Annáll nútíma skattasögu

Annállinn nær aftur til ársins 1840 frá 2016 og er tæpt á öllum helstu breytingum sem orðið hafa á skattkerfi Íslendinga á þessum tíma. Mikið vatn hefur runnið til sjávar og tímarnir breyst síðan 1840 þegar Grímur Jónsson, fyrrverandi amtmaður, lagði fyrstu drögin að því að hið forna tíundarkerfi yrði lagt af. 40 ár tók að koma nýju skattkerfi í framkvæmd sem er áhugavert ef litið er til seinni tíma og með hversu litlum fyrirvara t.d. Leiðréttingin var framkvæmd árið 2014.

1840-1961

1840-1879 Grunnur lagður að nýju skattkerfi á Íslandi

1840: Frumvarp lagt fram um breytt skattkerfi á Íslandi

Grímur Jónsson, fyrrverandi amtmaður, leggur fram frumvarp um breytt skattkerfi á Íslandi á stéttaþinginu í Hróarskeldu. Var upphafið að afnámi hins forna tíundarkerfis næstum 40 árum seinna.

1841: Nefnd fær frumvarpið til skoðunar

Embættismannanefndin, nefnd tíu æðstu embættismanna Íslands og undanfari endurreists Alþingis, fær frumvarp Gríms til athugunar og á jafnframt að taka íslenska skattkerfið til skoðunar. Nefndin lagði til að fengnir yrðu menn með sérþekkingu til að semja frumvarp um skattamál sem væntanlegt Alþingi fengi til meðferðar.

Reykjavíkurhöfn

1845: Milliþinganefnd skipuð til að rannsaka skattamál landsins

Alþingi endurreist. Fimm manna milliþinganefnd skipuð til að rannsaka skattamál landsins og koma fram með tillögur um úrbætur. Hún starfaði á árunum 1845–1847 og hafði einkum gögn frá Grími Jónssyni og embættismannanefndinni til skoðunar.

1846: Tillögur milliþinganefndar um breytingar á skattkerfi

Milliþinganefndin leggur til að tíundin verði afnumin en í staðinn tekinn upp landskattur á lausafé og jarðir, 5% tekjuskattur á tekjur landeigenda og húsaskattur á íbúa verslunarstaða. Fátt gerðist um tíma, kyrrstaða til ársins 1875.

1872: Ný lög um sveitarstjórn

Ný lög um sveitarstjórn. Hreppsnefndir tóku við yfirstjórn fátækramála og jöfnuðu útgjöldum hreppsins, að svo miklu leyti sem fátækratíundin og aðrar tekjur hrukku ekki til, niður á hreppsbúa eftir efnum og ástæðum.

1875: Breytingar á skattkerfi lagðar fram

Alþingi kemur saman í fyrsta sinn eftir að það fékk löggjafarvald í íslenskum sérmálum ásamt konungi. Samþykkt að skipuð verði milliþinganefnd til að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á skattkerfinu.

Landshöfðingi skipar þriggja manna milliþinganefnd 7. desember. Nefndin samdi þrjú lagafrumvörp um skatta næsta sumar: Frumvarp til laga um skatt á jarðir og lausafé, frumvarp til laga um tekjuskatt og frumvarp til laga um húsaskatt. Þau voru tengd og mynduðu eina heild, nýtt skattkerfi. Þrjár meginreglur voru hafðar að leiðarljósi:

  1. Almenn skattskylda yrði lögleidd.
  2. Sömu reglur áttu að gilda um allt land.
  3. Leggja bar á eftir efnum og ástæðum sem ekki var gert í gamla tíundarkerfinu.

1877: Ný grunnlög um skatta taka gildi

Ný grunnlög um skatta. Alþingi samþykkir frumvörpin og innleiðir Reykjavík kvosinnýtt skattkerfi sem markar upphaf stighækkandi tekju- og eignarskatta og afnám tíundarkerfisins að hluta. Skattur á jarðir og lausafé var skattur á þá sem störfuðu við landbúnað, þ.e. meginþorra þjóðarinnar. Tekjuskatturinn náði til launþega sem á þessum tíma voru fyrst og fremst embættismenn, kaupmenn og örfáir atvinnurekendur. Húsaskattur var skattur á stein- og timburhús í kaupstöðum. Ekki var settur skattur á sjávarútveg; gamla spítalagjaldið, skattur af afla, var látið duga. Tekjuskatturinn skiptist í tekjuskatt af atvinnu og tekjuskatt af eign. Sá fyrri var þannig að tekjur undir 1000 krónum voru skattlausar. Af tekjum umfram þá upphæð bar að greiða 1% til 4%. Skattar voru greiddir tveimur árum eftir að teknanna var aflað. Skattfrelsi embættismanna aflagt, einnig allir fornir skattar til ríkisins. Aðeins örfáir landsmenn höfðu meira en 1000 krónur í árstekjur á þessum tíma. Tekjuskattur af eign var 4% og miðaðist við tekjur yfir 50 krónum. Um var að ræða stighækkandi eignarskatt sem aðallega var hugsaður út frá jarðeignum og kúgildaleigum – var skattur á landeigendur. Húsaskattur miðaðist við hús sem virt voru til 500 króna eða meira.

1878: Breytt lög um lausafjártíund

Breytt lög um lausafjártíund, gjöld til sveitarfélaga, taka gildi.

1879: Nýja skattkerfið kemur til framkvæmda

Framkvæmdin var með þeim hætti að haustið 1878 var lagt á tekjur og eignir manna árið 1877 og skattarnir innheimtir haustið 1879, tveimur árum eftir að teknanna var aflað. Um álagningu landssjóðsskattana, kallaðir ríkisskattar frá árinu 1918, sá þriggja manna skattanefnd í hverjum hreppi og kaupstað. Álagning byggð á munnlegum skýrslum skattþegna. Yfirskattanefndir fóru yfir skattskrárnar. Niðurjöfnunarnefndir sáu um að leggja sveitarsjóðsgjöld á fólk.

1881-1922 Skattkerfið aðlagað breyttum tímum

1881: Útflutningsgjald á fiski og lýsi tekið upp

Spítalagjald af sjávarafla aflagt en í staðinn tekið upp útflutningsgjald af fiski og lýsi.

Bjarnaneskirkja

1909: Kirkju- og preststíund afnumdar

Kirkju- og preststíund afnumdar með launalögum presta. Einnig lausamannatollur.

1911: Fyrstu lög um erfðafjárskatt

Fyrstu lög um erfðafjárskatt. Þá féllu úr gildi tilskipun frá 12. september 1792 og opið bréf konungs 8. febrúar 1810 um erfðafjárgjald.

1914: Fátækratíund afnumin

Fátækratíund afnumin. Þar með voru hin fornu tíundarlög endanlega úr sögunni.

1917: Samstaða um afmarkaðar breytingar á skattkerfinu

Eftir áratuga tilraunir náðist loks samstaða um afmarkaðar breytingar á skattkerfinu. Tekjuskattsstiginn var gerður brattari, einkum efri hluti hans, og tekjuskatt bar að greiða af tekjum í landbúnaði og sjávarútvegi. Samt héldust gömlu lögin um ábúðar- og lausafjárskatt áfram í gildi. Til að efla skatteftirlit var stjórnendum banka og sparisjóða gert skylt að gefa skattanefndum upplýsingar um inneignir manna og áunna vexti. Það ákvæði varð þó þrætuepli næstu áratugina og varð ekki virkt fyrr en löngu seinna.

Embætti fjármálaráðherra stofnað. Skattamál hafa frá því ári heyrt undir fjármálaráðuneytið.

1918: Lög um „dýrtíðar- og gróðaskatt“

Lög um „dýrtíðar- og gróðaskatt“. Hátekjuskattur til viðbótar við hinn almenna skatt á tekjur sem voru yfir 35 þúsund krónum. Hæstur gat skatturinn orðið 10% af árslaunum yfir 100 þúsund krónum. Lögin komu til framkvæmda árið 1919 og giltu til ársins 1921.

1921: Nútímalegt tekjuskattskerfi tekið upp

Ný grunnlög um skattamál, byggð á gömlu tekjuskattslögunum, tillögum Sjálfrennireiðmilliþinganefndar frá árinu 1908 og gögnum þriggja manna nefndar sem skipuð var árið 1919 og aðlagaði kerfið tekjuskattslögum Norðurlandanna, einkum Danmerkur. Með lagabreytingunni var gerð ein mesta skattkerfisbreyting í sögu þjóðarinnar og má orða það svo að verkinu sem hófst árið 1877 hafi þá endanlega verið lokið. Nútímalegt tekjuskattskerfi að fullu tekið upp með tekju- og eignarskatti fyrir alla og fasteignaskatti en ábúðar- og lausafjárskattur og húsaskattur afnumdir. Fyrstu lög um hlutafélög sama ár. Gildistaka beggja laganna árið 1922.

Fyrstu lög um bifreiðaskatt og stimpilgjald, sem fyrst var sett á árið 1918, lögfest til frambúðar. Ný lög um erfðafjárskatt.

1922-1931 Skattstofan í Reykjavík tekur til starfa og tekjustofnar sveitarfélaga tryggðir

1922: Grunnlögin samþykkt og Skattstofan í Reykjavík tekur til starfa

Grunnlögin sem samþykkt voru ári fyrr taka gildi 1. janúar. Tekjum af atvinnu og eign var slegið saman og sami skattur greiddur af þeim. Skattur af almennum tekjum hækkaði, enda hafði hann verið óbreyttur í 40 ár. Af hátekjum var hann lækkaður miðað við gróðaskattinn frá árunum 1917–1918 en hækkaður ef miðað er við skattstigann gamla frá 1877. Tekjuskatturinn var stighækkandi í 25 þrepum, frá 1% til 25%. Tekjur hjóna töldust saman til skatts. Eignarskattur var nýr skattur, viðaukaskattur við tekjuskattinn, sem lagðist á skuldlausa eign, þar á meðal innstæður í bönkum umfram 5000 krónur. Hann var í tíu þrepum, fór stighækkandi frá 1% upp í 7% af milljón króna eign. Fasteignaskattur var þannig að greiða bar 3‰ af jarðeignum, lóðum, þurrabúðum og Hverfisgata um 1920grasbýlum en 1,5‰ af húsum. Persónufrádráttur tekinn upp til að tryggja fólki lágmarksframfærslu. Nú voru skattar greiddir árinu eftir að teknanna var aflað. Nettótekjur skattlagðar. Skattþegnum gert að telja fram á sérstökum framtalseyðublöðum og stofnað embætti skattstjóra í Reykjavík. Greint á milli hlutafélaga, samvinnufélaga og annarra félaga, sjóða og stofnana. Sérstök skattaákvæði voru um hvert form fyrir sig. Tekjuskattur hlutafélaga miðaður við hlutfallið milli innborgaðs hlutafjár og skattskyldra tekna, sex þrepa stigi frá 5% upp í 30%. Samvinnufélög greiddu 6%.

Fyrstu dagana í janúar tók Skattstofan í Reykjavík til starfa á Hverfisgötu 21. Fyrsti skattstjórinn var Einar Arnórsson lagaprófessor og fyrrverandi ráðherra. Um hlutastarf var að ræða.

1923: Dregið úr álögum á lágar tekjur en hækkaðar á hærri tekjum

Skattstofan í Reykjavík flyst á Laufásveg 25.

Skattstiga tekjuskatts breytt, dregið úr álögum á lágar tekjur en hækkaðar á hærri tekjum. Hér eftir leyft að draga greidda skatta síðasta árs frá framtöldum tekjum.

1925: Skattlagningu hlutafélaga breytt

Lögum um skattlagningu hlutafélaga breytt sem ívilnuðu þeim umtalsvert. Tóku meira mið af lögum í nálægum löndum en áður.

1926: Fyrsta heildarlöggjöfin um tekjustofna sveitarfélaga

Lög um útsvör. Fyrsta sérstaka heildarlöggjöfin um tekjustofna sveitarfélaga. Lagt á eftir efnum og ástæðum en engin útsvarsprósenta tilgreind. Niðurjöfnunarnefndir urðu að búa sér til viðmiðunarreglur sjálfar.

1928: Heimild til að innheimta skatt með 25% álagi samþykktEdinborgarhúsið

Lög samþykkt sem heimila að innheimta megi tekju- og eignarskatt á árunum 1929–1930 með 25% álagi. Ríkisstjórnin nýtti ekki heimildina en á árunum 1932–1934 voru í þrígang samþykkt lög um álag á skatta sem komu til framkvæmda, 25–40% á ári.

1929: Skattstofan í Reykjavík flyst í Edinborgarhúsið

Skattstofan í Reykjavík flyst á aðra hæð Edinborgarhússins í Hafnarstræti 10. Skattstjórastarfið verður fullt starf.

1932-1944 Lögfesting hátekjuskatts og stríðsgróðaskatts

1932: Ríkisskattanefnd sett á fót

Lög um þriggja manna ríkisskattanefnd samþykkt. Henni bar að hafa eftirlit með störfum skattanefnda, skattstjóra og yfirskattanefnda, yfirfara skattskrár og framtalsskýrslur. Samræma álagningu milli skattumdæma.

1935: Ný lög um tekju- og eignarskatt taka gildi

Ný lög um tekju- og eignarskatt taka gildi sem samþykkt voru ári fyrr. Þrepum skattstigans fjölgað í 30, frá 1% upp í 40%. Skattar á miðlungstekjur hækkuðu töluvert og mikið af háum tekjum. Persónufrádráttur mishár eftir stærð bæja og hann hækkaður. Innheimta mátti skatta með 10% álagi.

1936: Álagning hátekjuskatts lögfest

Lög um hátekjuskatt, sem samþykkt voru í árslok 1935, taka gildi. Eldra 10% álag var fellt inn í skattstigann upp að 6 þúsund króna skattskyldum tekjum en skattur á hærri tekjur hækkaður til mikilla muna, allt upp í 44%. Í þeim sveitarfélögum þar sem hátekjuskattur var lagður á rann helmingurinn til þeirra þar sem talið var að hann rýrði möguleika þeirra til tekjuöflunar. Eignarskattsstiginn óbreyttur en eignarskattur innheimtur með 10% álagi til ársins 1942. Hátekjuskattur var við lýði til 1940.

Skattstofan flyst í Alþýðuhúsið á Hverfisgötu 8 og 10. Var þar til ársins 1971.

1938: Skattaívilnanir fyrir útgerðarfyrirtæki samþykktar

Samþykkt lög sem veita útgerðarfyrirtækjum miklar skattaívilnanir vegna rekstrarerfiðleika undangenginna ára. Afnumin árið 1941.

1941: Stríðsgróðaskattur hinn fyrri tekinn upp

Ný lög um tekju- og eignarskatt og lög um stríðsgróðaskatt. Nýr 23 þrepa Hermenn við Alþingishúsiðskattstigi innleiddur, 1%–40%. Hann var því sem næst á milli skattstigans frá árinu 1935 og hátekjuskattsstigans frá 1936. Byrjað var að umreikna tekjur framteljenda við ákvörðun tekjuskatts með ákveðinni reikningsformúlu til þess að koma í veg fyrir óeðlilega hækkun hans af völdum dýrtíðar stríðsáranna. Stríðsgróðaskattur var sjö þrepa viðaukaskattur ofan á almennan tekjuskatt, 4%–35%. Mest gat tekjuskattur og stríðsgróðaskattur til samans numið 75% tekna framteljanda. Sveitarfélög, þar sem stríðsgróðaskattur var lagður á, fengu allt að 40% skattsins og aðrir staðir 6% í hlutfalli við tekjuskatt á hverjum stað. Loks var heimilað að innheimta mætti á árinu 1941 10% viðauka á tekjuskatt og eignarskatt.

1942: Embætti rannsóknardómara í skattamálum sett á fót

Lögin frá síðasta ári framlengd en skattstigar tekjuskatts lækkaðir, í 1%–22% með breyttri umreikningsformúlu. Ekki lengur heimilt að draga greiddan tekjuskatt og útsvar frá tekjum fyrir skattlagningu en eignarskattur var áfram frádráttarbær. Hann var 1–3‰. Stríðsgróðaskattur var lagður á einstaklinga til ársins 1954 og fyrirtæki til 1958. Sami skattstigi fyrir fyrirtæki og almenning.

Embætti rannsóknardómara í skattamálum sett á fót. Hann hafði heimild til þess að hefja rannsókn mála og setja rétt í hvaða umdæmi landsins sem var. Minna varð úr starfinu en að var stefnt og embættið var lagt niður árið 1950. Í staðinn var skattalögum breytt með þeim hætti að héraðsdómurum var falið að sinna þeim verkefnum sem rannsóknardómarinn hafði haft með höndum.

1943: Viðaukatekjuskattur settur á í eitt ár

Sérstakur viðaukatekjuskattur settur á í eitt ár, kallaður verðlækkunarskattur. Hann var lagður á tekjur umfram 10 þúsund krónur og gat numið allt að 18%. Ýmsir skattaviðaukar lögleiddir ári seinna, t.d. 50% álag á eignarskatt sem var innheimt til ársins 1951.

1944: Skattstjórum fjölgað um þrjá

Skattstjórum fjölgað um þrjá, á Akureyri, Ísafirði og Hafnarfirði.

1945-1953 Fleiri tekjustofnar skattlagðir

1945: Viðaukatekjuskattur lögfestur. Veltuskattur lagður á í eitt skipti

Skattstjóraembætti sett á fót í Vestmannaeyjum.

Viðaukatekjuskattur lögfestur, kallaður tekjuskattsviðauki. Hann var 2–12%. Framlengdur á hverju ári til 1954.

Lög um veltuskatt af rekstri. Bara lagður á einu sinni. Hann var 1,5% af heildsölu og umboðssölu, þó aldrei yfir 25% tekna, en 1% af smásöluveltu og veltu annarra gjaldskyldra fyrirtækja.

1946: Atvinnurekendum gert að innheimta tekju- og eignarskatt

Lög samþykkt sem heimila að skikkja má atvinnurekendur til að innheimta tekju- og eignarskatt fyrirfram á fyrri helmingi ársins upp í væntanlega skatta með því að halda eftir af launum fólks.

Strætisvagnar

1947: Eignakönnun gerð hjá fólki og félögum til að stemma stigu við skattundanskotum

Lög um eignakönnun til að kanna hvort þrálátur orðrómur um mikil undanskot frá skatti á liðnum árum ætti við rök að styðjast og afla fjár til nýsköpunar. Framtalsdagur var 31. desember og átti fólk, fyrirtæki og stofnanir að telja fram tekjur sínar frá 1. janúar til þess dags og gera nákvæma grein fyrir öllum eignabreytingum. Þetta var gert til þess að stjórnvöld gætu síðan borið saman stöðuna á framtalsdegi og eignastöðu fólks og félaga á skattaskýrslum eftir 1. janúar 1940. Eignakönnunarskýrslan var hluti af skattframtali ársins 1948. Skattur af undanskotum eftir upphæð, stighækkandi skattur í peningum en líka var hægt að greiða skattinn með því að kaupa ríkisskuldabréf sem aðeins báru 1% vexti á ári. Samþykkt voru lög um eignaraukaskatt sem miðaðist við niðurstöður eignakönnunarinnar en svo fór að skatturinn var ekki lagður á.

Sjötta skattstofan stofnsett í Neskaupstað.

1948: Söluskattur settur á

Söluskattur settur á samkvæmt sjöunda kafla dýrtíðarlaga, 2% á innfluttar vörur og 1,5% á sölu vöru og þjónustu innanlands. Lögleiddur til eins árs en síðan margendurnýjaður og ekki afnuminn fyrr en árið 1989. Hækkaði með árunum.

1950: Stóreignaskattur lögleiddur

Lög um stóreignaskattinn fyrri. Einstaklingar greiddu hann en ekki félög. Hreinum eignum félaga var skipt niður á eigendurna í réttu hlutfalli við hlutafjár- og stofnfjáreign þeirra hvers um sig. Skattstiginn var 10%–25%. Miklar deilur fylgdu skattlagningunni en Hæstiréttur dæmdi skattinn löglegan.

1953: Skattstofa stofnsett á Akranesi

Sjöunda skattstofan stofnsett á Akranesi.

1954-1961 Skattkerfið einfaldað og skattlagningu fyrirtækja breytt

1954: Skattkerfið einfaldað og skattar lækkaðir. Fasteignaskattur tekinn upp.

Ný grunnlög um skattamál. Einföldun kerfisins og umtalsverðar skattalækkanir. Einn tekjuskattur kom í stað tekjuskatts, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatts. Frádráttarliðum var fjölgað, persónufrádráttur hækkaður og umreikningi tekna hætt. Ekki orðið við háværum kröfum um sérsköttun hjóna. Sú millileið var farin að búnir voru til tveir skattstigar, annar fyrir einhleypa en hinn fyrir hjón. Skattstigi þeirra einhleypu var 12 þrepa en 14 hjá hjónum, 1%–40%. Persónufrádrátturinn var ekki í samræmi við framfærslukostnað en á móti kom að skattstigarnir risu mjög hægt af fyrstu 40 þúsund krónunum. Sú breyting var gerð að tekið var upp skattfrelsi sparifjár og vaxta af því með vissum reglum. Með sérlögum var eignarskattur innheimtur með 50% álagi til ársloka 1957. Skattstigi fyrirtækja frá árinu 1942 notaður áfram í nýju lögunum. Jafnframt bar þeim að greiða tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatt eitt ár í viðbót og eignarskattur þeirra árið 1954 var með 50% álagi. En frá reiknuðum sköttum ársins var þeim veitt 20% lækkun. Skattur samvinnufélaga var 8% og skattur annarra félaga aldrei lægri en 5% af skattskyldum tekjum.

Ný lög um útsvar til bráðabirgða. Niðurjöfnunarnefndum gert skylt að birta með skattskrám skýrslu um það hvernig útsvörin væru reiknuð og gjaldendur gátu beðið um skýringar á útreikningi útsvara sinna. Enn var engin samræming á útsvarsstigum milli sveitarfélaga. Sparifé undanþegið útsvarsgreiðslum.

AusturvöllurNý lög um fasteignaskatt í tengslum við þær breytingar sem verið var að gera á lögunum um tekjuskattinn, einkum þá breytingu að stríðsgróðaskattur var felldur niður af einstaklingum og lækkaður hjá fyrirtækjum, en sveitarfélögin höfðu fengið 45% af honum. Fasteignaskattur skyldi nú renna til sveitarfélaganna í stað ríkissjóðs eins og verið hafði samkvæmt lögum frá árinu 1921. Frá árinu 1945 var til annar fasteignaskattur sem var mun hærri en sá skattur sem hér var um rætt og bæjar- og sveitarstjórnir innheimtu sjálfar. Eftir breytinguna árið 1954 voru því við lýði tveir fasteignaskattar sem voru innheimtir af tveimur aðilum. Þetta tvöfalda innheimtukerfi þótti dragbítur á frekari notkun véla og ómögulegt þótti að starfsmenn ríkisins væru að innheimta skatt fyrir sveitarstjórnir og sagt var að það tefði vélrænt bókhald. Þetta varð til þess að innheimta skattanna beggja var með lagabreytingu árið 1957 færð í hendur sveitarfélaganna sjálfra og gamli ríkisfasteignaskatturinn var gerður að heimildarskatti.

Upphaf vélvinnslu skattframtala.

Áttunda skattstofan sett á fót á Siglufirði.

1955: Ákveðin fyrirtæki undanþegin tekjuskattsviðauka

Ákvæðin um fyrirtækin í lögunum frá 1954 framlengd út árið 1955 og svo til 1958 að undanskildum tekjuskattsviðauka sem síðast var lagður á þau árið 1955.

1956: Nýjar skattstofur í Keflavík og í Kópavogi

Níunda skattstofan sett á fót í Keflavík og sú tíunda í Kópavogi.

1957: Stóreignaskattur hinn síðari lagður á. Skattar á lágmarkslaun lækkaðir

Lög um lækkun skatta af lágmarkslaunum. Giltu bara við álagningu 1958 en voru framlengd fyrir árið 1959.

Stóreignaskatturinn seinni lagður á. Skattinn átti að miða við fasteignamatið frá árinu 1942 að viðbættu verðbólgumati. Við mat skipa og flugvéla átti að byggja á vátryggingarverði en með ákveðnum frádrætti. Hlutabréf skyldu verðlögð eftir markaðsvirði en bréf í fyrirtækjum, sem ekkert þekkt gangverð var á, átti að skattleggja miðað við eigið fé fyrirtækjanna. Sparifé fólks og eignir í ríkisskuldabréfum og skuldabréfum með ríkisábyrgð voru undanþegnar skattinum. Skattstiginn var 15%–25% en af fyrstu milljóninni þurfti ekkert að greiða. Gert var ráð fyrir því að eignir yrðu taldar fram á stóreignaskattsframtölum hjá þeim sem raunverulega ættu þær, þ.e.a.s. að eignum félaga væri við útreikning skattsins skipt á eigendurna en félögin borguðu hann. Þeim var svo í sjálfsvald sett hvort þau rukkuðu einstaklingana um endurgreiðslu eða ekki. Langvarandi málaferli fylgdu álagningu skattsins sem lauk ekki fyrr en árið 1969.

1958: Breyting á skattlagningu fyrirtækja og félaga - Sjómannaafsláttur festir sig í sessi

Grundvallarbreyting á skattlagningu fyrirtækja og félaga. Stighækkandi skattar þeirra afnumdir en þau öll látin þess í stað greiða 25% tekjuskatt af skattskyldum tekjum. Stríðsgróðaskattur var felldur niður. Hlutafélög, samlagshlutafélög og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð máttu draga frá tekjum sínum útborgaðan arð, þó ekki meira en 8% af innborguðu hlutafé eða stofnfé. Áður var það 5% af innborguðu hlutfé eða stofnfé og ekki bundið við að arður væri greiddur. Það ákvæði í lögum frá árinu 1948 að ríkisskattanefnd hefði eftirlit með nýbyggingarsjóðum útgerðarfyrirtækja var tekið upp í frumvarpið en á árunum 1941–1948 hafði sérstök þriggja manna nefnd séð um það. Í raun var því ekki um neina breytingu að ræða. Sameignarfélög og samlög sem höfðu það að meginmarkmiði að annast sölu á framleiðsluvörum félagsmanna skyldu alltaf skattlögð sem sjálfstæður skattaðili. Í eldri lögum gátu eigendur slíkra félaga valið milli þess hvort skattur var lagður á félagið eða þá sjálfa ef þeir voru færri en þrír. Loks var gerð sú breyting á eignarskatti félaga og fyrirtækja að þau skyldu greiða 7 af þúsundi af skattskyldri eign sinni. Með breytingunni átti að auðvelda starfsemi stórra hlutafélaga og stuðla að því að þau gætu myndað öfluga sjóði.

Breytingar gerðar á skattlagningu hjóna og skattar lágtekjufólks lækkaðir. Um þrjár útfærslur var að ræða: Ef gift kona vann fyrir skattskyldum tekjum utan heimilisins annars staðar en við fyrirtæki sem hjónin eða börn þeirra áttu eða ráku mátti draga 50% frá tekjum konunnar áður en skattur var reiknaður af sameiginlegum tekjum hjónanna. Ef gift kona tók hins vegar þátt í atvinnurekstri með manni sínum áttu þau rétt á því að vinnuframlag konunnar af sameiginlegum hreinum tekjum þeirra væri metið og síðan dregin 50% frá hlut hennar áður en skattur væri lagður á tekjur hjónanna. Frádráttarstofninn gat þó aldrei orðið hærri en tvöfaldur persónufrádráttur konunnar og kom þessi liður ekki til framkvæmda fyrr en árið 1959. Loks kom sú regla að ef gift kona aflaði tekna með vinnu sinni utan fyrirtækis hjónanna eða barna þeirra gætu hjónin krafist þess að verða sérstakir skattgreiðendur hvort um sig. Persónufrádráttur hjóna var hækkaður. Þeim bar báðum að undirrita skattframtalið í öllum tilfellum og var það nýlunda.

Skattafsláttur sjómanna hækkaður og með því má segja að sjómannafrádrátturinn hafi fest í sessi. Hann kom fyrst til sögunnar með tekjuskattslögunum árið 1954. Nýr eignarskattsstigi fyrir einstaklinga lögleiddur, 3–15 ‰

1960: Söluskattur sem og tekjuskattur lækkaður umtalsvert

BreiðholtskjörNý lög um söluskatt. Greiða átti almennan 3% söluskatt af vörusölu, vinnu og þjónustu innanlands og 7% skatt af innfluttum vörum að viðbættum aðflutningsgjöldum og áætlaðri 10% álagningu. Með nýjum tollalögum árið 1963 var innflutningssöluskattur afnuminn en smásöluskatturinn var áfram lagður á. Söluskattur var hækkaður árið 1964 úr 3 í 5,5%, í 7,5% árið 1965 og loks í 11% 1. mars 1970. Tengdist síðasta hækkunin inngöngu Íslands í EFTA en þá lækkuðu tollar á ýmsum vörum og bæta varð ríkissjóði það upp. Í þeim lögum var ákvæði þess efnis að ráðherra væri heimilt að fyrirskipa að allstaðar þar sem söluskattur væri innheimtur bæri að nota peningakassa þar sem öll söluskattsskyld viðskipti kæmu fram.

Ný lög um tekjuskatt sem þýddu mikla skattalækkun og að gjaldendum fækkaði mikið milli áranna 1959 og 1960. Einn skattstigi fyrir alla í stað tveggja frá árinu 1954. Hann var 5%, 10%, 15% og 30%.

Bráðabirgðalög um útsvör. Fastir útsvarsstigar lögleiddir í fyrsta sinn. Þar sem ljóst þótti að tekjur fólks og tekjuþörf einstakra sveitarfélaga voru með misjöfnum hætti varð niðurstaðan sú að hafa álagningarstigana þrjá, einn fyrir Reykjavík, annan fyrir kaupstaðina og þann þriðja fyrir hreppana. Í rauninni voru skattstigarnir miklu fleiri því í hverjum byggðarlagaflokkanna þriggja voru sérstakir stigar fyrir fyrirtæki, einn fyrir tekjur þeirra og annar fyrir eignir. Þeir voru því níu. Hámark útsvars einstaklinga var 30% í Reykjavík og kaupstöðunum en 25% í hreppum. Tekjuútsvör félaga voru alls staðar þau sömu, 20% og 30%, en eignarútsvörin, 5–10‰, lægri á landsbyggðinni.

1962-1977

1962: Breytingar á tekjuskattslögum og embætti ríkisskattstjóra stofnað

Ný grunnlög um tekju- og eignarskatt samþykkt. Skattstiginn frá árinu 1960 fyrir einstaklinga var tekinn óbreyttur upp í nýju lögin. Frádráttarliðum fjölgað. Eignarútsvör voru gerð frádráttarbær líkt og var um eignarskatt frá upphafi. Eignarskattsstigi einstaklinga var einfaldaður, gerður þriggja þrepa í stað níu áður, 5‰, 9‰ og 12‰. Langmikilvægasta breytingin varðandi skattlagningu fyrirtækja, og jafnframt sú umdeildasta, var lækkun tekjuskatts þeirra úr 25% í 20%. Aðrar breytingar voru þær að þeim var heimilað að greiða 10% skattfrjálsan arð af hlutafé eða stofnfé í stað 8% áður. Þá var öllum fyrirtækjum heimilt að leggja allt að 25% af hreinum tekjum sínum í varasjóð og kom það fé til frádráttar við ákvörðun tekjuskatts. Þar með var horfið frá þeirri tilhögun að hlutafélög sem stunduðu útgerð og samvinnufélög hefðu sérstöðu en þau höfðu frá árinu 1942 mátt draga frá varasjóðstillag sem nam 1/3 af tekjum enda urðu þau að setja helming þess fjár í nýsköpunarsjóð. Önnur fyrirtæki máttu áður draga 20% frá þannig að verið var að auka frádrátt meirihluta fyrirtækja og búa til eina reglu fyrir alla. Með þessari breytingu voru gömlu ákvæðin um nýsköpunarsjóð sjávarútvegsfyrirtækja felld úr lögum með þeim ummælum að þau hefðu nánast aldrei haft neitt að segja. Fyrningarreglur urðu hagstæðari og tap rekstraraðila mátti færa milli fimm ára í stað tveggja áður.

HvalfjörðurNý lög um tekjustofna sveitarfélaga. Helstu nýmæli voru þau að álagning fasteignaskatta var lögboðin en ekki bara heimiluð eins og áður var. Veltuútsvör voru afnumin en sveitarfélögum heimilað að leggja aðstöðugjald á fyrirtæki. Nokkrum ríkisfyrirtækjum og olíufélögum var gert að greiða landsútsvar sem rann í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Einn útsvarsstigi fyrir öll sveitarfélög var lögleiddur í stað þriggja. Skattstigi einstaklinga var átta þrepa, frá 14–30%. Útsvör liðins árs voru frádráttarbær og veittur var fjölskyldufrádráttur eins og áður. Tekjuútsvarsstigi fyrirtækja og eignarútsvarsstigi einstaklinga og fyrirtækja voru óbreyttir frá því sem var í lögunum frá árinu 1960. Niðurjöfnunarnefndir voru lagðar niður en í þeirra stað komu framtalsnefndir. Skattstjórar önnuðust álagningu aðstöðugjalda og útsvara í náinni samvinnu við sveitarstjórnir eða framtalsnefndirnar.

Með tekjuskattslögunum var gerð kerfisbreyting. Stofnuð voru embætti ríkisskattstjóra og vararíkisskattstjóra. Ríkisskattanefnd varð hreinn úrskurðaraðili kærumála. Gömlu skattstjóraembættin í kaupstöðunum voru lögð niður, nema í Reykjavík og Vestmannaeyjum, einnig skattanefndirnar 219 og yfirskattanefndirnar 24. Þess í stað voru stofnuð níu skattumdæmi með einum skattstjóra í hverju þeirra. Ríkisskattstjóri hafði yfirumsjón með tekju- og eignarskatti, söluskatti, aðstöðugjaldi og tryggingagjöldum. Hann og ríkisskattanefnd tóku á móti kærum á úrskurðum skattstjóra. Eitt af hlutverkum ríkisskattstjóra var að hafa eftirlit með störfum skattstjóranna og sjá til þess að sem best samræmi væri á verklagsreglum þeirra. Ef hann taldi ástæðu til að breyta ákvörðun skattstjóra um skattgreiðslu gat hann, þótt málið hefði ekki verið kært, lagt það fyrir ríkisskattanefnd sem hafði vald til að breyta ákvörðuninni og kveða á um nýja skattupphæð. Fyrsti ríkisskattstjóri var Sigurbjörn Þorbjörnsson viðskiptafræðingur. Skrifstofustjóri var Þórólfur Ólafsson en ári seinna var hann skipaður fyrsti vararíkisskattstjóri. Embættið var á Klapparstíg 26. Þar voru líka Skýrsluvélar ríkisins með tímabundna starfsemi sem þróuðu tækni við vélvinnslu gagna, m.a. vinnslu skattgagna. Smám saman tók embætti ríkisskattstjóra við yfirumsjón og framkvæmd allrar tæknivinnslu og úrvinnslu gagna fyrir allt landið.

1964: Launaskattur tekinn upp

Tekjustofnum sveitarfélag breytt. Aðstöðugjald af rekstri verslunarskipa og fiskiðnaðarfyrirtækja var lækkað niður í 1% og í 1½% af öðrum iðnrekstri. Skattstjóranum í Reykjavík var þá gert að leggja á landsútsvör en áður greiddust þau beint frá fyrirtækjunum til Jöfnunarsjóðs. Loks var nýr útsvarsstigi settur og gjaldþrepum fækkað úr átta í tvö, 20% og 30%. Í stað afsláttar af útsvari vegna fjölskyldustærðar kom ákveðinn frádráttur frá tekjum til samræmis við þau ákvæði sem giltu um tekjuskattsálagningu. Útsvörin voru áfram frádráttarbær. Útsvarsstigi fyrirtækja var líka tveggja þrepa, 20% og 30%. Þessar breytingar höfðu í för með sér töluverða lækkun útsvara. Sveitarstjórnir máttu nú ekki hækka útsvörin í neyð nema um 20% í stað 30% áður.

Breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Meðal annars var skattstiginn endurskoðaður og skattþrepunum fækkað í þrjú, 10%, 20% og 30%. Var þá svo komið að opinber gjöld á einstaklingi gátu ekki farið fram úr 57% en höfðu hæst komist í 90% á fimmta áratugnum. Á fyrirtækjum gátu þau ekki orðið meiri en 43%. Innstæður barna í bönkum, sparisjóðum og öðrum innlánsstofnunum voru gerðar skattfrjálsar án tillits til skulda foreldra.

Launaskattur tekinn upp. Skattur á launagreiðendur að upphæð 1% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum öðrum en tekjum af landbúnaði. Allir launagreiðendur voru skattskyldir, einstaklingar með eigin atvinnurekstur, félög og fyrirtæki, sjóðir og stofnanir, sveitarfélög og stofnanir þeirra, ríkissjóður, ríkisstofnanir og erlendir verktakar.

Rannsóknardeild ríkisskattstjóra stofnuð.

1965: Hækkun persónufrádráttar

Breyting gerð á tekjustofnalögum sveitarfélaga. Álagning þeirra reyndist óþarflega há árið 1964 og því var ákveðið að slaka nokkuð á henni. Persónufrádráttur var hækkaður um 40%, þriðja þrepinu, 10%, var bætt við sem fyrsta þrepi útsvarsstigans og bilin voru breikkuð gjaldendum í hag.

Breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Persónufrádráttur hækkaður og tekjuskattstiginn lækkaður í 9%, 18% og 27%. Slysa- og sjúkrapeningar undanþegnir skatti og var það 17. frádráttarliðurinn á framtali.

1970: Launaskattur hækkaður tímabundið

Sett á sérstök 1,5% launaskattshækkun sem gilda átti frá 1. desember 1970 til 31. ágúst 1971. Þar með var launaskatturinn orðinn 2,5%. Viðbótarákvæðin voru framlengd tvívegis til bráðabirgða en í lok desember 1972 var 1,5% viðbótin sett á til frambúðar.

1971: Breytingar á skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga

Skattstofan í Reykjavík flyst í Tollstöðvarhúsið í Tryggvagötu 19.Tryggvagata 19

Skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga breytt. Lögin um fyrirtæki og félög voru mjög efnismikil og flóknari en eldri lög. Atvinnurekendur fengu frjálsari hendur varðandi fyrningar. Mikil breyting var gerð varðandi skattalega meðferð söluhagnaðar þannig að almenna reglan varð sú að hagnaður af sölu eignar var alltaf skattlagður en þó að mismiklum hluta eftir lengd eignartíma. Skattalegri meðferð hagnaðar af rekstri var mikið breytt, sameignarfélög voru ekki lengur skattlögð heldur eigendurnir, skattfrelsi arðs af hlutabréfum upp að ákveðnu marki var leyft til að gera hlutafjár- og stofnsjóðseign að nokkru sambærilega við sparifjáreign og ýta undir fjárfestingar í hlutafélögum. Samruni félaga, sem eingöngu var fólginn í algjörum samruna án þess að greiðslur ættu sér stað á milli hluthafa, myndaði ekki skattskyldu. Eignaaukningin sem myndaðist við samruna var skattskyld þegar félagi var slitið eða við sölu hlutabréfa í því. Tekjuskattur félaga var 20% af skatttekjum en eignarskattur var lækkaður niður í 0,7%. Lögin voru hagkvæm fyrirtækjum og sættu seinna töluverðri gagnrýni. Breytingar sem vörðuðu einstaklinga voru þær að frádráttur vegna tekna eiginkonu var minnkaður nokkuð. Skattþrepin voru áfram þrjú en tekjuviðmið voru hækkuð. Eignarskattur var lækkaður mikið, féll að mestu niður af venjulegum fasteignum almennings. Fyrstu 3 milljónirnar voru skattfrjálsar, af næstu þremur skyldi greiða 0,3% í skatt en af öllu umfram það bar að greiða 0,6%.

1972: Breytingar á lögum um erfðafjárskatt, tekju- og eignarskatt og útsvar

Ný lög um erfðafjárskatt sem vörðuðu hækkun skattstigans vegna verðhækkana í þjóðfélaginu.

Breytingar á tekju- og eignarskattslögum. Persónufrádráttur hækkaður og þrep skattstigans hækkuð í 25%, 35% og 44%. Upphæð skattfrjálsra eigna var lækkuð um tvær milljónir, niður í eina milljón. Af eignum að verðmæti 1–2 milljónir króna bar að greiða 0,6% og 1% af því sem hærra var. Tekjuskattshlutfall félaga var hækkað mjög mikið eða upp í 53% af skattgjaldstekjum og eignarskattshlutfall þeirra var tvöfaldað, upp í 1,4% af skattskyldum eignum. Fyrr á árinu var búið að fella niður námsbókagjaldið og í tengslum við þessar skattabreytingar voru aðrir persónuskattar eða nefskattar felldir niður.

Breytingar á lögum um útsvar. Aðstöðugjald var lækkað, mátti mest vera 65% af því sem það var árið 1971, eignaútsvör voru afnumin, stighækkandi tekjuútsvör einstaklinga voru afnumin en í staðinn kom útsvar sem var 10% heildarteknanna. Útsvör á árslaun sem voru undir 450 þúsund krónum lækkuðu um 0,2% fyrir hvern heilan tug. Útsvör fyrirtækja voru afnumin. Fasteignaskattur var hækkaður.

1973: Tímabundnar álögur lagðar á vegna eldgoss í Vestmannaeyjum

Eldgos í VesmannaeyjumLög vegna eldgossins í Vestmannaeyjum fela í sér tímabundnar álögur. Á álagðan eignarskatt var sett 30% viðlagagjald, sérstakt viðlagagjald á gjaldstofn aðstöðugjalds, 1% viðlagagjald á útsvarsskyldar tekjur og söluskattur var hækkaður um 2%.

Launaskattur af launum sjómanna afnuminn og ári seinna bættust landmenn útgerðanna við. Í báðum tilvikum var um ákvæði að ræða til bráðabirgða sem voru svo framlengd með nýjum lögum.

Embætti ríkisskattstjóra flyst á Skúlagötu 57.

1974: Ýmsar hækkanir m.a. vegna verðbólgu

Lög um skattkerfisbreytingar. Ýmsar tölur eldri tekjuskattslaga hækkuðu, bæði að raungildi og vegna verðbólgu. Persónufrádráttur hækkaði og við bættist sérstakur frádráttur fyrir einstætt foreldri og barn eða börn þess. Skatthlutföll tekjuskatts lækkuð í 20%, 30% og 40%. Þar sem ljóst þótti að hækkun söluskatts bitnaði meðal annars á þeim sem engan tekjuskatt greiddu var búinn til svokallaður sérstakur skattafsláttur sem allir áttu að fá, líka kallaður „neikvæður“ tekjuskattur. Ef einhver fékk hærri skattafslátt en sem nam tekjuskatti eða bar engan skatt átti upphæðin að fara til greiðslu annarra þinggjalda. Elli- og örorkulífeyrisþegar fengu sérstakan afslátt á tekjuskatti. Orðið skattskyldumörk, seinna skattleysismörk, kom fyrir í lögunum í fyrsta sinn og þýddi hvar skattskylda byrjaði. Annað nýtt hugtak var orðið jaðarskattur. Söluskattur hækkaði í 18% með sérstökum 5% söluskattsauka og launaskattur tímabundið í 3,5%.

Frá 1. apríl hækkaði launaskattur í 3,5% til loka ársins. Sömu atvinnugreinar sem fyrr voru undanþegnar skattinum. Lögin voru framlengd á hverju ári til ársins 1977 en þá voru þau framlengd án tímamarka.

1975: Persónuafsláttur tekinn upp auk fleiri breytinga

Tekinn upp persónuafsláttur í stað persónufrádráttar og barnabætur koma í staðinn fyrir fjölskyldubætur almannatryggingakerfisins, persónufrádrátt vegna barna og afslátt einstæðra foreldra frá tekjuskatti. Tveggja þrepa Stætisvagn við Hlemmtekjuskattsstigi var tekinn upp, 20% og 40%. Tekjuskattur félaga var áfram 53%. Allar upphæðir áttu hér eftir að hækka eða lækka í samræmi við skattvísitölu sem ákveða skyldi í fjárlögum hverju sinni. Eignarskattsstiganum var breytt þannig að skattleysismörk hækkuðu upp í 2 milljónir króna, af næstu 1,5 milljónunum greiddist 0,6% skattur og 1% af því sem var fram yfir 3,5 milljónir. Almenningi var veittur afsláttur á útsvari og veitt var heimild til að fella niður söluskatt og tolla af mikilvægum matvörum og hráefnum til matvælagerðar. Loks var það ákvæði í lögunum að lagður var 5% skyldusparnaður á tekjur fólks yfir ákveðnum mörkum. Skattstjórar reiknuðu skyldusparnaðinn út og sérstök skírteini voru gefin út með 4% vöxtum á sparnaðinn.

1977: Skattalögum breytt til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga

Skattalögum breytt til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga, sólstöðusamninganna. Bráðabirgðalög sem voru staðfest 16. desember. Breytingin fólst fyrst og fremst í því að nýju 30% þrepi var bætt við skattstigann og viðmiðunarfjárhæðir voru hækkaðar verulega. Það sama er að segja um eignarskattinn, viðmiðunarfjárhæðir hækkuðu í takt við verðbólguna en skattprósentan var óbreytt. Fjórum dögum seinna voru samþykkt lög um „skyldusparnað og ráðstafanir í ríkisfjármálum“ þar sem skyldusparnaður var hækkaður í 10% af hátekjum. Breyting á eignarskatti. Af fyrstu 6 milljóna króna eign einstaklinga og 9 milljóna hjá hjónum greiddist enginn skattur en 0,8% af því sem umfram var. Félögum var gert að greiða 0,8% af eignarskattsstofni. Þessi mikla hækkun skattleysismarkanna varð til þess að greiðendum eignarskatts fækkaði um næstum 10 þúsund.

Sett lög um skyldusparnað félaga og stofnana.

1978-1987

1978: Grundvallarbreyting skattalaga

Grundvallarbreytingar skattalaga sem fólu í sér meiri breytingar en gerðar höfðu verið allt frá árinu 1921. Um var að ræða gríðarstóran lagabálk, nr. 40/1978, þar sem algerlega var vikið frá uppbyggingu og greinaröð eldri laga og því voru lögin ný frá rótum. Jafnframt voru þau töluvert flóknari en eldri lög vegna ákvæða sem í þeim voru um verðbólguútreikninga. Lögin tóku gildi 1. janúar 1979 en komu ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu á tekjur og eignir þess árs árið 1980. Tekjuskattsfrumvarpið tók upphaflega mið af fyrirhugaðri staðgreiðslu og voru skattstigar þess miðaðir við hana og 35% verðbólgu. Svo fór að staðgreiðslufrumvarpið varð ekki útrætt og setti það nokkurt strik í reikninginn. Lagabreytingarnar voru margháttaðar, t.d. ný hugtök sem hafa verið lykilhugtök frá samþykkt laganna. Orðið tekjuskattsstofn kom í stað orðanna skattgjaldstekjur eða hreinar tekjur til skatts sem notuð höfðu verið frá upphafi. Gerður var greinarmunur á tvenns konar tekjuskattsstofnum, annars vegar launamanna og lögaðila og hins vegar einstaklinga með sjálfstæða starfsemi. Annað nýtt hugtak var orðið eignarskattsstofn og orðið lögaðili var í fyrsta sinn notað í tekjuskattslögum um ópersónulega aðila eða fyrirtæki en áður hafði það þó komið fram fjórum árum fyrr í lögum um söluskatt. Loks kom fram hugtakið reiknað endurgjald eða reiknuð laun en það voru þau laun sem sjálfstætt starfandi mönnum var gert að reikna sér af verktakastarfsemi sinni.

Ein markverðasta breytingin fólst í því að aðferðum við skattlagningu hjóna var breytt. Tekin var upp takmörkuð sérsköttun hjóna og eftir það hafa allir einstaklingar talist sjálfstæðir skattaðilar. Tekjum hjóna var skipt í þrjá flokka. Hús og snjórLaunatekjur voru skattlagðar hjá hvoru hjóna um sig með viðeigandi frádráttarliðum. Tekjur af eignum bar að leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hafði hærri hreinar launatekjur eða skyldar tekjur. Loks bar að telja tekjur af atvinnurekstri fram hjá þeim aðila sem stóð fyrir rekstrinum. Hjónin voru svo skattlögð eftir sama skattstiga og einhleypt fólk, fékk sama persónuafslátt og máttu millifæra þann hluta persónuafsláttar sem öðru hjóna nýttist ekki yfir til hins aðilans. Barnabótum var skipt milli hjóna en helmingsfrádráttur á tekjum eiginkvenna var felldur niður. Hjón skiluðu eftir þessa breytingu tveimur aðskildum tekjuskattsframtölum en höfðu sameiginlegt eignaframtal. Einn þriggja þrepa skattstigi var fyrir alla, 18%, 26% og 34%, og sami persónufrádráttur fyrir alla. Barnabætur voru hækkaðar.

Frádráttarliðum var fækkað verulega. Það mikilvæga nýmæli var tekið upp í lögin að skattgreiðendum var heimilað að velja á milli þess að nota fastan 10% frádrátt frá tekjum sínum eða draga frá lífeyrissjóðsiðgjöld, iðgjöld af lífsábyrgð, gjöld til stéttarfélaga, sjúkra- og styrktarsjóða, vaxtagjöld og gjafir til menningarmála. Margir mikilvægir frádráttarliðir eldri laga voru leyfðir áfram en í breyttri mynd. Vaxtatekjur voru áfram frádráttarbærar en ákvæðið um tekjuskattsfrelsi þeirra var nú miðað við vaxtagjöld í stað skuldastöðu í árslok í eldri lögum. Loks skal hér nefnt að reglum um frádrátt arðs var breytt. Hann var frádráttarbær ef hann fór ekki fram úr 10% af nafnverði hvers hlutabréfs. Hámarkið var þó 250 þúsund krónur hjá einstaklingi. Einnig var frádráttarbærni úthlutaðs arðs hjá félaginu sjálfu skert. Í stað þess að leyfa því að draga frá allt að 10% af nafnverði hlutafjárins var aðeins helmingur úthlutaðs arðs frádráttarbær frá tekjum félagsins og frádráttarheimildin takmarkaðist þar að auki við 5% af nafnverði hlutafjár.

Verulegar breytingar voru gerðar á fyrningarreglum og reglum um skattlagningu söluhagnaðar í atvinnurekstri með því sem kallað var verðbólgureikningsskil. Söluhagnaður lögaðila var gerður skattskyldur í öllum tilfellum án tillits til eignarhaldstíma en við ákvörðun hans bar að framreikna upphaflegt kaup- eða kostnaðarverð til söluárs, núvirðis eins og það var kallað, eftir sérstökum verðbreytingarstuðli sem reikna átti eftir breytingum á byggingarvísitölu. Þetta þýddi að söluhagnaður var ekki skattskyldur nema hann reyndist meiri en hækkun verðbólgunnar.

Í lögunum var nýtt ákvæði sem heimilaði lögaðilum sérstaka 5% niðurfærslu á útistandandi kröfum í lok reikningsárs. Þá var gert skylt að nota varasjóð til að mæta yfirfæranlegu rekstrartapi og mæta skyldi tapi áður en fé væri lagt í sjóðinn. Heimilað var að færa rekstrartap milli ára í fimm ár. Fé sem kaupfélög, samvinnufélög og fleiri færðu félagsaðilum til séreignar í stofnsjóði vegna viðskipta þeirra bar að telja til tekna en á móti kom ákveðinn frádráttur. Tekjuskattur lögaðila var 45% af tekjuskattsstofni.

Allar fasteignir bar að telja til eignar á gildandi fasteignamatsverði og ákveðið var að framvegis yrði fasteignamat framreiknað árlega. Lausafé bar að telja fram til eignarskatts á endurmetnu stofnverði sem reiknað var með sama verðbreytingarstuðli og notaður var við að ákvarða verðmæti fyrninga og söluhagnaðar. Eignir hjóna átti að leggja saman og skipta þeim síðan til helminga milli þeirra til skattlagningar. Eignarskattsstiginn var þannig að engan skatt þurfti að greiða af 8 milljóna króna eignarskattsstofni en 0,8% af því sem umfram það var. Lögaðilar greiddu sama hlutfall af eignarskattsstofni. Gert var ráð fyrir að skattstiginn breyttist árlega eftir skattvísitölu. Innstæður í fjármálastofnunum voru áfram skattfrjálsar, eins og verið hafði frá árinu 1954, en voru gerðar framtalsskyldar.

SólseturÍ september setti ný ríkisstjórn bráðabirgðalög um verðstöðvun, niðurfærslu verðlags og kjaramál. Skyldusparnaður á háar tekjur félaga var hækkaður, skattar voru hækkaðir af hátekjum, tekinn var upp eignarskattsauki og viðbótartekjuskattur var lagður á skattstofn ársins 1977 sem olli deilum um afturvirkni laga. Vörugjaldi var breytt og það innheimt í tveimur þrepum en söluskattur af matvælum var felldur niður. Bráðabirgðalögin höfðu engin áhrif á gildistöku lagabálksins mikla sem fyrr var frá sagt.

Ný lög í desember, aðallega um auknar byrðar á hátekjufólk og lækkun skatta á lágtekjufólk og niðurfærslu verðlags. Fyrst og fremst komu þau í stað bráðabirgðalaganna frá september en einnig voru í þeim ný atriði, meðal annars áðurnefndar tekjuskattsbreytingar. Skatthlutföllin hækkuðu í 20%, 30% og 40% og við skattstigann var bætt nýju 50% skattþrepi. Skattur á félög var hækkaður í 65% en skyldusparnaður þeirra afnuminn. Fyrningarheimildir voru skertar. Í stað eignarskattsauka bráðbirgðalaganna var skatthlutfall eignarskatts einstaklinga hækkað úr 0,8% í 1,2%. Eignarskattur félaga hækkaði úr 0,8% í 1,6%.

Vélræn úrvinnsla launamiða tekin upp.

1979: Undirbúningur gildistöku nýju laganna frá 1978 nær hámarki

Árið 1979 voru skattar lagðir á eftir nýsettum lögum frá desember 1978. En á sama tíma og sú vinna fór fram þurftu skattstofurnar um land allt og embætti ríkisskattstjóra að undirbúa þær miklu breytingar sem fólust í gildistöku grunnlaga nr. 40/1978 og koma áttu til framkvæmda árið 1980. Það þurfti að skipuleggja alla skattframkvæmdina upp á nýtt. Sú vinna hófst með því að í júní 1978 skipaði fjármálaráðherra vinnuhóp sérfræðinga til að undirbúa framkvæmd laganna. Mesta vinna hópsins fór í það að endurskoða eyðublöð skattframtalsins. Þá var í fyrsta sinn búið til eyðublað sem var tölvutækt, allir reitirnir voru númeraðir og það var hægt að reikna út allskonar hluti út frá þeim og yfirferðinni á framtölunum var mjög breytt. Hinn 20. febrúar 1979 samþykkti Alþingi fyrri lagabreytinguna af tveimur sem nauðsynlegt reyndist að gera á lagabálknum sem var að koma til framkvæmda og stöfuðu þær báðar aðallega af því að staðgreiðslufrumvarpið varð ekki að lögum. Það þurfti að breyta öllum innheimtukafla lagabálksins, líka voru nokkrar efnislegar lagfæringar þar sem meðal annars var reynt að taka enn meira mið af áhrifum verðbólgunnar á afkomu fyrirtækja en áður og aðlaga skilgreiningu skattstofna verðbólgunni. Hjón máttu telja fram 3 milljónir króna í vaxtagreiðslur á ári til Austurvöllur loftmyndfrádráttar og einstaklingar 1,5 milljónir. Vextirnir urðu þó að tengjast íbúðarhúsnæði til eigin nota. Áður voru vaxtagjöld ekki frádráttarbær nema í vissum tilfellum. Af sparifé umfram skuldir þurfti ekki að greiða eignarskatt. Breytingarnar varðandi atvinnurekstur voru viðameiri, einkum vegna verðbólguhagnaðar. Eigendur fjárkrafna höfðu orðið að sæta því að hækkandi „fjármagnstekjur“ voru skattlagðar enda þótt bilið milli verðbólgustigs og „vaxtatekna“ hefði í reynd síst mjókkað og tap þeirra að eiga þessar kröfur því fremur aukist en hitt. Á sama hátt höfðu skuldarar getað gjaldfært æ hærri vaxtafjárhæðir á sama tíma og hagnaður þeirra af lækkun höfuðstóls skuldanna jukust hröðum skrefum. Meginhugsun laganna frá árinu 1978 var haldið en í nokkuð breyttri mynd. Ákvæðum um endurmat eigna með verðbreytingarfærslu sem tók mið af verðbólgunni var breytt. Þetta var nýtt reikningslegt uppgjör. Í nýju lögunum var tekið tillit til verðbólgunnar í báðar áttir. Eldri ákvæði tóku einungis tillit til hennar ef atvinnureksturinn var að hagnast á henni, ef skuldir hans voru hærri en skattalega óverðtryggðar eignir. Nú var gert ráð fyrir því að einnig yrði tekið tillit til verðbólgu í því tilviki þegar skattalegar eignir fyrirtækja væru hærri en skuldir og þau því að tapa á verðbólgunni. Hins vegar féll mótreikningur fyrninga úr gildi. Á móti beinni tekjufærslu á verðbólguhagnaði aðila af skuldarýrnuninni kom þannig í mörgum tilvikum aukin gjaldfærsla fjármagnskostnaðar strax á því ári sem höfuðstóll viðkomandi skuldar breyttist auk þess sem kveðið var á um heimild til sérstakra flýtifyrninga, 25% af tekjufærslunni. Álitið var að bætt eignarstaða í kjölfar rýrnunar höfuðstóls skuldar í verðbólgu leiddi ekki endilega til aukinnar greiðslugetu þegar á því ári sem rýrnun höfuðstólsins ætti sér stað. Því þótti nauðsynlegt að heimila vissa dreifingu á skattlagningu yfir afborgunartíma skuldanna. Með aðferðinni átti að fást réttari mynd af raunverulegri afkomu fyrirtækja en með uppgjöri eftir ákvæðum laganna frá árinu 1978 og hinn raunverulegi verðbólguhagnaður að koma til skattlagningar. Fyrningarhlutföll voru lækkuð nokkuð. Loks voru ákvæði í lögunum um að fella þau inn í lögin frá 1978 og gefa þau út. Það var gert og voru það lög nr. 75/1981.

Þegar frumvarp fyrrnefndra breytingarlaga var lagt fram var stjórnarkreppa í landinu og minnihlutastjórn sat sem starfsstjórn. Því var ákveðið að bíða með jafn pólitíska ákvörðun og þá að ákveða skattstigann þangað til búið væri að mynda meirihlutastjórn. Skattstigi laganna sem komin voru til framkvæmdar miðaðist við staðgreiðslukerfi sem ekki varð að veruleika og því varð að breyta honum. Fljótlega eftir að ný meirihlutastjórn var tekin við var samþykkt frumvarp um nýjan skattstig og komu lögin þegar til framkvæmdar við álagninguna sem þá var byrjað að vinna að. Skattþrepum var fækkað úr fjórum í þrjú, 25%, 35% og 50%. Persónuafsláttur var hækkaður, skattur á börn var hækkaður úr 5% í 7% og barnabætur hækkuðu. Varðandi eignarskatt þýddi breytingin að skattur hjóna minnkaði en hækkaði á einhleypu fólki. Skattlaus eign einstaklings miðaðist við 15 milljónir en af því sem umfram það var bar að greiða 1,2% skatt. Tekjuskattur lögaðila var 65%. Var það óbreytt miðað við árið 1979 en mikil hækkun frá grunnlögunum 1978. Það sama má segja um eignarskattinn, hann hækkaði miðað við lögin frá árinu 1978 en lækkaði úr 1,6% í 1,2% miðað við fyrra ár.

Skömmu fyrir jól 1978 var samþykkt frumvarp um sérstakan eignarskatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á árinu 1979. Tekið var fram í lögunum að bankar og innlánsstofnanir teldust til skattskyldra aðila. Skatturinn, sem var 1,4%, var bundinn við árið 1979 og reiknaðist út frá fasteignamatsverði í árslok 1978. Næstu árin voru lögin um þennan sérstaka eignarskatt framlengd óbreytt frá ári til árs en árið 1984 var gerð sú breyting að skatthlutfallið fyrir komandi ár var lækkað í 1,1%. Eftir það voru lögin enn framlengd frá ári til árs. Með lögum sem samþykkt voru 21. desember 1988 fyrir komandi ár var sérstaki eignarskatturinn hækkaður upp í 2,2% en í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 1989 var hann lækkaður niður í 1,5% og sama tala var höfð í framlengingu laganna sem samþykkt var í desember fyrir árið 1990. Skatturinn var síðast lagður á sem ríkisskattur árið 1993 en með lögum það ár fengu sveitarfélögin umráð þessa skattstofns og var þá gjaldið lækkað í 1,25%.

1980: Fyrsta tölvutæka eyðublaðið tekið í notkun

Breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga til þess að aðlaga þau nýju tekjuskattslögunum. Með þeim voru hjón gerð að sjálfstæðum greiðendum útsvars og elli- og örorkulífeyrisgreiðslur voru undanþegnar útsvari. Skattstjórum var alfarið falin álagning útsvara en á síðustu árum höfðu flest sveitarfélög látið þá sjá um hana. Tekið var fram að útsvarsstofn skyldi fundinn eftir sömu reglum og skattstofn. Hámark útsvara var hækkað úr 10 í 11% og útsvar Fyrsta tölvutæka framtaliðbarna í 3%. Sem fyrr mátti lækka útsvar á fólki vegna barna og fleiri atriða.

Fyrsta tölvutæka framtalseyðublaðið. Allar þessar lagabreytingar kölluðu á gríðarmikla vinnu á skattstofunum og starfsfólki þeirra reyndist ekki mögulegt að ljúka álagningu á tilskildum tíma. Þess vegna voru gefin út bráðabirgðalög 24. júlí 1980 um frest til 31. ágúst að ljúka álagningunni og voru þau staðfest með lögum 23. desember. Það sem meðal annars flækti málin var nýja framtalseyðublaðið sem tekið var í notkun. Það var fyrsta tölvutæka eyðublaðið og þá voru tekin upp ný vinnubrögð við álagningu og endurskoðun framtalanna sem reyndust í fyrstu óskaplega tímafrek og erfið.

1981: Skattar á lág- og meðaltekjur lækkaðir

Lög um lækkun skatta á lágtekjur og meðaltekjur. Þau fólu einkum í sér sérstakar ívilnanir til einstæðra foreldra.

1982: Innlánsstofnanir teljast til skattskyldra aðila

Vorið 1982 voru samþykkt lög um skattskyldu innlánsstofnana: banka, flestra sparisjóða og Söfnunarsjóðs Íslands. Áfram voru þó tekjur og eignir opinberra fjárfestingarlánasjóða, svo og stofnlánasjóða og veðdeilda undanþegnar skatti til ársloka 1988 en þá voru lögin einnig látin ná til þeirra.Einmenningstölva

Lögum um launaskatt breytt. Tekin upp tvö þrep, 3,5% sem var það almenna, og 2,5% þrep fyrir fyrirtæki í fiskverkun og iðnaði. Skattstjórum bar að ákvarða launaskatt af reiknuðu endurgjaldi. Fjórum árum seinna var gerð sú breyting með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum í tengslum við gerð kjarasamninga að iðnaður, fiskvinnsla og fiskirækt voru undanskildar launaskatti auk þeirra greina sem alltaf höfðu verið það, landbúnaðar og sjómennsku.

Einmenningstölvur keyptar á allar skattstofurnar og til RSK.

1983: Bráðabirgðalög „um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum“

Bráðabirgðalög „um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum.“ M.a. ákvæði um skattalækkanir lágtekjufólks með greiðslu sérstaks persónuafsláttar og barnabótaauka til að bæta þeim upp þá kaupmáttarrýrnun sem efnahagsaðgerðirnar hefðu í för með sér.

1984: Vinna við afnám tekjuskatts af almennum launþegum hefst

Ný lög um skattstiga og upphæðir frádráttarliða. Þau höfðu þann tilgang að tryggja það að sú lækkun skattbyrði sem náðst hafði með bráðabirgðalögunum árið á undan héldist árið 1984. Skatthlutföll skattstigans lækkuðu öll, í 23%, 32% og 45%. Skattur barna lækkaði úr 7% í 5%. Frádráttarupphæðir hækkuðu. Persónufrádráttur og barnabætur hækkuðu og greiðslu sérstaks barnabótaauka var haldið áfram. Tekjuskattur lögaðila var lækkaður niður í 51%. Eignarskattur almennings og lögaðila var 0,95% af eignarskattsstofni.

Hallgrímskirkja og byggðÍ mars voru einnig gerðar breytingar á lögum um skatta á fyrirtæki. Helstu breytingarnar voru þær að frádráttur vegna arðs af hlutafjáreign var hækkaður og leyft var að draga hluta þess fjár sem varið var til fjárfestinga í atvinnurekstri frá skatti. Einnig var leyft að draga hlutabréfaeign og innstæður á stofnfjárreikningum frá eignum við ákvörðun eignarskattsstofns, allt að 250 þúsund krónum hjá einhleypum og 500 þúsund hjá hjónum. Varðandi atvinnurekstur kom fram það nýmæli að fjárframlög sem sett voru í fjárfestingarsjóð fyrirtækis voru frádráttarbær frá tekjum um allt að 40% af skattskyldum hagnaði ársins. Nánari ákvæði voru um sjóðinn en við ráðstöfun hans taldist hann til skattskyldra tekna. Þessi sjóður kom í stað gamla varasjóðsins. Munurinn á þeim var meðal annars sá að fjárfestingarsjóðir náðu til allra en sá gamli var bara fyrir félög og nýja sjóðnum þurfti að ráðstafa innan ákveðins tíma en varasjóður var án tímamarka og frádráttur vegna hans gat mestur orðið 25%. Fjárfestingarsjóðurinn var með öðrum orðum hugsaður til uppbyggingar og tekjuöflunar. Lengi hafði mörgum þótt það galli að ekki mætti ráðstafa varasjóði og að hann hefði alltaf virkað sem hálfgerð skattfríðindi og mismunað formum í atvinnurekstri. Varasjóðirnir voru þó ekki þar með úr sögunni því þeir voru við lýði þangað til búið var að ráðstafa þeim að fullu. Arður varð frádráttarbær hjá hlutafélagi um allt að 10% af nafnverði hlutafjár og gat frádrátturinn myndað yfirfæranlegt rekstrartap. Fyrningar voru hækkaðar vegna örari tæknibreytinga og íbúðarhúsnæði í atvinnurekstri var gert fyrnanlegt.

Samkomulag um að stefna að afnámi tekjuskatts af almennum launatekjum í þremur áföngum. Fyrsti áfangi kom til framkvæmda við álagningu árið 1985. Öll skatthlutföll skattstigans voru lækkuð en þó mest það fyrsta. Einnig voru þrepin þrengd nokkuð til að beina lækkuninni að lægstu laununum. Skattstiginn var 20%, 31% og 44%. Það nýmæli var tekið upp hjá hjónum að ónýttur hluti neðsta skattþreps hjá hinu tekjulægra hjóna var millifærður til hins makans allt að 100 þúsund krónum. Ýmsir liðir voru hækkaðir í takt við verðlagsþróun með skattvísitölu, þar á meðal skattfrelsismörk eignarskatts. Ekki varð af frekari aðgerðum í þá átt að afnema tekjuskattinn.

Nokkrar verulegar breytingar gerðar á erfðaskatti, meðal annars sú að maki arfleiðanda varð undanþeginn erfðafjárskatti og sömuleiðis sambýlismaður ef um óvígða sambúð hafði verið að ræða. Líknar- og menningarfélög, opinberar stofnanir og fleiri aðilar voru gerðir undanþegnir erfðafjárskatti. Viðmiðunarfárhæðir sem notaðar voru við álagningu skattsins voru hækkaðar árlega án lagasetningar með framreikningi í samræmi við hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar.

1985: Komið til móts við íbúðaeigendur og húsbyggjendur

Tekjuskattslögum breytt í tvígang til þess að koma til móts við íbúðaeigendur og húsbyggjendur. Fyrst var veittur 25% skattafsláttur af því fé sem menn lögðu inn á húsnæðissparnaðarreikninga sem þá voru nýir af nálinni, hið svokallaða '86-kerfi. Í árslok var síðan brugðist við greiðsluvanda íbúðaeigenda með því að hækka hámark vaxtafrádráttar.

1986: Skattar og gjöld lækkuð í tengslum við gerð kjarasamninga

Sigurbjörn ÞorbjörnssonTil þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga snemma árs, þjóðarsáttarinnar fyrri, hét ríkisstjórnin aðgerðum sem áttu að vera ígildi kjarabóta, m.a. skattalækkunum. Efnt með frumvarpi sem var samþykkt 28. febrúar. Mest tóku lögin til tolla og lækkunar ríkisútgjalda en einnig var þar að finna ákvæði sem lækka áttu tekjuskatt um 5,7% og afnámu launaskatt hjá nokkrum atvinnugreinum. Skattprósentur skattstigans voru lækkaðar um 0,5% hver og urðu 19,5%, 30,5% og 43,5%.

Sigurbjörn Þorbjörnsson lætur af starfi ríkisskattstjóra og Garðar Valdimarsson lögfræðingur tekur við.

 

 

 

1987: Undirbúningur upptöku virðisaukaskatts hafinn

Enn stefnt að lækkun tekjuskatts. Skatthlutföll skattstigans voru lækkuð í 18%, 28,5% og 38,5%. Jafnframt voru tekjuhlutföllin hækkuð. Persónuafsláttur hækkaði um 20%, lagaákvæði um barnabótaauka urðu ótímabundin en skerðingarmörkin vegna tekna foreldra hækkuðu um 31%. Hliðstæðar breytingar voru gerðar á frádráttarliðum laga um tekjustofna sveitarfélaga á sama tíma.Fyrsta forsíða Tíundar

Lögum um söluskatt var sífellt breytt á áttunda og níunda áratugnum. Á seinustu árum níunda áratugarins var undirbúningur að viðamikilli kerfisbreytingu kominn á lokastig en það var upptaka virðisaukaskatts í stað söluskatts. Áður en til þess kom var ákveðið að bæta söluskattskerfið með því að útrýma nánast öllum undanþágum. Fyrsta skrefið var stigið sumarið 1987 þegar söluskattur var á ný lagður á tölvur og farsíma, sérstakur 10% söluskattur á ýmis matvæli frá 1. ágúst, svokallaður matarskattur, og jafnhár skattur á sérfræðiþjónustu frá 1. september. Annað skrefið var svo stigið með nýjum lögum í janúar 1988 sem fólu það í sér að skattstofninn var enn breikkaður með því að skattur var lagður á allar neysluvörur og ýmsar þjónustugreinar og skemmtanir, og skattur á ýmsa sérfræðiþjónustu var hækkaður í 12%. Þá var fallið frá skiptingu almenna sölugjaldsins í 20% söluskatt, 2,5% söluskattsauka, 1,5% orkujöfnunargjald og 1% húsnæðisgjald en þess í stað tekið upp eitt 25% gjald. Þriðja og síðasta skrefið átti svo að stíga með upptöku virðisaukaskatts árið 1989 en henni var frestað til janúar 1990.

Tímaritið Tíund kemur út í fyrsta sinn.

1988-1998

1988: Lög um staðgreiðslu skatta koma til framkvæmda

Ný lög um launaskatt tóku gildi 1. janúar. Ákveðið að afnema undanþágur frá launaskatti í áföngum og var fyrsta skrefið stigið með þessari breytingu þar sem lagður var 1% launaskattur á allar atvinnugreinar sem hingað til höfðu verið undanþegnar honum nema á búrekstur. Skatturinn var hins vegar áfram 3,5% á þær atvinnugreinar sem höfðu áður borið hann.

Breytingar á tekjuskattslögum fyrirtækja. Skattprósenta þeirra varð 45% og hámark fjárfestingartillags varð 30%. Fyrsti liður í að einfalda skattlagningu félaga. Jafnframt var boðað að ekki yrði lagt fram frumvarp um að framlengja heimild til skattfrjáls framlags í varasjóð.

Lög um staðgreiðslu skatta koma til framkvæmda. Áratugalangur aðdragandi en lög um kerfisbreytinguna voru loks samþykkt árið 1987. Lögin voru fjögur. Fyrstu lög: „Staðgreiðsla opinberra gjalda“. Önnur lög: Um tekjustofna sveitarfélaga. Aðal breytingarnar fólust í breyttu fyrirkomulagi álagningar útsvara og í öðru lagi í breytingum á innheimtu þeirra. Fyrsta skilagrein staðgreiðsluStofn til álagningar útsvars varð sá hinn sami og tekjuskattsstofn. Hundraðshluti hámarks útsvars var lækkaður úr 11% í 7,5% og úr 3 í 2% hjá börnum. Eftir sem áður gátu sveitarstjórnir hækkað og lækkað álagninguna um 10% og komu þau frávik eftir á samkvæmt álagningu eftir skattframtali. Hægt var að lækka útsvarið þar sem útsvarsstofn hækkaði við að felldir voru niður eða lækkaðir ýmsir frádráttarliðir og vegna þess að staðgreiðslukerfið leiddi til þess að útsvarið átti að fylgja launabreytingum. Þriðju lögin fjölluðu um skattstofn og álagningarreglur. Um var að ræða viðamikil lög sem voru í raun aðalatriði staðgreiðslunnar. Helsta breytingin fólst í myndun eins sameiginlegs skattstofns og nýjum álagningarreglum. Áður var mismunur á tekjuskattsstofni og útsvarsstofni sem einkum stafaði af því að ekki voru í báðum tilfellum heimilaðir sömu frádráttarliðir. Með lögunum var myndaður einn skattstofn af öllum vergum greiðslum atvinnurekenda til launþega, launum, fríðindum, hlunnindum og tryggingabótum. Einn nýr gjaldstofn kom í stað gamla tekjuskattsins, útsvarsins, sjúkratryggingagjalds, gjalds til framkvæmdasjóðs aldraðra, sóknargjalds og kirkjugarðsgjalds. Einnig var tekið upp eitt skatthlutfall. Hlutur ríkisins var 28,5% en sveitarfélaga á bilinu 6,25%–7,5%. Skatthlutfallið gat því verið á bilinu 34,75%–36%. Flestir frádráttarliðir sem tilheyrðu gamla tekjuskattinum voru felldir niður: kostnaður við stofnun heimilis, iðgjöld af lífeyrissjóði, stéttarfélagsgjöld, iðgjöld af lífsábyrgð, vaxtagjöld, gjafir til menningarmála og 10% fasti frádrátturinn. Eftir stóðu útgjöld vegna ökutækjastyrkja og dagpeninga, sérstök verðlaun og tilgreindir happdrættisvinningar, vaxtatekjur, afföll og gengishagnaður utan atvinnurekstrar, fenginn arður og fé fært félagsmanni til séreignar í stofnsjóði félags og fjárfesting í atvinnurekstri. Þessir liðir voru þó utan staðgreiðslunnar. Á móti hækkaði persónuafslátturinn um helming og átti að hækka tvisvar á ári eftir lánskjaravísitölu. Þegar búið var að draga persónuafslátt frá staðgreiðsluskattstofni kom skatturinn út og honum var skipt milli ríkis og sveitarfélaga. Af ríkishlutanum reiknuðust 0,26% sem sóknargjöld og 0,13% sem kirkjugarðsgjöld. Af honum voru einnig reiknaðar barnabætur og barnabótaauki, sjómannaafsláttur sem kom í stað sjómannafrádráttar og húsnæðisbætur sem komu í stað vaxtafrádráttar húsbyggjenda. Með þessu móti var hægt að halda þessum liðum utan skattkerfisins og þar með staðgreiðslunnar. Launagreiðanda bar að skila aftekinni staðgreiðslu mánaðarlega til gjaldheimtna eða innheimtumanna. Hiti og þungi innheimtunnar kom til með að hvíla sameiginlega á launagreiðendum og hinu opinbera. Yfirstjórn staðgreiðslu var í höndum ríkisskattstjóra. Loks voru samþykkt sérstök lög með yfirskriftinni „Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.“ Það voru nýmæli í íslenskri löggjöf að setja sérstök lög um gildistöku áður samþykktra laga en víða gert erlendis.

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem fól það í sér að ákvörðun um innheimtuhlutfall útsvara í staðgreiðslu var flutt til einstakra sveitarfélaga en í lögunum frá árinu 1987 var það ákveðið í reglugerð sem félagsmálaráðherra setti. Bar sveitarfélögunum að tilkynna álagningarhlutfallið fyrir 1. desember vegna komandi árs. Samsvarandi breyting var gerð á lögum um staðgreiðslu.

Ný lög um tekju- og eignarskatt samþykkt 22. desember sem miðuðu að hækkun tekju- og eignarskatts á háum tekjum. Almenna tekjuskattshlutfallið hækkaði úr 28,5% í 31,5% en hlutur sveitarfélaga var óbreyttur. Á móti hækkuðu persónuafsláttur, barnabætur, barnabótaauki og húsnæðisbætur. Fyrningarreglur fyrirtækja voru þrengdar og heimild til að ráðstafa hluta rekstrarhagnaðar í fjárfestingarsjóð lækkaði úr 30 í 15%. Þá var gjaldfærsla vegna reksturs fólksbifreiða í eigu fyrirtækja takmörkuð, heimild til yfirfærslu taps við kaup eða sameiningu fyrirtækja í óskyldum rekstri var þrengd og loks var skatthlutfall lögaðila hækkað upp í 50%.

Breytingar voru líka gerðar á eignarskatti einstaklinga og fyrirtækja. Eignarskattur einstaklinga hækkaði úr 0,95% af skuldlausri eign í 1,2% og nýtt 1,5% þrep var tekið upp á skuldlausa eign yfir 7 milljónum króna. Eignarskattur félaga hækkaði úr 0,95% af nettóeign í 1,2%. Lögin komu til framkvæmda 1. janúar 1989, þó með því ákvæði að þrátt fyrir það sem fram kæmi í lögunum skyldi almenningur greiða 30,8% tekjuskatt árið 1989 og 1990 af tekjum ársins 1989.

1989: Skattframtal einfaldað og vaxtabætur teknar upp

Nýtt framtal tekið í notkun 1989Samþykkt að taka upp vaxtabætur í gegnum skattkerfið í stað húsnæðisbóta. Vaxtagjöld á skattframtali mynduðu stofn til ákvörðunar vaxtabóta og þær voru greiddar í formi skattaafsláttar. Nýtt einfaldara framtalseyðublað tekið í notkun. Breytingarnar fólust meðal annars í því að reitum var fækkað vegna færri frádráttarliða og útlitinu var verulega breytt. Var litið svo á að með þessu væri stigið fyrsta skrefið í þá átt að losa ákveðinn hóp gjaldenda við framtalsskil eins og þá tíðkaðist í Danmörku og víðar.

 

 

 

 

 

 

1990: Virðisaukaskattur tekur við af söluskatti

Virðisaukaskattur tekinn upp í stað söluskatts. Langur aðdragandi en lög um skattinn voru ekki samþykkt fyrr en árið 1988 og átti skatturinn að vera 22% af viðskiptum innanlands á öllum stigum svo og innflutningi vöru og þjónustu. Ýmis undanþáguákvæði. Fyrsta skilagrein virðisaukaskattsHinn 15. desember 1988 var samþykkt að nýsamþykkt lög um virðisaukaskatt kæmu ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1990. Aðeins rúmri viku áður en virðisaukaskattskerfið átti að koma til framkvæmda var lögunum um það breytt. Almennur skattur var hækkaður úr 22% í 24,5%, tekið var upp ígildi 14% skattþreps á neyslumjólk, dilkakjöt, neyslufisk og ferskt grænmeti með sérstökum endurgreiðslum og undanþágum var fjölgað. Upptaka virðisaukaskattsins krafðist mikils undirbúnings bæði hjá embætti ríkisskattstjóra og skattstjórum enda var um að ræða eina af umfangsmestu skattkerfisbreytingum á öldinni. Lögunum hefur margoft verið breytt.

Við álagningu tekju- og eignarskatts árið 1990 komu til framkvæmda breytingar sem samþykktar höfðu verið í desember á fyrra ári. Þær tóku töluvert mið af öðrum mikilvægum breytingum sem í vændum voru á skattkerfinu, upptöku virðisaukaskatts, lögum um fjármagnstekjuskatt, sem þá voru sagðar handan við hornið þótt það gengi ekki eftir, og uppstokkun á sköttum fyrirtækja. Þar sem virðisaukaskatturinn átti að verða ögn lægri en gamli söluskatturinn var hlutfall tekjuskatts hækkað úr 30,8% í 32,8% en persónuafsláttur hækkaður á móti. Eignarskattur var 1,2% af eignum yfir 2.875.000 krónum. Ef eignarskattsstofn fór yfir 8.050.000 krónur var að auki reiknað 0,75% álag á það sem umfram þá upphæð var, þó tengt tekjuskattsstofni eftir ákveðnum niðurfærslureglum. Laugavegur 166Aðrar helstu nýjungar tengdust markaðsbréfum og vaxtabótum. Markaðsbréf ríkissjóðs mátti draga frá heildareignum þeirra sem ekki stóðu í atvinnurekstri og vaxtabætur vegna greiðslu húsnæðislána voru teknar upp í stað húsnæðisbóta og vaxtaafsláttar. Tengdist breytingin upptöku húsbréfakerfisins.

Lög um sérstakan eignarskatt til endurbóta á húsakosti menningarstofnana koma til framkvæmda. Hann skyldi fyrst í stað renna til byggingar Þjóðarbókhlöðunnar. Um var að ræða 0,25% skatt á eignarskattsstofn einstaklinga umfram 4.250.000 krónur og sama hlutfall á eignarskattsstofn lögaðila og þeirra sem takmarkaða skattskyldu báru.

Embætti ríkisskattstjóra flyst í Víðishúsið á Laugavegi 166 að fullu en 1987 var rannsóknardeildin flutt þangað á fimmtu hæð.

1991: Tryggingagjald lagt á í fyrsta sinn

Tekjuskattur á fyrirtæki lækkaður úr 50% í 45%. Með sömu lögum var heimildin til að leggja hluta af hagnaði í sérstaka fjárfestingasjóði lækkuð úr 15% í 10% en afskriftahlutfall hækkað tímabundið.

Tekið upp eitt gjald, tryggingagjald, í stað launaskatts og annarra launatengdra gjalda. Þau voru lífeyristryggingagjald, slysatryggingagjald, vinnueftirlitsgjald og iðgjald í Atvinnuleysistryggingasjóð. Fyrirtæki og einstaklingar með rekstur byrjuðu að greiða gjaldið 1. janúar 1991 í staðgreiðslu og árið eftir kom það í fyrsta sinn til álagningar. Lagt var á í tveimur flokkum, almennum og sérstökum. Tryggingagjaldið nam 2,5% í sérstökum flokki og 6% í almenna flokknum. Frumvarp um þetta nýja gjald var samþykkt 21. desember 1990. Álagning almenna tryggingagjaldsins var tvískipt til ársins 2000. Eftir sameiningu árið 2001 var gjaldið 5,23%, þó 5,88% vegna sjómanna. Því hefur verið breytt nokkrum sinnum eftir það, m.a. bæði hækkað og lækkað.

1992: Yfirskattanefnd tekur til starfa og skattstofur tölvutengdar í eitt víðnet

Samþykkt lög um fjárfestingarlánasjóði. Þeir voru þá gerðir skattskyldir eins og til hafði staðið árið 1988 en Alþingi breytti þá svo bara veðdeildir bankanna féllu undir lögin. Enn voru þó ýmsir opinberir lánasjóðir undanþegnir skattgreiðslum.

Tvö frumvörp um skattlagabreytingarnar samþykkt 22. desember, frumvarp um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, tryggingagjald, virðisaukaskatt og fleiri lögum, og frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Skatthlutfall tekjuskatts á einstaklinga var hækkað úr 32,8% í 34,3% og settur var á hátekjuskattur, kallaður sérstakur tekjuskattur manna. Hann skyldi lagður á árin 1994 og 1995 vegna tekna áranna 1993 og 1994. Skatturinn var 5% á tekjur einstaklinga sem voru umfram 2,4 milljónir króna eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 4,8 milljónir. Skattar rekstraraðila voru lækkaðir. Skatturinn á Peningar nærmyndhlutafélögum og samvinnufélögum lækkaði úr 45% í 33% en 41% á sameignarfélögum og öðrum félögum. Rekstrartöp var aðeins hægt að draga frá í fimm ár og eftir 1992 var ekki lengur hægt að leggja hluta hreinna tekna í fjárfestingasjóð. Þá var sérstakur 1,5% eignarskattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði framlengdur um eitt ár en það var í síðasta sinn sem hann var lagður á sem skattur til ríkisins. Í lögunum var ennfremur ákvæði um að fella skyldi niður skattafslátt vegna hlutabréfakaupa í áföngum til ársins 1998. Um var að ræða frádrátt vegna fjárfestinga í atvinnulífinu sem hafði verið tekinn upp árið 1984. Jafnframt þurfti fólk nú að hafa átt bréfin í þrjú ár til að fá afsláttinn, annars reiknaðist skattur af þeim við sölu. Raunar var þessum ákvæðum breytt aftur með lögum tveimur árum seinna sem kváðu á um að frádrátturinn yrði 80% af fjárhæðinni sem varið væri til fjárfestingar. Árið 1997 voru svo loks samþykkt lög um endalok frádráttarins árið 2002. Ákvæðum um húsnæðissparnaðarreikninga, sem teknir voru upp 1. júlí 1985 sem sparnaðarform og veittu 25% skattafslátt, var breytt með umræddum lögum í desember 1992. Afslátturinn skyldi lækka um 5% á ári og vera úr sögunni árið 1997. Skerðing vaxtabóta, sem kom ekki til framkvæmda fyrr en árið 1994, var framkvæmd með þeim hætti að vaxtagjöld sem komu til útreiknings vaxtabóta við álagningu þá reiknuðust 90% af framtöldum vaxtagjöldum í stað 100% áður og eignaskerðingarmörkin voru lækkuð.

Lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt með desemberlögunum 1992 á þann hátt að aðstöðugjaldið, sem upphaflega var komið á árið 1962, var afnumið. Innheimta þess gjalds sem lagt yrði á árið 1993 vegna rekstrar á árinu 1992 skyldi falla niður. Semja átti nýtt frumvarp um tekjustofna sveitarfélaga en á meðan áttu þau að fá hlutdeild í tekjuskattsstofni ríkisins vegna missis aðstöðugjaldsins.

Byrjað að tölvutengja skattstofurnar í eitt víðnet sem tók nokkurn tíma.

Yfirskattanefnd tekur til starfa en ríkisskattanefnd lögð niður. Ólafur Ólafsson lögfræðingur formaður hennar.

1993: Embætti skattrannsóknarstjóra stofnað

Frumvarp um tekjustofna sveitarfélaga samþykkt 20. desember. Útsvör máttu að hámarki vera 9,2% í stað 7,5% og lágmarkið var hækkað í 8,4%, álagningu fasteignagjalda var breytt og sveitarfélögum var heimilað að leggja sérstakan 1,25% fasteignaskatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, landsútsvar var lagt af en í stað þess komu aukin framlög úr ríkissjóði í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Líka samþykktar ýmsar breytingar á öðrum skattalögum í tengslum við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga. Virðisaukaskattur af matvælum var lækkaður frá næstu áramótum í 14% og skatthlutfall tekjuskatts á einstaklinga lækkaði í 33,15%.

Merki skattrannsóknarstjóraEmbætti skattrannsóknarstjóra ríkisins stofnað en rannsóknardeild RSK lögð niður. Skúli Eggert Þórðarson lögfræðingur ráðinn fyrsti skattrannsóknarstjórinn en Guðmundur Guðbjarnason viðskiptafræðingur var settur í stöðuna um mánaðarskeið þar til Skúli kom til starfa. Núverandi skattrannsóknarstjóri, Bryndís Kristjánsdóttir lögfræðingur, tók við árið 2006.

1994: Almenningi leyft að færa leigu á móti leigu

Almenningi leyft að draga húsaleigugjöld af íbúðarhúsnæði til eigin nota frá leigutekjum af eigin íbúð. Ári seinna var ákvæðinu breytt þannig að heimilaður var sérstakur frádráttur á móti húsaleigutekjum. Sama ár voru samþykkt lög um húsaleigubætur sem tóku gildi 1. janúar 1995.

1995: Iðgjöld í lífeyrissjóð gerð frádráttarbær á ný

Sérstakur tekjuskattur, hátekjuskattur, var framlengdur en tekjuviðmið hækkuð. Hætt var við að fella niður frádráttarbærni fjár sem lagt var í fjárfestingu í atvinnulífinu eins og áður var búið að ákveða. Efra þrep eignarskatts var afnumið. Svokallaður ekknaskattur var felldur niður. Hann hafði verið tekinn upp árið 1989 sem áfangi í upptöku fjármagnstekjuskatts sem þó ekki varð af fyrr en seinna.

Iðgjöld í lífeyrissjóð gerð frádráttarbær á ný, 4% af tekjum eins og var fyrir upptöku staðgreiðslu. Þó var þetta gert í áföngum, frádrátturinn var 2% árið 1995, 3% 1996 og fór í 4% árið 1997. Rekstraraðilum heimilað að draga frá tapað hlutafé vegna gjaldþrota. Í árslok var tekjuskattslögum síðan breytt með þeim hætti að sjálfvirk uppfærsla ýmissa afsláttar- og bótaliða eftir verð- eða launavísitölu var afnumin.

Lög um áfengisgjald, ákveðin krónutala á hvern sentílítra áfengis umfram 2,25 sentílítra í hverjum lítra.

Þróunarsjóðsgjald var fyrst lagt á árið 1995. Gjaldið er tvískipt, annars vegar er um að ræða gjald sem lagt er á fiskiskipaeigendur og hins vegar gjald lagt á eigendur fasteigna sem nýttar eru til fiskvinnslu. Það fyrrnefnda er innheimt gegnum greiðslumiðlunarkerfi sjávarútvegsins og kemur því ekki til álagningar í skattkerfinu. Það síðarnefnda var lagt á af skattstjórum, nú ríkisskattstjóra, og innheimt með öðrum álögðum gjöldum.

1996: Fjármagnstekjuskattur tekinn upp

Í kjölfar flutnings rekstrar grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga var skattalögum breytt til þess að tryggja þeim aukið fjármagn. Hlutfall útsvars var hækkað þannig að í stað 9,2% hámarks og 8,4% lágmarks komu 11,95% og 11,15%, þó voru sett þau bráðabirgðaákvæði að fyrsta árið voru hlutföllin 11,9% og 11,1%. Á móti var tekjuskattshlutfallið lækkað úr 33,15% í 30,41%. Sama ár var lögaðilum heimilað að færa rekstartap milli átta ára í stað fimm og í tengslum við setningu laga um fjármagnstekjuskatt var skattur af eignatekjum lækkaður í 10% og kom sú breyting til framkvæmda árið 1997.

Fimmþúsundkrónu seðlarFjármagnstekjuskattur tekinn upp. Tvö frumvörp sem vörðuðu breytingu á gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt vegna söluhagnaðar hlutabréfa og arðs og ný lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur voru samþykkt 5. júní. Lögin mynduðu eina heild og komu til framkvæmda 1. janúar 1997, ákvæðið um söluhagnað hlutabréfa þó strax árið 1996. Fjármagnstekjuskattur er skattur sem leggst á sérgreindan tekjustofn sem er eignatekjur: vextir, arður, gengishagnaður, söluhagnaður og leigutekjur. Skatturinn var í upphafi 10%. Áður höfðu vaxtatekjur verið skattfrjálsar en allt að 42–47% skattur verið innheimtur af söluhagnaði og arði. Lögin tóku til fjármagnstekna hjá einstaklingum utan rekstrar en á lögaðila var hann ekki lagður heldur greiddu þeir eins og áður skatt af fjármagnstekjum sínum eftir sömu reglum og giltu um aðrar tekjur þeirra. Ýmsir aðilar sem voru undanþegnir tekjuskatti þurftu samt að greiða fjármagnstekjuskatt, ríki, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, líknarfélög og önnur félög. Þeir aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu eru lífeyrissjóðir og ýmsar opinberar lánastofnanir. Hjá hjónum skattleggjast eignatekjur hjá þeim aðila sem hefur hærri tekjur og frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnulífinu færist líka hjá sama aðila en sá frádráttur dregst samkvæmt lögunum eingöngu frá öðrum tekjum en eignatekjum. Ákvæðum skattalaga um heimildir til útgáfu jöfnunarhlutabréfa var breytt. Til sögunnar kom nýtt hugtak, jöfnunarverðmæti, sem skilgreint var sem nafnverð að viðbættri þeirri heimild sem hlutafélag hefur til þess að gefa út jöfnunarhlutabréf. Frádráttarbær arður hjá hlutafélögum varð að hámarki 7% af nafnverði hlutafjár í stað 10% áður. Hjá einstaklingum var enginn arðsfrádráttur heimilaður. Skatturinn hækkaður árið 2009.

1997: Meðferð söluhagnaðar kvótasölu skýrð eftir Hæstaréttardóm

Lög samþykkt sem áttu að tryggja að tekjuskattur einstaklinga lækkaði í áföngum til ársins 1999 um alls 4%, úr 30,41% í 26,41%. Hátekjuskattur var aftur á móti hækkaður úr 5% í 7% en hækkun tekjuviðmiðunar þýddi samt að ríkið fékk minna í sinn hlut en áður. Gert var ráð fyrir að skattleysismörk yrðu óbreytt fyrsta árið en síðan áttu þau að hækka árið 1998 um 2,5% og aftur 1999. Barnabætur og barnabótaauki voru sameinaðir í eitt, barnabætur, og tóku nýju reglurnar gildi árið 1998. Bæturnar voru tekju- og eignatengdar en það höfðu barnabæturnar ekki verið.

Fiskur og fiskveiðiskipSamþykkt lög um sölu og fyrningu aflahlutdeildar í sjávarútvegi. Heimilt hafði verið að fyrna kvótaeign en deilur staðið um það hve mikil hún ætti að vera. Í nóvember 1993 kvað Hæstiréttur upp þann dóm að fyrningarhlutfallið skyldi vera 20%. Nýju lögin boðuðu mikla breytingu því með þeim var fyrningarheimildin afnumin. Með lögunum var meðferð söluhagnaðar kvótasölu líka skýrð og sagt til um það hvernig færa ætti kvótaréttindi til eignar.

Stöðluð og tölvutæk rekstrarframtöl tekin í notkun. Byrjað að skanna framtöl inn í tölvukerfi en það var aðeins gert í tvö ár.

1998 Búnaðargjald lagt á í fyrsta sinn og vefurinn rsk.is opnaður

Töluverðar breytingar gerðar á skattlagningu fyrirtækja með tvennum lögum sem komu til framkvæmda við álagningu árið 1999. Fyrri breytingin varðaði afnám arðsfrádráttar hjá hlutafélögum og skattfrelsi á arði milli félaga. Í hnotskurn má segja að eftir breytinguna hafi hagnaður hlutafélags verið skattlagður hjá því hlutafélagi þar sem hann myndaðist upphaflega og síðan með 10% fjármagnstekjuskatti við útgreiðslu arðs til hluthafa, einstaklings, sameignarfélags eða félags þar sem úttekt úr félaginu er skattfrjáls. Jafnframt var arður milli félaga gerður skattfrjáls. Það var gert til að koma í veg fyrir eða draga úr tvísköttun hagnaðar við greiðslu á arði milli félaga. Þá var skatthlutfall á sameignarfélögum lækkað úr 41% í 38% og annarra félagsforma úr 33% í 30%. Með seinni lagabreytingunni árið 1998 var skattlagning jöfnunarhlutabréfa afnumin og tekin var upp samsköttun móður- og dótturhlutafélaga. Með því var hlutafélögum og einkahlutafélögum sem eiga hlut í einu eða fleiri dótturfélögum gefinn kostur á að fá sameiginlegan tekjuskatt lagðan á öll félögin. Breytingin tók einungis til tekjuskatts en þar sem eðlilegt þótti að heimildin næði líka til eignarskatts var lögum um hann breytt í sömu átt ári seinna. Þá var einnig ákveðið að hækka millifæranlegan persónuafslátt hjóna og sambýlisfólks í áföngum og varð hann það að fullu að fjórum árum liðnum.

Geir Haarde, Indriði Þorlákssson og Garðar Valdimarsson við opnun rsk.isBúnaðargjald lagt á í fyrsta sinn í staðgreiðslu árið 1998. Það leysti af hólmi þrjú eldri gjöld, búnaðarmálasjóðsgjald, neytenda- og jöfnunargjald og framleiðsluráðsgjald. Gjaldstofninn er virðisaukaskattskyld velta af búrekstri að frádregnu andvirði seldra varanlegra rekstrarfjármuna og reiknast gjaldið 2,65% af stofni. Staðgreiðslan er fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu en ríkisskattstjóri leggur gjaldið á.

Vefurinn rsk.is opnaður 30. desember.

Ríkisskattstjóra falið að hafa eftirlit með því að allir greiði lífeyrisiðgjald.

1999-2009

1999: Mögulegt að telja fram með rafrænum hætti í fyrsta sinn

Skjáskot af rsk.is árið 1999Indriði H. Þorláksson hagfræðingur tekur við sem ríkisskattstjóri af Garðari Valdimarssyni

Launamenn geta í fyrsta sinn talið fram á netinu. Rafræn framtöl þróast á næstu árum.

2000: Fyrstu áritanir skattayfirvalda á framtöl

Fyrstu áritanir skattyfirvalda á framtöl. Aukast á næstu árum.

2001: Bifreiðagjöld og rafræn skil virðisaukaskatts koma til sögunnar

Hinn 1. júlí fól fjármálaráðherra ríkisskattstjóra álagningu bifreiðagjalds og framkvæmd laga um gjaldið frá árinu 1988. Það er lagt á tvisvar á ári og gjaldstofninn miðaðist í fyrstu við þyngd bíls. Bótaþegar Tryggingastofnunar eru undanþegnir gjaldinu og það er ekki lagt á fornbíla og björgunarsveitabíla. Árið 2009 var gerð sú breyting að gjaldið hefur síðan miðast við þyngd bifreiðar og losun koltvísýrings.

Í desember 2001 voru gerðar miklar breytingar á skattkerfinu sem komu til framkvæmda á árunum 2002–2003. Skatthlutfall almenns tekjuskatts lækkaði úr 26,08% í 25,75% og skattlagning húsaleigubóta var afnumin. Viðmiðunarmörk hátekjuskattsins hækkuðu um 15%. Skattar hlutafélaga og félaga með takmarkaða ábyrgð lækkuðu úr 30% í 18% og sameignarfélaga úr 38% í 26%. Neðra þrep eignarskatts fyrirtækja og einstaklinga var lækkað um helming, úr 1,2% í 0,6%. Álagsþrepið frá 1989 upp á 0,75% hélst óbreytt. Fríeignamörk í eignarskatti voru hækkuð um 20% til þess að koma í veg fyrir að hækkun fasteignamats vegna kerfisbreytingar leiddi til hækkunar eignarskatta. Sérstakur eignarskattur einstaklinga og fyrirtækja, Þjóðarbókhlöðuskatturinn svokallaði frá árinu 1989, var afnuminn. Verðbólgureikningsskil, sem tekin höfðu verið upp árið 1980 með lögum númer 40/1978, voru afnumin og fyrirtækjum heimilað að færa bókhald og ársreikninga í erlendri mynt. Til mótvægis þessum breytingum var tryggingagjald hækkað um 0,5% frá 1. janúar 2003.

Framteljandi getur reiknað út bráðabirgðagreiðslustöðu 1. ágúst við vefskil. Rafræn skil á virðisaukaskatti koma til sögunnar.

2002: Opnað fyrir rafræn skil á staðgreiðslu

Villuprófun framtala kemst á. Hægt að standa skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi með rafrænum hætti gegnum vefbanka/heimabanka.

Enn var létt undir með rekstri fyrirtækja með lagabreytingu í desember 2002 en þá var lögaðilum heimilað að nýta rekstrartap í tíu ár í stað átta. Jafnframt var fyrningarreglum breytt. Teknar voru upp stiglækkandi fyrningar á lausafé í stað línulegra og fyrningarhlutföllin voru hækkuð verulega. Hátekjuskattur lækkaður í 5%.

2003: Fyrirtækjaskrá færist yfir til ríkisskattstjóra

Mynd af dyrum RSK og fyrirtækjaskrárAllar breytingar á lögum númer 75/1981 felldar inn í eina lagasamfellu sem varð lög númer 90/2003. Engar efnisbreytingar voru gerðar heldur voru greinar laganna tölusettar upp á nýtt og lögin gefin út undir nýju númeri. Þau eru enn í gildi.

Strax sama ár var gerð fyrsta breytingin á lögunum. Samþykkt var að hátekjuskattur lækkaði í 4% við álagningu árið 2005 af tekjum ársins 2004 og í 2% við álagningu árið 2006 af tekjum ársins 2005 og væri þar með úr sögunni.

Ríkisskattstjóri tekur að sér að hafa umsjón með fyrirtækjaskrá. Nokkrum árum fyrr var embættið komið með ársreikningaskrá á sínar herðar.

2004: Eignarskattur afnuminn

Ný lög um erfðafjárskatt. Lögin fólu í sér verulega lækkun skatthlutfalls og hækkun skattfrelsismarka. Allir erfingjar greiddu 5% skatt, þó þannig að fyrsta milljónin í skattstofni dánarbús var skattfrjáls og erfingjar nutu skattfrelsis í hlutfalli við arf sinn. Lögin eru enn í gildi en á þeim var þó gerð sú breyting árið 2010 með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum að skatthlutfallið var hækkað í 10% og skattleysismörkin hækkuð í 1,5 milljónir króna.

Hús á SiglufirðiÍ desember samþykkti Alþingi að afnema eignarskatt á einstaklinga og fyrirtæki frá og með álagningarárinu 2006. Hann var því greiddur í síðasta sinn árið 2005. Eftir sem áður voru eignir framtalsskyldar. Víða þurfti að fella orðið eignarskattur út úr lögum og því var frumvarpið eitt lengsta frumvarp sögunnar. Með sömu lögum var stefnt að lækkun tekjuskatts einstaklinga í þremur áföngum. Sá fyrsti var við staðgreiðslu árið 2005 og við álagningu 2006 en þá lækkaði skatthlutfallið úr 25,75% í 24,75%. Síðan kváðu lögin á um lækkun í 23,75% í staðgreiðslu árið 2006 og loks í 21,75% í staðgreiðslu árið 2007 og álagningu árið 2008. Á sama tíma voru barnabætur hækkaðar. Loks voru litlar lánastofnanir gerðar skattskyldar.

Lög um olíugjald og kílómetragjald í stað þungaskatts. Komu til framkvæmda 2005.

2005: Skattframtal lögaðila aðgengilegt á þjónustusíðu ríkisskattstjóra

HrauneyjafossvirkjunOrkufyrirtæki voru gerð skattskyld með lögum árið 2005 en áður voru þau undanþegin sköttum samkvæmt ýmsum sérlögum. Breytingin kom í kjölfar nýrra raforkulaga árið 2003 sem fólu í sér heildarendurskoðun laga um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Frumvarpið var samið af starfshópi sem fjármálaráðherra skipaði um skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja með það fyrir augum að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði. Það var niðurstaða starfshópsins að rökréttast væri að skoða starfsemi orkufyrirtækja heildstætt en ekki einungis raforkustarfsemina og því tók frumvarpið til allra orkufyrirtækja. Lögin komu til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2007 vegna rekstrarársins 2006.

Opnuð á vef ríkisskattstjóra þjónustusíða lögaðila. Þar var skattframtal þeirra aðgengilegt og hægt að sækja afrit framtals síðasta árs. Einnig opnað fyrir rafræn skil ársreikninga.

2006: Persónuafsláttur vísitölubundinn

Persónuafsláttur hækkaður og jafnframt ákveðið að hann skyldi árlega taka breytingum í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils. Sama ár var dregið í land með þriðju tekjuskattslækkunina sem átti að koma til framkvæmda í staðgreiðslu ársins 2007. Í stað þess að lækka hlutfallið í 21,75% var það lækkað í 22,75%.

2007: Vefurinn www.skattur.is opnaður

skattur.is opnar 2007Skúli Eggert Þórðarson lögfræðingur tekur við stöðu ríkisskattstjóra í ársbyrjun af Indriða H. Þorlákssyni.

Vefurinn skattur.is opnaður.

2008: Tekjuskattur lækkaður og kolvetnisskattur tekinn upp

Tekjuskattur hlutafélaga lækkaður úr 18% í 15% og samlagsfélaga úr 26% í 23,5%.

Í desember var tekjuskattshlutfall einstaklinga hækkað úr 22,75% í 24,1% og efri mörk útsvara úr 13,03% í 13,28%. Neðri mörkin fóru úr 11,96% í 12,68%.

Lög um kolvetnisskatt samþykkt með gildistöku 1. janúar 2009. Þau tóku til skattlagningar á tekjum vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis. Skattskyldan var látin ná til allra þeirra sem fengju leyfi til leitar og einnig til annarra aðila sem tækju með beinum hætti þátt í öflun og dreifingu kolvetnis. Þeim var gert að greiða annað hvort vinnslugjald eða kolvetnisskatt. Vinnslugjaldið átti að vera óháð afkomu olíuvinnslunnar en þegar árleg kolvetnisvinnsla leyfishafa færi að skila hagnaði umfram 20% af skattskyldum rekstrartekjum átti hann að greiða stighækkandi kolvetnisskatt í stað vinnslugjalds til viðbótar við almenna fyrirtækjaskatta. Endurskoðun árið 2011.

2009: Breytingar í kjölfar efnahagshruns

Samþykkt skattlagabreyting vegna eignarhalds á félagi, sjóði eða stofnun í lágskattaríki. Ákvæðið fól það í sér að eigendum slíkra félaga bar að greiða tekjuskatt af hagnaði þeirra í hlutfalli við eignarhluta án tillits til úthlutunar. Stuttu síðar var samþykkt að við álagningu gjalda árið 2010 skyldi leggja sérstakan 8% tekjuskatt á tekjuskattsstofn einstaklings sem var umfram 4,2 milljónir króna frá og með 1. júlí til 31. desember 2009.

Lög samþykkt í desember en komu til framkvæmda árið 2010. Tekjuskattur lögaðila hækkaður í 18% og tekjuskattur sameignar- og samlagsfélaga úr 23,5% í 32,7%. Tryggingagjald var 5,34%. Þrepakerfi við skattlagningu einstaklinga, eins og tíðkaðist fyrir daga staðgreiðslunnar, var tekið upp á ný: 24,1%, 27% og 33%. Ofan á þetta lagðist útsvarshlutinn þannig að í staðgreiðslu urðu þrepin 37,22%, 40,12% og 46,12%. Með þrepaskiptingu varð hátekjuskatturinn ónauðsynlegur. Persónuafsláttur var hækkaður en ákvæðið um að hann skyldi hækka sjálfkrafa milli ára miðað við vísitölu var fellt úr gildi. Fjármagnstekjuskattur hafði verið hækkaður tímabundið í júní frá 1. júlí 2009 úr 10% í 15% og núna var hann aftur hækkaður í 18%. Virðisaukaskattur var hækkaður. Ákvæði var í lögunum um að sjómannaafsláttur færi stiglækkandi frá og með árinu 2011 í þremur áföngum, þ.e. 2011, 2012 og 2013 og væri þar með úr sögunni.

Enn ein breytingin með lögunum varðaði skattalega meðferð á arði sem heimilt er að greiða samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Breytingin tók til úthlutunar arðs til þeirra hluthafa sem starfa hjá viðkomandi félagi og ber að reikna sér endurgjald vegna starfa sinna. Ef arðurinn fer umfram 20% af skattalega bókfærðu eigin fé félagsins í árslok skal það sem umfram er skattleggjast til helminga sem laun og arður. Þetta var gert vegna þess að farið var að bera á því að laun væru höfð lág en verulegur arður greiddur út í staðinn.

Auðlegðarskattur var tekinn upp með ofangreindum lögum, 1,25% eignarskattur af nettóeign einstaklings sem var umfram 90 milljónir króna og 120 milljónir hjá hjónum. Hann átti að vera tímabundinn og miðast við eignir í árslok 2009, 2010 og 2011. Árið 2010 var skatturinn hækkaður í 1,5% og frítekjumörkin lækkuð í 75 og 100 milljónir króna. Enn var auðlegðarskattur hækkaður árið 2011 og gerður þrepaskiptur.

Samþykkt lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Stuðningurinn er í formi frádráttar frá tekjuskatti og einnig er skattaðilum heimilaður frádráttur vegna fjárfestinga í hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum.

jarðvarmavirkjunHinn 19. desember 2009 voru samþykkt á Alþingi lög sem nefnd voru lög um umhverfis- og auðlindaskatta. Í þeim eru ákvæði um kolefnisgjald á fljótandi jarðefnaeldsneyti, gasi, olíu og bensíni. Tollstjóri sér um að innheimta gjaldið. Einnig eru í lögunum ákvæði um skatt af raforku og heitu vatni, 0,12 krónur á hverja kílóvattstund og 2% af smásöluverði á heitu vatni. Skattskyldir eru söluaðilar á síðasta stigi viðskipta, þ.e. sölu til notenda. Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir þessa aðila og leggur skattana á. Skatturinn myndar gjaldstofn til virðisaukaskatts. Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2010 og áttu að falla úr gildi 31. desember 2012. Áður en til þess kom voru þau framlengd með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum í desember það ár og gjöldin hækkuð.

Í júní var ákveðið að af fjármagnstekjum umfram 250 þúsund krónur hjá einstaklingum og 500 þúsund hjá hjónum á tímabilinu 1. júlí til 31. desember 2009 skyldi greiða 15% tekjuskatt. Þó bar að reikna tekjuskatt af 70% leigutekna. Í desember var síðan samþykkt að hækka fjármagnstekjuskattinn upp í 18% frá og með staðgreiðsluárinu 2010 og ári seinna var hann hækkaður upp í 20%. Frítekjumarkið var þá lækkað niður í 100 þúsund krónur fyrir einstakling og 200 þúsund fyrir hjón.

Árið 2009 bárust ríkisskattstjóra upplýsingar frá bönkunum um innstæður og vexti almennings og voru þær áritaðar það ár á framtölin í fyrsta sinn. Við undirbúninginn vildi ríkisskattstjóri fá upplýsingar um bankareikninga með neikvæðri stöðu en því höfnuðu bankamennirnir með þeim rökum að það væru skuldir. Með lögum sem samþykkt voru 15. apríl var fjármálafyrirtækjum gert skylt að afhenda upplýsingar um öll útlán til viðskiptamanna, innstæður í verðbréfa- og fjárfestingasjóðum og upplýsingar um hlutabréfaviðskipti sem fjármálafyrirtækin hafa haft milligöngu um sem og upplýsingar um hvers kyns viðskipti með annars konar fjármálagerninga. Þar með lauk næstum hundrað ára átökum um bankaleyndina.Peningaseðlar og mynd

Útvarpsgjald. Gjaldið var tekið upp árið 2009 og rennur til Ríkisútvarpsins. Ríkisskattstjóri leggur það á samhliða álagningu opinberra gjalda. Gjaldið leggst á hvern einstakling undir sjötugu og lögaðila.

Undirbúningur að sameiningu skattstjóraumdæmanna og embættis ríkisskattstjóra í eina stofnun. Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu leiddi vinnu starfshóps sem undirbjó breytinguna. Lögin samþykkt 13 dögum áður en sameiningin kom til framkvæmda.

2010 - 2019

2010: Sameining skattumdæma. Nýtt embætti tekur til starfa undir nafni Ríkisskattstjóra

Lög um sameiningu embætta ríkisskattstjóra og skattstjóranna níu og að Ísland verði eitt skattumdæmi taka gili 1. janúar. Ríkisskattstjóri annast framkvæmd skattalaga en gömlu skattumdæmin breytast í starfstöðvar. Skattstofan í Reykjavík lögð niður og henni lokað endanlega árið 2011.

Tekjuskattslögunum breytt mörgum sinnAllir vinnaum. Fyrst skal nefna lög um ívilnun vegna endurbóta og viðhalds íbúðarhúsnæðis. Fólki var heimilað að draga frá tekjuskattsstofni 50% af þeirri fjárhæð sem greidd yrði vegna vinnu án virðisaukaskatts á árunum 2010 og 2011. Hámarkið var 200 þúsund krónur hjá einstaklingum og 300 þúsund hjá hjónum. Um líkt leyti var skattalegri meðferð á eftirgjöf skulda breytt. Lögaðilar og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi máttu tekjufæra 50% af eftirgjöf skulda umfram rekstrartap. Þetta mátti gera vegna greiðslu- og rekstrarerfiðleika árin 2009, 2010 og 2011. Líka mega þessir aðilar fyrna eignir sem nema fjárhæð eftirstöðva eftirgjafarinnar á því ári sem hún er tekjufærð í skattframtali. Ef engar fyrnanlegar eignir eru til í fyrirtækinu má færa eftirgjöfina til tekna með jöfnum fjárhæðum næstu þrjú árin frá og með því ári sem skuldin var gefin eftir. Með þriðju breytingunni árið 2010 var tekjuskattur lögaðila hækkaður í 20% og sameignar- og samlagsfélaga í 36%, auðlegðarskattur var hækkaður og loks voru gerðar breytingar á skatthlutföllum útsvars og tekjuskatts og komu þær til í tengslum við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Lægri mörk útsvars hækkuðu úr 11,24% í 12,44% og efri mörkin úr 13,28% í 14,48%. Á móti lækkuðu tekjuskattshlutföllin: 24,1% í 22,9%, 27% í 25,8% og 33% í 31,8%.

Settur sérstakur skattur á skuldir fjármálafyrirtækja, banka og annarra stofnana sem fengið hafa leyfi til að taka við innlánum. Skatturinn er 0,041% af heildarskuldum viðkomandi fjármálastofnunar. Lögin komu til framkvæmda við álagningu vegna tekjuársins 2010 og skulda í lok þess árs en áttu að koma til endurskoðunar innan eins árs. Nýtt frumvarp var samþykkt árið 2011 með viðbót. Við álagningu árið 2012 var fyrirtækjunum gert að greiða, til viðbótar við skattinn, eingreiðslu 1. nóvember 2012, 0,0875% af skattstofni og greiða fyrirfram upp í þá greiðslu 1. nóvember 2011. Þessu var svo breytt á ný með lögum sama ár sem kváðu á um að þennan sérstaka aukaskatt á sérstaka skattinn skyldi líka greiða 1. nóvember 2013.

Boðið upp á einfaldað framtal. Viðkomandi þarf bara að staðfesta að framtalið sé rétt.

2011: Fjársýsluskattur kynntur til sögunnar

Ákveðið að persónuafsláttur taki breytingum ár hvert í samræmi við verðlagsbreytingar á undangengnum 12 mánuðum frá desember árið áður, fyrst í ársbyrjun 2012. Auðlegðarskattur hækkaður og gerður þrepaskiptur. Einstaklingar sem eiga eignir yfir 75 milljónum króna og að 150 milljónum og hjón sem eiga eignir á bilinu 100–200 milljónir skulu greiða 1,5% í skatt. Á eignir umfram þessar upphæðir kom 2% skattur. Skattþrep tekjuskatts urðu 37,31%, 40,21% og 46,21% og tryggingagjald 8,65%. Skattþrepin voru mjög svipuð næstu tvö árin en tryggingagjald fór lækkandi.

Steingrímur J fjármálaráðherraLög um nýjan skatt sem kallaður hefur verið fjársýsluskattur. Um er að ræða skatt á fjármálafyrirtæki og aðila sem stunda vátryggingastarfsemi. Þessir aðilar eru undanþegnir virðisaukaskatti og þess vegna hafa margir haldið því fram að skatturinn sé í raun ígildi virðisaukaskatts. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir í landinu yrðu skattskyldir en það ákvæði var fellt út úr frumvarpinu í umræðum á Alþingi. Öll laun og þóknanir starfsfólks viðkomandi stofnana mynda skattstofninn sem og reiknað endurgjald. Skatthlutfall er 5,45% af skattstofni. Skattskyldum aðilum ber að skrá sig hjá ríkisskattstjóra og hann hefur eftirlit með innheimtu skattsins. Lögin komu til framkvæmda í staðgreiðslu 1. janúar 2012.

Lög um kolvetnisskatt endurskoðuð og nýtt frumvarp samþykkt. Helstu breytingar voru þær að margir skattaðilar geta nú sameinast um eitt leyfi með mismunandi hlutdeild og þar með mismiklum gjöldum. Framleiðslugjaldið er fastákveðin prósentutala, 5%, en ekki stighækkandi og greiðist mánaðarlega í staðgreiðslu til ríkissjóðs. Þá fellur framleiðslugjaldið ekki niður þótt viðkomandi skattaðili skili hagnaði og greiði sérstakan kolvetnisskatt. Vinnslugjald er greitt af hverri tunnu en í eldri lögum var ekkert greitt af fyrstu 10 milljónum tunna. Kolvetnisskattur leggst á um leið og viðkomandi aðili sýnir hagnað af starfsemi en miðast ekki við 20% mark af skattskyldum tekjum eins og var í eldri lögum.

2012: Lög um gistináttaskatt taka gildi

Lög um gistináttaskatt, sem samþykkt voru árið 2011, tóku gildi 1. janúar 2012. Skatturinn er 100 krónur fyrir hverja gistináttaeiningu sem er leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring. Sá sem selur gistiaðstöðu skilar skattinum, hótel og gistiheimili, eigendur tjaldsvæða, stæða fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi. Einnig eiga orlofssjóðir verkalýðsfélaga að innheimta skattinn vegna orlofshúsa, svo og ferða- og útivistarfélög.

2014: Leiðréttingin

Embætti ríkisskattstjóra var falið að sjá um leiðréttinguna, höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána, ásamt verkefnisstjórn sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tók við stjórn landsins 23. maí 2013 var því heitið að tekið yrði á ófyrirsjáanlegri höfuðstólshækkun umræddra lána sem orsakast hafði af hruni fjármálakerfisins haustið 2008.Leiðréttingin logo Samþykkt voru tvenn lög til að lækka húsnæðisskuldir heimilanna. Lög um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar heimiluðu fjölskyldu að ráðstafa séreignarsparnaði sínum inn á veðlán sem tekin voru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skilyrði var að lánin gætu verið grundvöllur til útreiknings vaxtabóta. Hins vegar var úrræði sem varðaði ráðstöfun iðgjalda sem safnast höfðu upp á tilteknu tímabili til öflunar húsnæðis til eigin nota. Í báðum tilvikum var um að ræða tímabundin skattfrjáls úrræði. Miðað var við að heimildin takmarkaðist við 500 þúsund krónur á ári á hverja fasteign og tæki til iðgjalda af iðgjaldastofni tímabilsins 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Hin lögin, Lög um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, kváðu á um að fjármála- og efnahagsráðherra væri heimilt að gera samkomulag við lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og fjármálafyrirtæki um framkvæmd almennrar leiðréttingar þeirra verðtryggðu fasteignaveðlána sem til staðar voru á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009.

Frá upphafi var ljóst að ríkisskattstjóri kæmi töluvert að höfuðstólslækkuninni, aðallega vegna notkunar skattframtala við aðgerðina, en hlutverk embættisins varð þó miklu meira en ráðgert var í fyrstu. Ráðgert hafði verið að framkvæmd niðurfærslunnar færi fram hjá lánastofnunum en fljótlega áttuðu menn sig á því að á því voru miklir annmarkar. Best væri að embætti ríkisskattstjóra héldi utan um framkvæmdina. Þá yrði hægt að vinna úr umsóknum með samræmdari hætti en ef margar fjármálastofnanir afgreiddu þær hver í sínu lagi. Fjármála- og efnahagsráðherra leitaði til ríkisskattstjóra 5. febrúar 2014 og fór þess á leit að embættið tæki að sér að vera miðlægt stjórnvald sem tæki á móti umsóknum og ynni úr þeim undir stjórn verkefnisstjórnarinnar. Við þessu Bjarni Ben og Sigmundur Davíð kynna Leiðréttingunavar orðið og reyndist leiðréttingin eitt stærsta upplýsingatækniverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi og hún var að öllu leyti rafræn. Gera varð ýmsar skipulagsbreytingar hjá embættinu, ráða fleira fólk, fá aukið húsnæði og þróa hugbúnað í samvinnu við aðra. Opnað var fyrir umsóknir um höfuðstólslækkun á sérstökum vef 18. maí og var frestur gefin til 1. september. Séreignarsparnaðarhluti vefsins var opnaður 28. maí og var boðað að sá hluti yrði opinn og virkur til 30. júní 2019. Byrjað var að birta útreikninga 11. nóvember 2014 og 23. desember gátu umsækjendur byrjað að staðfesta þá. Í apríl 2015 höfðu langflestir umsækjendur fengið svar við umsókn sinni en fámennur hópur umsækjenda varð að bíða lengur, aðallega vegna þess að útreikningur umsókna þeirra var flókinn. Um mitt ár var búið að afgreiða allar umsóknir og í árslok lauk ríkissjóður við að greiða fjármálastofnunum það sem um hafði verið samið. Með beinu framlagi ríkisins, 80 milljörðum króna, og óbeinu, 20 milljörðum sem töpuðum sköttum af séreignarsparnaði í framtíðinni, var verðbólga umfram 4% á árunum 2008–2009 leiðrétt til fulls og með fullnýtingu leiðréttingar lækkaði höfuðstóll íbúðalána eins heimilis um allt að 20%.

2014: Tekjuskattsþrep lækkuð

Fyrstu tvö skattþrep tekjuskatts lækkuð í 37,30%, 39,74% en það þriðja hækkað í 46,24%. Tekjuskattur lækkar í 7,59% og ári seinna í 7,49%.

2016: Skattkort lögð niður

Skjámynd úr kynningarmyndbandi um afnám skattkortanna.Skattkort lög niður og við tekur rafrænn persónuafsláttur.

Álagningu einstaklinga flýtt og lýkur 30. júní.

2018: Snorri Olsen verður ríkisskattstjóri

Snorri Olsen var skipaður ríkisskattstjóri og tók við af Skúla Eggert Þórðarsyni sem lét af embætti er hann var skipaður ríkisendurskoðandi. Snorri Olsen hafði áður gengt stöðunni á árunum 1995-1997 þegar hann var settur ríkisskattstjóri tímabundið. 

2019: Verkefni innheimtu flutt frá tollstjóra til ríkisskattstjóra

Tollstjóri hafði um árabil sinnt innheimtu opinberra gjalda í Reykjavík og síðar á Höfuðborgarsvæðinu öllu. Með lagabreytingu sem tók gildi 1. maí 2019 fluttist sú innheimta frá tollstjóra yfir til ríkisskattstjóra. Með verkefnunum fluttust einnig um 50 starfsmenn milli stofnana. Mikil samlegðaráhrif eru með álagningu skatta og innheimtu opinberra gjalda og því gullið tækifæri til að bæta þjónustu við almenning. 

2020 -

2020: Ríkisskattstjóri og tollstjóri sameinast

Þann 1. janúar 2020 sameinuðust embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra og er nú skatt- og tollframkvæmd á hendi ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri stýrir sameinaðri stofnunin sem nefnist Skatturinn og er upplýsinga- og þjónustustofnun með það hlutverk að tryggja ríkissjóði tekjur og vernda samfélagið fyrir ólögmætum viðskiptum yfir landamæri.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum