Námsmenn erlendis

Almennt

Þau sem dveljast erlendis við nám geta sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti og haldið þannig öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir. Í því felst að við skattlagningu er tekið tillit til þess skattafsláttar og bóta sem hann ætti rétt á ef lögheimili hans hefði verið hér allt árið. Tekjur og eignir erlendis hafa áhrif á skattlagninguna að teknu tilliti til ákvæða tvísköttunarsamninga og barnabætur og hliðstæðar greiðslur erlendis koma til lækkunar á barnabótum hér á landi.

Eingöngu þeir sem hafa verið búsettir hér síðustu fimm árin áður en nám erlendis hófst geta haldið hér skattalegri heimilisfesti. Einnig verður nám að hefjast innan þriggja mánaða frá flutningi.

Sækja þarf um árlega í skattframtali. Er það gert með því að haka í reit á forsíðu framtals og láta viðeigandi gögn fylgja. Berist gögn ekki er umsókn hafnað. Á framtali þarf að koma fram póstfang námsmannsins erlendis eða umboðsmanns hér á landi og síðasta lögheimili námsmanns hér á landi.

Gögn með umsókn

Eftirfarandi gögn verða að fylgja með umsókn:

 1. Staðfesting á skóla þar sem fram kemur:
  • hvaða nám er stundað á tekjuárinu og hve lengi
  • hvenær nám hófst
  • áætluð námslok
 2. Staðfesting erlendra skattyfirvalda um tekjur eða tekjuleysi námsmanns og maka hans, s.s.:
  • staðfest ljósrit af erlendum skattframtölum ef tekjur koma þar fram eða
  • skriflegt tekjuvottorð frá erlendum skattyfirvöldum eða
  • erlenda álagningarseðla eða staðfestingu á skattauppgjöri
 3. Staðfesting á barnabótum eða sambærilegum greiðslum, fengnum erlendis á tekjuárinu

Nám sem veitir rétt til að halda skattalegri heimilisfesti hér á landi

Til þess að nám geti veitt rétt til skattalegrar heimilisfesti hér á landi þótt það sé stundað erlendis þarf það að uppfylla ákveðin skilyrði.

 • Nám þarf að vera reglulegt og stundað við viðurkenndra erlenda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á framhalds- eða háskólastigi
 • Námið þarf að vera fullt starf
 • Námstími erlendis má ekki vera skemmri en 6 mánuðir eða sem svarar til 624 klst. á ári, þó að undanskildu skiptinámi

Til náms í þessu sambandi telst starfsþjálfun, sérhæfing eða öflun sérfræðiréttinda, enda séu skilyrði þau sem sett eru að öðru leyti uppfyllt.

Skiptinám við erlenda háskóla telst vera nám sem getur orðið grundvöllur fyrir skattalegri heimilisfesti þótt námstími sé skemmri en 6 mánuðir, enda séu framangreind skilyrði uppfyllt og nemandi skráður í nám við íslenskan háskóla.

Nám í grunnskólum, menntaskólum eða sambærilegum menntastofnunum telst ekki til náms í þessu sambandi nema nám að loknum grunnskóla veiti formleg starfsréttindi eða heimild til að bera starfsheiti.

Fjarnám við íslenskan háskóla skapar ekki rétt til skattalegrar heimilisfesti þrátt fyrir búsetu erlendis.

Sé gerð krafa um einhvers konar fornám eða tungumálanámskeið áður en háskólanám hefst þá er unnt að sækja um að námið sé samþykkt sem nám sem veitir rétt til að halda hér skattalegri heimilisfesti.

Ákvörðun um skattalega heimilisfesti

Ríkisskattstjóri tekur ákvörðun um rétt námsmanns til að halda skattalegri heimilisfesti á Íslandi. Almennar reglur um kærur til skattyfirvalda gilda í þessum tilvikum. Ef ríkisskattstjóri fellst ekki á að veita skattalega heimilisfesti er skattlagning miðuð við takmarkaða skattskyldu, þ.e. námsmaðurinn er einungis skattlagður hafi hann haft tekjur hér á landi eftir að lögheimili hefur verið flutt frá landinu.

Fjölskylda námsmanns

Dvelji maki námsmannsins eða börn hans eldri en 16 ára einnig erlendis og dvöl þeirra er bein afleiðing af námi hans, geta þau einnig sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti. Óvígð sambúð er lögð að jöfnu við hjúskap að því tilskildu að uppfyllt séu skilyrði skattalaga um samsköttun.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Réttindi og skyldur námsmanna erlendis - reglugerð nr. 648/1995, um réttindi og skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld

Skattaleg heimilisfesti - 3. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skerðing vegna erlendra barnabóta - 5. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skilyrði fyrir samsköttun - 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Spurt og svarað

Ég er námsmaður í Noregi en með skattalega heimilisfesti á Íslandi. Ég var að vinna hér á landi í tvo mánuði í sumar. Af hverju greiði ég skatta af tekjunum í Noregi?

Til einföldunar má segja að ástæður þess séu tvíþættar. Annars vegar vegna skattalegrar stöðu þinnar á Íslandi og Noregi og hins vegar þeirri reikniaðferð sem er beitt í tvísköttunarsamningi ríkjanna til að koma í veg fyrir tvísköttun umræddra tekna.

Skoðum fyrst hvernig skattalegri stöðu þinni er háttað:

 • Þú ert heimilisfastur í Noregi. Af því leiðir að þú ert skattskyldur af öllum þínum tekjum og eignum í Noregi, óháð því hvar teknanna er aflað og eignirnar eru staðsettar.
 • Þú ert ekki heimilisfastur á Íslandi. Af því leiðir að þú ert eingöngu skattskyldur hér á landi af tekjum sem þú aflar á Íslandi og eignum sem hér eru staðsettar. Skattaleg heimilisfesti felur ekki í sér að þú sért heimilisfastur hér á landi. Hún leiðir hins vegar til þess að þú, sem námsmaður erlendis, hefur sömu skattalegu stöðu og þeir sem eru hér heimilisfastir að afmörkuðu leyti. Þannig ertu með persónuafslátt allt árið og átt einnig mögulega rétt á barna- og/eða vaxtabótum.

Víkur þá að tvísköttunarsamningi ríkjanna:

 • Samkvæmt tvísköttunarsamningi Íslands og Norðurlandanna eru þessar tekjur skattskyldar á Íslandi. Það felur ekki í sér að horft sé framhjá tekjunum við álagningu skatta í Noregi heldur að sérstakri reikniaðferð sé beitt til að koma í veg fyrir tvísköttun umræddra tekna. Það fer alfarið eftir ákvæðum einstakra tvísköttunarsamninga hvaða reikniaðferð er beitt í einstökum tilvikum.
 • Sú reikniaðferð sem beitt er í Noregi til að koma í veg fyrir tvísköttun teknanna nefnist frádráttaraðferð og felst hún í því að sá skattur sem greiddur er á Íslandi vegna umræddra tekna er færður til frádráttar þeim skatti sem greiddur hefði verið í Noregi, hefði teknanna verið aflað þar. Hvort og hversu háir skattar eru lagðir á í Noregi vegna umræddra tekna ræðst þannig af því hversu háir skattar eru greiddir hérlendis.
 • Líkt og fram hefur komið njóta þeir sem hér hafa skattalega heimilisfesti persónuafsláttar yfir allt tekjuárið. Af því leiðir að afli þeir launatekna hér yfir stuttan tíma kemur persónuafsláttur að fullu til frádráttar sem kann að leiða til þess að lítill eða enginn skattur er greiddur hér vegna teknanna. Við útreikning skatta í Noregi kemur þannig lítill eða enginn skattur til lækkunar á reiknuðum skatti í Noregi.

Þarf ég að sækja um skattalega heimilisfesti sem námsmaður erlendis?

Það er engin skylda að sækja um skattalega heimilisfesti fer það reyndar eftir aðstæðum hvers og eins hvort ástæða sé til þess að sækja um. Meðal þess sem máli skiptir eru hvar þú ert með skráð lögheimili:

Ertu með lögheimili á Íslandi? 

Meginreglan er að skrá ber lögheimili þar sem viðkomandi hefur fasta búsetu. Námsmenn erlendis og fjölskyldur þeirra er þó heimilt að hafa lögheimili á Íslandi á meðan á náminu stendur erlendis að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þeir sem eru með lögheimili á Íslandi eiga ekki að sækja um skattalega heimilisfesti.

Ertu með lögheimili erlendis? 

Sum ríki gera kröfu um að lögheimili sé skráð í því ríki á meðan nám stendur yfir. Þannig gera Norðurlöndin kröfu um að lögheimilið sé flutt. Í þessum tilvikum kann að vera ástæða til að sækja um skattalega heimilisfesti.

Þrátt fyrir að lögheimilið sé skráð erlendis kann að vera að aðstæður séu slíkar að ekki sé ástæða til að sækja um skattalega heimilisfesti. Þeir sem eru með skattalega heimilisfesti á Íslandi halda þeim réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir. Þau réttindi sem námsmenn erlendis líta helst til við ákvörðun á því hvort rétt sé að sækja um skattalega heimilisfesti eru eftirfarandi:

 • Réttur til barnabóta að frádregnum barnabótum í búseturíki.
 • Réttur til vaxtabóta.
 • Persónuafsláttur fyrir allt árið.

Þeir sem eru með skattalega heimilisfesti hérlendis ber að standa skil á skattframtali hér á landi og telja fram allar tekjur sínar og eignir óháð uppruna tekna og staðsetningu eigna. Rétt er að hafa í huga að skattaleg heimilisfesti getur leitt til hærri skattlagningar í einstökum tilvikum. Gefum okkur dæmi um par sem hefur skattalega heimilisfesti á Íslandi. Ef annað þeirra eða bæði starfa jafnframt í erlenda ríkinu (námsríkinu) ber þeim að telja erlendu tekjurnar fram á Íslandi sem kann að leiða til þess að þeim beri að greiða skatt bæði á Íslandi og erlendis vegna teknanna. Ástæða þess er að þótt skattlagningarrétturinn í þessu tilviki sé í erlenda ríkinu er komið í veg fyrir tvískattlagningu með sérstakri reikniaðferð sem tilgreind er í viðeigandi tvísköttunarsamningi. Ef ekki er fyrir hendi tvísköttunarsamningur er heimilt að taka tillit til þeirra skatta sem greiddir voru erlendis þegar innlendir skattar eru álagðir.

Ítarefni:

Hvar skrá ber lögheimili – 2. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur

Heimild námsmanna erlendis til að skrá lögheimili á Íslandi – 9. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur

Komið í veg fyrir tvískattlagningu ef tvísköttunarsamningur er ekki fyrir hendi – 5. mgr. 119. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Réttindi og skyldur námsmanna erlendis - reglugerð nr. 648/1995, um réttindi og skyldur manna,sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld

Skattaleg heimilisfesti - 3. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Á ég að telja erlendar tekjur fram á Íslandi ef ég er með skattalega heimilisfesti á Íslandi?

Já. Með skattalegri heimilisfesti heldur þú sömu réttindum og þeir sem heimilisfastir eru hér á landi (með lögheimili skráð hér – búsettir hér). Að sama skapi eiga almennt sömu reglur við um álagningu skatta líkt og værir þú búsettur hérlendis. Þér ber þannig að skila inn skattframtali og gera þar grein fyrir öllum þínum tekjum og eignum óháð því hvar teknanna er aflað eða hvar eignirnar eru staðsettar. Sama reikniaðferð er notuð til að koma í veg fyrir tvískattlagningu vegna erlendra tekna hvort heldur þú ert hér búsettur eða með skattalega heimilisfesti. Sú reikniaðferð kann að leiða til þess að einhver skattur verður álagður vegna erlendu teknanna. Þó að teknu tilliti til skattlagningar erlendis. Byggt er á þeirri reikniaðferð sem tilgreind er í viðeigandi tvísköttunarsamningi. Ef ekki er fyrir hendi tvísköttunarsamningur er heimilt að taka tillit til þeirra skatta sem greiddir voru erlendis þegar innlendir skattar eru álagðir.Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum