Eftirlit og endurskoðun

Hlutverk tollafgreiðsludeildar er fyrst og fremst afgreiðsla og samtímaeftirlit með tollafgreiðslu vegna komu og brottfarar flutningsfara, innflutnings og útflutnings á vörum og tollafgreiðslu farþega og farmanna. Innan afgreiðsluferilsins vegna tollafgreiðslu er öll skjalaskoðun sem fer fram áður en heimild er veitt til samskipta vegna komu flutningsfars til landsins, afhendingar vöru og tollafgreiðslu farþega og áhafna. Með skjalaskoðun er átt við samtímakönnun upplýsinga hvort sem þau eru á pappír eða rafrænu formi. Þegar tollafgreiðsla, til dæmis vegna vörusendingar, hefur farið fram er verkefni tolleftirlitsdeildar almennt lokið og endurskoðunardeild tekur við.

Hlutverk endurskoðunardeildar er að sjá alfarið um endurskoðun á landsvísu, það er endurskoðun þegar tollafgreiðsla tollafgreiðsludeildar hefur átt sér stað. Endurskoðun á landsvísu tekur til hvers konar tollafgreiðslna. Með tollendurskoðun er átt við þann þátt tolleftirlits sem tekur til hvers konar könnunar á réttmæti skila á aðflutningsgjöldum eftir álagningu þeirra. Tollendurskoðun tekur jafnframt til hvers konar könnunar á réttmæti upplýsinga sem lagðar voru fram við lögboðna skýrslugjöf til skattsins.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum