Kílómetragjald á rafmagnsbíla, vetnisbíla og tengiltvinnbíla
Greiða þarf kílómetragjald af akstri rafmagnsbíla, vetnisbíla og tengiltvinnbíla (bíla sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni eða dísil og hægt er að stinga í samband, plug-in hybrid).
Gjaldið á ekki við um tvinnbíla (hybrid) sem ekki tengjast við rafmagn.
Reiknivél kílómetragjalds
Reikna gjald miðað við áætlaðan meðalakstur (reiknivél á Ísland.is)
Gjald
Greiðandi gjaldsins er eigandi bifreiðar. Undantekning er þegar eigandi er eigna- eða fjármögnunarleiga, til dæmis í tilfelli rekstrarleigubíla, þá er umráðamaður greiðandi. Gjaldið nær til fólksbifreiða og sendibifreiða.
Upphæðin er:
- 6 krónur á hvern kílómetra fyrir rafmagnsbíla og vetnisbíla
- 2 krónur á hvern kílómetra fyrir tengiltvinnbíla
Skráning kílómetrastöðu
Stöðu á kílómetramæli skal skrá að lágmarki einu sinni á hverju almanaksári.
Heimilt er að skrá kílómetrastöðuna að 30. dögum liðnum frá síðustu skráningu. .
Hægt er að skrá:
- í Ísland.is appinu
- á Mínum síðum Ísland.is
- með álestri hjá faggiltri skoðunarstofu við reglubundið eftirlit
- með því að panta tíma í sérstakan álestur, Aðalskoðun og Frumherji bjóða upp á slíka þjónustu
Regluleg skráning kílómetrastöðu tryggir að þú borgir miðað við þinn meðalakstur, sem reiknast út frá síðustu tveimur skráningum á kílómetrastöðu.
Skráning minnkar líkur á:
- að þú greiðir of mikið um hver mánaðamót
- að þú greiðir of lítið og fáir háan uppgjörsreikning við næstu skráningu
Skráningar á síðasta degi mánaðar taka gildi næsta dag.
Greiðsla
Gjaldið greiðist mánaðarlega. Greiðsluseðill er sendur í netbanka greiðanda. Gjalddagi er fyrsti virki dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar.
Fyrsti gjalddagi var 1. febrúar 2024.
Til að byrja með er innheimt bráðabirgðargreiðsla á kílómetragjaldi og ákvarðast fjárhæðin út frá meðaltali milli tveggja skráninga. Ef ekki liggja fyrir tvær skráningar er meðalakstur áætlaður.
Ef eigandi skilar reglulega inn skráningu á kílómetrastöðu myndast álagning fyrir gjaldtímabilin sem eru liðin fram að skráningu. Álagning reiknast út frá eknum kílómetrum á hverju tímabili. Við það myndast tveir reikningar, annars vegar álagning vegna fyrri gjaldtímabila og bráðabirgðargreiðsla fyrir skráningar mánuð.
Ef þú hefur:
- greitt of lítið færðu reikning fyrir mismuninum að viðbættu 2,5% álagi á ársgrundvelli.
- greitt of mikið færðu endurgreitt og á upphæðina reiknast inneignarvextir.
Inneign til endurgreiðslu rennur upp í gjaldfallna skuld við ríkisskjóðs óháð því hvort skuldin sé vegna kílómetragjalds eða annarra gjalda.
Áætlun á meðalakstri
Eigandi eða umráðamaður bifreiðar | Akstur á ári | Akstur á dag |
Einstaklingur | 14 000 km | 38,4 km |
Fyrirtæki eða stofnun | 40 000 km | 109,6 km |
Ökutækjaleiga | 50 000 km | 137,0 km |
Leigubílstjóri | 100 000 km | 274,0 km |
Akstur erlendis
Á meðan bifreið er staðset erlendis ber eigendum að greiða af því kílómetragjald. Við heimkomu er hægt að óska eftir niðurfellingu á greiddum gjöldum á því tímabili sem bifreiðin er sannarlega staðsett erlendis.
Skilyrði fyrir því að kílómetragjald verði fellt niður eru: kílómetrastaða sé skráð á brottfarardegi og á komudegi.
Hægt er að skila inn skráningu inni á island.is eða á faggiltri skoðunarstöð.
Skila þarf inn staðfestingu á brottför og komu, staðfestingin getur verið farmiði eða inn- og útflutningsskýrsla þar sem kemur skýrt fram hvaða tímabil bifreiðin var ekki á landinu.
Beiðni skal send á netfangið trukkur@skatturinn.is eða framvísa henni í næstu afgreiðslu Skattsins.
Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 101/2023. Við skráningu á stöðu akstursmælis skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. skal ríkisskattstjóri leggja kílómetragjald á gjaldskyldan aðila vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á sem og yfirstandandi gjaldtímabils frá upphafi þess fram að skráningu á stöðu akstursmælis.
Kílómetragjald fyrir þann mánuð sem komið er með ökutækið til landsins er lagt á við aðra skráningu frá komu til landsins.
Kaup og sala á ökutæki
Við eigendaskipti eða skráningu nýs umráðamanns ökutækis þarf að skrá kílómetrastöðu.
Nýr eigandi/umráðamaður þarf að samþykkja skráða kílómetrastöðu.
Við eigendaskipti er álagning lögð á seljanda eða fyrri umráðamann skv. 2.mgr. 13.gr laganna. Kílómetragjald er innheimt af nýjum eiganda/umráðamanni frá dagsetningu eigendaskipta hjá Samgöngustofu.
Leiðrétting á rangri skráningu
Ef þú skráir ranga tölu getur þú skráð aftur sama dag og þá gildir seinni talan. Á miðnætti lokast fyrir skráningar næstu 30 daga.
Ef það hefur verið skilað inn rangri stöðu á skráðum kílómetrum og ekki hægt að leiðrétta innan dagsins þarf að fara á skoðunarstofu til að láta lesa og greiða umbeðið gjald fyrir þjónustuna.
Ef ekki er skráð kílómetrastaða
Afleiðingar þess að skrá ekki kílómetrastöðu að minnsta kosti einu sinni á hverju almanaksári:
- Innheimt er vanskráningargjald að upphæð 50.000 krónur í upphafi næsta árs.
- Eigandi er boðaður í álestur á stöðu kílómetramælis hjá skoðunarstofu skv. 4. mgr. 8. gr. laganna.
Vanskráningargjald lækkar um 50% ef þú lætur skrá stöðuna hjá faggiltri skoðunarstofu innan 15 daga frá álagningu gjaldsins.
Ef skráning hefur ekki verið gerð þremur mánuðum eftir álagningu vanskráningargjalds má lögreglan fjarlægja skráningarmerki ökutækis. Merkin eru afhent aftur eftir að skráning hjá faggiltri skoðunarstofu hefur farið fram.
Ef þú greiðir ekki
Afleiðingar þess að greiða ekki kílómetragjaldið:
- Ef þú ert með gjaldfallinn reikning vegna kílómetragjalds skal skoðunarmaður neita um skoðun
- Synjun um reglubundna skoðun
- Ógreitt kílómetragjald, vanrækslugjald, dráttarvextir og innheimtukostnaður hvílir sem lögveð á bílnum. Þetta veð (skuld) hefur forgang fram yfir önnur veð sem gætu verið á bílnum, til dæmis vangreidd bílalán. Það þýðir að krefjast má nauðungarsölu á bílnum upp í skuldirnar án dóms, sáttar eða fjárnáms.
- Krefjast má nauðungarsölu
- Einnig er heimilt að innheimta gjaldfallnar skuldir vegna kílómetragjalds og vanrækslugjalds með fjárnámi hjá skráðum eiganda eða umráðamanni án dóms, sáttar eða fjárnáms.
- Framkvæma má fjárnám.
Afskráning ökutækis
Skrá þarf kílómetrastöðu þegar afskráning ökutækis er tilkynnt til Samgöngustofu.
Sé ekki hægt að lesa af mælinum, til dæmis vegna þess að ökutækið er týnt eða ónýtt er miðað við síðustu skráningar. Ef engar skráningar eru til staðar skal miðað við áætlun ríkisskattstjóra á meðalakstri.
Innlögn númera
Ekki þarf að greiða kílómetragjald af ökutækjum hafi skráningarnúmer verið lögð inn til Samgöngustofu eða faggiltrar skoðunarstofu.
· Skilyrði fyrir undanþágunni er að kílómetrastaða sé skráð þegar skráningarnúmerum er skilað inn til skráningaraðila.
Fyrsta skráning
Skylt var að skrá kílómetrastöðu fyrir 20. janúar 2024.
Ef staða verður ekki skráð verður:
· Innheimt vanskráningargjald að fjárhæð kr. 20.000 eftir 30. janúar.
· Gjaldandi verður boðaður í álestur hjá faggiltri skoðunarstofu sem mun skrá stöðu kílómetramælis eftir 30. janúar.
Kærur
Álagning kílómetragjalds er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar.
Heimilt er að kæra úrskurð ríkisskattstjóra og endurákvörðun til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Lög 101/2023 um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.