Launagreiðendaskrá

Tilkynna ber upphaf atvinnurekstrar til launagreiðendaskrár að minnsta kosti 8 dögum áður en starfsemi hefst.

Launagreiðendum er skylt að halda eftir staðgreiðslu af tekjum þeirra sem þeir greiða laun og af eigin reiknuðu launum (reiknað endurgjald).

Skráning á launagreiðendaskrá

Tilkynning um skráningu á launagreiðendaskrá og/eða VSK-skrá er á þjónustuvef Skattsins.

Opna tilkynningu

Sjálfstætt starfandi einstaklingar

Einstaklingar með rekstur á eigin kennitölu reikna sér laun eftir sérstökum reglum um reiknað endurgjald og skila staðgreiðslu af því. Vinni maki og/eða börn við reksturinn þar einnig að reikna þeim endurgjald og draga staðgreiðslu af á sama hátt og staðgreiðslu launamanna. Áætlað reiknað endurgjald á mánuði er tilkynnt til launagreiðandaskrár við skráningu.

Ef umfang rekstrarins er svo óverulegt að reiknaða endurgjaldið er lægra en 450.000 kr. á ári þarf ekki að skila staðgreiðslu. Þessi laun eru aðeins talin fram á skattframtali og launaframtali. Tekjuskattur og útsvar leggjast á við álagningu sem og tryggingagjald.

Séu launagreiðslur og reiknað endurgjald samanlagt ekki umfram 504.000 kr. á ári er staðgreiðslu og tryggingagjaldi aðeins skilað einu sinni á ári. Sjá nánar um greiðslutímabil á síðunni Tryggingagjald.

Mikilvægt er að skila staðgreiðslu á réttum tíma svo ekki komi til beitingar álags og dráttarvaxta. Einnig er mikilvægt að skila skilagrein þó að launagreiðslur liggi niðri tímabundið (x-að í viðeigandi reit) því annars er staðgreiðslan áætluð.

Mánaðarleg skil á staðgreiðslu

Við útborgun launa skulu launagreiðendur halda eftir staðgreiðslu og skila til innheimtumanns ásamt tryggingagjaldi. Launatímabil er að hámarki einn mánuður. Gjalddagi er 1. dagur næsta mánaðar á eftir launamánuði og eindagi 15. hvers mánaðar.

Upplýsingum um laun, reiknað endurgjald, afdregna staðgreiðslu, nýtingu persónuafsláttar og fleira skal skila innn mánaðarlega. Mögulegt er að skila inn á þjónustuvef Skattsins eða beint úr launakerfi. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum