Tollminjasafn
Tollminjasafn Íslands var stofnað 1. mars 2007 og er til húsa í Tollhúsinu að Tryggvagötu 19.
Í samþykktum fyrir safnið kemur fram að hlutverk þess sé að safna, varðveita, skrá og rannsaka tollminjar. Sérstök áhersla skal lögð á muni, klæðnað og bækur sem tengjast tollstjóraembættum auk smyglvarnings og annars áhugaverðs sem tengist starfi tollvarða og tollstarfsmanna. Safnið skal enn fremur miðla upplýsingum um þessar minjar og hafa þær til sýnis á áhugaverðan og aðgengilegan hátt fyrir almenning. Safnið skal starfa eftir mótaðri söfnunar- og sýningarstefnu sem skal miða að því að varpa ljósi á og efla þekkingu, skilning og áhuga almennings á tollminjum. Framkvæmd stefnunnar skal vera markviss og árangursrík og skal stefnan vera endurskoðuð á 5 ára fresti. Safnmuni skal skrá eftir viðurkenndum aðferðum og varðveita og forverja eftir bestu getu.
Gert er ráð fyrir að tollminjasafnið gangi í International Association of Customs Museums, skammstafað IACM, sem eru alþjóðasamtök toll- og skattaminjasafna sem hafa að markmiði að efla kunnáttu og þekkingu á sögu þessara tveggja atvinnugreina. Í dag eru alls 16 lönd meðlimir í samtökunum: Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Holland, Noregur, Ungverjaland, Írland, Portúgal, Bretland, Lúxemborg, Ítalía, Austurríki, Tékkland, Svíþjóð og Þýskaland. Samtökin voru stofnuð í Kaupmannahöfn árið 1993 og halda árlega ráðstefnu sem haldin er til skiptis í aðildarríkjunum. Samtökin halda úti heimasíðu á netinu á slóðinni: http://www.customsmuseums.org/
Samþykktir fyrir Tollminjasafn Íslands (pdf skjal 26 Kb)