Skattrannsóknir

Rannsókn

Mynd af lás

Skattrannsóknarstjóri stýrir sérstakri einingu innan Skattsins sem fer með rannsókn skattalagabrota, ákvörðun sekta í umboði ríkisskattstjóra og önnur verkefni sem ríkisskattstjóri felur honum. Rannsóknarheimildir skattrannsóknarstjóra taka m.a. til meintra brota á lögum um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts. Skattrannsóknarstjóri getur tekið til rannsóknar framtalsskil og skattskil allra manna og lögaðila sem framtalsskyldir eru, hvort sem framtalsskyldu hefur verið fullnægt eða ekki. Þá hefur skattrannsóknarstjóri heimild til að rannsaka bókhald, grundvöll skattskila og ársreikninga.

Upphaf rannsóknar

Upphaf rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra á skattsvikum eða öðrum refsiverðum brotum getur verið með ýmsum hætti; tilkynning frá öðrum sviðum Skattsins, samkvæmt tilvísun frá lögreglu eða samkvæmt ábendingu frá þriðja manni. Þá hefur skattrannsóknarstjóri heimild til að taka mál til rannsóknar að eigin frumkvæði. Skattrannsóknarstjóri metur hvort mál skuli sæta rannsókn og tekur ákvörðun um afmörkun á rannsókn máls, þ.m.t. til hvaða ára eða tímabila rannsókn tekur, hvaða atriði eru rannsökuð, og að öðru leyti með hvaða hætti rannsókn fer fram.

Formlega er upphaf rannsóknar miðað við þann dag sem skattrannsóknarstjóri gerir aðila eða fyrirsvarsmanni lögaðila kunnugt um að rannsókn sé hafin á framtals- eða skattskilum hans. Er það að jafnaði gert bréflega. Meðfylgjandi því bréfi eru leiðbeiningar við rannsókn. Strax við upphaf rannsóknar er farið fram á afhendingu bókhaldsgagna og annarra gagna er varða skattskilin sem eru síðan afhent aftur þegar meðferð máls er endanlega lokið. Aðilum er tryggður nauðsynlegur aðgangur að bókhaldsgögnum meðan á meðferð máls stendur til þess að framtalsskil geti farið fram.

Við rannsóknaraðgerðir skattrannsóknarstjóra er gætt ákvæða sakamálalaga eftir því sem við getur átt, einkum varðandi réttarstöðu grunaðra manna á rannsóknarstigi og eru rannsóknirnar ígildi lögreglurannsóknar á sviði skattamála.

Vísun mála til lögreglu

Séu brot stórfelld og varða við 262. gr. almennra hegningarlaga skal skattrannsóknarstjóri vísa máli til rannsóknar lögreglu. Í þeim málum fer skattrannsóknarstjóri með frumrannsókn og aflar allra nauðsynlegra gagna áður en tekin er ákvörðun um hvort máli skuli vísað til lögreglu. Samkvæmt fyrirmælum Ríkissaksóknara nr. 6/2021 skal máli vísað til lögreglu ef:

  1. rökstuddur grunur er um að fjárhæð samanlagðra vangreiddra og/eða undandreginna skatta og/eða gjalda vegna refsiverðra skattalagabrota nemi hærri fjárhæð en samtals 50 milljónum króna,
  2. rökstuddur grunur er um að verknaður hafi verið framinn með sérstaklega vítaverðum hætti, eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins, enda þótt fjárhæð nemi lægri fjárhæð en 50 milljónum króna,
  3. fyrir liggur að aðili hefur áður verið dæmdur sekur fyrir samskonar brot, enda séu ítrekunaráhrif ekki fallin niður skv. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1940. Það sama á við ef aðila hefur verið úrskurðuð sekt af yfirskattanefnd eða ákvörðuð sekt af skattrannsóknarstjóra.

 

Rannsóknarheimildir

Skattrannsóknarstjóra eru að lögum tryggðar víðtækar heimildir til gagnaöflunar. Skylda til afhendingar gagna er víðtæk og tekur til allra aðila sem hafa upplýsingar í vörslu sinni. Er þeim skylt að láta skattrannsóknarstjóra í té umbeðnar upplýsingar ókeypis og í því formi sem óskað er. Þagnarskylduákvæði annarra laga víkja fyrir þessari skyldu. Skattrannsóknarstjóri getur vísað máli til sakamálarannsóknar hjá lögreglu gegni einhver ekki upplýsingaskyldu sinni. Þá getur skattrannsóknarstjóri aflað gagna erlendis frá á grundvelli upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga.

Skattrannsóknarstjóri hefur heimild til leitar og haldlagningar gagna á starfsstöð án undangengins dómsúrskurðar. Í þeim tilvikum þegar slík leit er framkvæmd er hún yfirleitt framkvæmd samhliða tilkynningu um rannsókn. Ekki er upplýst um þær aðgerðir fyrirfram. Sem liður í haldlagningu gagna er afrit tekið af tölvugögnum og vettvangur ljósmyndaður ef ástæða er til. Af hálfu skattrannsóknarstjóra er farið fram á að fyrirsvarsmaður eða lögmaður hans sé viðstaddur þegar leit og haldlagning gagna á sér stað. Skattrannsóknarstjóri hefur heimild til leitar á heimilum aðila að undangengnum dómsúrskurði. Þá hefur skattrannsóknarstjóri heimild til að fá liðsinni lögreglu á vettvangi í þágu rannsóknar ef ástæða er til. Í kjölfar haldlagningar gagna fer fram skoðun þeirra og úrvinnsla á starfsstöð skattrannsóknarstjóra. Á það jafnt við um gögn á pappírsformi og rafræn gögn, þ. á m. haldlagða tölvupósta. Heimilt er að bera haldlagningu og aðrar rannsóknaraðgerðir skattrannsóknarstjóra undir dóm, en kæra frestar að jafnaði ekki framkvæmd.

Skattrannsóknarstjóri hefur heimild til kyrrsetningar eigna til tryggingar skattkröfu og fésekt í málum sem varða við 262. gr. almennra hegningarlaga. Innheimtu- og skráasvið Skattsins annast framkvæmd kyrrsetningar í kjölfar tilkynningar frá skattrannsóknarstjóra. Þá getur skattrannsóknarstjóri látið lögreglu stöðva atvinnurekstur vanræki skattskyldur aðili að færa tilskilið bókhald eða nota tilskilið söluskráningarkerfi eða ef því kerfi er verulega áfátt og fyrirmælum um úrbætur hefur ekki verið sinnt.

Sem liður í rannsókn máls eru teknar skýrslur af aðilum í samræmi við lög um meðferð sakamála. Við skýrslugjöf hafa aðilar því annað tveggja réttarstöðu sökunauts eða vitnis. Skýrslugjafi sem grunaður er um refsiverða háttsemi getur haft með sér við skýrslutöku lögmann sem hann ræður á sinn kostnað. Jafnframt kann hann að eiga rétt á að fá tilnefndan verjanda. Skýrslutökurnar fara fram með formlegum hætti og að jafnaði teknar í hljóði og mynd. Boðun til skýrslugjafar er yfirleitt skrifleg og kemur þar fram hvort aðili er grunaður um refsiverða háttsemi eða hvort hann er kvaddur til sem vitni. Ef aðili mætir ekki til skýrslugjafar getur skattrannsóknarstjóri óskað liðsinni lögreglu til að færa mann til skýrslugjafar. Áður en skýrslutaka hefst er skýrslugjafa gerð grein fyrir tilefni skýrslutökunnar, réttarstöðu hans og þýðingu hennar. Hámarkslengd hverrar skýrslutöku er 12 klst. á hverjum 24 klst. en skýrslugjafi getur óskað eftir að gert verði hlé á skýrslutöku í eina klst. eftir 4 klst.

Markmið rannsókna

Markmið rannsóknar skattrannsóknarstjóra er að afla allra nauðsynlegra gagna og upplýsa málsatvik til þess að unnt sé að ákvarða hvort skattskil hafi verið röng eða byggð á vafasömum, hæpnum eða ófullnægjandi forsendum, svo leggja megi grundvöll að endurákvörðun skatta og gjalda, og unnt sé að meta hvort krafist skuli refsimeðferðar og þá með hvaða hætti.

Lok rannsóknar

Skattrannsóknarstjóri tekur saman frumskýrslu um rannsókn þeirra mála sem send eru lögreglu ásamt öllum gögnum sem skattrannsóknarstjóri hefur aflað um málið. Málið er þá komið á forræði lögreglu. Lögreglan getur óskað eftir aðstoð skattrannsóknarstjóra við að rannsaka einstaka þætti eða málið í heild sinni.

Sé tilefni til að ljúka rannsókn á máli hjá skattrannsóknarstjóra er tekin saman skýrsla um rannsóknina og niðurstöður hennar. Í skýrslunni kemur m.a. fram hvaða sönnunargögn liggja til grundvallar niðurstöðu rannsóknarinnar, hverjir hafa komið til skýrslugjafar, hver sé ætlaður undandreginn skattur eða skattstofn og hvort og hvenær skila- eða gjaldskyldum skatti hafi verið skilað, ef um það er að ræða.

Skýrslan er send viðkomandi aðilum með bréfum skattrannsóknarstjóra um fyrirhugaða ákvörðun sektar og/eða um fyrirhugaða endurákvörðun skatta og gjalda fyrir hönd ríkisskattstjóra þar sem jafnframt er gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum, frekari gögnum og skriflegum skýringum áður en ákvörðun um sekt er tekin eða kveðinn er upp úrskurður um endurákvörðun.

Refsimeðferð og endurákvörðun

Mál sem rannsökuð eru hjá skattrannsóknarstjóra sæta nærri því öll refsimeðferð enda öðrum þræði í samræmi við þann tilgang rannsóknarinnar að upplýsa um refsiverð brot. Í einstaka undantekningartilfellum kemur ekki til refsimeðferðar í samræmi við niðurstöðu rannsóknar.

Refsimeðferð getur verið með ákvörðun skattrannsóknarstjóra um sekt, sem er kæranleg til yfirskattanefndar, eða hjá dómstólum eftir sakamálarannsókn hjá lögreglu, nú hjá héraðssaksóknara.

Sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra

Áður en skattrannsóknarstjóri tekur ákvörðun í máli gefur hann að jafnaði og sé þess kostur, sakborningi tækifæri til að koma að frekari gögnum, andmælum og skriflegum skýringum um niðurstöður rannsóknarinnar og um fyrirhugaða ákvörðun skattrannsóknarstjóra um sekt. Bréf þess efnis er sent sakborningi ásamt skýrslu skattrannsóknarstjóra. Meðfylgjandi bréfinu eru leiðbeiningar um refsimeðferð. Er veittur að jafnaði 20 daga frestur frá dagsetningu bréfsins.

Ef skattrannsóknarstjóri tekur í kjölfarið ákvörðun um sekt, er sú ákvörðun tilkynnt sakborningi skriflega. Skattrannsóknarstjóri hefur heimild til að leggja á sektir m.a. vegna brota á lögum um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatt, ársreikninga og bókhald. Sektir skattrannsóknarstjóra geta numið frá 100.000 kr. til 100.000.000 kr. Sektir skattrannsóknarstjóra skulu aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á. Skattrannsóknarstjóra er heimilt að ákvarða lægri sekt en framangreint lágmark ef málsatvik eða aðstæður skattaðila mæla sérstaklega með því, svo sem ef skattaðili hefur leiðrétt skattskil sín, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar.

Vararefsing fylgir ekki sektarákvörðunum skattrannsóknarstjóra. Sektirnar eru innheimtar eftir sömu reglum og um skatta.

Ákvörðun skattrannsóknarstjóra um sekt má skjóta til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða.

Endurákvörðun opinberra gjalda

Skattrannsóknarstjóri boðar endurákvörðun skatta fyrir hönd ríkisskattstjóra samhliða fyrirhugaðri ákvörðun um sekt. Er skattaðila gerð skriflega nákvæm grein fyrir þeim breytingum sem ríkisskattstjóri hyggst gera á framtalsgögnum skattaðila og þeim forsendum, sjónarmiðum og lagarökum sem þær byggja á. Skattaðili fær 15 daga frest frá póstlagningu boðunarbréfs til að kynna sér fyrirhugaðar breytingar og til að koma að andmælum og leggja fram viðbótargögn (andmælaréttur).

Skattrannsóknarstjóri úrskurðar um endurákvörðun að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum þess frests, sem hann hefur veitt aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar. Er ákvörðunin tilkynnt skattaðila í ábyrgðarbréfi, almennri póstsendingu eða rafrænt .

Úrskurði skattrannsóknarstjóra, fyrir hönd ríkisskattstjóra, má skjóta til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða.

Rannsókn lögreglu

Skattrannsóknarstjóri vísar máli til lögreglumeðferðar hjá héraðssaksóknara ef háttsemi er talin varða við 262. gr. almennra hegningarlaga. Getur skattrannsóknarstjóri af sjálfsdáðum vísað máli til lögreglu á hvaða stigi rannsóknar sem er. Taki skattrannsóknarstjóri ákvörðun um að vísa máli til lögreglu er sakborningi að jafnaði tilkynnt sú ákvörðun skriflega. Eftir það er forræði málsins og allar ákvarðanir um áframhaldandi refsimeðferð í höndum embættis héraðssaksóknara. Að lokinni lögreglurannsókn tekur saksóknari við embættið ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út eða mál fellt niður, verði það ekki talið líklegt til sakfellis. Refsing hjá dómstólum getur verið fangelsi allt að sex árum og/eða fésekt.

Úrskurður /endurákvörðun skattrannsóknarstjóra, fyrir hönd ríkisskattstjóra, í málum sem vísað hefur verið til lögreglu

Þegar lögreglurannsókn er lokið eða getur verið grundvöllur endurákvörðunar skatta er skattrannsóknarstjóra send skýrsla héraðssaksóknara um rannsókn málsins og niðurstöður hennar. Ef niðurstöður þeirra rannsóknar gefa tilefni til þá boðar skattrannsóknarstjóri endurákvörðun skatta fyrir hönd ríkisskattstjóra. Er skattaðila gerð skriflega grein fyrir þeim breytingum sem ríkisskattstjóri hyggst gera á framtalsgögnum skattaðila og þeim forsendum, sjónarmiðum og lagarökum sem þær byggja á. Skattaðili skal fá a.m.k. 15 daga frá póstlagningu boðunarbréfs til að kynna sér fyrirhugaðar breytingar og til að koma að andmælum og leggja fram viðbótargögn (andmælaréttur).

Skattrannsóknarstjóri, fyrir hönd ríkisskattstjóra, úrskurðar að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum þess frests, sem hann hefur veitt aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar, kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun og tilkynna skattaðila um hana í ábyrgðarbréfi, almennri póstsendingu eða rafrænt til skattaðila eða þess sem framtalsskyldan hvílir á.

Úrskurði skattrannsóknarstjóra, fyrir hönd ríkisskattstjóra, má skjóta til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða.

Ítarefni 

Hvar finn ég reglurnar?

Skattrannsóknarstjóri og skattrannsóknir – 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Stórfellt eða meiri háttar brot – 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og Fyrirmæli Ríkissaksóknara nr. 6/2021

Sektarheimildir skattrannsóknarstjóra -

Kærur til yfirskattanefndar – [tsl., vskl., o.s.frv.], lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd 

Lög og reglur (eldra)

Lög

- Lög um tekjuskatt nr. 90/2003

- Lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988

- Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987

- Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur nr. 94/1996

- Lög um bókhald nr. 145/1994

- Lög um ársreikninga nr. 3/0206

- Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008

- Stjórnsýslulög nr. 37/1993

- Upplýsingalög nr. 140/2012

- Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018

Reglugerðir

- Reglugerð um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna nr. 808/2022

- Reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. nr. 651/2009

- Reglugerð um meðhöndlun, vörslur og sölu haldlagðra, kyrrsettra og upptækra eigna og muna nr. 880/2019

Málsmeðferðarreglur

- verklagsreglur skattrannsóknarstjóra um húsleit, haldlagningu og meðferð sönnunargagna

- Reglur skattrannsóknarstjóra um kyrrsetningu eigna

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum