Sérstakur vaxtastuðningur

Við álagningu opinberra gjalda 2024 er framteljendum ákvarðaður sérstakur vaxtastuðningur. Lög um hann voru sett í tengslum við kjarasamninga sem undirritaðir voru í mars 2024.

Sérstakur vaxtastuðningur er reiknaður samkvæmt forsendum sem fyrir liggja í skattframtali. Skilyrði fyrir stuðningi er að framteljandi hafi átt fasteign á árinu 2023 og talið fram vaxtagjöld á framtali af lánum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. 

Ekki þarf að sækja um sérstakan vaxtastuðning.

Niðurstaða - birting

Á álagningarseðli er ábending birt hjá þeim sem eiga möguleika á sérstökum vaxtastuðningi, en niðurstaðan (fjárhæðin) er birt á þjónustusíðu framteljanda, á skattur.is.

Ráðstöfun

Ólíkt vaxtabótum er sérstakur vaxtastuðningur ekki greiddur út, heldur er fjárhæðinni ráðstafað inn á lán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Veldu lán

Á þjónustusíðunni skattur.is þarf framteljandi að tilgreina inn á hvaða lán skuli greiða. Það skal gert á tímabilinu 1.-30. júní 2024. Ef ekkert er valið verður fjárhæðin greidd inn á það lán sem er með hæstu eftirstöðvarnar, samkvæmt skattframtali.

Tímalínan

  • Júní - einstaklingar tilgreina lán
  • Júlí - ríkisskattstjóri afhendir Fjársýslunni upplýsingar um lán 
  • Ágúst - Fjársýslan miðlar upplýsingum til lánveitenda

Sjá nánar um miðlun upplýsinga, ráðstöfun, kærurétt og fleira í lögum 36/2024.

Spurt og svarað

Hvar finn ég útreikninginn og vel lán?

Þú skráir þig inn á þjónustuvef Skattsins með rafrænum skilríkjum eða veflykli.

Á forsíðunni, undir Nýleg samskipti er tilkynning sem heitir Sérstakur vaxtastuðningur 2024. Þar kemur fram hvort og þá hversu háan vaxtastuðning þú færð ásamt útreikningum.

Ef þú átt rétt á vaxtastuðningi ferð þú neðst á síðuna og smellir á Opna ráðstöfun. Þar velur þú:

  • Hvort ráðstafað sé inn á höfuðstól eða afborgun láns.
  • Lánið sem ráðstafa á vaxtastuðningnum inn á.
  • Ef rétt lán kemur ekki fram í felliglugganum má skrá nýtt lán.

Í næsta skrefi þarf að staðfesta að allar upplýsingar séu réttar og smella á senda.

Ef um hjón eða samskattaða aðila er að ræða þarf bara annar aðilinn að skrá ráðstöfunina.

Ég er með nýtt lán

Skrá má nýja lánið inn handvirkt inn í umsóknarforminu.

Ég seldi íbúðina mína og skulda ekkert í dag

Í lögum nr. 36/2024 þar sem kveðið er á um sérstakan vaxtastuðning er engin varaleið. Sérstakur vaxtastuðningur sem ekki er hægt að ráðstafa inn á lán fellur niður.

Eftirstöðvar lánsins eru lægri en fjárhæð vaxtastuðningsins

Sérstökum vaxtastuðningi er aðeins hægt að ráðstafa inn á höfuðstól eða afborganir eins láns. Sé vaxtastuðningur hærri en eftirstöðvar láns fellur það sem út af stendur niður. 

Við erum skilin

Hafi fólk talið fram saman er niðurstaðan sameiginleg. Skatturinn getur ekki skipt greiðslum og verður fólk því að gera upp sín á milli.

Ég er með búseturétt hvernig ráðstafa ég?

Fólk með búseturétt getur haft þrjá möguleika til að ráðstafa sérstökum vaxtastuðningi:

  • Til lækkunar búsetugjalds sem stafar af láni teknu til fjármögnunar húsnæðis í nafni búseturéttarfélagsins
  • Inn á höfuðstól láns teknu í eigin nafni til að kaupa búseturétt, sem talið hefur verið fram í kafla 5.2 á framtali
  • Inn á afborganir láns teknu í eigin nafni til að kaupa búseturétt, sem talið hefur verið fram í kafla 5.2 á framtali

Í lögum nr. 36/2024 þar sem kveðið er á um sérstakan vaxtastuðning er aðeins gert ráð fyrir að hægt sé að ráðstafa inn á lán sem fólk er sjálft rétthafar að. Hafi slíkt lán verið verið tekið,  í eigin nafni, til kaupa á búseturétti, má rástafa stuðningi inn á það lán, annað hvort höfuðstól eða afborganir. 

Að öðrum kosti þarf að tilgreina búsetufélag, sem mun ráðstafa stuðningnum til lækkunar á búsetugjaldi.

Framtal mitt verður leiðrétt sem hefur áhrif á útreikning vaxtastuðnings

Komi til hækkunar á sérstökum vaxtastuðningi vegna breytinga á skattframtali í kjölfar kærumeðferðar 2024 eða annarra leiðréttinga á því ári verður hægt að ráðstafa mismun sem kann að myndast við breytinguna inn á lán þegar niðurstaða liggur fyrir. Verklag í kringum það verður nánar skýrt síðar.

Er niðurstaðan kæranleg?

Útreikningur byggir á forsendum sem er að finna í skattframtali 2024. Séu forsendur þar sem lágu til grundvallar álagningar rangar má óska eftir leiðréttingu á framtali. Kærufrestur er til 2. september. 

Útreikningur

Stofn til útreiknings er 23% af vaxtagjöldum af lánum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Það eru vaxtagjöld í reitum 166 og/eða 87 í kafla 5.1 og 5.2 á skattframtali.

Frá stofninum dragast 0,5% af nettó eign sem er umfram 18.000.000 kr. hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum, en umfram 28.000.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.

Einnig dragast frá 4% af tekjustofni sem er umfram 6.000.000 kr. hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum, en umfram 9.600.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.

Sérstakur vaxtastuðningur getur að hámarki orðið 150.000 kr. hjá einhleypingi, 200.000 kr. hjá einstæðu foreldri og 250.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.

Lágmarksfjárhæð er 5.000 kr. Ef reiknaður vaxtastuðningur er lægri, fellur hann niður.

Ýmis ákvæði

Ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings er bundin við árið 2024.

Hjá þeim sem skattskyldir eru á Íslandi hluta úr ári ákvarðast fjárhæðin í hlutfalli við dvalartíma á Íslandi á árinu 2023.

Sérstakur vaxtastuðningur telst ekki til skattskyldra tekna og honum verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Sérstakur vaxtastuðningur - Lög 36/2024 um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur).


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum