Hvað er Common Reporting Standard (CRS)?
Common Reporting Standard (CRS) er samræmdur staðall um upplýsingaskipti á fjárhagsupplýsingum. Markmiðið með staðlinum er að koma í veg fyrir skattundanskot. Þeir sem eru upplýsingaskyldir samkvæmt staðlinum munu frá og með 1. janúar 2016 þurfa að auðkenna og aðgreina reikningshafa og raunverulega eigendur sem skattskyldir eru í erlendum ríkjum fyrir utan Bandaríki Norður Ameríku. Fyrstu skil til ríkisskattstjóra samkvæmt staðlinum fóru fram á árinu 2017 vegna tekjuársins 2016.
Með lögum nr. 124/2015 var 92. gr. laga nr. 90/2003 breytt á þann veg að upplýsingaöflun ríkisskattstjóra nái einnig til þess að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála.
Staðallinn var innleiddur með reglugerð nr. 1240/2015.
Fjármálastofnanir skulu skila inn upplýsingum í samræmi við 12. gr. reglugerðar nr. 1240/2015 fyrir 20. janúar ár hvert. Séu engir tilkynningarskyldir viðskiptamenn eða engir tilkynningarskyldir reikningar hjá tilkynningarskyldir fjármálastofnun skal skila núll skýrslu.
Með 4. gr. laga nr. 140/2024 var 9. - 12. mgr. 92. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003, breytt á þann veg að kveðið er á um heimild ríkisskattstjóra til beitingar stjórnvaldssekta vegna vanrækslu á upplýsingaskilum fjármálastofnanna. Sektarheimild ríkisskattstjóra nær til of seinna skila sem og rangra skila.
Áhrif CRS á viðskiptavini fjármálastofnana
Samkvæmt reglugerð nr. 1240/2015 skulu íslenskar fjármálastofnanir óska eftir yfirlýsingu nýrra viðskiptamanna um skattalegt heimilisfesti þeirra. Fjármálastofnanir skulu kanna áreiðanleika slíkra yfirlýsinga. Reynist viðskiptamaður skattalega heimilsfastur í öðru aðildarríki CRS staðalsins skal fjármálastofnunin árlega tilkynna viðeigandi upplýsingar um þann viðskiptamann til Skattsins.
Skatturinn ber ábyrgð á að senda upplýsingarnar um viðskiptamanninn til þess ríkis þar sem viðskiptamaðurinn er heimilsfastur.
Með sama hætti móttekur Skatturinn upplýsingar um íslenska skattgreiðendur sem eiga fjárhagsreikninga í öðrum aðildarríkjum.
Skattinum berast árlega upplýsingar frá öðrum skattyfirvöldum um þúsundir reikninga Íslenskra skattgreiðenda í erlendum fjármálastofnunum.
Viðskiptamenn Íslenskra fjármálastofnana mega búast við að vera spurðir spurninga á grundvelli reglugarðarinnar í eftirfarandi tilvikum:
- Við upphaf viðskiptasambands
- Með reglubundnum hætti samhliða öðrum áreiðanleikakönnunum
- Ef breytingar verða á aðstæðum viðskiptamanns, t.d. ef breyting verður á heimilisfangi.
Áhættumat vegna CRS og FATCA upplýsingaskipta
Eyðublað RSK 24.01 um áhættumat vegna CRS og FATCA
Gagnlegir hlekkir hjá OECD
Almennar upplýsingar um staðalinn á ensku
Heildartexti staðalsins ásamt skýringum á ensku
Aðildarríki CRS
Fyrirspurnir skal senda á netfangið crs.fatca@skatturinn.is.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar
92. gr. laga 90/2003 um tekjuskatt
Reglugerð 1240/2015 um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála