Tekjuskráning
Virðisaukaskattsskyldir aðilar skulu haga tekjuskráningu sinni í samræmi við bókhaldslög, virðisaukaskattslög og reglugerð um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Tekjuskráning skattskylds aðila verður að byggja á skýru og öruggu kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna rétt skattskil. Þeir sem skyldir eru til að halda tvíhliða bókhald skulu fyrirfram lýsa því skriflega hvernig færslu tekna er hagað og hvaða aðferð er notuð við færslu á skattreikninga. Þessi lýsing skal liggja fyrir með bókhaldsgögnum.
Aðferðir við tekjuskráningu
Tekjuskráning virðisaukaskattsskyldra aðila byggir yfirleitt annað hvort á sölureikningakerfi eða sjóðvélaskráningu. Í vissum tilvikum getur þó verið heimilt að notast við gíróseðla eða afreikninga.
Að jafnaði skal nota sömu aðferð við skráningu allrar sölu. Ef aðstæður krefjast má þó víkja frá þessu og t.d. skrá staðgreiðslusölu í sjóðvél en færa sölu gegn greiðslufresti, pöntunarsölu eða annan afmarkaðan söluþátt á sölureikninga.
Tekjuskráning virðisaukaskattsskylds aðila getur verið með eftirfarandi hætti:
- Sölureikningar: Almenna reglan er sú að skylt sé að gefa út sölureikning við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Sölureikningur getur verið rafrænn (pappírslaus) að öllum skilyrðum uppfylltum. Nánar er fjallað um skilyrðin í kaflanum um form og efni sölureikninga.
- Gíróseðlar: Þeir sem mega gefa út sölureikning síðasta dag hvers mánaðar vegna reikningsviðskipta í þeim mánuði geta notað gíróseðla í stað sölureikninga.
- Afreikningar: Bændur, útgerðaraðilar o.fl. geta lagt afreikninga (innleggsnótur), sem samlög, samvinnufélög o.fl. gefa út, til grundvallar tekjuskráningu sinni.
- Kreditreikningar: Kreditreikningur er sérstök tegund sölu- eða afreiknings og gefinn út við bakfærslu eða leiðréttingu á áður tekjufærðri sölu. Sé tekjuskráning í formi gíróseðla þarf aðili að hafa sérstök kreditreikningseyðublöð.
- Sjóðvélar: Smásöluverslanir og þjónustusalar, sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda, skulu annaðhvort gefa út sölureikning við sérhverja afhendingu eða skrá söluna í sjóðvél jafnskjótt og hún fer fram.
- Kvittanir: Sé skattskyld vara eða þjónusta fyrirframgreidd, þ.e. greidd að fullu eða hluta til áður en afhending fer fram, skal gefa út kvittun vegna innborgunar eða sölureikning.
- Undirbók vegna úttekta: Færa ber úttektir eigenda, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna í stjórnunarstöðum á skattskyldri vöru og þjónustu, sem skattaðili framleiðir eða selur, í sérstaka undirbók.
- Annað tekjuskráningarkerfi: Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, sem valda aðila verulegum vandkvæðum eða óhagræði við tekjuskráningu, getur ríkisskattstjóri heimilað honum að nota annað tekjuskráningarkerfi.
Sölureikningar
Form og efni sölureikninga
Gíróseðlar
Afreikningar
Kreditreikningar
Sjóðvélar
Kvittanir vegna innborgana
Undirbók vegna úttekta starfsmanna í stjórnunarstöðum
Annað tekjuskráningarkerfi (söluskráningarkerfi)
Ýmislegt til athugunar
- Sala skattskyldra aðila telst skattskyld að því marki sem þeir geta ekki sýnt fram á það með bókhaldi og gögnum þess að salan sé undanþegin virðisaukaskatti.
- Vanræki aðili að taka virðisaukaskatt af vöru eða þjónustu sem skattskyld er ber honum eigi að síður að standa skil á skattinum.
- Tilgreini skattskyldur aðili á reikningum sínum of háan virðisaukaskatt eða virðisaukaskatt af viðskiptum sem ekki eru skattskyld skal hann skila skattinum í ríkissjóð, nema viðeigandi leiðrétting sé gerð gagnvart kaupanda.
- Óskráðir aðilar mega hvorki tilgreina á reikningum sínum né á annan hátt gefa til kynna á þeim að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð. Ef þeir brjóta gegn þessu verða þeir hins vegar að skila skattinum í ríkissjóð, nema viðeigandi leiðréttingu verði komið við gagnvart kaupanda
- Taki aðili, sem er undanþeginn skattskyldu, við afreikningi þar sem virðisaukaskattur er tilgreindur eða tilgreint er að virðisaukaskattur sé innifalinn í heildarfjárhæð skal hann vekja athygli útgefanda afreiknings á því og endurgreiða honum þann skatt sem hann kann að hafa tekið við.
- Í öllum upplýsingum um verð á skattskyldri vöru eða þjónustu skal koma greinilega fram ef uppgefið verð er ekki með virðisaukaskatti. Þetta á við um auglýsingar í fjölmiðlum, upplýsingar í búðargluggum, verðlistum og víðar.
- Þeir, sem í atvinnuskyni kaupa og selja notuð vélknúin ökutæki, svo og tryggingarfélög og bílaleigur, sem keypt hafa notuð ökutæki til nota í rekstri sínum, mega reikna virðisaukaskattinn samkvæmt sérstökum reglum. Í þeim tilvikum má ekki tilgreina fjárhæð virðisaukaskatts á reikningi.
Ríkisskattstjóra er m.a. heimilt að áætla virðisaukaskatt ef:
- Virðisaukaskattsskýrsla styðst ekki við tilskilið bókhald.
- Færsla á innskatti eða útskatti eða öðrum þáttum sem virðisaukaskattsskýrsla byggist á styðst ekki við lögmæt gögn.
- Bókhald og þau gögn sem liggja fyrir um fjárhæðir virðisaukaskattsskýrslu verða ekki talin nægilega örugg eða ef tekjuskráning, þar með talin notkun sjóðvélar eða útbúnaður hennar eða notkun og form reikninga, er ekki í samræmi við ákvæði laga og reglugerða um virðisaukaskatt.
- Ekki er lagt fram bókhald eða þau gögn sem skattyfirvöld kunna að biðja um til að sannprófa virðisaukaskattsskýrslu.