Nauðasamningar

Um nauðasamninga gilda lög númer 21/1991 auk 15. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda númer 150/2019. Með hugtakinu nauðasamningur er átt við samning um greiðslu skulda eða eftirgjöf af skuldum sem kemst á milli skuldarans og áskilins meirihluta lánardrottna hans og hlýtur síðan staðfestingu fyrir dómi. Markmið nauðasamnings er að ráða bót á ógjaldfærni skuldara og þá einkum með því að lækka skuldir þannig að skuldari verði frekar fær um að standa í skilum.

Hvert skal beina umsókn um nauðasamning?

  • Beiðni til dómstóla
    Skuldari þarf að afla heimildar dómstóla til að leita nauðasamnings og er sú heimild veitt með dómsúrskurði. Sérstakur umsjónarmaður sem skipaður er af dómstólum tekur í framhaldinu við samningsumleitunum við lánardrottna.
  • Beiðni til innheimtumanns
    Skuldari sem óskar eftir samþykki innheimtumanns á nauðasamningi vegna vangoldinna opinberra gjalda skal beina umsókn sinni til innheimtumanns ríkissjóðs.

Ófrávíkjanleg skilyrði

Innheimtumanni ríkissjóðs er heimilt að samþykkja nauðasamning gjaldanda við kröfuhafa að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  • Skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi af ökutækjum.
  • Skattar og gjöld séu ekki tilkomin vegna endurákvörðunar skattyfirvalda vegna skattsvika.
  • Skattar og gjöld séu ekki byggð á áætlunum stjórnvalda.
  • Gjaldandi skuldi hvorki skattsekt yfirskattanefndar eða skattrannsóknarstjóra ríkisins né fésekt ársreikningaskrár ríkisskattstjóra.
  • Ljóst sé að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi.

Réttaraðstoð vegna nauðasamninga

Um réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga gilda lög númer 65/1996. Markmið laganna er að veita einstaklingi möguleika á að ná tökum á fjármálum sínum og þannig komast hjá því að fara í gjaldþrotaskipti. Sá sem vill leita réttaraðstoðar samkvæmt lögunum skal senda innanríkisráðuneytinu umsókn og gera þar grein fyrir eignum og skuldum og ástæðum fjárhagsörðugleikanna. Innanríkisráðuneytið hefur útbúið umsóknareyðublað fyrir þá sem vilja leita réttaraðstoðar samkvæmt ofangreindu.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Lög nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda
Lög nr. 65/1996 um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga
Lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum