Ferill ágreiningsmála
Til glöggvunar er sett fram eftirfarandi yfirlit yfir gang máls hjá ríkisskattstjóra samkvæmt málsmeðferðarreglum skattalaga og er þá miðað við að skattaðili svari bréfum og nýti sér rétt til að kæra mál til yfirskattanefndar.
Fyrir álagningu
Leiðréttingar ríkisskattstjóra á skattframtali
Þegar framtalsfresti er lokið skal ríkisskattstjóri leggja opinber gjöld á skattaðila samkvæmt framtali hans. Þó skal ríkisskattstjóri leiðrétta augljósar reikningsskekkjur. Enn fremur getur ríkisskattstjóri leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli stjórnvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi. Ríkisskattstjóra ber að tilkynna skattaðila um leiðréttingar fjárhæða og breytingar sem byggja á óyggjandi upplýsingum.
Eftir álagningu
Mál hefst að frumkvæði skattaðila.
Kærur
Skattaðili getur sent ríkisskattstjóra kæru vegna álagningar á skattframtal hans. Kæran getur varðað breytingu sem ríkisskattstjóri gerði fyrir álagningu og tilkynnti skattaðila um. Einnig getur kæran varðað leiðréttingu á skattframtali, hvort heldur er til lækkunar eða hækkunar, t.d. laun sem gleymst hefur að gera grein fyrir. Kærufrestur til ríkisskattstjóra eftir álagningu einstaklinga er þrír mánuðir frá dagsetningu auglýsingar um að álagningu sé lokið en einn mánuður eftir álagningu lögaðila.
Skattaðilar sem ekki telja fram í framtalsfresti sæta áætlun opinberra gjalda. Skattaðili getur lagt fram skattframtal í kærufresti og skal það tekið sem kæra, en ef skattframtal berst síðar er það tekið sem erindi, sbr. síðar.
Erindi
Ríkisskattstjóra er heimilt að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, þó lengst sex ár aftur í tímann, talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Beiðnin skal byggja á nýjum gögnum og upplýsingum. Ef beiðni leiðir til hækkunar gjalda skal skattaðila gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum áður en erindið er afgreitt. Fallist ríkisskattstjóri á að gera breytingar er heimilt að kæra úrskurðinn til yfirskattanefndar. Fallist ríkisskattstjóri ekki á að gera breytingar er kæruheimild til yfirskattanefndar ekki fyrir hendi.
Beiðnir um breytingar á skattskilum sem sendar eru að loknum kærufresti er teknar sem erindi.
Mál hefst að frumkvæði ríkisskattstjóra.
Þegar ríkisskattstjóri hefur frumkvæði að máli, svo sem við skoðun framtalsgagna skattaðila fyrir eða eftir álagningu, eru gerðar strangari formkröfur vegna meðferðar málsins. Ef ríkisskattstjóri telur að afla þurfi upplýsinga í máli sendir hann skattaðila fyrirspurn og óskar skýringa og gagna varðandi tiltekið atriði í framtalsskilum skattaðila. Ríkisskattstjóri getur einnig sent þriðja aðila, t.d. fjármálafyrirtæki, beiðni um upplýsingar og gögn er varða tiltekinn skattaðila. Innköllun gagna getur átt sér stað áður en fyrirspurn hefur verið send af stað eða samhliða henni.
Ef um er að ræða skoðun á framtali fyrir álagningu tilkynnir ríkisskattstjóri gjaldanda um breytingar á skattframtali. Slíkar breytingar eru kæranlegar í kærufresti. Á ríkisskattstjóra hvílir rannsóknarskylda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 .
Boðun breytinga
Ríkisskattstjóri skal gera skattaðila skriflega nákvæma grein fyrir þeim breytingum sem hann hyggst gera á framtalsgögnum skattaðila og þeim forsendum, sjónarmiðum og lagarökum sem þær byggja á. Skattaðili skal fá a.m.k. 15 daga frá póstlagningu boðunarbréfs til að kynna sér fyrirhugaðar breytingar ríkisskattstjóra og til að koma að andmælum sínum og leggja fram viðbótargögn (andmælaréttur).
Úrskurður/endurákvörðun ríkisskattstjóra
Í kjölfar boðunar getur komið til þess að ríkisskattstjóri ákvarði eða endurákvarði skattstofn skattaðila, sem getur verið í formi áætlunar. Hann skal áætla ríflega skatt ef tilskildum framtalsgögnum er ekki skilað eða framtalsgögnum eða upplýsingum er ábótavant. Ríkisskattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og skattgreiðanda um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið.
Ríkisskattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum þess frests, sem hann hefur veitt aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar, kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun og tilkynna skattaðila um hann í ábyrgðarbréfi. Tilkynning um skattbreytingu skal send viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs við uppkvaðningu úrskurðar. Úrskurði ríkisskattstjóra má skjóta til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða.
Heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar (hækkun) skatts gjaldanda nær til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram, þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág.
Séu skattar skattaðila hækkaðir eftir álagningu fellur viðbótarfjárhæðin í gjalddaga 10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina.
Breyting á skattframkvæmd
Ríkisskattstjóra er einnig heimilt að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni skattaðila að leiðrétta álagningu á skattaðila ef yfirskattanefnd eða dómstólar hafa í hliðstæðu máli hnekkt skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun skattstjóra eða ríkisskattstjóra var byggð á. Sama á við sé beinlínis kveðið svo á um í lögum að fallið sé frá fyrri skattframkvæmd. Breyting af þessu tilefni getur tekið til skattstofns eða skatts frá og með því tekjuári sem um var fjallað í máli því sem hliðstætt er talið, þó lengst sex ár aftur í tímann, talið frá því ári þegar úrskurður eða dómur var kveðinn upp. Sama viðmiðun gildir frá og með gildistöku viðkomandi lagaákvæðis. Skattaðili þarf að senda inn beiðni um endurupptöku innan eins árs frá því að honum var eða mátti vera kunnugt um tilefni hennar. Skattaðila er bæði heimilt að kæra breytingar sem og synjun um breytingu á skattákvörðun af þessum toga til yfirskattanefndar.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Leiðréttingar ríkisskattstjóra – augljósar villur – 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Álagning, endurákvörðun – 95. og 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Áætlanir ríkisskattstjóra – 2. mgr. 95. gr. og 1. og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Heimild til endurákvörðunar – 97. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Kærur til ríkisskattstjóra – 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Leiðréttingar – 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt