Rafræn skilríki

Tengjast VEF-skilum

Upplýsingar á þessari síðu varða eingöngu auðkenningu með rafrænum skilríkjum í kerfi sem eru hýst á vefþjóninum vefskil.tollur.is.

Til að tengjast VEF-skilum Tollstjóra (VEF-tollafgreiðslu (útflutningur) og VEF-farmskrárskilum) þarf starfsmaður fyrirtækis að vera með viðurkennd rafræn skilríki.

Viðurkennd rafræn skilríki vegna aðgangs að VEF-skilum eru:

  • Starfsskilríki frá Auðkenni, sem eru fyrirtækjaskilríki.
  • Debetkort með rafrænum skilríkjum, sem eru einstaklingsskilríki.
  • Einkaskilríki frá Auðkenni, sem eru einstaklingsskilríki.

Sækja um rafræn skilríki frá Auðkenni

Upplýsingar um umsóknir og önnur atriði sem tengjast skilríkjunum er að finna á island.is.  

Öryggi rafrænna skilríkja

Starfsskilríki frá Auðkenni.

  • Starfsskilríkin eru fyrirtækjaskilríki.  

  • Í þeim skilningi eru þau öruggustu rafrænu skilríkin, sem fyrirtækjum stendur nú til boða að nota vegna aðgangs starfsmanna sinna að VEF-skilum Tollstjóra.

  • Á skilríkjunum eru meðal annars upplýsingar um kennitölu starfsmanns og  kennitölu fyrirtækis.

  • Fyrirtæki greiðir sjálft fyrir starfsskilríki hvers starfsmanns og er því eigandi skilríkjanna.

  • Þegar starfsmaður, sem notað hefur starfsskilríki hættir störfum, getur fyrirtækið því eyðilagt kortið sem geymir skilríkin og jafnframt látið Auðkenni fella skilríkin úr gildi.

  • Þegar starfsmaður með aðgang að VEF-skilum Tollstjóra hættir störfum, ber fyrirtækinu jafnframt að tilkynna Tollstjóra það strax og lokar Tollstjóri þá fyrir aðgang starfsmannsins.  

Debetkort með rafrænum skilríkjum.

  • Debetkort með rafrænum skilríkjum eru hefðbundin debetkort en að auki með örgjörva þar sem rafrænu skilríkin eru geymd.  

  • Rafræn skilríki á debetkorti eru því ekki fyrirtækjaskilríki heldur einkaskilríki starfsmannsins, sem geymd eru á  hans eigin korti. Fyrirtækið er ekki eigandi skilríkjanna.

  • Frá sjónarhóli fyrirtækisins eru debetkortin því ekki eins örugg og starfsskilríkin frá Auðkenni þegar tengjast á VEF-skilum Tollstjóra.

  • Starfsmaður, sem hættir störfum hjá fyrirtæki, hefur sitt debetkort áfram undir höndum, og getur því áfram tengst vefsvæði fyrirtækisins í VEF-skilum Tollstjóra þar til fyrirtækið hefur gripið til nauðsynlegra varúðarráðstafana.

  • Fyrirtæki, sem veitir starfsmanni umboð til að tengjast VEF-skilum Tollstjóra með debetkorti, þarf því að gæta þess vel að tilkynna Tollstjóra strax þegar starfsmaðurinn hættir störfum. Þetta er nauðsynlegt til að Tollstjóri geti strax lokað aðgangi starfsmannsins fyrrverandi að vefsvæði fyrirtækisins.

Einkaskilríki frá Auðkenni.

  • Á skilríkjunum eru ekki upplýsingar um kennitölu fyrirtækis. Einkaskilríkin eru því einstaklingsskilríki en ekki fyrirtækjaskilríki.

  • Fyrirtæki sem sækir um einkaskilríki frá Auðkenni fyrir starfsmann sinn greiðir sjálft fyrir skilríkin og er því eigandi þeirra. Þó er hugsanlegt að starfsmaður fyrirtækis eigi eldri einkaskilríki frá Auðkenni, sem þá er eign starfsmannsins sjálfs en ekki fyrirtækisins.  

  • Frá sjónarhóli fyrirtækisins eru einkaskilríkin frá Auðkenni því ekki eins örugg og starfsskilríkin frá Auðkenni þegar tengjast á VEF-skilum Tollstjóra.

  • Þegar starfsmaður, sem notað hefur einkaskilríki hættir störfum, þarf fyrirtækið að grípa til sömu varúðarráðstafana og tilgreindar eru þar sem fjallað er um starfsskilríki og rafræn skilríki á debetkortum hér að ofan.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum