Framtalsskil

Að rekstrarári liðnu þarf að gera upp reksturinn og skila niðurstöðum með skattframtali á til þess gerðum fylgiskjölum. Gildir það bæði um einstaklinga og félög. Tekjuskattur, tryggingagjald og fleiri gjöld eru lögð á samkvæmt framtali. Sjá um framtalsfresti og álagningu í kafla hér neðar.

Framtal einstaklings með atvinnurekstur

Rekstur einstaklings er ekki skattlagður sérstaklega, heldur eru tölur af rekstrarblöðum hans fluttar á skattframtalið RSK 1.01. Það fer eftir umfangi rekstrarins hvaða eyðublöðum er skilað vegna eigin atvinnurekstrar.

  • Bændur skila Landbúnaðarskýrslu RSK 4.08 vegna búrekstrar.
  • Fyrir lítinn og tilfallandi rekstur er skilað rekstraryfirliti RSK 4.10. Skilyrði fyrir notkun þess eru að velta sé undir 1.000.000 kr., að framteljandi sé ekki á vsk-skrá, að ekki séu notaðar fyrnanlegar eignir í rekstrinum og að ekki sé gjaldfærður bifreiðakostnaður. 
  • Ef velta er á bilinu 1.000.000 kr. til 20.000.000 kr. er rekstrarskýrsla RSK 4.11 notuð. Ef framteljandi er á vsk-skrá er rekstrarskýrslan notuð, þó svo að velta kunni að vera undir 1.000.000 kr.
  • Fyrir umfangsmikinn rekstur þar sem velta er meiri en 20.000.000 kr. er notað RSK 1.04, skattframtal rekstraraðila. Ef framteljandi með minni veltu kýs að nota RSK 1.04 er honum heimilt að gera það.

Lykiltölur af rekstrarblaði flytjast (sjálfkrafa í rafrænum skilum) á samræmingarblaðið RSK 4.05, þar sem einnig er skráð ónotað tap frá fyrri árum. Niðurstöður færast svo þaðan inn á sjálft skattframtalið í þar til gerða reiti fyrir reiknuð laun, hagnað, eignir, skuldir og staðgreiðslu af fjármagnstekjum.

Svipaðar reglur gilda um uppgjör vegna samrekstrar- og sameignarfélaga sem ekki eru sjálfstæðir skattaðilar. Reksturinn er gerður upp á RSK 1.04 og niðurstöður færðar inn á framtöl eigenda, sem geta bæði verið einstaklingar og félög.

Framtal lögaðila í atvinnurekstri

Lögaðilar, eins og hlutafélög og einkahlutafélög, eru sjálfstæðir skattaðilar og skila eigin skattframtali, sem er Skattframtal rekstraraðila RSK 1.04. Með því þarf að skila ársreikningi félagsins. Skattframtali rekstraraðila má skila til ríkisskattstjóra á þrjá mismunandi vegu:

  • Rafrænt með vefframtali á þjónustuvefnum skattur.is.
  • Rafrænt með XML sendingu beint úr framtalsforriti, sem notað er af endurskoðendum, bókurum og öðrum sem atvinnu hafa af framtalsgerð.
  • Á pappír (eingöngu ef alls ekki er unnt að skila rafrænt).

Rafræn skil eru nauðsynleg

Veigamesta fylgiskjalið í atvinnurekstri er Eignaskrá RSK 4.01, sem er fyrir allar fyrnanlegar eignir í rekstrinum. Þetta eyðublað fylgir framteljanda í rafrænum skilum frá ári til árs og er uppfært og forskráð á hverju ári. Fyrningar reiknast þar sjálfvirkt, sem og söluhagnaður eða sölutap. Niðurstöður færast einnig sjálfvirkt á framtal. Hjá þeim sem eru með fyrnanlegar eignir í rekstri er nánast nauðsynlegt að skila rafrænt.

Eindregið er mælt með rafrænum skilum. Meira er forskráð á rafræn framtöl en pappír, færslur af fylgiskjölum yfir á framtal eru sjálfvirkar og öll rafræn framtöl eru villuprófuð við skil. Gildir það bæði um framtöl sem skilað er á skattur.is og með framtalsforriti, þau fá öll sama villuprófið.

Framtalsfrestir og álagning 

Skilafrestur framtala einstaklinga er fram í miðjan mars. Sami framtalsfrestur gildir fyrir launamenn og einstaklinga í atvinnurekstri. Álagning fer fram í lok maí. Sjá nánar um forsendur álagningar einstaklinga og um álagningarseðilinn á síðunni Framtal og álagning undir kaflanum Einstaklingar.

Skilafrestur framtala lögaðila er til 31. maí og álagning fer fram í lok október. Sjá nánar um forsendur álagningar á lögaðila í atvinnurekstri og um álagningarseðilinn á síðunni Framtal og álagning undir kaflanum Atvinnurekstur.

Allir einstaklingar og lögaðilar í rekstri þurfa að skila launa- og verktakamiðum RSK 2.01 að loknu rekstrarári, fyrir 20. janúar, hafi þeir greitt laun á árinu. Þessum miðum er hægt að skila rafrænt á skattur.is auk þess sem nær öll launakerfi bjóða upp á skil með rafrænum XML sendingum beint úr kerfi. Ef framtali er skilað rafrænt þarf ekki að skila sérstöku launaframtali, enda er það innbyggt í rafræn framtalsskil í rekstri.

Þá skulu hlutafélög og einkahlutafélög skil hlutafjármiðum RSK 2.045 fyrir 20. janúar. Hlutafjármiðum má skila rafrænt á skattur.is og með beinum XML sendingum beint úr þeim bókhaldskerfum sem bjóða upp á rafræn skil.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum