Endurákvörðun aðflutningsgjalda

Komi í ljós við eftirlit hjá Skattinum að aðflutningsgjöld við innflutning vöru hafi ekki verið rétt ákvörðuð við tollafgreiðslu, til dæmis þar sem tollflokkun hafi verið röng á aðflutningsskýrslu, upprunaland rangt, einingartala vöru ekki í samræmi við upplýsingar á vörureikningi eða vegna annarra atriða, mun Tollstjóri senda innflytjanda bréf um fyrirhugaða endurákvörðun.

Fyrirhuguð endurákvörðun

Í fyrirhugaðri endurákvörðun er greint frá meginástæðum þess að embættið telur aðflutningsgjöld ekki hafa verið rétt ákvörðuð. Innflytjanda er jafnframt gefinn kostur á að koma að andmælum og leggja fram gögn sem hann telur að skipti máli við ákvörðun um réttmæti álagningar.

Andmæli geta til dæmis falist í því að koma á framfæri myndlista eða bæklingi frá framleiðanda til rökstuðnings þess að um rétta tollflokkun innflytjanda hafi verið að ræða við tollafgreiðslu tiltekinnar vöru.

Berist engin andmæli innan þess tímafrests sem gefinn er í bréfi um fyrirhugaða endurákvörðun munu aðflutningsgjöld endurákvörðuð.

Hversu langt aftur í tímann má Skatturinn endurákvarða aðflutningsgjöld?

Meginreglan er sú að hafi innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar látið embættinu í té fullnægjandi upplýsingar við tollafgreiðslu og, eftir atvikum, gögn sem byggja mátti rétta álagningu aðflutningsgjalda á þarf Skatturinn að hafa lokið endurákvörðun aðflutningsgjalda innan 60 daga, talið frá því að hann heimilaði afhendingu vöru.

Skattinum er heimilt að endurákvarða aðflutningsgjöld sex ár aftur í tímann, talið frá tollafgreiðsludegi, í eftirfarandi tilvikum:

  1. Gögnum eða upplýsingum ábótavant við tollafgreiðslu

    Hafi framlögðum gögnum eða þeim upplýsingum, sem látin voru í té við tollafgreiðslu, verið áfátt þannig að ekki var unnt að byggja á þeim rétta álagningu aðflutningsgjalda.

    Skiptir í því sambandi ekki máli hvort innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollafgreiðslu vissi eða mátti vita um réttmæti þessara gagna eða upplýsinga.
  2. Innflytjandi vissi eða hefði mátt vita um rétta tollmeðferð vöru

    Hafi innflytjandi vitað eða mátt vita um rétta tollmeðferð vöru. Það getur m.a. átt við hafi innflytjandi áður fengið úrskurð Skattsins eða bindandi ákvörðun um tollflokkun vöru í tiltekið tollskrárnúmer samkvæmt tollskrá en síðan tollflokkað sams konar vöru í annað tollskrárnúmer við tollafgreiðslu eða áður flutt inn sams konar vöru og fengið tollafgreidda í ákveðnu tollskrárnúmeri án athugasemda eða með samþykki Skattsins.
  3. Þegar um SMT-tollafgreiðslu er að ræða

Tímabundinn innflutningur vöru

Hafi heimild verið veitt til tímabundins innflutnings vöru en síðan komið til endanlegrar tollafgreiðslu hennar er frestur til endurákvörðunar 60 dagar, talið frá því að aðflutningsgjöld voru ákvörðuð.

Vextir og dráttarvextir við endurákvörðun aðflutningsgjalda

Komi til endurákvörðunar vegna vangreiddra aðflutningsgjalda mun innflytjanda verða gert að greiða dráttarvexti frá tollafgreiðsludegi varanna sem um ræðir, þó að hámarki tvö ár aftur í tímann frá þeim degi sem úrskurður um endurákvörðun aðflutningsgjalda er kveðinn upp.

Kæruheimild vegna endurákvörðunar

Úrskurður Skattsins um endurákvörðun á að liggja fyrir innan 60 daga frá lokum þess frests sem hann veitti aðila til að tjá sig um fyrirhugaða endurákvörðun.

Úrskurður embættisins er kæranlegur til yfirskattanefndar.

Leiðréttingar á aðflutningsskýrslu eftir tollafgreiðslu

Innflytjanda er skilt innan sex ára talið frá tollafgreiðsludegi vöru að leggja fram beiðni um leiðréttingu hjá Skattinum, verði hann þess var að upplýsingar sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu voru rangar eða ófullnægjandi.

Leiðrétting fer fram með þeim hætti að lögð er fram skrifleg aðflutningsskýrsla þar sem óskað er leiðréttingar.

Innflytjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að rangar og ófullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar til grundvallar tollafgreiðslu, ef breyttar forsendur geta leitt til lækkunar álagðra aðflutningsgjalda.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum