Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa

Innflytjendur verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa eða framleiðendur íbúðarhúsa í verksmiðju hér á landi eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts, sem nemur ákveðnu hlutfalli af heildarsöluverði hvers húss, allt eftir því á hvaða stigi húsið er afhent, að meðtöldum 24% virðisaukaskatti.

Innflytjandi íbúðarhúsanna á rétt á endurgreiðslu, en ekki kaupendur þeirra. 

Lóðareigandi getur sótt um endurgreiðslu vegna vinnu á grunni og plötu slíkra húsa.
Nánari upplýsingar um endurgreiðslu VSK vegna íbúðarhúsnæðis

Sótt er um endurgreiðslur á eyðublaði RSK 10.16 og skal þeirri umsókn skilað með tölvupósti á tölvupóstfangið skatturinn@skatturinn.is

Endurgreiðslutímabil og afgreiðsla umsókna

Hvert endurgreiðslutímabil er tveir mánuðir: janúar og febrúar, mars og apríl, og svo framvegis. Endurgreiðslutímabil þeirra byggingaraðila sem gera upp virðisaukaskatt einu sinni á ári (ársskil) er þó almanaksárið. Umsókn skal berast ríkisskattstjóra í síðasta lagi 15. dag næsta mánaðar eftir að endurgreiðslutímabili lýkur, sjá töflu:

Tímabil tb. Skiladagur umsóknar og gagna Afgreiðslutími
janúar- febrúar 8 15. mars 5. apríl
mars -apríl 16 15. maí 5. júní
maí -júní 24 15. júlí 5. ágúst
júlí - ágúst 32 15. september 5. október
september - október 40 15. nóvember 5. desember
nóvember - desember 48 15. janúar 5. febrúar
Almanaksárið 48 15. janúar 5. febrúar, árið eftir

Umsóknir sem berast eftir lok skilafrests eru afgreiddar með umsóknum næsta endurgreiðslutímabils.

Réttur til endurgreiðslu fellur niður ef beiðni um endurgreiðslu berst ríkisskattstjóra eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.

Gögn með umsókn

Meðfylgjandi beiðni um endurgreiðslu skal vera:

  • hreyfingalisti yfir seld hús eða húseiningar
  • reikningar sem lagðir eru til grundvallar endurgreiðslu
  • yfirlit yfir eign(ir) sem beiðni varðar. 

Fylgi beiðni önnur fylgiskjöl skal gerð grein fyrir þeim í viðeigandi reit. 

Varði umsókn fleiri en eina eign skal sundurliðun yfir staðsetningu og fastanúmer eigna fylgja umsókninni sem viðhengi.

Leiðbeiningar með umsókn

Tímabil framkvæmda

Tilgreina skal á hvaða tímabili verkið var unnið sem sótt er um endurgreiðslu vegna.

Greinargerð um fjölda seldra íbúðarhúsa og söluverð þeirra

Fjöldi húsa í vinnslu

Hér skal tilgreina fjölda seldra húsa sem eru í framleiðslu hverju sinni og þá miðað við á hvaða byggingarstigi þau verða afhent.

Söluverð með verðbótum og virðisaukaskatti

Hér skal tilgreina söluverð þeirra húsa sem afhent hafa verið á tímabilinu. Með söluverði teljast verðbætur fram að afhendingu og virðisaukaskattur.

Eftirstöðvar söluverðs með virðisaukaskatti

Hér skal færa eftirstöðvar söluverðs með verðbótum og virðisaukaskatti á afhentum húsum á tímabilinu, þ.e. söluverð með verðbótum og virðisaukaskatti að frádregnum innborgunum á fyrri tímabilum.

Innborganir fyrir afhendingu

Hér skal færa greiðslur sem framleiðandi tekur við vegna þeirra húsa sem ekki er enn búið að afhenda kaupanda.

Orlofs- og frístundahúsnæði og húsnæði til nota í atvinnurekstri

Endurgreiðslur vegna verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa eða húseininga einskorðast við íbúðarhúsnæði. Endurgreiðslurnar taka ekki til orlofshúsa, sumarbústaða eða bygginga fyrir starfsemi undanþegna virðisaukaskatti. Endurgreiðslur eru að sama skapi ekki veittar vegna húsnæðis til nota í skattskyldum atvinnurekstri í þeim tilvikum þegar eigandi húsnæðisins getur talið greiddan virðisaukaskatt til innskatts.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Verksmiðjuframleitt íbúðarhúsnæði, endurgreiðslur – 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Undanþegin starfsemi – 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Innskattur – 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Reglugerð nr. 449/1990 - Reglugerð nr. 449/1990

Eyðublöð

RSK 10.16 - Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu eða innflutnings á verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum