Kæruleiðir - tollamál
Kæruheimildir varðandi ákvarðanir tollyfirvalda eru í tollalögum en einnig má finna í ýmsum öðrum lagabálkum ákvæði þar að lútandi. Helst má finna slíkt í lögum um úrvinnslugjöld, lögum um virðisaukaskatt og lögum um vörugjöld af ökutækjum. Einnig gilda almennar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga um þau mál sem ekki er sérstaklega fjallað í ofangreindum sérlögum. Er það sammerkt með ákvæðum þessara laga að þar er verið að fjalla um ákvarðanir tollyfirvalda er lúta að gjaldskyldu aðflutningsgjalda, hvernig þau eru ákvörðuð þ.e. tollverð og tollflokka, hvað liggur að baki, hvort heimild er til niðurfellingar, lækkunar eða frestun á greiðslu þessara gjalda.
Kærur til tollyfirvalda
Heimildir eru í lögum fyrir aðila máls til að kæra ákvarðanir til úrskurðar hjá tollyfirvöldum.
Kærur samkvæmt tollalögum
Tollskyldur aðili getur, skv. 117. gr. (grein) tollalaga 88/2005, kært ákvörðun tollyfirvalda um gjaldskyldu, fjárhæð aðflutningsgjalda eða atriði sem liggja til grundvallar ákvörðun aðflutningsgjalda, með skriflegri rökstuddri kæru. Ef ágreiningurinn er um vöru sem þegar hefur verið tollafgreidd er kærufresturinn 60 dagar frá tollafgreiðsludegi.
Skulu tollyfirvöld úrskurða svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið. Úrskurðinn skal senda til innflytjanda með sannanlegum hætti, úrskurðurinn verður að vera rökstuddur og koma þarf fram hvort heimilt sé að kæra úrskurðinn til yfirskattanefndar skv. 118. gr. tollalaganna eða til fjármálaráðherra.
Hér má nálgast eyðublað fyrir kærur til tollyfirvalda skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005. Athugið að ekki er nauðsynlegt að nota eyðublaðið við kærur.
Kærur sendist annað hvort með pósti eða á netfangið upplysingar[hja]tollur.is.
Kærur til yfirskattanefndar
Yfirskattanefnd er æðsti úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi í skattamálum og tollamálum. Yfirskattanefnd er sérstök stofnun og óháð skatt- og tollyfirvöldum og fjármálaráðherra í störfum sínum. Um yfirskattanefnd gilda lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Tollskyldum aðila er heimilt samkvæmt 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 að skjóta ákveðnum ákvörðunum og úrskurðum tollyfirvalda til yfirskattanefndar. Á þetta við um endurákvörðun skv. 111.-113. gr., sbr. 114. gr., úrskurði tollyfirvalda um leiðréttingu skv. 116. gr., kæruúrskurði skv. 117. gr. og ákvörðun tollyfirvalda skv. 21. gr. og 2. mgr. 145. gr. tollalaga. Kærufrestur til yfirskattanefndar er þrír mánuðir frá póstlagningu ákvörðunar eða úrskurðar tollyfirvalda sem skjóta má til nefndarinnar.
Um málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd fer að öðru leyti eftir lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Kærur til fjármálaráðherra
Varðandi önnur mál sem ofangreind lagaákvæði ná ekki yfir, til að mynda mál er varða veitingu leyfa til tollmiðlunar eða tollvörugeymslu, ákvarðanir um synjun eða stöðvun á tollafgreiðslu og fleira þá fer um málsmeðferð þeirra eftir almennum kæruheimildum VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt stjórnsýslulögum er heimilt að kæra stjórnsýsluákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fella hana úr gildi eða fá henni breytt. Slík kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnsýsluákvörðun nema lög mæli á annan veg. Ef ekki má skjóta ákvörðunum tollyfirvalda til yfirskattanefndar er heimilt skv. 26. gr. stjórnsýslulaga að skjóta ákvörðun til æðra stjórnvalds sem í tilfelli tollyfirvalda er fjármálaráðherra. Um slík mál gilda almennar málsmeðferðarreglur og kærufrestir stjórnsýslulaga.
Málskot til dómstóla
Úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Málskot til almennra dómstóla um úrlausnarefni sem farið hefur fyrir nefndina frestar ekki eða breytir niðurstöðu hennar fyrr en dómur er genginn sbr. 11. mgr. 118. gr. tollalaga. Ávallt er heimilt að fara með mál strax fyrir dómstóla, ekkert ákvæði er í tollalögum eða öðrum sérlögum sem skerðir þann rétt, eða kveður á um tæmingu kæruleiða innan stjórnsýslunnar áður en leitað er til dómstóla. Getur slík leið verið heppileg meðal annars þegar um er að ræða heimildir tollgæslu til leitar, handtöku eða haldlagningar, lög nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gilda um öll slík mál.
Umboðsmaður Alþingis
Umboðsmaður Alþingis hefur heimild til þess að skoða meðferð mála einstakra aðila hjá tollyfirvöldum . Aðilar geta óskað eftir þessu við umboðsmann Alþingis, hann getur þó einnig tekið mál upp sjálfur. Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Kvörtun getur hver sá borið upp sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum. Kvörtun til umboðsmanns skal vera skrifleg og öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik skulu fylgja. Kvörtun skal bera fram innan árs frá því að stjórnsýsluákvörðunin var tekin sem um ræðir. Ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki hægt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu, fresturinn telst þá frá þeim tíma.
Hvað þarf að felast í kæru og úrskurði
Kæra þarf að vera:
- Rökstudd
- Skrifleg
- Studd nauðsynlegum gögnum
- Send inn áður en kærufrestur rennur út
Úrskurður þarf að vera:
- Rökstuddur
- Skriflegur
- Sendur með sannanlegum hætti (ábyrgðarpósti) til kæranda
- Fram þarf að koma hvernig hægt er að skjóta málinu áfram til frekari málsmeðferðar