koma sem mest í veg fyrir hártoganir og mistúlkun.
Á þessari síðu er reynt að draga saman í almennum orðum og á eins auðveldan hátt og auðið er þýðingu þessara reglna. Fyrst verður þó sagt frá uppruna skrárinnar og skiptingu hennar í kafla og flokka.
Alþjóðlegt kerfi
Tollskráin er alþjóðlegt flokkunarkerfi yfir flytjanlegar vörur og er samin af Tollasamvinnuráðinu í Brussel (nú WCO) upp úr eldra kerfi sem notað var hér á landi til áramóta 1987-88. Kerfið heitir á ensku "Harmonised System", stytt HS. Tollskráin er því eins konar alþjóðlegt tungumál um vörur. Þannig væri hægt að ráða í vörureikninga á swahili ef HS- númerin væru aftan við hvert vöruheiti þó við skildum að öðru leyti ekkert af textanum. Nú hafa nær 150 þjóðir heims tekið upp þetta kerfi. Tollastofnunin sér um að halda kerfinu við með tilliti til nýjunga á sviði framleiðslu, tækni og breytinga í alþjóðaviðskiptum. Eins úrskurðar stofnunin í álitamálum sem er vísað til hennar. Skráin er ekki samin eingöngu með það fyrir augum að flokka vörur til tollaálagningar heldur er hún þannig upp byggð að nota má hana í fjölbreyttum tilgangi. Til að mynda hafa hagstofur tekið þessa skrá til nota við upplýsingaöflun í verslunarskýrslur og hafa lagt af eldri kerfi (SITC). Það kerfi var auk gömlu tollskrárinnar notað við uppbyggingu HS. Þetta þýðir að útflutningur er einnig flokkaður eftir HS.
Uppskipting skrárinnar
Tollskránni er skipt upp í 21 flokk og 97 kafla. Flokkarnir eru númeraðir með rómverskum tölum. Fyrirsagnir flokkanna og kaflanna veita leiðbeiningar um hvers konar vörur séu þar flokkaðar. Hins vegar má ekki flokka vörur eftir orðalagi í fyrirsögnunum eins og nánar verður vikið að síðar. Í efnisyfirliti kemur þessi skipting greinilega fram enda nauðsynleg leiðbeining fyrir byrjendur.
Vöruliðir, undirliðir og skiptiliðir
Túlkunarreglurnar eru eins og áður sagði meginreglur um þær aðferðir sem beita skal við tollflokkun vöru. Þær eru sex og er raðað upp í nokkurs konar forgangsröð. Sú fyrsta er t.d. algjör forgangsregla og sú sjötta fjallar um tollflokkun í undirliði. Benda má á að notað er orðið undirliður í stað orðsins tollskrárnúmer. Ástæðan er einfaldlega sú að skiptingar í skránni bera ekki alltaf með sér tollskrárnúmer eins og sést ef grannt er skoðað. Það er vegna þess að vörusviði viðkomandi texta er skipt frekar upp. Af þeim sökum er ekki unnt samhengisins vegna að nota orðið tollskrárnúmer þegar fjallað er um allar skiptingar í skránni. Því eru önnur hugtök notuð til að vísa í texta í skránni. Þau eru eftirfarandi:
1. Vöruliðir:
Feitletraði textinn og táknaður með fjórum fyrstu tölustöfunum í númerinu.
2. Undirliðir:
Undirliður er táknaður með næstu tveimur tölustöfunum annað hvort þeim fyrri eða báðum (núll hefur ekkert gildi) og þá ýmist einu þankastriki eða tveimur á undan texta.
3. Skiptiliðir:
Íslensk undirskipting táknuð með tveimur síðustu tölustöfunum og er oftast tollskrárnúmer. Fjöldi þankastrika fer eftir því hvort einhverjir undirliðir koma á undan.
Vöruliðirnir eru feitletraðir og táknaðir með fjórum fyrstu tölustöfunum. Benda má á að fyrstu tveir eru alltaf þeir sömu í hverjum kafla og eru númer kaflans sem um ræðir. Einnig má sjá að sums staðar er allt númerið fyrir framan vöruliðinn, númer vöruliðarins og síðan fjögur núll. Þá eru engir undirliðir eða skiptiliðir undir vöruliðnum.
Eins og sjá má á undan undirliðunum er ýmist eitt eða tvö þankastrik sem áður var getið. Ef grannt er skoðað má sjá að það er alltaf eitt þankastrik ef sjötti tölustafurinn er núll. Ef hins vegar báðir tölustafirnir hafa eitthvað gildi kemur undirliður með einu þankastriki og síðan, ef honum er skipt, tveir eða fleiri undirliðir með tveimur þankastrikum. Allar þessar skiptingar geta verið tollskrárnúmer, nema
- á eftir fyrri undirlið koma undirliðir með tveim þankastrikum, þ.e. sjötti tölustafur er annað en núll.
- að skiptiliður sé á eftir.
Þetta stafar einfaldlega af því að seinni liðirnir eru frekari uppskipting á þeim fyrri sem getur því ekki verið tollskrárnúmer eins og áður sagði.
Nú hefur verið lokið við að skýra þau hugtök sem notuð eru í túlkunarreglunum yfir skiptingar í skránni og er því komið að því að líta á sjálfar túlkunarreglurnar. Þess ber þó að geta að skiptiliðir eru ekki nefndir þar en lúta sömu lögmálum.
Túlkunarreglurnar
Túlkunarregla 1
Eins og áður sagði er túlkunarreglunum raðað í forgangsröð og því fyrsta regla sú æðsta.
Hvað þýðir hún?
Ekki má flokka eftir fyrirsögnum flokka og kafla. Fyrirsagnirnar eru einungis til leiðbeiningar. Fyrsti hluti reglu eitt segir þetta beinlínis. Seinni hlutinn segir frá því lögmáli flokkunarkerfisins að flokka beri vörur eftir því hvort hún er beinlínis nefnd eða henni nákvæmlega lýst í vöruliðum eða athugasemdum og því aðeins skal beita öllum hinum túlkunarreglunum að það brjóti ekki í bága við þessa meginreglu.
Farið var yfir hugtakið vöruliður en eins og sjá má skv. fyrstu reglunni að virða ber það sem stendur í athugasemdum en þær eru víðast hvar á undan einstöku flokkum og köflum. Efnislega fjalla athugasemdirnar einkum um skilgreiningar á einstökum vöruliðum, vöruheitum eða hafa að geyma skýringar á orðum og hugtökum. Þá gefur að líta víðast hvar athugasemdir þar sem frávísað er ýmsum vörum úr viðeigandi flokkum og köflum. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með þeim. Dæmi er athugasemdin við 01. kafla tollskrárinnar. Svo eru til athugasemdir sem tilgreina mis ítarlega hvaða vörur flokkast í tiltekna vöruliði, t.d. athugasemd 11 við 39. kafla. Þá skal nefna að í skránni eru nokkrar forgangsathugasemdir sem veita tilteknum vöruliðum forgang umfram aðra er við fyrstu sýn kæmu til greina, sbr. athugasemd 5 við 62. kafla.
Yfirleitt gilda athugasemdir eingöngu fyrir tiltekna flokka eða kafla eftir því hvort þær standa við flokk eða kafla. Þó eru á nokkrum stöðum athugasemdir sem gilda hvarvetna í tollskránni, sbr. athugasemd 2. við XV. flokk.
Það er gullvæg regla við tollflokkun að lesa fyrst athugasemdir áður en flakkað er um vöruliðina í einstaka köflum í leit að viðeigandi númeri. Á einstaka stað eru athugasemdir við undirliði og hafa þær einungis gildi fyrir flokkun í undirliði en ekki vöruliði. Ber því fyrst að finna vöruliðinn fyrst og líta síðan á það hvort einhverjar athugasemdir eru við undirliðina í viðkomandi vöruliðum áður en tollskrárnúmer er valið.
Túlkunarregla 2
Túlkunarregla tvö er í tveim liðum og segir okkur í fyrsta lagi:
a. að ófullgerðar vörur flokkast eins og fullgerðar nema þeirra sé getið einhvers staðar í öðrum vöruliðum eða athugasemdum, sem oft er. Sama á við um ósamsettar eða sundurteknar vörur.
Í öðru lagi:
b. er það áréttað að efni flokkast yfirleitt eins þó það sé í sambandi við önnur efni svo fremi að sú blöndun hafi ekki í för með sér breytingu á tollflokkun. Sem dæmi flokkast plast yfirleitt í 39. kafla. Plastplata styrkt með vírdúk úr járni er áfram plastplata. Að vísu í öðrum vörulið plastkaflans. Hins vegar sé járnið orðið það mikið í þessu sambandi að til álita komi að flokka plötuna sem járn þá segir niðurlag greinarinnar okkur það að beita skuli túlkunarreglu þrjú við flokkunina.
Þá er komið að því að reyna að átta sig á því hvernig flokka á vöru ef hún er þeirrar gerðar, að til álita kemur að flokka hana í tvo eða fleiri vöruliði og fyrstu reglu verður ekki beitt. Þetta er skýrt í túlkunarreglu þrjú, sem er í þremur liðum og raðað í forgangsröð. Fyrsta regla er meginreglan í þessu sambandi og kveður hún á um það, að sé vörunni best lýst í einum af þeim vöruliðum sem til álita koma, ber að flokka vöruna í þann vörulið. Þessi regla er í fullu samræmi við meginregluna, túlkunarreglu eitt. Seinni og lengri málsgreinin í 3 (a) segir okkur einfaldlega það, að þó einungis hluti vörunnar sem flokka skal sé nefndur í einhverjum vörulið kemur hann jafnt til álita við flokkun og hinir. Enginn má vera útundan þegar flokkun er velt fyrir sér. Hins vegar er ekki þar með sagt að sá hluti ráði í öllum tilfellum endanlegri niðurstöðu. Svo dæmið sé tekið um plastplötuna þá má ekki gleyma því að vírdúkur er í plastplötunni enda hefur hann áhrif á flokkunina hvort sem við komumst að þeirri niðurstöðu að platan sé plast eða járn. Þetta sýnir einnig vel hversu nauðsynlegt er að kynna sér vel gerð og samsetningu vörunnar áður en ráðist er í tollflokkun hennar.
Nú verður ekki séð að einn vöruliður lýsi vörunni umfram aðra sem til greina koma, t.d. ef um er að ræða jafn almennt orðaða vöruliði og "Aðrar vörur" eða "Annað" verðum við að beita túlkunarreglu 3 (b).
Túlkunarregla 3 (b)
Túlkunarregla þrjú getur verið mjög erfð í framkvæmd því oftlega getur verið uppi ágreiningur um hvaða þáttur eða atriði það er sem einkennir tilteknar vörur eða vörusamstæður. Ólíkt því sem um ræðir í 3 (a) verðum við að láta vöruna sjálfa stjórna flokkuninni en ekki lýsingu í vöruliðum tollskrárinnar. Þau álitamáI, sem upp kunna að koma við beitingu þessarar reglu, verðum við að kryfja til mergjar áður en við beitum reglu 3 (c). Sú regla skýrir sig að mestu sjálf.
Það er ýmislegt sem þarft er að skoða við beitingu túlkunarreglu 3 b. Sem dæmi má nefna eftirfarandi : Eðli og efni vörunnar, umfang (bulk), þyngd, magn, verðmæti, gæði eða meginhlutverk við notkun.
Túlkunarregla 4
Túlkunarregla fjögur fjallar um vandamál sem ólíklegt er að upp komi. Þessi regla er fyrst og fremst sett til að gera tollflokkun á nýjum vörum mögulega og brúa það bil sem myndast milli þess að slíkar vörur komi á markað og nauðsynlegar breytingar þeirra vegna séu gerðar á tollskránni. Venjulega eru slík vandamál leyst með því að beita endavöruliðum skrárinnar, "Aðrar vörur" eða "Annað".
Túlkunarregla 5
Túlkunarregla fimm er í tveimur liðum og fjallar um tollmeðferð á umbúðum um vörur. Í fyrsta lagi varanlegum umbúðum og í öðru lagi venjulegum flutningsumbúðum. Ekki er ástæða til að fjalla sérstaklega um orðalag þessarar reglu hér, enda skýrir hún sig að mestu sjálf. Hún er sett fyrst og fremst í þeim tilgangi að samræma tollmeðferð á umbúðum í þeim löndum sem nota HS-flokkunarkerfið.
Túlkunarregla 6
Að lokum verður farið fáum orðum um 6. túlkunarregluna. Þessi regla er e.t.v. torskilin við fyrsta yfirlestur en boðskapur hennar er í sem stystu máli sá, að við tollflokkun í undirliði beitum við sömu meginreglum og beita á við flokkun í vöruliði. Jafnframt er það undirstrikað, að einungis verði þeim reglum beitt við jafnsetta undirliði, þ.e. undirliði í sama vörulið. Þetta minnir okkur á þá aðferð sem nota ber við leit að réttu tollskrárnúmeri: Fyrst finnum við flokkinn, síðan kaflann, þá vöruliðinn og loks undirliðinn. Síðast flokkum við í skiptiliði ef þeir eru einhverjir.
Tollflokkun ökutækja
Vöruliður 87.03
Undir þennan vörulið falla vélknúin ökutæki af ýmsum tegundum (þ.m.t. vélknúin ökutæki fyrir láð- og lög) sem hönnuð eru til fólksflutninga; liðurinn tekur hins vegar ekki til vélknúinna ökutækja sem nefnd eru í vörulið 87.02. Ökutæki sem falla undir þennan vörulið geta verið með hreyfla af hvaða tegund sem er (stimplibrunahreyfil, rafmagnshreyfil, gashverfilhreyfil o.s.frv.)
-Þessi vöruliður tekur einnig til léttra þriggja hjóla ökutækja einfaldrar gerðar, svo sem:
-Þeirra sem búin eru bifhjólahreyfli og hjólum o.s.frv. sem vegna vélrænnar uppbyggingar sinnar hafa til að bera eiginleika hefðbundinna bifreiða, þ.e.a.s. stýrisbúnaði þeirrar tegundar sem notaður er í bifreiðum eða bæði bakkgír og mismunardrif;
-Þeirra sem áfest eru á T-laga undirvagn, þar sem afturhjólin bæði tvö eru drifin af aðgreindum rafmagnshreyflum sem knúnir eru af rafgeymi. Þessum ökutækjum er almennt stýrt með einni miðlægri stýrisstöng sem ökumaður notar til að ræsa, auka hraða, hemla, stöðva og bakka ökutækinu, sem og til að stýra því til hægri eða vinstri með því að beita mismunarvægi á drifhjól eða með því að snúa framhjóli.
Undir þennan vörulið falla bæði hjóla- og beltaökutæki.
Þessi vöruliður felur einnig í sér:
1) Bifreiðar (t.d. límúsínur, leigubíla, sportbíla og kappakstursbíla)
2) Sérhannaðar flutningabifreiðar svo sem sjúkrabifreiðar, fangaflutningabifreiðar og líkvagna
3) Húsbíla, ökutæki til flutninga á fólki, sérútbúin til búsetu (með svefn-, eldunar- og baðaðstöðu o.s.frv.)
4) Ökutæki sérhönnuð til aksturs í snjó (t.d. vélsleðar)
5) Golfbílar og viðlíka ökutæki
6) Vélknúin ökutæki á fjórum hjólum á grindarundirvagni með stýriskerfi bifreiðar (t.d. stýriskerfi byggt á Ackermann lögmálinu).
Hvað þennan vörulið varðar er merking hugtaksins „skutbifreið" bifreiðar sem hafa að hámarki sætarými fyrir níu manns (þ.m.t. ökumaður) og þar sem hægt er að nýta innra rými til flutninga á bæði fólki og vörum án breytinga á formgerð/innri gerð ökutækisins.
Flokkun ákveðinna ökutækja undir þenna vörulið ákvarðast af tilteknum einkennum sem benda til þess að ökutækið sé einkum hannað til flutninga á fólki frekar en á vörum (vöruliður 87.04). Þessi einkenni koma sérstaklega vel að notum við flokkun ökutækja sem almennt eru með brúttóþyngd undir 5 tonnum og er með einu lokuðu innra rými sem felur í sér svæði fyrir ökumann og farþega og annað rými sem hægt er að nýta til flutninga á bæði fólki og vörum. Í þennan flokk falla einnig ökutæki sem almennt eru þekkt sem „fjölnota" ökutæki (t.d. sendiferðabílar og viðlíka, jeppar og jepplingar [sports utility vehicles], sumar tegundir pallbíla). Eftirfarandi einkenni eru leiðbeinandi varðandi þá hönnunareiginleika sem almennt eiga við þau ökutæki sem falla undir þennan lið:
a) Föst sæti með öryggisbúnaði (t.d. sætisbelti eða festur og tengihlutir vegna ísetningar sætisbelta) fyrir hvern einstakling eða varanlegar festur og tengihlutir til uppsetningar sæta og öryggisbúnaðar í afturhluta, bak við svæði fyrir ökumann og farþega í framrými; slík sæti geta verið föst, samleggjanleg (fold away), laus frá festum eða hægt að brjóta þau saman (collapsible);
b) Bakgluggar á báðum hliðarþiljum;
c) Hurð eða hurðir með gluggum annað hvort á bak- eða hliðarþiljum sem opnast annað hvort á rennu eða með því að lyftast upp eða hreyfast til hliðanna;
d) Ekkert varanlegt þil eða skilrúm á milli svæðis sem ætlað er fyrir bílstjóra og farþega í framrými annars vegar og bakrýmis hins vegar sem nota má til flutninga á bæði farþegum og vörum;
e) Allt innra rými bifreiðarinnar búið þægindabúnaði og allur frágangur og fylgihlutir á þann hátt sem vaninn er í farþegarýmum ökutækja (t.d. gólfteppi, loftræsting, ljós að innan, öskubakkar).
Ökutæki sérhönnuð til nota í skemmtigörðum t.d. „klessubílar" (dodge´em cars) eru flokkuð undir lið 95.08
Vöruliður 87.04
Þessi vöruliður tekur einkum til:
Venjulegra vöruflutningabifreiða ( vörubifreiða [trucks]) og sendibifreiða (flatra, með yfirbreiðslu, lokaðra o.s.frv.); sendiferðabíla (delivery trucks and vans) af öllum gerðum, flutningsbifreiða; vöruflutningabíla með sjálfvirkum losunarbúnaði (vörubifreiðar með sturtupalli o.s.frv.); tankbifreiðar (með eða án dælu); kæli-, frysti- eða einangraðar flutningabifreiða; vöruflutningabifreiðar á mörgum hæðum ætlaðra til flutninga á sýru í kútum, bútanhylkjum o.s.frv.; þungar vöruflutningabifreiðar með grind á hjörum og hleðsluramp fyrir flutninga á tönkum, lyfti- og graftarbúnaði, rafspennubreytum o.s.frv.; vöruflutningabifreiðar sérútbúnar til flutninga á nýrri steypu, aðrar en bifreiðar með steypuhrærivél sem falla undir lið 87.05; sorphirðubifreiðar með eða án búnaðar til fermingar, þjöppunar, deyfingar o.s.frv.
Flokkun ákveðinna ökutækja undir þennan vörulið er ákveðin vegna ákveðinna eiginleika sem gefa til kynna að ökutækið sé hannað til flutninga á vörum frekar en til farþegaflutninga (vöruliður 87.03). Þessir eiginleikar eru einkum hjálplegir við að ákvarða flokkun vélknúinna ökutækja, almennt eru ökutæki sem skilgreind eru með brúttóþyngd undir 5 tonnum annað hvort með aðskilið afturrými eða opinn pall sem almennt er notaður til flutninga á vörum. Þau geta haft í afturrými sæti sem líkjast bekkjum, eru án sætisbelta eða festa fyrir þau og þæginda fyrir farþega, leggjast flöt upp að veggjum til að tryggja fulla nýtingu afturrýmis eða palls til vöruflutninga. Í þennan flokk vélknúinna ökutækja fellur það sem almennt er nefnt „fjölnota" ökutæki (t.d. ökutæki af tegund sendibíla, pallbíla og ákveðnar tegundir jeppa eða jepplinga [sports utility vehicles]). Eftirfarandi einkenni eru leiðbeinandi varðandi þá hönnunareiginleika sem almennt eiga við þau ökutæki sem falla undir þennan vörulið:
a) Sæti sem líkjast bekkjum, án öryggisbúnaðar (t.d. sætisbelti eða festur og tengihlutir vegna ísetningar sætisbelta)og þæginda fyrir farþega í afturhluta, bak við svæði fyrir ökumann og farþega í framrými. Slík sæti eru almennt samleggjanleg (fold away) eða hægt að brjóta þau saman (collapsible) til að tryggja fulla nýtingu afturrýmis eða palls til vöruflutninga;
b) Aðgreint rými fyrir ökumann og farþega og aðgreindur opinn pallur með hliðarþiljum og gafl á hjörum sem opnast niður á við (pallbílar);
c) Engir gluggar á hvorugu hliðarþili; hurð eða hurðir án glugga annað hvort á bak- eða hliðarþiljum sem opnast annað hvort á rennu eða með því að lyftast upp eða hreyfast til hliðanna vegna fermingar og affermingar á vörum (vöruflutningabifreiðar);
d) Varanlegt þil eða skilrúm á milli svæðis sem ætlað er fyrir bílstjóra og farþega í framrými annars vegar og bakrýmis hins vegar;
e) Innra rými hvorki búið þægindabúnaði né þeim frágangi og fylgihlutum sem vaninn er í farþegarýmum ökutækja (t.d. gólfteppi, loftræsting, ljós að innan, öskubakkar).
Tollflokkun á skjám og ýmsum lækningavörum
Tollflokkun á skjáum
Samkvæmt tollanafnaskrá Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) er skjáum skipt í tvo flokka. Annars vegar er þeim skipt í skjái sem gerðir eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum (eins og gagnavinnslukerfum er lýst í vörulið 8471), HS-númer 8528.51, og hins vegar sem aðrir skjáir, HS-númer 8528.59.
8528.5100 | -- Sem gerðir eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471 |
8528.5900 | - - Aðrir |
Nánari skilgreiningar og leiðbeiningar um aðgreiningu og flokkun skjáa er að finna í skýringabókum (EN) WCO. Umræður hafa skapast að undanförnu á tollflokkunarfundum WCO um textann í skýringabókunum. Nefndarmenn hafa verið á einu máli að laga þurfi textann varðandi vörulið 8528 að nýju tækniumhverfi. Þó nokkrir fundarmenn vildu leggja niður þessa tvískiptingu og sameina alla skjái í eitt númer en viðskiptahagsmunir annarra þjóða gætu gert slíkt erfitt.
Fjögur atriði eru nefnd í textanum í skýringabókunum sem aðgreina gagnavinnslukerfaskjái frá öðrum skjáum. Þrjú af þeim eiga aðeins við CRT skjái sem mikið til er hætt að nota. Fyrsta atriðið tekur hins vegar til allra skjáa. Þar er tekið fram að þessir skjáir eigi aðeins að geta tekið við merkjum frá örgjörvum sjálfvirkra gagnavinnsluvéla og geti því ekki tekið á móti samsettum vídeómerkjum (composite video signal) eins og PAL, NTSC o.s.frv. Einnig eiga þessir skjáir að bera aðeins tengi sem einkenna gagnavinnslukerfi og mega ekki vera með hljóðrásir (audio circuit).
Í textanum eru einnig tiltekin ýmis atriði sem snúa að notendaviðmóti skjásins, t.d. að segulsviðsútgeislun sé lág, að hægt sé að hækka og lækka og snúa skjáunum á þar til gerðum stöndum og annað sem snýr að iðjufræðilegum (ergonomic) atriðum sem gera notanda kleift að vinna í mikilli nálægð við skjáinn til langs tíma.
Til þess að skjáir geti flokkast í HS-númer 8528.51 þurfa þeir að uppfylla framangreind skilyrði og vera gerðir, eingöngu eða aðallega, til nota í gagnavinnslukerfum eins og þeim er lýst í vörulið 8471. Allir aðrir skjáir flokkast í HS-númer 8528.59.
Annað sem hefur verið til umræðu í WCO tollflokkunarnefndinni er hvort skýringabækur WCO þrengi svið lagatextans með orðalagi sínu. Í skýringabókum WCO stendur að í HS-númerinu 8528.51 séu skjáir sem geti aðeins tekið á móti merkjum frá örgjörva (CPU) en í lagatextanum er númerið sagt innihalda skjái sem gerðir eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum.
Í Hollandi féll dómur árið 2009 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri nóg að skjár uppfyllti ekki eitt atriði í skýringabókunum til að hann yrði sjálfkrafa flokkaður í seinna númerið sem aðrir skjáir. Líta þyrfti til fleiri þátta til að taka ákvörðun um flokkun og að heildarmyndin réði flokkun.
Á 50. HS-fundi WCO í september á síðasta ári var skjár (Maritime Multi Display) tollflokkaður í WCO-númer 8528.51 sem skjár aðallega til nota í gagnavinnslukerfum þrátt fyrir að geta tekið á móti composite video merkjum og styðja NTSC og PAL staðla sem skýringabækur WCO segja að skjáir í 8528.51 mega ekki geta. Þetta eru merki sem HDMI tengi geta borið. Lögð var mikil áhersla á það að skjárinn yrði oftast tengdur gagnavinnslukerfum. Einnig var bent á það að texti skýringabókanna við vörulið 8528 þarfnaðist lagfæringar, m.a. þar sem hann væri hugsanlega ekki í samræmi við lagatextann.
Í kjölfar og aðdraganda þessa álits nefndarinnar á Maritime Multi Display skjánum tók embættið stefnu sína í tollflokkun skjáa til endurskoðunar. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar var að ekki væri hægt að útiloka skjái úr tollskrárnúmeri 8528.5100 vegna þess að þeir næðu ekki að uppfylla öll skilyrðin sem talin eru upp í skýringabókum WCO. Við tollflokkun á skjáum þyrfti að líta til fleiri þátta og leggja heildstætt mat á vöruna. Af þeim atriðum sem talin eru upp í skýringabókunum er ljóst að þrennt vegur þyngst. Þ.e. að skjárinn geti ekki tekið á móti öðrum merkum en frá örgjörva, að skjárinn sé aðeins með tengi sem einkenna gagnavinnslukerfi og að í þeim séu ekki hljóðrásir. Hafa ber í huga að oft fara fyrstu tvö atriðin saman. Þ.e. að tengi sem einkenna gagnavinnslukerfi geta oft ekki borið önnur merki en frá örgjörva, t.d. má nefna VGA tengi í því sambandi, á meðan að tengi sem eru meira almenns eðlis geta borið önnur merki eins og t.d. HDMI tengið.
Hvað þýðir þetta þegar kemur að tollflokkun?
Hvern skjá þarf að meta heildstætt en til einföldunar má segja að ef skjár er aðeins með tengi sem einkenna gagnavinnslukerfi, t.d. VGA eða DVI tengi þá flokkast þeir í tnr. 8528.5100 sama hvort þeir eru með hátölurum eða ekki. Það er að segja ef þeir eru aðallega til nota í gagnavinnslukerfum.
Ef skjáir eru með tengi sem eru almenns eðlis og geta borið önnur merki en frá örgjörva þá flokkast þeir sem skjáir í 8528.5100 ef þeir eru ekki með hátalara. Ef þeir eru hins vegar með hátalara þá verður að telja að þeir hafi ekki uppfyllt neitt af veigamestu skilyrðunum í skýringabókum WCO og verði því að flokkast í aðra skjái í tnr. 8528.5900 enda eru slíkir skjáir nothæfir til fleiri hluta en við gagnavinnslukerfi. Þess konar skjáir geta þar af leiðandi ekki talist vera eingöngu eða aðallega til notkunar við gagnavinnslukerfi.
Hvað eru gagnavinnslukerfi?
Sjálfvirkum gagnavinnsluvélum, sem eru í gagnavinnslukerfum, er lýst í athugasemd 5.A við 84. kafla. Þar eru talin upp fjögur atriði sem þessi tæki verða að geta uppfyllt til að teljast sem gagnavinnsluvélar. Vélarnar verða að geta:
- geymt vinnsluforrit eða forrit og að minnsta kosti þau gögn sem beint eru nauðsynleg til að láta forritið vinna;
- verið auðveldlega forritaðar í samræmi við óskir notandans;
- framkvæmt talnaútreikning samkvæmt ákvörðun notandans;
- framkvæmt, án mannlegra afskipta, vinnsluforrit sem gerir ráð fyrir að þær geti breytt úrvinnslu sinni með rökrænni ákvörðun á meðan á vinnslu stendur.
Tollflokkun ýmissa lækningavara
Alþjóðatollastofnunin og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin settu saman lista yfir helstu lækningavörur í kjölfar Covid-19 faraldursins. Embættið hefur flokkað þessar vörur eftir íslensku tollskránni á ensku og hægt er að nálgast hann á ytri vef embættisins.
The WCO and the WHO have jointly prepared an HS classification reference list for Covid-19 medical supplies. An Icelandic list of these medical supplies and their national classification can now be found on this website.
Listi yfir tollflokkun ýmissa lækningavara (pdf)
Túlkunarreglur tollskrár
Almennar reglur um túlkun tollskrárinnar
Við flokkun vara samkvæmt tollskránni skal fylgja eftirfarandi reglum:
1. Fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum eru einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla og brjóti það eigi í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skal fylgt eftirfarandi reglum:
2.
a. Þegar talað er um tilteknar vörur í vörulið tekur það einnig til ófullgerðra vara eða vara sem eitthvað vantar á, ef þær við framvísun að öllu verulegu leyti líta út eins og hinar fullgerðu vörur. Enn fremur tekur það til þessara vara fullgerðra eða heilla (eða vara sem flokkast þannig samkvæmt þessum lið) þegar þeim er framvísað ósamsettum eða sundurteknum.
b. Þegar talað er um tiltekið efni í vörulið tekur það eigi einungis til efnisins óblandaðs, heldur einnig til þess í blöndum eða samböndum við önnur efni. Sérhver tilvísun til vara úr tilteknu efni tekur til vara sem að öllu eða nokkru leyti eru úr því efni. Um tollflokkun blandaðra og samsettra vara fer eftir reglum 3. töluliðar hér á eftir.
3. Nú kemur til álita samkvæmt reglu 2. töluliðar, eða af öðrum ástæðum, að telja vörur til tveggja eða fleiri vöruliða og skal þá tollflokkunin fara eftir því sem hér segir:
a. Vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu skal tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu. Þegar tveir eða fleiri vöruliðir hver um sig taka aðeins til hluta þeirra efnivara eða efna, sem eru í blöndum eða samsettum vörum, eða aðeins til hluta vara í vörusamstæðu í smásöluumbúðum, skulu þeir vöruliðir taldir koma að jöfnu til álita með tilliti til þessara vara, þótt ein þeirra gefi fyllri eða nákvæmari lýsingu á vörunum.
b. Blöndur, samsettar vörur úr ýmsum efnum eða hlutum svo og vörusamstæður, sem eigi verður flokkað eftir reglu a-liðar 3. töluliðar, skal flokka eftir því efni eða þeim hluta sem helst einkennir vörurnar, enda verði slíku mati komið við.
c. Ef eigi er unnt að flokka vörur eftir reglum a- eða b-liðar 3. töluliðar hér á undan skal telja þær til þess vöruliðar sem síðastur er þeirra vöruliða sem að jöfnu koma til álita.
4. Vörur sem ekki verða flokkaðar samkvæmt undanfarandi reglum skulu taldar til sama vöruliðar og þær vörur sem þeim eru líkastar.
5. Auk undanfarandi ákvæða skulu eftirfarandi reglur gildar um þær vörur sem hér greinir:
a. Myndavélahylki, hljóðfæratöskur, byssuhulstur, pennastokkar, skartgripaskrín og áþekk ílát sem sérstaklega eru löguð eða smíðuð undir ákveðnar vörur eða vörusamstæður, eru ætluð til langvarandi nota og framvísað með þeim vörum sem þær eru ætlaðar undir skal flokka með þessum hlutum. Ákvæði þetta tekur þó ekki til íláta sem eru einkennandi fyrir vöruna í heild.
b. Leiði ekki annað af reglu a-liðar 5. töluliðar skal umbúðaefni og ílát til pökkunar, sem framvísað er með vörunum í, flokkað með vörunum, enda sé það venjulega notað til pökkunar á slíkum vörum.
6. Í lagalegu tilliti skal flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemda við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verða bornir saman. Viðkomandi athugasemdir við flokka og kafla gilda einnig með tilliti til þessarar reglu, nema annað leiði af orðalagi.
Tolltaxtadálkar tollskrárinnar
Dálkar A og A1 í tollskránni gilda fyrir allar innfluttar vörur nema um þær gildi sérreglur í dálki E. Dálkur E í tollskránni gildir fyrir vörur sem fluttar eru inn samkvæmt ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Ráðherra er heimilt með þeim skilmálum, sem kveðið er á um í samningnum eða öðrum fríverslunar- og milliríkjasamningum, að ákveða með reglugerð eða öðrum fyrirmælum sérstaka tollmeðferð á vörum sem flokkast undir 1. til 24. kafla tollskrárinnar.
Tollskráin á vefnum - fyrirvari
Tollskráin er birt á vef embættisins til hagræðis fyrir þá sem þurfa að nota skrána, ekki síst vegna tollafgreiðslu vöru.
Tollskráin, sem birt er í viðauka I við tollalög nr. 88/2005, er gerð í samræmi við vörunúmeraskrá Alþjóða tollastofnunarinnar. Í þeirri skrá er 6 stafa númerakerfi, en í íslensku tollskránni eru 8 stafir til þess að gefa svigrúm til frekari skiptingar.
Kappkostað er að uppfæra tollskrána á vefnum jafnóðum og breytingar eru gerðar á henni. Þess ber þó að gæta, að ef misræmi verður á milli þess texta sem hér birtist, annars vegar, og hinum lögformlega birta texta í A-deild Stjórnartíðinda, hins vegar, gildir sá síðarnefndi.
Tollflokkun er fólgin í að ákvarða 8 stafa númer vöru samkvæmt tollskránni og ber við þá flokkun að fara eftir almennum reglum um túlkun skrárinnar, sem birtar eru fremst í skránni. Þar er meginreglan sú að tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi kafla og flokka. Vöruliðirnir eru aðgreindir með feitu letri, bæði texti og númer . Fyrirsagnir á köflum og flokkum eru einungis til leiðbeiningar.
Vakin er athygli á því að inn- og útflytjendur bera ábyrgð á að tollflokkun sé rétt. Þeir sem þess óska geta fengið leiðbeiningar hjá embættinu um tollflokkun og þeir sem hagsmuna hafa að gæta eiga þess ennfremur kost að fá svonefnt bindandi álit á tollflokkun, en í því felst formleg staðfesting af hálfu tollyfirvalda á réttri tollflokkun. Skriflegri beiðni um slíkt skal beina til Skattsins á sérstöku eyðublaði, sbr. nánar 21. gr. tollalaganna. Að auki geta þeir sem eiga í ágreiningi við Skattinn um tollflokkun vöru, fengið formlegan úrskurð embættisins í samræmi við reglur 117. gr., en þeim úrskurði, og raunar bindandi áliti Skattsins um tollflokkun, má skjóta til Yfirskattanefndar í samræmi við reglur 118. gr. laganna.