PEM-samkomulagið – upprunareglur
PEM-samkomulagið (svæðisbundinn samningur um sameiginlegar upprunareglur Evrópu og Miðjarðarhafsríkja) felur í sér sameiginlegar reglur um uppruna vara sem gilda samkvæmt fjölmörgum fríverslunarsamningum milli ríkja í Evrópu og á Miðjarðarhafssvæðinu.
Reglurnar ákvarða hvort vara telst upprunavara og geti þar með notið tollfríðinda, svo sem lægri tolla eða tollfrelsis við innflutning.
PEM-samkomulagið gildir um upprunareglur í flestum fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að við ríki í Evrópu og á Miðjarðarhafssvæðinu. Reglurnar mynda sameiginlegan ramma sem tryggir samræmda beitingu upprunareglna milli samningsaðila.
Hvað eru upprunareglur og hvers vegna skipta þær máli?
Upprunareglur eru reglur sem ákvarða í hvaða landi vara telst eiga uppruna. Reglurnar byggja ekki eingöngu á því í hvaða landi útflutningur á sér stað, heldur á því hvernig varan er framleidd og hvaða efni eða framleiðsluþrep liggja að baki.
Upprunareglur skipta máli vegna þess að þær ráða því hvort vara geti notið tollfríðinda samkvæmt fríverslunarsamningum. Aðeins vörur sem uppfylla skilyrði um uppruna teljast upprunavörur og geta þannig notið lægri tolla eða tollfrelsis við innflutning til samningsríkis.
Við ákvörðun uppruna er meðal annars litið til þess hvort vara sé framleidd að öllu leyti í tilteknu landi eða hafi gengist undir nægjanlega vinnslu eða meðhöndlun þar. Í mörgum tilvikum er einnig heimilt að taka tillit til efna eða framleiðsluþrepa frá fleiri en einu samningsríki, að uppfylltum skilyrðum um uppsöfnun (e. accumulation).
Fríverslunarsamningar Íslands sem PEM-samkomulagið nær til
Upprunareglur PEM-samkomulagsins gilda fyrir Ísland í viðskiptum samkvæmt fríverslunarsamningum við Sviss, Noreg og Liechtenstein (EFTA), Evrópusambandið, Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Egyptaland, Færeyjar, Georgíu, Ísrael, Jórdaníu, Líbanon, Marokkó, Moldóvu, Svartfjallaland, Norður-Makedóníu, Palestínu, Serbíu, Túnis, Tyrkland og Úkraínu.
Eldri og endurskoðuðu PEM-reglurnar
PEM-samkomulagið hefur um langt árabil byggst á upprunareglum sem tóku gildi árið 2012. Endurskoðaðar, nútímalegri upprunareglur voru samþykktar í desember 2023.
Endurskoðuðu reglurnar fela almennt í sér einfaldari og sveigjanlegri skilyrði fyrir uppruna en gömlu reglurnar. Markmið þeirra er að auðvelda fyrirtækjum að uppfylla skilyrði um uppruna og nýta tollfríðindi samkvæmt fríverslunarsamningum.
Aðlögunartímabil var í gildi til og með 31. desember 2025. Á því tímabili var í ákveðnum fríverslunarsamningum heimilt að beita gömlu eða endurskoðuðu reglunum, eftir því sem við átti samkvæmt samningnum.
Tímamót: gildistaka endurskoðaðra reglna
Frá og með 1. janúar 2026 gilda endurskoðuðu reglurnar almennt í þeim fríverslunarsamningum sem hafa virka tengingu við PEM-samkomulagið. Í samningum sem ekki hafa slíka tengingu halda eldri reglurnar áfram að gilda, þar til samningum hefur verið breytt eða þeir endurskoðaðir.
Í framkvæmd verður greint á milli samninga eftir því hvort þeir hafi virka tengingu við PEM-samkomulagið eða ekki. Þessi skipting hefur áhrif á hvaða reglur gilda um uppsöfnun og rétt til tollfríðinda.
Svæði 1 og svæði 2 – virk tenging og eldri reglur
Svæði 1: Fríverslunarsamningar með virkri tengingu – endurskoðaðar reglur
Í samningum á svæði 1 gilda endurskoðuðu PEM-reglurnar frá og með 1. janúar 2026 (að loknu aðlögunartímabili).
| Fríverslunarsamningar | Gildistaka |
| EFTA – Albanía | 1. janúar 2025 |
| EFTA – Bosnía og Hersegóvína | 1. janúar 2025 |
| EFTA – Moldóva | 1. janúar 2025 |
| EFTA – Svartfjallaland | 1. janúar 2025 |
| EFTA – Norður-Makedónía | 1. janúar 2025 |
| EFTA – Serbía | 1. janúar 2025 |
| EES – samningurinn | 1. janúar 2025 |
| EFTA – samningurinn | 1. janúar 2025 |
| EFTA – Georgía | 1. janúar 2025 |
| EFTA – Tyrkland | 1. janúar 2025 |
| Noregur – Færeyjar | 1. janúar 2026 |
| EFTA – Jórdanía | 1. febrúar 2026 |
Svæði 2: Fríverslunarsamningar án virkrar tengingar – eldri reglur
Í samningum á svæði 2 gilda áfram eldri PEM-reglurnar, þar til samningum hefur verið breytt eða þeir endurskoðaðir.
- EFTA – Egyptaland
- EFTA – Ísrael
- EFTA – Jórdanía (til og með 31. janúar 2026)
- EFTA – Líbanon
- EFTA – Marokkó
- EFTA – Palestína
- EFTA – Túnis
- EFTA – Úkraína
- Ísland – Færeyjar
Áhrif á uppsöfnun og tollfríðindi
Afurðir fluttar inn fyrir 1. janúar 2026
Afurðir sem fluttar voru inn fyrir 1. janúar 2026 og eru með gilt upprunavottorð samkvæmt eldri PEM-reglum geta, að uppfylltum skilyrðum aðlögunarákvæða, áfram verið notaðar til uppsöfnunar. Slík uppsöfnun er þó tímabundin og heimil aðeins til og með 31. desember 2028.
Afurðir fluttar inn eftir 31. desember 2025
Afurðir sem fluttar eru inn eftir 31. desember 2025 og hafa öðlast upprunastöðu samkvæmt eldri PEM-reglum geta aðeins verið notaðar til uppsöfnunar til og með 31. desember 2028, að því tilskildu að:
- upprunavottorð hafi verið gefið út fyrir 1. janúar 2026, og
- vottorðið sé lagt fram innan lögboðins gildistíma.
Eftir 31. desember 2025 er uppsöfnun samkvæmt eldri reglum ekki lengur heimil í þeim fríverslunarsamningum þar sem endurskoðuðu PEM-reglurnar hafa tekið gildi.
Tollfríðindi og eldri upprunavottorð
Upprunavottorð sem gefin voru út fyrir 1. janúar 2026 samkvæmt eldri reglum í samningum á svæði 1, án áritunarinnar „REVISED RULES“, geta áfram veitt rétt til tollfríðinda, að því tilskildu að:
- vörurnar hafi verið í flutningi eða á tollvörugeymslu um áramótin 2025/2026, og
- vottorðin séu lögð fram innan gildistíma þeirra.
Svæði 2 – samningar án virkrar tengingar
Í fríverslunarsamningum á svæði 2 halda eldri PEM-reglurnar áfram að gilda og er uppsöfnun í þeim tilvikum takmörkuð við afurðir og framleiðsluþrep frá öðrum samningum á sama svæði. Uppsöfnun milli svæðis 1 og svæðis 2 er í flestum tilfellum ekki heimil.
Upprunavottorð EUR.1 og upprunayfirlýsingar
Til að njóta tollfríðinda samkvæmt fríverslunarsamningum sem byggja á PEM-samkomulaginu þarf að leggja fram viðurkennt sönnunargagn um uppruna. Slík sönnun getur verið í formi upprunavottorðs eða upprunayfirlýsingar, eftir því hvað viðkomandi samningur og sending krefjast.
Algengasta upprunavottorðið samkvæmt PEM-samkomulaginu er EUR.1. Einnig er heimilt að nota upprunayfirlýsingu á reikningi eða öðru viðskiptaskjali, að uppfylltum skilyrðum um heimildir og verðmörk.
Frá og með 1. janúar 2026 er ekki lengur krafist sérstakrar áritunar um „REVISED RULES“ á upprunayfirlýsingum.
Ábyrgð fyrirtækja
Útflytjendur bera ábyrgð á því að:
- upprunavottorð og upprunayfirlýsingar séu rétt útgefin,
- skilyrði upprunareglna séu uppfyllt, og
- nauðsynleg gögn séu varðveitt til staðfestingar á uppruna.
Rangar eða ófullnægjandi upplýsingar geta leitt til synjunar um tollfríðindi eða endurkröfu tolla.
Sérreglur (fiskur, iðnaðarvörur o.fl.)
Sumar vörur lúta sérstökum upprunareglum samkvæmt PEM-samkomulaginu. Þetta á meðal annars við um fisk, sjávarafurðir og tilteknar iðnaðarvörur. Mikilvægt er að kynna sér hvaða sérreglur gilda fyrir vöruna áður en útflutningur eða innflutningur fer fram.
Nánari upplýsingar
Endurskoðaðar upprunareglur með viðaukum
Bakgrunnur og leiðbeinandi efni frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins
