Staðgreiðsla

Til að geta skilað staðgreiðslu og tryggingagjaldi rafrænt þarf sendandi að vera á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra og hafa annað hvort rafræn skilríki eða fengið úthlutað sérstökum veflykli, staðgreiðslulykli. Þeir sem eru á launagreiðendaskrá geta sótt um lykilinn „með einum smelli“ á þjónustusíðu sinni, skattur.is

Boðið er upp á rafræn skil á staðgreiðslu með tvennum hætti. Annars vegar vefskil á www.skattur.is og hins vegar skeytaskil úr launkerfi.

Með rafrænum skilum er hægt að skila skilagrein og sundurliðun, stofna kröfu til greiðslu í heimabanka, gera leiðréttingar og fá yfirlit. Áminningar um eindaga eru sendar í tölvupósti, til þeirra sem eru í rafrænum skilum, auk orðsendinga og annarra tilkynninga.

Staðgreiðslu skilað frá launakerfi

Flest launakerfi bjóða upp á rafræn skil á staðgreiðslu. Notandinn setur (staðgreiðslu)veflykil í launakerfið til að geta hafið rafræn skil. Hann þarf aðeins að velja launatímabil og smella á hnappinn senda/staðfesta.

Engum pappír á að skila þegar sent er rafrænt.

Launakerfið sendir XML skjal til ríkisskattstjóra, sem er samkvæmt XML staðli og búið til samkvæmt skilgreiningu ríkisskattstjóra. Nánari tækniupplýsingar.

Staðgreiðslu skilað á skattur.is

Rafræn skil staðgreiðslu á skattur.is eru gerð undir liðnum "vefskil". Þau fara fram í þremur þrepum. Í þrepi 1 eru skráðar inn upplýsingar um sundurliðun staðgreiðslunnar, í þrepi 2 verður skilagrein með heildarfjárhæðum til og þrep 3 er síðan kvittun fyrir skilum auk upplýsinga um greiðslu. Tryggingagjaldi er skilað með sömu skilagrein.

Á skattur.is eru leiðbeiningar um útfyllingu og skil við hvert þrep.

Greiðsla - krafa í heimabanka

Þegar staðgreiðsluskilagrein hefur verið skilað, hvort heldur er úr launakerfi eða á skattur.is, stofnast krafa í vefbanka launagreiðanda.

Kröfuna er að finna undir "ógreiddir reikningar". Til að krafa stofnist þarf vefbanki að vera á sömu kennitölu og kennitala launagreiðanda. Stofnist krafan ekki er alltaf hægt að greiða með því að millifæra eða með OCR-rönd.

Ef AB gíró er valið þarf að fylla út OCR-rönd, sem samanstendur af tilvísunarnúmeri, seðilnúmeri, færslulykli, stofnun, höfuðbók og reikningsnúmeri, auk þess sem skrá þarf inn fjárhæðina.

Upplýsingar um OCR-röndina er að finna á kvittun fyrir móttöku skilagreinarinnar, sem er að finna undir "skoða eldri skýrslu".

Staðgreiðslukrafa finnst ekki í heimabanka

Ef krafa finnst ekki í heimabanka eða ef erfitt reynist að greiða staðgreiðsluna rafrænt ætti að vera hægt að gera það með því að millifæra eða með AB gíró. Þá þarf að útbúa OCR-rönd, sem samanstendur af tilvísunarnúmeri, seðilnúmeri, færslulykli, stofnun, höfuðbók og reikningsnúmeri.

Tilvísunarnúmer = kennitala greiðanda og svo er bætt tveimur stöfum fyrir ártal fyrir aftan hana, t.d. 16 vegna 2016.
Seðilnúmer = Tveir stafir fyrir tímabil sem verið er að greiða, t.d. 01 fyrir janúar og svo síðustu 5 stafina í kennitölunni
Færslu lykill =31
Stofnun-höfuðbók =0001-26
Reikningsnúmer = 025111
Dæmi um OCR rönd: 540269206916 - 0192069 - 31 - 000126 - 025111

Skoða og leiðrétta

Hægt er að fá yfirlit yfir allar skilagreinar sem skilað hefur verið rafrænt og fá afrit af þeim, en þær sem skilað hefur verið á pappír birtast ekki í yfirlitinu. Sundurliðanir er ekki hægt að skoða eftir að skilagrein hefur verið send.

PDF-kvittun (útfylltan gíróseðil) fyrir staðgreiðsluskilagrein má nota til greiðslu í banka, ef ekki er hægt að greiða í vefbanka. Eins er hægt að sækja OCR rönd til greiðslu í AB gíró, finnist krafa ekki í vefbanka.

Sundurliðanir vistast við útfyllingu. Sé ekki hægt að ljúka útfyllingu í einu lagi og er hægt að fylla út sundurliðun í áföngum.

Hægt er að bakfæra ranga innsenda skilagrein. Fyrst þarf þó að senda inn rétta skilagrein og er bakfærslan staðfest með veflykli.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum