Frestun staðgreiðsluskila og skila á tryggingagjaldi

Launagreiðendum í Grindavík sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls í kjölfar náttúruhamfara er heimilt að sækja um frest á skilum á afdreginni staðgreiðslu og tryggingagjaldi.

Mögulegt er að sækja um frestun á eftirfarandi gjalddögum:

 • 1. desember 2023 (vegna launa í nóvember 2023)
 • 1. janúar 2024 (vegna launa í desember 2023)
 • 1. febrúar 2024 (vegna launa í janúar 2024)

Til viðbótar má einnig sækja um frestun á þremur af eftirfarandi gjalddögum

 • 1. mars (vegna launa í febrúar 2024)
 • 1. apríl (vegna launa í mars 2024)
 • 1. maí (vegna launa í apríl 2024)
 • 1. júní (vegna launa í maí 2024)
 • 1. júlí (vegna launa í júní 2024)

Nýr gjalddagi og eindagi verður 15. janúar 2025.

Skilyrði

Til viðbótar við formskilyrði um rekstrarörðugleika og starfsemi í Grindavík þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði.

 • Skattaðili er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir 31. ágúst 2023.
 • Álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þar með töldum staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðustu þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan starfsemi hófst.
 • Jafnframt er það skilyrði sett að arði verði ekki úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2024 eða úttekt eigenda innan ársins 2024 fari umfram reiknað endurgjald þeirra.

Umsókn

Óski launagreiðandi eftir að fresta þeim greiðslum sem undir lögin falla er hægt að fara inn á þjónustusíðu viðkomandi launagreiðanda á skattur.is og fylla þar út umsókn um frestunina. Umsókn þarf að berast í síðasta lagi á eindaga hvers mánaðar fyrir sig.

Viðbótarfrestun

Þegar kemur fram í janúar 2025 verður heimilt að óska eftir skiptingu á þeim greiðslum sem frestað var þannig að gjalddagar og eindagar verði:

 • 15. september 2025
 • 15. október 2025
 • 17. nóvember 2025
 • 15. desember 2025

Umsókn um aukinn frest skal beina til Skattsins á því formi sem hann ákveður eigi síðar en 10. janúar 2025.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar

Frestun staðgreiðsluskila og skilum á tryggingagjaldi - 17. gr. laga nr. 102/2023 sem bætti ákvæði til bráðabirgða við lög 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum