Greiðsluáætlanir

Með greiðsluáætlun eru vanskil innheimt á lengri tíma og því léttist greiðslubyrði gjaldanda. 

Umsókn um greiðsluáætlun

Mögulegt er að gera greiðsluáætlun um skatta og gjöld á Ísland.is. Einstaklingum er heimilt að gera greiðsluáætlun um flest opinber gjöld. Jafnframt er hægt að gera greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar. Ákveðin skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo heimilt sé að gera greiðsluáætlun í sjálfsafgreiðslu á Ísland.is, m.a.:

  • Gjaldendur verða að hafa staðið rétt skil á skattframtölum og skýrslum
  • Upphæð gjaldfallinnar skuldar sé ekki yfir 2 milljónum króna
  • Innheimtuaðgerðir séu ekki hafnar

Umsókn um greiðsluáætlun

Þjónustufulltrúar ríkisskattstjóra á 5. hæð á Tryggvagötu 19 aðstoða gjaldendur með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu við gerð greiðsluáætlunar en sýslumenn í öðrum umdæmum.

Greiðsluáætlanirnar eru einhliða greiðsluáætlanir gjaldanda við innheimtumann. Gild greiðsluáætlun getur frestað frekari innheimtuaðgerðum.

Lögboðnir dráttarvextir halda samt sem áður áfram að reiknast á kröfur í greiðsluáætlun. Allar greiðsluáætlanir miða við að greitt sé meira heldur en vextina í hverjum mánuði. Greiðsluáætlun hefur ekki áhrif á skuldajöfnun vaxtabóta, barnabóta eða hvers konar inneigna sem kunna að myndast í skattkerfinu þar með talið virðisaukaskattsinneigna.

Hægt er að gera greiðsluáætlun við eftirfarandi aðstæður:

Launaafdráttur

Þegar launagreiðandi hyggst taka allt að 75% af útborguðum launum að kröfu innheimtumanns.

(N-greiðsluáætlanir)

Um opinber gjöld sem eru ekki komin í innheimtu

Álagning ársins hefur ekki verið greidd að fullu fyrir áramót og gjöldin ekki komin í fjárnámsboðun.

(M-greiðsluáætlanir)

Eftir viðtöku greiðsluáskorunar vegna makainnheimtu eða dánarbús

Greiðsluáskorun send til maka vegna skuldar á opinberum gjöldum eða til lögerfingja vegna dánarbús í einkaskiptum .

(M-greiðsluáætlanir)

Eftir árangurslaust fjárnám

Árangurslaust fjárnám hefur verið tekið hjá sýslumanni að beiðni innheimtumanns. Árangurslaust fjárnám er undanfari gjaldþrotaskipta. Ef gerð er greiðsluáætlun er hægt að koma í veg fyrir skráningu á vanskilaskrá Creditinfo á meðan staðið er við greiðslur og hún er í gildi.

(A- og B-greiðsluáætlanir)

Eftir fjárnám í eign

Tekið hefur verið fjárnám í eign að beiðni innheimtumanns og ekki búið að senda út nauðungarsölubeiðnina. Hægt er að vera með greiðsluáætlun vegna fjárnáms í eign í 6 til 8 mánuði, eftir það er nauðungarsölubeiðni send.

(F-greiðsluáætlanir)

Lokunaraðgerðir vegna skulda á vörslusköttum

Vörsluskattar eru m.a. staðgreiðsla, tryggingagjald og virðisaukaskattur.

(K- og L-greiðsluáætlanir)

Lög og reglur

Lög nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda 
Reglugerð nr. 240/2020 um launaafdrátt

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum