Gjöld á skemmtiferðaskip
Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum ber að standa skil á virðisaukaskattir og gistináttaskatti vegna sölu, þjónustu og seldra gistinátta.
Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa í millilandasiglingum ber að standa skil á innviðagjaldi vegna farþega um borð í skemmtiferðaskipum við Ísland.
Innanlandssiglingar
Gistináttaskattur
Greiða skal gistináttaskatt fyrir hvern dvalargest um borð í skemmtiferðaskipi í innanlandssiglingum við Ísland.
Gistináttaskattur vegna dvalargesta um borð í skemmtiferðaskipum er 400 kr. fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem farþegi dvelur í skipinu.
Reglur um uppgjör eru þær sömu og hjá öðrum aðilum sem skylt er að leggja á gistináttaskatt.
Sjá kafla um uppgjör og gjalddaga gistináttaskatts
Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum ber einnig að skrá sig á virðisaukaskattsskrá og innheimta virðisaukaskatt vegna sölu ferða, sem og varnings og þjónustu.
Virðisaukaskattur
Rekstraraðilar skemmtiferðaskipa sem sigla innanlands við Ísland þurfa að skrá sig hjá Skattinum og innheimta virðisaukaskatt (VSK) af þjónustu sem veitt er í innanlandssiglingum. Þetta á við um bæði innlenda og erlenda rekstraraðila.
Þetta á við um alla sölu og þjónustu sem veitt er í innanlandssiglingum, þar á meðal vegna:
fólksflutninga
gistiþjónustu
sölu á mat og drykk
þjónustu eins og heilsulinda, afþreyingu og dagsferða
sölu á vörum um borð
Listinn er ekki tæmandi.
Skráning á VSK-skrá
Almennt um VSK
Millilandasiglingar
Innviðagjald
Greiða skal innviðagjald fyrir hvern farþega um borð í skemmtiferðaskipi í millilandasiglingum á meðan skip er í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði Íslands.
Innviðagjald er 2.500 kr. fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem skip er á tollsvæði Íslands.
Skráning á innviðagjaldsskrá
Skráning á innviðagjaldsskrá er gerð með rafrænum hætti á þjónustuvef Skattsins. Skattskyldir aðilar skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um skattskylda starfsemi áður en hún hefst.
Uppgjör og gjalddagar innviðagjalds skemmtiferðaskipa í millilandasiglingum
Uppgjörstímabil innviðagjalds telst vera sá tími sem skipið er innan tollsvæðis Íslands hverju sinni.
Gjalddagi er sjö dögum eftir að skip yfirgefur tollsvæði Íslands.
Eigi síðar en á gjalddaga skulu rekstraraðilar skemmtiferðaskipa ótilkvaddir skila Skattinum skýrslu um fjölda farþega á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu skattsins til innheimtumanns ríkissjóðs. Skýrslum er skilað rafrænt á þjónustuvef Skattsins.
Undanþágur frá innviðagjaldi
Ekki skal leggja innviðagjald á:
- ef skemmtiferðaskip í millilandasiglingum leggst að höfn hér á landi og skipið hafi sannarlega verið í nauðum vegna áreksturs, sjóskemmda, veikinda eða ófriðar.
- fyrir áhöfn og annað starfsfólk um borð
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar
Almennt um gistináttaskatt og innviðagjald – Lög nr. 87/2011 um gistináttaskatt og innviðagjald
Fjárhæð gistináttaskatts – 5. mgr. 2. gr. laga nr. 87/2011 um gistináttaskatt og innviðagjald
Uppgjör gistináttaskatts – 5. gr. laga nr. 87/2011 um gistináttaskatt og innviðagjald
Fjárhæð innviðagjalds – 2. mgr. 3. gr. a. laga nr. 87/2011 um gistináttaskatt og innviðagjald
Undanþágur frá innviðagjaldi – 3. gr. b. laga nr. 87/2011 um gistináttaskatt og innviðagjald
Uppgjör innviðagjalds – 5. gr. b. laga nr. 87/2011 um gistináttaskatt og innviðagjald
Skilgreiningar
Innanlandssiglingar
Með skemmtiferðaskipi í innanlandssiglingum er átt við skemmtiferðaskip sem tekur farþega um borð hér á landi, siglir með þá á milli hafna hér á landi (venjulega í kringum landið) og skilar þeim síðan aftur í land hér á landi. Farþegarnir fara ekki með skipinu til útlanda.
Millilandasiglingar
Með skemmtiferðaskipi í millilandasiglingum er átt við skemmtiferðaskip þar sem farþegar koma með skipi erlendis frá og fara með sama skipi, í sömu ferð, aftur erlendis.
Skemmtiferðaskip sem kemur með farþega til landsins og skilar þeim hér í land og tekur aðra farþega um borð sem fara með skipinu til útlanda telst vera í millilandasiglingum.
