Frestun á greiðslu tekjuskatts í kjölfar álagningar á lögaðila 2020
Með lögum nr. 37/2020 var tilteknum lögaðilum, þ.e. skráðum hlutafélögum og einkahlutafélögum, samlagshlutafélögum séu þau sjálfstæðir skattaðilar, gagnkvæmum vátryggingar- og ábyrgðarfélögum, kaupfélögum, öðrum samvinnufélögum og samvinnufélagasamböndum heimilað að fresta um eitt ár greiðslu tekjuskatts samkvæmt álagningu 2020, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
- Fjárhæð sú sem heimilt var að fresta greiðslu á gat numið allt að 20 millj. kr., enda hafi verið fyrirsjáanlegur taprekstur á yfirstandandi rekstrarári (þ.e. 2020).
- Samskattaðir lögaðilar töldust sem einn lögaðili í þessu sambandi.
- Skilyrði er að arði sé ekki úthlutað eða eigin hlutir keyptir á meðan krafa vegna frestunar á umræddri greiðslu er óuppgerð við ríkissjóð.
- Lögaðili sem óskaði eftir frestun á greiðslu mátti ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019.
- Álagðir skattar og gjöld, máttu ekki byggjast á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, síðastliðin þrjú ár eða síðan lögaðilinn hóf starfsemi. Þetta þýddi m.a. að álagning árið 2020 þurfti að hafa byggst á skattframtali en ekki áætlun.
Sækja þurfti um frestun á greiðslu á þjónustuvef Skattsins fyrir 10. nóvember 2020