Áhættustjórnun

Tollyfirvöld hafa á undanförnum árum unnið að því að innleiða áhættustjórnun við tolleftirlit í samræmi við leiðbeiningar Alþjóða tollastofnunarinnar.

Á undanförnum árum hafa hvers kyns samskipti, viðskipti og ferðalög milli landa stóraukist. Þegar umfang alþjóðaviðskipta var minna en nú er, var venjan að tollverðir skoðuðu nánast allar vörusendingar sem fóru milli landa. Nú á tímum er slík vöruskoðun hvorki möguleg né æskileg. Aukinn hraði í viðskiptum krefst þess að vöruviðskipti milli Íslands og annarra landa gangi greiðlega fyrir sig. Tollyfirvöld hafa brugðist við auknum kröfum viðskiptalífsins með nýjum lausnum þar á meðal með rafrænni tollafgreiðslu.

Tollyfirvöld sinna tollendurskoðun í rauntíma og með eftirá skoðun, skipuleggja áhættugreiningu á landsvísu og gera áætlanir um tolleftirlit fyrir landið allt. Við þessa vinnu er áhættustjórnun beitt. Í henni felst að yfirvöld meti hættu á tollsvikum, þ.m.t. smygli, og hagi eftirliti í samræmi við það mat. Eftirlitið beinist því fyrst og fremst að innflutningi sem talinn er fela í sér mikla áhættu en síður að öðrum. Þannig leitast tollyfirvöld við að nýta sem best þá fjármuni sem þau hafa, jafnframt því að valda sem minnstri truflun á samgöngum og viðskiptum.

Tilviljunarúrtökum sendinga eða farþega er þó enn beitt að hluta.

Við áhættustjórnun er miðað við að uppfylla alþjóðleg viðmið og standast samanburð við nágrannalönd.

Afgreiðsla og eftirlit vegna tollafgreiðslu fer fram í tollafgreiðsludeild. Þar eru veittar upplýsingar og leiðbeiningar um tollamál, inn- og útflutning og umflutning, tollkrít, tollflokkun, tolla og gjöld af vörum og aðvinnslu, undanþágur, bönn, leyfi, vottorð, rafrænar tollafgreiðslur og stöðu tollskjala í tollkerfi, aðstoð við útfyllingu skjala og skráningu tollskjala. Einnig fer fram skjalaskoðun eða samtímakönnun upplýsinga hvort sem þær eru á pappír eða rafrænu formi. Þegar tollafgreiðsla hefur farið fram er verkefni tollafgreiðsludeildar almennt lokið og endurskoðunardeild tekur við.

Tollendurskoðun tekur til hvers konar könnunar Skattsins á réttmæti upplýsinga sem lagðar voru fram við lögboðna skýrslugjöf til embættisins og hvers konar könnunar á réttmæti skila á aðflutningsgjöldum eftir álagningu þeirra. Í tollendurskoðun felst m.a. samanburður á upplýsingum sem embættinu eru veittar með rafrænum hætti við bókhaldsgögn, þar á meðal viðeigandi fylgigögn sem eiga að liggja til grundvallar skýrslugjöf til Skattsins samkvæmt ákvæðum laga. Tollendurskoðun tekur einnig til öflunar frekari gagna frá tollskyldum aðilum eða öðrum.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum