Lokunarstyrkur 4, 5, 6 og 7

Leiðbeiningar við umsókn

Lokunarstyrkur, sem hér eftir verður nefndur „lokunarstyrkur 4“, „lokunarstyrkur 5“ „lokunarstyrkur 6“ eða „lokunarstyrkur 7", voru vegna stöðvunar á tiltekinni starfsemi í tengslum við sóttvarnaraðgerðir á tilteknum tímabilum.

LokunarstyrkurFráTil Ár
Lokunarstyrkur 4 18. nóvember31. desember 2020
Lokunarstyrkur 5 1. janúar12. janúar eða 7. febrúar2021 
Lokunarstyrkur 6 25. mars14. apríl2021
Lokunarstyrkur 715. janúar 28. janúar 2022

Umsóknir vegna lokunartímabila frá og með 15. janúar 2022 þurftu að berast eigi síðar en 30. júní 2022.


Sótt um fyrir félag

 

Mynd af valmynd af þjónustuvef þar sem velja má innskráningu

Ef sótt er um fyrir félag skráir prókúruhafi sig inn á sína eigin síðu, þar kemur upp hvaða félögum hann tengist. Þegar búið er að velja „Félög sem ég tengist“ kemur upp listi yfir þau félög. Prókúruhafi velur það félag sem ætlunin er að sækja um fyrir og fer þannig inn á þjónustusíðu þess. Á forsíðu félagsins kemur upp kassi með umsókn en einnig er hægt að fara í gegnum samskiptaflipann

Sótt um fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga

 

Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn á sína eigin þjónustusíðu og velur umsóknina í samskiptaflipanum og fær þá upp kassa: Umsókn um lokunarstyrk

Umsókn um lokunarstyrk

Þeir einir fá upp umsóknina sem eru á launagreiðendaskrá og eru heimilisfastir á Íslandi á umsóknardegi.

Við innskráningu er athugað hvort umsækjandi uppfylli tiltekin frumskilyrði. Ef skilyrði eru ekki uppfyllt kemst viðkomandi ekki lengra með umsóknina.

Mynd af skilmálum

Frumskilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla:

  • Ótakmörkuð skattskylda á Íslandi
  • Stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi
  • Var gert skylt að stöðva starfsemi sína
  • Tekjur á lokunartímabili a.m.k. 75% lægri en á (jafn löngu) viðmiðunartímabili
  • Rekstrartekjur 2019 a.m.k. 4,2 millj. kr.
  • Ekki í vanskilum með opinber gjöld og skil á gögnum
  • Ekki tekinn til slita eða gjaldþrotaskipta

Lesa má meira um framangreind skilyrði.

Ef umsækjandi stoppar ekki við fyrstu athugun þá opnast fyrir það að halda áfram með umsóknina. Næst er þá farið yfir ýmis skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að geta átt rétt á lokunarstyrk 4, 5, 6 eða 7 og þarf umsækjandi að haka við að hann uppfylli þau neðst í textaboxinu. Eftir það getur hann haldið áfram með umsóknina.

Tegund starfsemi

 

Mynd af umsókn á þjónustuvef þar sem valin er tegund starfsemi


Eftir að búið er að fara í gegnum ýmis skilyrði og reglur þarf að gera grein fyrir því hvaða starfsemi umsækjandi stundar og var skylt að stöðva. Upp kemur listi sem velja þarf úr þá starfsemi sem umsækjandi stundar.

Mynd úr umsókn þar sem valin er staðsetning starfsemi

Þegar búið er að velja starfsemina kemur upp nýr kassi þar sem greina þarf frá því hvar starfsemin fer fram.

Þessu næst opnast kassar þar sem óskað er eftir tölvupóstfangi og bankaupplýsingum. Afar mikilvægt er að gefa upp tölvupóstfang þannig að unnt sé að hafa samband við umsækjanda ef þess þarf.

mynd af umsókn á þjónustuvef þar sem skrá á bankareikning


Fyrirliggjandi bankaupplýsingar eru birtar en þeim er hægt að breyta ef þess þarf. Nýr reikningur er vistaður þegar smellt er á áfram. Þegar lokunarstyrkur 4, 5, 6 eða 7 er ákvarðaður verður hann greiddur inn á þennan uppgefna bankareikning.

Umfang rekstrar og tekjufall

 

Til að eiga rétt á lokunarstyrk 4, 5, 6 eða 7 þarf umsækjandi bæði að uppfylla skilyrði um ákveðið umfang í rekstri (tekjur) og eins tekjufall á milli ákveðinna tímabila.

Gefa þarf upplýsingar um tekjur á samanburðartímabili og lokunartímabili. Ef um er að ræða blandaðan rekstur þannig að skylt var að stöðva hluta hans þarf að gera grein fyrir heildartekjum í rekstrinum.

Samanburðartímabil er jafnlangt í dögum talið og lokunartímabilið en telst frá og með næsta heila almanaksmánuðinum á undan þar sem ekki kom til lokunar. Misjafnt er hvenær rekstraraðilum var gert að stöðva starfsemi sína. Það fer bæði eftir eðli starfseminnar og staðsetningu á landinu. Til dæmis var skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu gert að loka 18. september 2020 en hárgreiðslu- og snyrtistofum 7. október 2020.

Ef umsækjandi hóf starfsemi eftir 1. janúar 2019 og nær ekki viðmiðunartekjum 4.200.000 kr. á árinu 2019, koma tvær leiðir til greina til að meta hvort viðmiðunartekjum sé náð á samanburðartímabili:

a) tekjur ársins uppreiknaðar til loka febrúar 2020

Dæmi: Ef rekstraraðili hóf starfsemi 15. júní 2019 og var með tekjur á tímabilinu 15. júní 2019 til 29. febrúar 2020 samtals 3.700.000 kr. Þá nema tekjurnar á þessum 260 dögum uppreiknaðar á ársgrundvöll 5.194.231 kr. ( 3.700.000 kr./260 dagar*365 dagar) og tekjur á mánuði að meðaltali 432.853 kr.

b) tekjur næsta heila almanaksmánuð á undan þar sem ekki kom til lokunar eða stöðvunar starfsemi eða þjónustu nái 350.000 kr.

Dæmi: Ef rekstraraðili hóf t.d. starfsemi 1. ágúst 2020 þyrftu tekjur að lágmarki að hafa verið 350 þús. kr. í þeim mánuði.

Tekjufall

Þegar búið er að greina frá tekjuupplýsingum reiknast tekjufall sem þarf að ná 75% til þess að styrkur komi til álita. Tekjufallið er reiknað út frá tilgreindum tekjum umsækjanda á lokunartímabilinu og samanburðartímabili en bæði þessi tímabil eru tilgreind í umsókninni.

Í þessum kafla þarf einnig að gera grein fyrir því hvort umsækjandi hefur notið ríkisaðstoðar og hvort hann er tengdur einhverjum öðrum rekstraraðilum.

Ríkisaðstoð

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2020 getur heildarfjárhæð lokunarstyrkja til tengdra rekstraraðila að hámarki numið 260 millj. kr. vegna lokana eftir 17. september 2020, að meðtöldum stuðningi samkvæmt lögum um ferðagjöf, viðspyrnustyrkjum samkvæmt lögum um viðspyrnustyrki og tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki.

Sé um að ræða fyrirtæki sem taldist í erfiðleikum 31. desember 2019 getur heildarfjárhæð lokunarstyrkja þó að hámarki numið 30 millj. kr., nema ef um er að ræða lítil fyrirtæki. Einnig vísast til EES-reglugerðar nr. 1407/2013 um hámark ríkisaðstoðar á þriggja ára tímabili (sem getur að hámarki numið 200-800 þúsund evrum). Sjá reglugerð (ESB) um minniháttar aðstoð (de minimis aid), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES_nefndarinnar nr. 98/2014 frá 16. maí 2014. Sjá einnig nánari upplýsingar um reglur varðandi ríkisaðstoð á vef Stjórnarráðs Íslands.

Fyrirtæki teljast lítil í þessu sambandi ef starfsmenn voru færri en 50 árið 2019 og velta ársins 2019 fór ekki yfir 10 millj. evra (tæplega 1,4 milljarða króna) eða eignir í árslok voru ekki hærri en 10 millj. evra (tæplega 1,4 milljarðar króna).

Eftirfarandi er áritað fyrirfram í umsóknina eftir þeim upplýsingum sem fyrir liggja:

  • Fjárhæð áður fengins lokunarstyrks,
  • Fjárhæð sem rekstraraðili hefur fengið greidda í gegnum reglur um ferðagjöf,
  • Tekjufallsstyrkur sem umsækjandi hefur fengið.

Haka þarf við hvort umsækjandi hefur notið annarrar aðstoðar en árituð hefur verið í umsóknina og ef svo er þá þarf að gera grein fyrir fjárhæð og hvers eðlis aðstoðin var.

Tengdir aðilar

Vegna hámarks ríkisaðstoðar þarf umsækjandi, sem er lögaðili, að tilgreina tengd fyrirtæki. Umsækjandi sem starfar sjálfstætt á eigin kennitölu þarf ekki að gefa þessar upplýsingar og þær birtast því ekki í umsókn hans.

Mynd af umsókn um tekjufallsstyrk

Með tengdum fyrirtækjum er vísað til tengsla sem eru skilgreind í 1. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu þar sem einkum er horft til þess hvort:

  • Fyrirtæki ræður meirihluta atkvæða hluthafa eða félaga í öðru fyrirtæki,
  • Fyrirtæki hefur rétt til að skipa eða leysa frá störfum meiri hluta manna í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn annars fyrirtækis,
  • Fyrirtæki hefur yfirráð yfir öðru fyrirtæki samkvæmt samningi sem gerður hefur verið við það fyrirtæki eða ákvæðum í stofnsamþykktum þess,
  • Fyrirtæki, sem er hluthafi eða félagi í öðru fyrirtæki, ræður eitt meirihluta atkvæða hluthafanna eða félaganna samkvæmt samningi við aðra hluthafa eða félaga fyrirtækisins.
  • Fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu einstaklinga sem starfa saman eða tengjast fjölskylduböndum

Gera þarf grein fyrir því hvort umsækjandi er tengdur aðilum samkvæmt framangreindri skilgreiningu sem birt er í umsókninni með því að haka við „já“ eða „nei“. Ef um tengda aðila er að ræða þarf að gefa upp nafn/nöfn og kennitölur þeirra.

Fjöldi launamanna og rekstrarkostnaður

 

Fjöldi launamanna á lokunartímabili er áritaður samkvæmt staðgreiðsluskilum umsækjanda. Hægt er að leiðrétta þetta en einungis til fækkunar á tilgreindum starfsmönnum.

Umsækjandi þarf að gefa upp rekstrarkostnað sem til féll á lokunartímabilinu. Þannig þarf t.d. að hlutfalla húsaleigu miðað við dagafjölda á lokunartímabilinu.

Dæmi:

Húsaleiga hjá krá nam í nóvember og desember 1.000.000 kr. og var þá fyrir 61 dag. Lokunartímabil í þessu tilviki er frá 18. nóvember til áramóta eða 44 dagar og þess vegna á að tilgreina 44/61 af þeirri fjárhæð eða 721.311 kr. Á sama hátt þarf að hlutfalla kostnað sem féll til í janúar og febrúar 2021 en þá er lokunartímabilið hjá krá 38 dagar.

Mynd úr umsókn þar sem skráður er fjöldi starfsmanna

Fjárhæð lokunarstyrks er jafnhá rekstrarkostnaði eins og hann er tilgreindur að framan, en þó

  • aldrei hærri en 600 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í upphafi lokunartímabils fyrir hverja 30 daga lokun og hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil
  • Heildarfjárhæð lokunarstyrkja til tengdra rekstraraðila getur að hámarki numið 120 millj. kr.

Sé um að ræða fyrirtæki sem taldist í erfiðleikum 31. desember 2019 getur heildarfjárhæð lokunarstyrkja þó að hámarki numið 30 millj. kr., nema ef um er að ræða lítil fyrirtæki, enda hafi þau ekki hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð.

Lok umsóknar

 

Yfirlitsmynd af umsókn um lokunarstyrki

Áður en umsækjandi sendir umsóknina til afgreiðslu þarf hann að fara yfir þær upplýsingar sem hann hefur skráð og haka við að hann geri sér grein fyrir því að röng upplýsingagjöf kunni að leiða til þess að hann sæti álagi, sektum eða fangelsi.

Reiknaður er út styrkur miðað við uppgefnar forsendur og fjárhæðin birt umsækjanda.

Næst fær umsækjandi kvittun þar sem fram kemur að umsókn hafi verið send til undirritunar með rafrænum skilríkjum. Kvittunin er vistuð í samskiptakerfi Skattsins og fær umsækjandi boð um að hann þurfi að undirrita skjalið. Þegar smellt er á „undirrita umsókn“ opnast nýr flipi og umsækjandi þarf að skrá sig inn í Signet.is til að undirrita umsóknina með rafrænum skilríkjum.

Mynd af staðfestingu umsóknar

Athygli er vakin á því að umsókn telst ekki móttekin fyrr en hún hefur verið undirrituð.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum