Viðurkenndir útflytjendur

Viðurkenndir útflytjendur

Viðurkenndur útflytjandi má gefa út yfirlýsingu á vörureikningi vegna allra sendinga án tillits til verðmætis þeirra, samanber 22. grein og a-lið 1. töluliðar 21. greinar bókunar 4 við EES-samninginn og samsvarandi ákvæði annarra fríverslunarsamninga.

Útflytjendur geta sótt um viðurkenningu til þess að gefa út yfirlýsingu um uppruna vöru á vörureikningi, óháð verðmæti hennar á þar til gerðu eyðublaði.

Eyðublaðið má nálgast hér. (nauðsynlegt er að nota Adobe Reader til að fylla eyðublaðið út, ekki vafra). 

Umsóknin skal sendast á netfangið fta@skatturinn.is eða með pósti á: Skatturinn, Lögfræðideild tollasviðs, Katrínartúni 6. 105 Reykjavík.

Við útfyllingu umsóknareyðublaðs er nauðsynlegt að allir dálkar sem við eiga séu fylltir út og að nauðsynleg gögn fylgi umsókninni.

Nánar um áritun viðurkennds útflytjanda um uppruna vöru á vörureikningi (kafli 6.2.2.2)

Listi yfir viðurkennda útflytjendur, pdf skjal

Listi yfir viðurkennda útflytjendur til Kína, pdf skjal

Leiðbeiningar

Leiðbeiningar m.a. úr bókun fjögur við EES-samninginn og tollalögum nr. 88/2005

 

Þetta eyðublað inniheldur virkni sem krefst notkunar Adobe Reader, forritið er frítt og mælt er með nýjustu útgáfu. Eyðublaðið virkar ekki rétt með öðrum pdf lesurum.

Skoðaðu þessa lausn ef þú lendir í vandræðum með að opna eyðublaðið.

 

1. Heimilt er að veita fyrirtækjum leyfi sem viðurkenndir útflytjendur flytji þau reglubundið út vöru sem uppfyllir skilyrði fríverslunarsamninga til tollfríðinda, svokallaða upprunavöru. Umsókn um leyfið skal ávallt send frá aðalstöðvum fyrirtækisins, jafnvel þó sótt sé um fyrir annan hluta þess. Fyrirtækið sem lögaðili ber ábyrgð á notkun leyfisins. Leyfið er veitt í fimm ár í senn. Sækja ber um endurnýjun leyfis áður en það rennur út.

2. Leyfið er veitt að því tilskyldu að:

a. útflytjandi hafi góða þekkingu á gildandi upprunareglum og skilyrðum fyrir útgáfu upprunasannana og einnig á reglum þeim sem gilda fyrir viðurkennda útflytjendur í hinum mismunandi samningum;

b. útflytjandi geti með viðeigandi gögnum sýnt fram á réttmæti upprunayfirlýsingar sem hann hefur gefið út ef Tollstjóri fer fram á slíkt, samanber 30. grein og 144. grein tollalaga.

c. útflytjandi tilkynni um fyrirhugaðan útflutning ef Tollstjóri fer fram á það, svo hægt sé að skoða vörurnar;

d. útflytjandi varðveiti afrit af upprunayfirlýsingum með vörureikningum ásamt öðrum útflutningsskjölum og sönnunargögnum, sem sýna fram á réttmæti útgefinnar upprunayfirlýsingar, samanber 29. grein tollalaga, í a.m.k. sex ár;

e. að útflytjandi uppfylli skilyrði um fjölda sendinga á ári (að meðaltali 24). Í undantekningartilvikum er hægt að gefa út leyfi þrátt fyrir að fjöldi sendinga sé ekki nægilegur. Leyfið er þá veitt til eins árs, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

3. Útflytjandi ber fulla ábyrgð á öllum upprunayfirlýsingum sem hann gefur út á vörureikningum á sama hátt og hann hafi undirritað þær. Tekið skal fram að tollyfirvöldum er heimilt að afturkalla leyfi viðurkennds útflytjanda hvenær sem er og ber skylda til þess ef misfarið er með leyfið eða skilyrði eru ekki lengur uppfyllt.

4. Misnotkun leyfisins varðar refsiábyrgð, samanber 169. grein tollalaga.

5. Vakin er athygli á því að öll gögn og upplýsingar sem veitt eru Tollstjóra vegna umsóknar og leyfisveitingar heyra undir þagnarskyldu, samanber 188. grein tollalaga og viðeigandi ákvæði fríverslunarsamninga.

6. Umsóknareyðublaðið skal skilmerkilega útfyllt og undirritað eins og texti reita segir til um og tilskilin fylgiskjöl send með umsókninni. Reitur 4 skal fylltur út þegar við á.

7. Taki annar starfsmaður við útgáfu upprunasannana og vörslu gagna til sönnunar uppruna, verði gerð mistök eða skilyrði fyrir leyfinu ekki lengur uppfyllt, skal tilkynna það Tollstjóra án tafar.

Gagnavarsla vegna upprunasannana

Heildstæð gögn, sem sýna fram á að ákveðin vara uppfylli skilyrði upprunareglna og annarra ákvæða fríverslunarsamninga, skulu vera aðgengileg hjá fyrirtækinu þegar gefin hefur verið út upprunayfirlýsing vegna útflutnings vörunnar til annars lands sem er aðili fríverslunarsamnings. Tollstjóri skal hvenær sem er geta sannreynt hvort upprunastaðfesting sé rétt. Slík skoðun getur verið gerð að beiðni erlendra tollyfirvalda eða að frumkvæði Tollstjóra. Þar fyrir utan er nauðsynlegt að viðskiptavinir fyrirtækisins geti reitt sig á að útgefnar upprunasannanir séu réttar, því þeir bera þá áhættu að þurfa að greiða toll eftir á ef upprunasannanir reynast rangar.

Vara sem fyrirtækið hefur sjálft hvorki framleitt né unnið

Ef vara er framleidd af öðru fyrirtæki er unnt að staðfesta uppruna, þegar við á, með yfirlýsingu birgis. Tollstjóra er heimilt að hafa eftirlit hjá birgi til að staðreyna réttmæti yfirlýsingar hans. Ef vörurnar eru upprunnar innan EES eða í landi utan þess og uppfylla skilyrði viðeigandi fríverslunarsamnings er fullnægjandi að framvísa upprunasönnun sem fylgdi vörunni við innflutning til Íslands.

Eigin framleiðsla

Ef varan er framleidd af fyrirtækinu sjálfu, ber því að sanna að skilyrði upprunareglna séu uppfyllt. Í listum fríverslunarsamninga kemur fram hvað telst „nægjanleg aðvinnsla" sem fara þarf fram á Íslandi. Listarnir eru byggðir upp á sama máta og tollskráin. Fyrstu fjórar tölurnar eru lykillinn til að finna rétta upprunareglu fyrir fullunna vöru. Embætti tollstjóra getur aðstoðað við tollflokkun vörunnar. Til að ákvarða hvort eigin framleiðsla uppfylli upprunareglur þarf að reikna út samsetningu vörunnar miðað við uppruna hennar, samanber 4. reit umsóknar.

Efniviður sem fluttur er inn til framleiðslu vöru, þ.e.a.s. íhlutir, ófullgerð vara, hráefni o.s.frv., er annaðhvort „leyfður" eða „ekki leyfður" með skírskotun til upprunareglnanna. Það er oft háð vinnslustigi vöru við innflutning til landsins. Stundum getur verið nauðsynlegt að sýna fram á að ákveðin aðvinnsla hafi átt sér stað hér á landi. Þetta er hægt að gera með því að fyrirtækið sem aðvinnsluna gerir gefi út yfirlýsingu birgis. Notkun ákveðinna hráefna er oft takmörkuð við verðmæti þeirra. Verðmæti slíkra hráefna þarf að vera hægt að sýna fram á í bókhaldi og með innkaupareikningum. Ef aðkeypt hráefni hefur þegar upprunaréttindi er ávallt leyfilegt að nota það ef fyrir liggur upprunasönnun eða yfirlýsing birgis.

BÓKUN 4 eins og hún birtist í ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 136 frá 2005.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum