Póstflytjendur

Vakin er athygli póstflytjenda á eftirfarandi atriðum í sambandi við tollmeðferð póstsendinga:

Ábyrgð á aðflutningsgjöldum

Póstflytjandi ber ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda til jafns við innflytjanda eða viðtakanda vöru.

Tollstjóri getur því krafið hvern þeirra sem er um greiðslu allra aðflutningsgjalda af þeirri vöru sem um ræðir.

Meginreglan er sú að hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda vöru, fellur ábyrgð póstflytjanda á greiðslu aðflutningsgjalda niður.

Undantekningar frá þessari reglu eru:

  • þegar póstflytjandi hefur ekki haft heimild frá innflytjanda eða viðtakanda vörunnar til skuldfærslunnar eða
  • póstflytjandi hefur vitað eða mátt vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðsluna voru rangar eða ófullnægjandi.

Í slíkum tilvikum fellur ábyrgð póstflytjanda á greiðslu aðflutningsgjalda ekki niður, þrátt fyrir skuldfærslu á innflytjanda eða viðtakanda vörunnar.

Skuldfærsla aðflutningsgjalda

Póstflytjandi getur komið fram gagnvart tollstjóra fyrir hönd viðskiptamanna sinna við SMT-/VEF-tollafgreiðslu póstsendinga.

Getur hann, að fenginni skriflegri heimild viðtakenda, óskað þess að aðflutningsgjöld af póstsendingum verði skuldfærð á þá í samræmi við heimildir sem þeir hafa til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum.

Ábyrgð á upplýsingum

SMT-/VEF-tollafgreiðsla

Póstflytjandi sem sendir tollstjóra aðflutningsskýrslu um vöru með rammaskeyti um gagnaflutningsnet vegna SMT-/VEF-tollafgreiðslu ber ábyrgð á því að upplýsingar, sem þar eru veittar, séu réttar, hafi hann vitað eða mátt vita að upplýsingar innflytjanda væru rangar eða ófullnægjandi.

Enn fremur ber hann ábyrgð á að um sé að ræða allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar og að þær séu byggðar á þeim tollskjölum sem hefði átt að leggja fram með aðflutningsskýrslu ef vöru hefði ekki verið ráðstafað til SMT-tollafgreiðslu.

Skriflegar aðflutningsskýrslur

Póstflytjandi sem afhendir tollstjóra skriflega aðflutningsskýrslu eða veitir upplýsingar með öðrum hætti vegna tollafgreiðslu vöru, ber ábyrgð á því að þær upplýsingar séu réttar, hafi hann vitað eða mátt vita að upplýsingar innflytjanda væru rangar eða ófullnægjandi.

Varðveisla póstflytjanda á gögnum sem varða tollafgreiðslu póstsendinga

SMT-/VEF-tollafgreiðsla


Póstflytjendur skulu varðveita í bókhaldi sínu á aðgengilegan og tryggilegan hátt öll gögn sem snerta tollmeðferð vara og sendinga, hvort sem þau eru skrifleg eða rafræn.

SMT-leyfishafar þurfa að halda fullkomna skrá eða gagnadagbók í réttri tímaröð og geyma óbreytt öll rammaskeyti sem þeir senda skattinum eða móttaka. Þegar gagnadagbók er haldin á tölvutæku formi þarf að væra hægt að nálgast rammaskeyti og endurmynda þau á læsilegan og auðveldan hátt og prenta þau, ef þess er óskað.

Þegar um VEF-tollafgreiðslu er að ræða ber leyfishafa að prenta á pappír tollskýrslu sem tollafgreiðslan er byggð á ásamt skuldfærsluskjölum vegna aðflutningsgjalda og varðveita ásamt öðrum bókhaldsgögnum. Varðveita ber bókhaldsgögn í samræmi við lög um bókhald sem í gildi eru á hverjum tíma og reglugerðir svo og önnur fyrirmæli sett samkvæmt þeim.

Tollyfirvöld geta krafið póstflytjendur um að leggja fram og veita aðgang að bókhaldi sínu og bókhaldsgögnum og öðrum gögnum sem varða innflutning eða útflutning vara.

Skriflegar aðflutningsskýrslur

Bókhaldsskyldir aðilar

Að lokinni tollafgreiðslu þurfa póstflytjendur að afhenda bókhaldsskyldum aðilum öll skrifleg tollskjöl, sem inn- og útflytjendur hafa afhent þeim vegna SMT-/VEF-tollafgreiðslu.

Tollskjöl skulu árituð með dagsettri undirskrift og áritun um SMT-/VEF-tollafgreiðslu.

Aðrir en bókhaldsskyldir aðilar

Sé ekki um bókhaldsskylda aðila í inn-/útflutningi að ræða ber að afhenda skattinum öll skrifleg tollskjöl, að lokinni tollafgreiðslu.

Tollskjöl skulu árituð með dagsettri undirskrift og áritun um SMT-/VEF-tollafgreiðslu.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum