Fjármagnstekjuskattur

Þeir sem annast fjárvörslu, innheimtu eða taka við innlánum, eiga að halda eftir 22% af vaxtatekjum til staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og skila ársfjórðungslega í ríkissjóð. Sama gildir um lögaðila sem greiðir eða úthlutar arði til eigenda, honum ber að halda eftir 22% af arðinum og skila í ríkissjóð.

Afdreginni staðgreiðslu af fjármagnstekjum er skilað rafrænt á skattur.is.

Aðrar fjármagnstekjur, þ.e. leigutekjur og söluhagnaður, eru ekki staðgreiðsluskyldar en skattlagðar við álagningu samkvæmt framtali. Sem gildir um gengishagnað af eignum í erlendum verðmæli. Arður, sem talinn er sem laun, er meðhöndlaður sem laun í staðgreiðslu en ekki fjármagnstekjur.

Skilagrein og leiðréttingar

Notandi skráir sig á skattur.is með aðallykli sínum (eða skilalykli fagaðila) og velur liðinn Vefskil. Undir honum er að finna skilagrein fyrir skatt af vöxtum og arði.

Þótt búið sé að senda skilagrein er hægt að leiðrétta hana með því að senda inn nýja, allt  fram að eindaga. Leiðbeiningar um leiðréttingu eru á skattur.is. Þurfi að gera leiðréttingu síðar er hún send til ríkisskattstjóra á pappír.

Ef engar staðgreiðsluskyldar greiðslur voru inntar af hendi á tímabilinu þarf að gera grein fyrir því með því að skila núllskýrslu til ríkisskattstjóra.

Berist ekki fullnægjandi skilagrein, áætlar ríkisskattstjóri gjaldanda skilaskylda fjárhæð.

Greiðsla í vefbanka

Þegar skilagrein er send rafrænt verður um leið til krafa í vefbanka gjaldanda. Kröfuna er hægt að greiða þar, allt fram á eindaga. Eftir eindaga er aðeins hægt að greiða hjá innheimtumanni ríkissjóðs.

Þegar gerð er breyting á skilagrein verður til ný krafa í vefbanka, en eldri krafa hverfur ekki. Hún verður áfram til í vefbankanum fram að eindaga en fellur þá úr gildi. Mikilvægt er því að velja rétta kröfu þegar greitt er.

Sé skilagrein skilað eftir eindaga er einnig hægt að greiða hana í vefbanka, ef hún er greidd samdægurs.

Gjalddagar og eindagar

Gjaldtímabilin eru þrír mánuðir hvert og gjalddagar eru fjórir. Eindagi er 15 dögum síðar. 

Tímabil Gjalddagi Eindagi
1. tímabil (janúar-mars) 20. apríl 4. maí
2. tímabil (apríl-júní) 20. júlí 4. ágúst
3. tímabil (júlí-september) 20. október 6. nóvember
4. tímabil (október-desember) 20. janúar 5. febrúar

Þegar eindaga ber upp á frídag eða helgidag, færast þeir aftur á næsta virka dag.

Nánar um hverjir eru skilaskyldir

Skylda til að draga staðgreiðslu af vaxtatekjum og afföllum og skila í ríkissjóð hvílir á innlendum innlánsstofnunum, verðbréfafyrirtækjum, verðbréfamiðlurum, eignarleigufyrirtækjum og öðrum fjármálastofnunum, lögmönnum, löggiltum endurskoðendum og öðrum fjárvörsluaðilum, tryggingafélögum, svo og sérhverjum öðrum aðilum sem hafa atvinnu af fjárvörslu, milligöngu eða innheimtu í verðbréfaviðskiptum eða annast innheimtu fyrir aðra.

Skylda til að draga staðgreiðslu af arði og skila í ríkissjóð hvílir á lögaðilum; skráðum hlutafélögum, einkahlutafélögum og samlagshlutafélögum.

Hafi skilaskyldur aðili ekki aðgang á skattur.is að rafrænum skilum staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts, þarf hann að snúa sér til ríkisskattstjóra sem veitir viðeigandi aðgang.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Skattskyldir vextir, afföll og gengishagnaður - 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattstofn -  4. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Skilaskylda - 3. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum